Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g86 8.7. bls. 19-21
  • Gallaða hjartað hennar Lindu litlu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Gallaða hjartað hennar Lindu litlu
  • Vaknið! – 1986
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Víkkunaraðgerð
  • Sjálfhelda
  • Hlýjar móttökur í London
  • Vandasöm skurðaðgerð
  • Undraverður bati
  • Særðar tilfinningar – þegar við höfum „sök á hendur öðrum“
    Snúðu aftur til Jehóva
  • Þegar maður er alvarlega veikur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2019
  • Vel heppnuð skurðaðgerð án blóðgjafar
    Vaknið! – 2000
Vaknið! – 1986
g86 8.7. bls. 19-21

Gallaða hjartað hennar Lindu litlu

ÞEGAR hún Linda litla fæddist á fæðingarsjúkrahúsinu í Falun í Svíþjóð var hún með mjög alvarlegan hjartagalla, nefndur æðavíxlun. Hann felst í því að meginæðin, aðalslagæðin frá hjarta til líkama, og lungnaslagæðin höfðu víxlast. Hið súrefnisríka blóð frá lungunum var því í hringrás aðeins milli hjarta og lungna en barst ekki út um líkamann allan eins og vera á.

Hvernig getur barn með slíkan hjartagalla lifað? Á fósturskeiði er af náttúrunnar hendi op milli hægri og vinstri hjartahólfa sem helst opið um skamman tíma eftir fæðingu. En síðan byrjar þetta op að lokast til að eðlileg hringrás geti tekið við. Á þessum stutta breytingatíma getur súrefnisblandað blóð borist út um líkamann jafnvel þótt um sé að ræða hjartagalla af áðurnefndu tagi.

Þótt Linda fæddist þrem vikum fyrir tímann og vægi aðeins 2,66 kg virtist hún ágætlega heilbrigð ef frá er talinn örlítill blámi í andliti. Læknarnir í Falun höfðu nokkrar áhyggjur af þessu og fluttu hana á St. Görans-spítalann í Stokkhólmi til nánari rannsóknar. Þá grunaði æðavíxlun. Meðan þessu fór fram voru Lindu gefin lyf til að koma í veg fyrir að opið milli hægri og vinstri helmings hjarta lokaðist, og hún var sett í hitakassa.

Víkkunaraðgerð

Rannsóknirnar staðfestu það sem við óttuðumst — Linda var með æðavíxlun. Til að bjarga lífi hennar var gerð á henni víkkunaraðgerð sem felst í því að þrædd er sérstök slanga upp eftir naflabláæðinni upp í hægra framhólf hjartans, og síðan áfram inn í vinstra framhólfið um gatið sem enn er opið í veggnum milli framhólfa hjartans. Síðan er blásin upp lítil blaðra á enda slöngunnar sem er dregin til baka í gegnum hjartavegginn. Við það myndast nægilega stórt gat til að tryggja rennsli súrefnisblandaðs blóðs út um líkamann. Með þessari aðgerð er hægt að fresta meiriháttar hjartaskurðaðgerð þar til barnið er um níu mánaða gamalt.

Þessu næst var okkur sagt að þessa skurðaðgerð væri ekki hægt að gera í Svíþjóð án þess að nota blóð við gangsetningu hjarta- og lungnavélar. Með því að samviska okkar meinaði okkur slíka misnotkun blóðs gátum við ekki fallist á slíkt. — 3. Mósebók 17:10, 11; Postulasagan 15:28, 29.

Hver voru fyrstu viðbrögð okkar við þessum fréttum? Örvænting. ‚Hvað verður um ástkæru litlu stúlkuna okkar? Getur hún lifað slíka aðgerð af? Er hægt að gera slíka aðgerð án þess að nota blóð?‘ Við settum traust okkar á Jehóva Guð út í gegnum þessa erfiðu raun, og vorum þess fullviss að hann myndi opna okkur einhverja færa leið. — 1. Korintubréf 10:13.

Víkkunaraðgerðin tókst vel. Blóð Lindu blandaðist súrefni að nægilegu marki, og eftir nokkra daga gátum við farið heim. Við vorum mjög þakklát fyrir það hvernig málin höfðu skipast fram að þessu, og þótti vænt um þá góðvild og skilning sem bæði læknar og annað starfslið sjúkrahússins hafði sýnt okkur. Við gáfum yfirlækninum líka eintak af bæklingnum Vottar Jehóva og spurningin um blóðið sem greinir frá ástæðum þess að við féllumst ekki á notkun blóðs.

Sjálfhelda

Nú hófst hin langa bið eftir því að sjá hvernig Linda myndi dafna. Í fyrstu virtist hún dafna ágætlega og þyngdist stöðugt. En þegar hún varð fjögurra mánaða tók að draga úr matarlystinni. Læknisrannsókn leiddi í ljós að hún var með gúlp á hjartaveggnum. Ljóst var að flýta þyrfti aðgerðinni. Til að byggja upp krafta hennar var henni gefin næring um slöngu sem þrædd var inn um nefið.

Ætlun okkar hafði verið að láta gera aðgerðina á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð, en þar starfaði skurðlæknir sem hafði gert aðgerðir á allmörgum votta Jehóva. Við greindum honum frá því að við myndum ekki heimila að blóð væri notað við aðgerðina og var þá sagt að ekki væri unnt að gera aðgerðina án blóðs. Við ákváðum að snúa okkur til annarra spítala.

Enda þótt við mættum góðvild og skilningi alls staðar virtist enginn fús til að gera þessa aðgerð án þess að nota blóð. Læknar voru almennt þeirrar skoðunar að ekki væri óhætt að gera skurðaðgerð á ungbarni með hjálp hjarta- og lungnavélar, án þess að nota blóð við gangsetningu vélarinnar.

Hlýjar móttökur í London

Við höfðum samband við National Heart Hospital í London til að kanna hvort við fengjum gerða aðgerð á Lindu þar. Enn á ný var okkur tekið mjög vingjarnlega. Yfirlæknirinn, sem við töluðum við, taldi góðar horfur á að slík aðgerð tækist, því að þar hefðu áður verið gerðar aðgerðir á ungbörnum án þess að blóð væri notað. Hinn kunni hjartaskurðlæknir dr. Magdi Jacoub myndi gera aðgerðina.

Trúbræður okkar á Englandi tóku á móti okkur og óku okkur rakleiðis til spítalans þar sem okkur var tekið með breiðu brosi. „Þetta hlýtur að vera Linda frá Svíþjóð!“ sagði hjúkrunarkona áður en við höfðum einu sinni haft tækifæri til að kynna okkur. Okkur fannst Linda litla strax vera í góðum höndum.

Síðan kom að því að við skyldum hitta dr. Jacoub í fyrsta skipti. Við vorum skelfilega taugaóstyrk en hann var bæði vingjarnlegur og rólegur sem kom okkur til að bera traust til hans.

Vandasöm skurðaðgerð

Linda gekkst undir ótal rannsóknir áður en aðgerð fór fram. Dr. Jacoub fylgdist nákvæmlega með ástandi hennar. Síðan rann upp dagurinn þegar aðgerðin skyldi gerð, og hún var flutt á skurðstofuna. Við vorum vitanlega mjög kvíðin því að við vissum ekki í hvaða ástandi Linda yrði þegar við sæjum hana næst.

Eftir klukkustundalanga, kvíðaþrungna bið var okkur tilkynnt að Linda væri nýkomin af skurðstofunni og við mættum sjá hana. Litla stúlkan okkar var lifandi! Við fylltumst djúpri þakkarkennd. Hún var allt annað barn að sjá — með rauðar varir og rjóðar kinnar — þrátt fyrir allar slöngurnar. Við táruðumst af geðshræringu.

Skyndilega opnuðust dyrnar og dr. Jacoub gekk inn. Hann var alvarlegur á svip. Hann leit nístandi augnaráði á tækin í stofunni. Síðan sneri hann sér að okkur og bros breiddist yfir andlitið. Við skildum að aðgerðin hafði heppnast vel.

Þegar allt þetta var afstaðið þurfti maðurinn minn að snúa aftur heim til Svíþjóðar vegna vinnu sinnar. Ég varð eftir hjá vinum okkar á Englandi til að fylgjast með gangi mála.

Undraverður bati

Á fjórða degi eftir aðgerðina var öndunarvélin tekin frá og næsta dag naut ég þeirrar ólýsanlegu gleði að halda Lindu aftur í fangi mér. Þótt hún væri þjáð leið ekki á löngu að hún brosti í fyrsta sinn eftir aðgerðina.

Okkur hafði áður verið sagt að allt upp í átta vikur gætu liðið frá aðgerð þar til við gætum farið að hugsa til heimferðar. En aðeins tveim dögum eftir aðgerðina var fjöldi blóðkorna og blóðrauðamagn Lindu orðið eðlilegt á ný. Bati hennar varð svo skjótur að einn læknanna sagði: „Þetta er stórfurðulegt!“ Já, bati hennar var framar öllum vonum. Síðan, einn góðan veðurdag, sagði yfirlæknirinn: „Ég held að við getum sent sænska barnið heim fljótlega.“ Þetta var eins og fögur tónlist í eyrum mér. Við héldum heimleiðis aðeins tólf dögum eftir aðgerðina.

Við höfum gengið í gegnum erfiða reynslu, en þegar við lítum um öxl minnumst við margs sem jákvætt er. Við erum innilega þakklát öllum læknum, hjúkrunarliði og starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar sem sýndu okkur góðvild, hugulsemi og skilning, einkum í sambandi við afstöðu okkar til blóðsins.

Auk alls þess stuðnings, sem við fengum frá vinum okkar í heimasöfnuði okkar, erum við mjög snortin af því hvernig vinir okkar meðal vottanna á Englandi hjálpuðu okkur. Við fundum greinilega fyrir því að við tilheyrðum alþjóðlegu bræðrafélagi þar sem kærleikur, umhyggja og vilji til að rétta hjálparhönd er veruleiki.

Framar öllu öðru erum við þakklát Jehóva Guði sem hefur á óviðjafnanlegan hátt stutt okkur og styrkt. Oft báðum við hann um leiðsögn í tengslum við þær erfiðu kringumstæður sem við vorum í. Í hvert einasta skipti opnaði hann okkur leið út úr vandanum og endurnýjaði krafta okkar. Og oft, þegar við horfum á litlu stúlkuna okkar, finnum við til þakklætis fyrir kunnáttu og þolinmæði lækna og hjúkrunarfólks. Sér í lagi þökkum við þó Jehóva Guði fyrir þá gjöf sem lífið er. — Aðsent.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Linda litla eftir aðgerðina.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila