„Þetta er allt honum að kenna!“ – friður þrátt fyrir ágreining
„EF þú tækir þig á og gerðir það sem ætlast er til af þér,“ hreytti Sherry út úr sér, „þá myndi ég gera það sem til er ætlast af mér.“ Allen, maðurinn hennar, hlustaði á það sem hún sagði en fannst innst inni að því væri algerlega öfugt farið. Bæði þekktu þau leiðbeiningar Biblíunnar en báðum fannst hitt ekki fara eftir þeim.
Hjón lenda oft í svona blindgötu þegar þau bæði álíta að vandamálin séu aðallega hinu að kenna. Sherry var sannfærð um að Allen ætlaði ekki að breyta háttum sínum og flutti frá honum. „Mér fannst tilgangslaust fyrir mig að reyna,“ sagði hún. „Þetta virtist vonlaust.“ Hefur þér nokkurn tíma verið þannig innanbrjósts? Til allrar hamingju fundu þessi hjón lausn á vandamálum sínum sem bjargaði hjónabandi þeirra.
Er það aðeins öðru hjónanna að kenna?
Á samkomu votta Jehóva heyrði Sherry nokkuð sem snart hjarta hennar. Einn af þjónum orðsins sagði að auðmýkt væri skilyrði fyrir góðum tjáskiptum hjóna í milli. Sherry fór í auðmýkt að líta í eigin barm til að ganga úr skugga um hvort hún ætti nokkurn hlut í vandamálinu.
Í raun höfum við öll tilhneigingu til að reyna í flýti að bera alla sök af sjálfum okkur. „Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans.“ (Orðskviðirnir 18:17) Að skella skuldinni á maka sinn er léleg afsökun — það einungis forðar manni frá óþægilegri sjálfsrannsókn í leit að hugsanlegum orsökum vandans. Að sögn Biblíunnar er hægt annaðhvort að ‚reisa‘ eða ‚rífa niður‘ hjónaband sitt með „höndum sínum.“ (Orðskviðirnir 14:1) Ef við lítum rannsakandi augum í eigin barm kemur oft í ljós að við höfum möguleika á að bæta okkur.
Þessi sjálfsrannsókn var upphafið að því að Sherry og Allen gátu leyst vandamál sín. Hún gerði sér ljóst að henni tækist tæplega að breyta fremur ráðríkum manni sínum með þeim aðferðum sem hún hefði beitt fram til þessa. Hins vegar gæti hún talað við hann með nokkrum öðrum hætti en áður. Það gæti kannski hvatt hann til að gera ýmsar breytingar á sjálfum sér til hins betra. Og hún sneri því heim aftur, ráðin í að gæta tungu sinnar núna. Árangurinn varð mjög jákvæður.
Máttur tungunnar
„Friðsöm tunga er tré með ávöxt sem gefur líf,“ segir Biblían, en „agalaus tunga getur sært hjartað.“ (Orðskviðirnir 15:4, The Holy Bible í þýðingu Ronalds A. Knox) Hugsunar- og ‚agalaust‘ tal vekur oft upp reiði og gremju. „Ég var vön að demba því á hann að hann hefði bara kvænst mér til að hafa einhvern til að gæta bús og barna,“ viðurkennir Sherry. „Þá varð hann öskureiður og hækkaði róminn. Ég hætti þessu. Ég hætti líka að vera jafnaðfinnslusöm og gagnrýnin og ég hafði verið. Í stað þess að lítillækka hann frammi fyrir börnunum beið ég þar til hentugt tækifæri gafst til að ræða við hann það sem mér mislíkaði. Ég reyndi að hlusta meira á hann og hrósa honum þegar tilefni gafst.“
Viðbrögð Allens voru jákvæð og hjónabandið batnaði til muna. Stuðla orð þín að friði í hjónabandinu eða særa þau maka þinn? Fylgir þú hvatningarorðum Biblíunnar um að vera ‚samhuga og hluttekningarsamur‘? — 1. Pétursbréf 3:8.
Önnur hjón, Larry og Michele, voru að ræða um hvaða ábæti þau skyldu gefa matargestum sem þau áttu von á. „Hafðu þetta einfalt. Kauptu köku,“ hvatti Larry. En Michele vildi baka köku af sérstakri gerð. Og viti menn, skömmu áður en gestirnir voru væntanlegir heyrði Larry angistarvein frá eldhúsinu. Kakan hafði fallið. „Sagði ég þér ekki að það væri heimskulegt að reyna að baka þessa köku?“ sagði Larry, algerlega tilfinningalaus fyrir bágindum konu sinnar. „Hvað ætlarðu núna að gefa gestunum eftir matinn?“
„Ég var komin á fremsta hlunn með að henda öllu saman í andlitið á honum,“ viðurkenndi Michele. En þá komu gestirnir og það afstýrði handalögmáli. Þau yrtu varla hvort á annað svo dögum skipti. En gat Larry haldið því fram að það væri allt konu sinni að kenna? Nei, hugsunarlaus orð hans voru eins og „spjótsstungur“ og ollu harkalegum viðbrögðum. (Orðskviðirnir 12:18) Það hefði verið miklu betra ef hann hefði látið í ljós að hann fyndi til með henni og stungið upp á öðrum ábæti!
En hvað þá ef maki þinn er í uppnámi út af erfiðu, persónulegu vandamáli eða misheppnan? Þú skilur að sjálfsögðu að maki þinn er ekki reiður við þig. En hvað gerir þú ef hann lætur tilfinningar sínar bitna á þér?
Fórnfús kærleikur
Í stað þess að láta maka þinn einan um vandamál sitt hvetur Biblían: „Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Galatabréfið 6:2) Þar eð erfitt getur verið að styðja maka þinn þegar hann er í uppnámi er afar mikilvægt að fylgja ‚lögmáli Krists.‘
Jesús bauð okkur að sýna fórnfúsan kærleika. (Jóhannes 13:34, 35) Sá kærleikur „leitar ekki síns eigin.“ (1. Korintubréf 13:5) Jafnvel þótt þú hafir réttmæta „sök á hendur“ maka þínum kemur þessi kærleikur þér til að fyrirgefa og sjá í gegnum fingur við hann. (Kólossubréfið 3:13) Fórnfýsi felur í sér að ‚vera fyrri til‘ að sýna maka þínum virðingu og endurgjalda illt með góðu. — Rómverjabréfið 12:10, 17-21.
Það að vera fórnfús felur þó ekki í sér að gera hreinlega hvað sem er til að friða maka þinn. Biblían segir frá Söru sem var bæði undirgefin og fórnfús. Þó hikaði hún ekki við að segja manni sínum hug sinn opinskátt þegar þörf krafði. Henni var ljóst að hagur fjölskyldunnar til langs tíma litið var þýðingarmeiri en það að halda friðinn þá stundina hvað sem það kostaði. — 1. Mósebók 16:1-6; 21:8-11.
Ef því maki þinn fer út á skaðlega braut er „betri . . . opinber ofanígjöf en elska sem leynt fer.“ (Orðskviðirnir 27:5) En veldu rétta augnablikið — gættu þess að þið séuð ein. Höfðaðu til maka þíns og hjálpaðu honum að sjá hversu viturlegt sé að breyta um stefnu.
Það er mestu skiptir
Stundum getur þó virst sem maki þinn vilji ekki breyta sér. Þú gætir lagt til að hann leitaði hjálpar hjá hæfum ráðgjafa. Í söfnuðum votta Jehóva eru andlega hæfir umsjónarmenn sem eru fúsir til að hjálpa. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Vera má að slík hjálp geti fengið maka þinn til að fylgja ráðum Biblíunnar, einkum ef hann metur mikils gott samband við Guð.
En hvað þá ef maki þinn gerir það ekki? Þá hlýtur kærleikur þinn til laga Guðs að ganga fyrir. Sálmaritarinn, sem stundum mátti þola mikið andlegt álag, sagði: „Ég hefi útvalið veg sannleikans . . . ég vil skunda veg boða þinna, því að þú hefir gjört mér létt um hjartað.“ (Sálmur 119:11, 30, 32) Sálmaritarinn, sem mat lög Guðs mikils, bæði jók við þekkinguna á Guð í hjarta sínu og ræktaði með sér fyllra traust til hæfni Guðs til að halda honum uppi. Guð hjálpaði honum því til að vera „létt“ um hjartað til að þola tilfinningaálagið.
Jehóva er líka fær um að hjálpa þér til að hafa rúm í hjarta þínu fyrir maka sem ekki er sérlega samvinnuþýður. Vitneskjan um að þú þóknist Guði með því að halda boð hans veitir þér innri frið.
Ráð Biblíunnar duga!
Nú eru liðin tíu ár síðan Sherry og Allen tóku upp þráðinn á ný eftir samvistarslit sín. Þau hafa bæði reynt að fylgja heilræðum Biblíunnar. „Stundum kemur hið gamla hátterni mitt upp á yfirborðið aftur,“ viðurkennir Allen, „en ég held áfram að reyna að breyta mér.“
Sherry leggur sig fram um að bregðast ekki illa við. „Maður verður hreinlega að sætta sig við sumt í fari annarra,“ segir Sherry. „Hann er nú einu sinni svona gerður. Það er ekki hægt að umbreyta honum algerlega — ekki frekar en ég get lagfært allan minn ófullkomleika.“ Sherry hefur komist að mjög þýðingarmikilli niðurstöðu — að nauðsynlegt sé að fyrirgefa smávægilega galla og mistök. (Matteus 18:21, 22) „Eftir að hafa séð viðbrögð Allens við breyttu hugarfari mínu,“ segir Sherry þegar henni verður hugsað til hinna sjö erfiðu ára fyrir aðskilnaðinn, „þá hef ég oft hugsað: ‚Hvers vegna gerði ég þetta ekki fyrr?‘ Þessi ár hefðu verið svo miklu auðveldari.“
Vænstu þess ekki að maki þinn sé næstum fullkominn. Hjónaband hefur enn í för með sér ‚þrengingu fyrir holdið,‘ jafnvel þótt það sé eins farsælt og verið getur. (1. Korintubréf 7:28) Horfist einarðlega í augu við vandamálin í stað þess að hlaupa frá þeim með léttúðarfullum samvistarslitum eða hjónaskilnaði.a Styrktu þinn eigin ásetning að halda lög Guðs; þá munt þú finna fyrir sannleiksgildi orðanna í Sálmi 119:165: „Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt [Guðs], og þeim er við engri hrösun hætt.“
[Neðanmáls]
a Biblían heimilar hjónaskilnað á grundvelli hjúskaparbrots. Saklausa aðilanum er þá heimilt að ganga í hjónaband á ný. (Matteus 19:9) Í greininni „When Marriage Ties Are at the Breaking Point,“ í tímaritinu Varðturninum (á ensku) þann 15. september 1963, eru tilgreindar nokkrar alvarlegar kringumstæður sem geta leitt til samvistarslita.
[Rammi á blaðsíðu 18]
„Aðeins í fremur sjaldgæfum tilvikum, svo sem þegar annað hjónanna er án vitundar hins drykkjusjúkt eða geðveikt við stofnun hjónabands, er hægt að kenna öðru hjónanna en ekki báðum um ófarir í hjónabandi.“ Þetta er niðurstaða Gary Birchler við læknadeild University of California, eftir ítarlegar rannsóknir tengdar hjónabandi.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Hvað segir þú á erfiðum augnablikum?