Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.1. bls. 18-19
  • Stjörnuspár – gagnlegar eða skaðlegar?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Stjörnuspár – gagnlegar eða skaðlegar?
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Er eitthvert gagn í stjörnuspám?
  • Geta stjörnuspár verið skaðlegar?
  • Framúrskarandi leiðsögurit
  • Getur stjörnuspeki varpað ljósi á framtíð þína?
    Vaknið! – 2005
  • Er stjörnuspeki skaðlaus skemmtun?
    Vaknið! – 1986
  • Stjörnuspekin nær aftur vinsældum
    Vaknið! – 1986
  • Er framtíðin skrifuð í stjörnurnar?
    Vaknið! – 1986
Vaknið! – 1986
g86 8.1. bls. 18-19

Sjónarmið Biblíunnar

Stjörnuspár – gagnlegar eða skaðlegar?

HÚSMÓÐIR byrjar daginn með því að lesa stjörnuspána í dagblaðinu. Verðbréfasali hringir í stjörnuspáfræðinginn sinn áður en hann selur eða kaupir. Fjárhættuspilari við veðhlaupabrautina kreppir hnefann utan um seðlabúnt, og í hinni hendinni heldur hann á bók um það hvernig veðja skuli á hesta eftir stjörnuspánni. Íþróttahetjur, stjórnmálamenn og margir fleiri athuga samviskusamlega stjörnuspána sína áður en þeir taka ákvarðanir.

Getur afstaða stjarna, reikistjarna, tungls og sólar á fæðingarstund einstaklingsins, eins og stjörnuspáfræðingar draga þær upp á kort, haft áhrif á líf þitt? Milljónir manna trúa að svo sé. Þér er því kannski spurn:

Er eitthvert gagn í stjörnuspám?

Já, svara þeir sem trúa á þær. Hvers vegna hugsa þeir þannig? Einn slíkur svarði: „Ég les stjörnuspána mína á hverjum degi . . . og ég álít að í hverjum 8 tilfellum af 10 hafi það sem mér var sagt ræst.“ Já, þeim finnst að lausnin á vandamálum sínum, eða í það minnsta leiðbeiningar um hvernig beri að leysa þau, komi fram á stjörnuspákorti þeirra.

En eru stjörnuspár dagblaða og tímarita til einhvers gagns? Tökum eftir því sem kunnur stjörnuspáfræðingur, Alexandra Mark, segir í bók sinni Astrology for the Aquarian Age: „Nálega engar líkur eru á að þessar spár eigi við einstaklinginn nema af hreinni tilviljun. En ekki má líta fram hjá sefjunarkraftinum.“ Myndir þú vilja láta líf þitt stjórnast af hreinni og beinni tilviljun eða eingöngu af sefjunaráhrifum?

En þú kannt að spyrja hvort ekki sé þá nákvæmara að draga stjörnuspákort hvers einstaklings sem byggt sé á nákvæmum fæðingartíma og -stað. Slík trú er augljóslega byggð á þeirri hugmynd að himintunglin hafi á einhvern hátt sterk áhrif á líf fólks. En hvernig getur það staðist með tilliti til hinnar gífurlegu fjarlægðar reikistjarnanna frá jörð? Vísindamenn hafa sýnt fram á að áhrif himintunglanna á einstaklinginn eru óveruleg, ef nokkur. Meira að segja sjálf forsendan, sem gengið var út frá þegar stjörnuspákerfið var mótað, sem sé að jörðin væri miðpunktur alheimsins og að sólin og reikistjörnurnar gengju um hana, er röng.

Vafasamt er því að stjörnuspár og -spákort séu til nokkurs gagns, en hyggilegt væri að spyrja einnig þessa sem er enn þýðingarmeira:

Geta stjörnuspár verið skaðlegar?

Já, þær geta það. Ef þú lest stjörnuspár dagblaða og tímarita er hætta á að þú glatir hæfni þinni til að taka mikilvægar ákvarðanir, eða eins og stjarnfræðingurinn Roger Culver orðaði það: „Hætta er á að þú getir firrt þig ábyrgð með því að segja: Stjörnurnar komu mér til að gera það.“ Að vísu má vera að margir lesi stjörnuspárnar einungis til gamans, en setjum sem svo að einhver atburður í lífi manns komi heim og saman við það sem hann las í stjörnuspánni. Gæti það á lævísan hátt komið honum til að trúa að eitthvert mark sé takandi á stjörnuspám? Myndi hann freistast til að fara að gefa stjörnuspáfræðinni meiri gaum?

Ef svo færi gæti annað enn alvarlegra gerst. Það sem byrjaði með saklausri forvitni gæti breyst í iðkun sem er brot á boðum hins alvalda Guðs. Jehóva Guð sagði Ísraelsmönnum til forna að hann hataði hvers kyns spásagnir, þar með talið að horfa til himintunglanna.

Til að sýna fram á hversu alvarlegt málið er, segir Biblían: „Ef hjá þér finnst, í einhverri af borgum þínum, þeim er [Jehóva] Guð þinn gefur þér, maður eða kona, er gjörir það sem illt er í augum [Jehóva] Guðs þíns, með því að rjúfa sáttmála hans, og fer og dýrkar aðra guði og fellur fram fyrir þeim, eða fyrir sólinni eða tunglinu eða öllum himinsins her, er ég hefi eigi leyft, og verði þér sagt frá þessu og þú heyrir það, þá skalt þú rækilega rannsaka það, og ef það reynist satt vera, að slík svívirðing hafi framin verið í Ísrael, þá skalt þú leiða mann þann eða konu, er slíkt ódæði hefir framið, að borgarhliðinu — manninn eða konuna, og lemja þau grjóti til bana.“ — 5. Mósebók 17:2-5.

Hvers vegna hefur Guð slíka andúð á því að sólin, tunglið og stjörnurnar séu notuð sem fyrirboðar? Í fyrsta lagi gengur það í berhögg við tilgang hans með sköpun þeirra. (1. Mósebók 1:14-18) Við eigum að leita leiðsagnar hjá skaparanum, ekki hinu skapaða. (Rómverjabréfið 1:25) Í öðru lagi á Guð að gegna einstöku hlutverki í lífi okkar. Engin önnur persóna eða hlutur á að fá nokkuð af tilbeiðslu okkar. (5. Mósebók 4:24) Hægt væri að reiða sig svo mjög á stjörnuspána að farið væri yfir hin óljósu mörk milli þess að vera háður einhverju og dýrka það. Í þriðja lagi gæti það opnað leiðina að dulrænum iðkunum, og dulspekikukl getur gert grunlausan mann að auðveldri bráð hinna yfirnáttúrlegu afla sem eru að baki dulspekinni — illra anda. (Samanber 5. Mósebók 18:9-12; Jesaja 47:12-14; Postulasagan 16:16-18.) Til að koma í veg fyrir að við flækjum okkur að hættulegu marki í stjörnuspám gefur Guð okkur það sem betra er:

Framúrskarandi leiðsögurit

Jehóva Guð hefur gefið orð sitt, Biblíuna, sem er alltaf áreiðanlegt. Hann fullvissar okkur: ‚Mitt orð, það er útgengur af mínum munni, kemur því til vegar er ég fól því að framkvæma.‘ — Jesaja 55:11.

En við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að rannsaka orð Guðs til að draga fram þau ráð þess sem við eiga. Það var það sem hinn vitri konungur Salómon gerði. Hann skrifaði: „Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs.“ (Prédikarinn 9:1) Í stað þess að láta ótrausta hönd stjörnuspáfræðinnar leiða okkur skulum við reiða okkur á trausta hönd Jehóva Guðs.

[Rammi á blaðsíðu 18]

„Fólk er ráðvillt. Það vill fá hjálp til að taka ákvarðanir um fjármál, samband við aðra og atvinnu. Trúin fullnægir ekki þörfinni eins og hún gerði einu sinni og sálfræðinni eru takmörk sett. Menn hafa því reynt að binda sig einhverju öðru sem virðist geta átt sér vísindalega stoð, og leitað í vaxandi mæli til stjörnuspáfræðinnar.“ — Dr. Alan Rosenburg, sálfræðingur, Nature/Science Annual.

[Rammi á blaðsíðu 19]

Nefnd til vísindalegra rannsókna á yfirskilvitlegum fyrirbærum lagði til þann 16. nóvember 1984, að með öllum stjörnuspám dagblaða og tímarita birtist þessi aðvörun: „Eftirfarandi stjörnuspá ber að lesa einungis til skemmtunar. Spár af þessu tagi eiga sér enga vísindalega stoð.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila