Hvernig var þetta hægt?
EIN af þverstæðum mannkynssögunnar er sú að sumir af verstu glæpum gegn mannkyninu — sem eiga sér samjöfnuð aðeins í fangabúðum 20. aldarinnar — voru framdir af Dóminíkusar- eða Fransiskumunkum sem tilheyrðu tveim trúarreglum prédikara, í orði kveðnu helgaðar því að prédika kærleiksboðskap Krists.
Vandskilið er hvernig kirkja, sem samþykkir hin innblásnu orð: „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú munu ofsóttir verða,“ skyldi sjálf geta orðið ofsækjandi. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hvernig var það hægt?
Í fyrsta lagi bauð kaþólsk kenning upp á slíkan möguleika. Hvernig þá? Því má lýsa með hinum frægu orðum hins kaþólska „heilaga“ Ágústínusar: „Salus extra ecclesiam non est“ (Utan kirkjunnar er ekkert hjálpræði). Í nýlega útkomnu verki, A History of Christianity eftir Paul Johnson, segir um Ágústínus: „Hann ekki aðeins féllst á heldur varð kenningasmiður ofsókna; og á varnarræðum hans voru síðar byggðar allar varnir fyrir tilvist rannsóknarréttarins.“
„Heilagur“ Tómas frá Aquinó, uppi á 13. öld, aðhylltist dauðadóm fyrir villutrú. Alfræðibókin The Catholic Encyclopedia greinir frá því með þessum orðum: „Guðfræðingar og lögspekingar byggðu viðhorf sín að nokkru leyti á því hvað líkt er með trúvillu og landráði.“ Í sama ritverki segir: „Enginn vafi getur því leikið á að kirkjan áskildi sér rétt til líkamlegrar valdbeitingar gegn ótvíræðum fráhvarfsmönnum.
„Réttur“ kirkjunnar til að pynda og brenna trúvillinga á báli var í raun hræðileg en eðlileg afleiðing hinna óbiblíulegu kennisetninga um helvíti og hreinsunareld. Kirkjan píndi menn í nafni Guðs sem hún vogaði sér að lýsa sem grimmum kvalara. — Samanber Jeremía 7:31; Rómverjabréfið 6:23.
Mikil afskipti kirkjunnar af stjórnmálum var hin ástæðan fyrir að rannsóknarrétturinn var mögulegur. Evrópa miðalda var í raun alræðisþjóðfélag þar sem kirkja og ríki sameinuðu krafta sína gegn hverjum manni sem vogaði sér að gagnrýna prest eða prins, þótt oft bitust þau líka á. Rannsóknarrétturinn var afkvæmi þessa siðlausa sambands. Við lesum í hinni frönsku Encyclopædia Universalis: „Rannsóknarrétturinn hefði aldrei getað gegnt hlutverki sínu án samvinnu borgaralegra yfirvalda sem bæði studdu hann efnalega og fullnægðu dómum hans.“
Með þessu er ekki verið að segja að mótmælendur hafi verið ámælislausir. Óhlutdrægar sagnfræðiheimildir sýna okkur að stundum voru þeir jafnumburðarlausir og kaþólskir. Þeir frömdu líka hræðileg ódæðisverk í nafni Krists, jafnvel þau að brenna andófsmenn á báli, oft með hjálp veraldlegra yfirvalda. Og ódæði mótmælenda voru gerleg af sömu ástæðum. Mótmælendur voru líka hluti af trúarkerfi sem aðhyllist meðal annars þá óbiblíulegu kennisetningu að Guð kvelji menn í eilífum eldi, og þeir hafa líka alla tíð átt óhreint, andlegt samband við hin veraldlegu yfirvöld.
Arfleifðin
Er hugsanlegt að rannsóknarrétturinn gæti komið upp aftur? Vafalaust ekki í hinu veraldlega sinnaða þjóðfélagi okkar tíma. En alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica gerir þessa athyglisverðu athugasemd: „Umburðarleysi í hugmyndafræði og aðferðum byltingarafla í stjórnmálum er arfur frá umburðarleysi kristinna manna og þeim aðferðum sem þróuðust samfara því (t.d. rannsóknarréttur eða heilaþvottur).“
‚Arfur frá umburðarleysi fráhvarfskristinna manna og þær aðferðir sem þróuðust samfara því‘ birtist nú til dags í umburðarleysi veraldlegra afla. Í sumum löndum hafa pólitísk öfl þegar notað aðferðir, sem minna á rannsóknarréttinn, gegn fulltrúum kaþólsku kirkjunnar. Það er forsmekkur þess sem á eftir að koma.
Biblían sýnir okkur að „konungar jarðarinnar,“ valdhafarnir í heiminum sem þessi veraldlegu trúarbrögð hafa drýgt andlegan ‚saurlifnað‘ með, munu snúast gegn heimsveldi falskra trúarbragða í heild sinni, en það er táknað með ‚skækju‘ sem nefnd er „Babýlon hin mikla.“ (Opinberunarbókin 17:1-6) Þeir munu gefast upp á afskiptum hennar af stjórnmálum. Guð mun nota slík andtrúarleg, pólitísk öfl til að fullnægja dómi á þessu trúarkerfi. Þau munu „hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:12, 16-18) Þar með verður hefnt þess blóðs sem falstrúarbrögðin hafa úthellt í trúarstyrjöldum sínum, krossferðum og rannsóknarréttum. — Opinberunarbókin 18:24; 19:2.
Það er því nauðsynlegt öllum einlægum kaþólskum mönnum og mótmælendum, sem fyrirverða sig fyrir að vera enn hluti trúarkerfis sem hefur úthellt svo miklu saklausu blóði, að hlýða kalli Guðs: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni, svo að þér eigið engan hlut í syndum hennar og hreppið ekki plágur hennar.“ — Opinberunarbókin 18:4.
[Innskot á blaðsíðu 27]
„Réttur“ kirkjunnar til að pynda og brenna trúvillinga á báli var í raun hræðileg en eðlileg afleiðing hinna óbiblíulegu kennisetninga um helvíti og hreinsunareld.