Rannsóknarrétturinn hræðilegi
ÞAÐ var 13. öld. Sagt var að suðurhluti Frakklands væri morandi í trúvillingum. Biskupinum þar um slóðir hafði mistekist að uppræta það illgresi, sem óx í biskupsdæmi hans, akri sem vera átti kaþólskur og ekkert annað. Talin var þörf róttækari aðgerða. Hinir sérstöku fulltrúar páfa „um málefni villutrúar“ riðu í hlað. Rannsóknarrétturinn var kominn á vettvang.
Rætur rannsóknarréttarins má rekja aftur til 11. og 12. aldar þegar ýmsir andófshópar fóru að gera vart við sig í hinni kaþólsku Evrópu. En það var Lúsíus páfi III sem setti rannsóknarréttinn endanlega á laggirnar á kirkjuþinginu í Veróna á Ítalíu árið 1184. Í samvinnu við keisara hins heilaga rómverska keisarardæmis, Friðrik I rauðskegg (Barbarossa) lýsti hann yfir að kirkjan myndi setja út af sakramentinu hvern þann mann sem mælti eða jafnvel hugsaði gegn kaþólskri kenningu, og veraldleg yfirvöld myndu síðan veita honum viðeigandi refsingu. Biskupum var fyrirskipað að leita uppi (á latínu inquirere) trúvillinga. Þetta var upphaf þess sem kallað var hinn biskuplegi rannsóknarréttur, það er að segja settur undir yfirvald kaþólskra biskupa.
Hertar aðgerðir
Reyndin varð þó sú að biskuparnir voru í augum Rómar alls ekki nógu kappsamir í að leita uppi andófsmenn. Nokkrir næstu páfar gerðu því út sendimenn sem höfðu umboð til að leita uppi trúvillinga með hjálp Sistersíanamunka. Um tíma var því starfandi tvenns konar rannsóknarréttur, annar nefndur hinn biskuplegi rannsóknarréttur og hinn legáta-rannsóknarrétturinn. Gekk sá síðarnefndi harðar að verki en sá fyrri.
Jafnvel sú harka, sem þessi rannsóknarréttur beitti, nægði ekki Innosentíusi páfa III. Árið 1209 gerði hann út vopnaða krossferð á hendur villutrúarmönnum í suðurhluta Frakklands. Þar var einkanlega um að ræða Katara, hóp sem blandaði saman persneskri Manitrú og fráhvarfskristni í mynd gnostíkatrúar.a Bærinn Albi var einn þeirra bæja þar sem Katarar voru sérlega fjölmennir, og festist því við þá nafnið Albígensar.
Hið „helga stríð“ gegn Albígensunum tók enda árið 1229 án þess að tekist hefði að uppræta alla andófsmennina. Á kirkjuþingi, sem haldið var í Toulouse í suðurhluta Frakklands þetta sama ár, gaf því Gregoríus páfi IX rannsóknarréttinum aukin völd. Hann lét skipa fasta rannsóknardómara, þeirra á meðal einn prest, í hverri sókn. Árið 1231 setti hann lög þess efnis að iðrunarlausir trúvillingar skyldu brenndir á báli en þeir sem iðruðust dæmdir til ævilangrar fangelsisvistar.
Tveim árum síðar, árið 1233, létti Gregoríus IX þeirri ábyrgð af biskupum að leita uppi trúvillinga. Þá kom hann á fót munka-rannsóknarréttinum, svo nefndur vegna þess að hann skipaði munka opinbera rannsóknaraðila. Þeir voru valdir einkanlega úr hinni nýlega stofnuðu Dóminíkusarreglu, en einnig úr hópi Fransiskumunka.
Aðferðir rannsóknarréttarins
Rannsóknaraðilarnir, Dóminíkusar- eða Fransiskumunkar, höfðu þá aðferð að safna íbúum bæjar eða byggðarlags í kirkjuna og skora á þá að játa á sig villutrú, ef þeir væru sekir um hana, eða koma upp um aðra trúvillinga sem þeir vissu af. Menn áttu jafnvel að koma upp um hvern þann sem þeir grunuðu um trúvillu.
Allir — karlar, konur, börn eða þrælar — gátu ákært annan mann um villutrú án þess að eiga yfir höfði sér að þurfa að standa auglitis við auglitis við hinn ákærða, án þess að hinn síðarnefndi einu sinni vissi hver hefði ákært hann. Hinn ákærði hafði sjaldan nokkurn til að verja sig, því að hver sá lögfróði maður eða vitni, sem styddi hann, hefði verið sakaður um að aðstoða og styðja trúvilling. Hinn ákærði stóð því yfirleitt einn frammi fyrir rannsóknaraðilunum sem voru um leið saksóknarar og dómarar.
Hinum ákærða var veittur í mesta lagi mánuður til að játa. Hvort sem hann játaði eða ekki var hafin „rannsókn“ (á latínu inquisitio). Hinn ákærði var hafður í haldi, oft í einangrun og lítið gefið að borða. Þegar fangelsi biskupsins var orðið fullt var notast við almenn fangelsi. Þegar þau voru orðin yfirfull var gömlum byggingum breytt í fangelsi.
Þar eð gert var ráð fyrir að hinir ákærðu væru sekir, jafnvel áður en réttarhöld hófust, notuðu rannsóknaraðilarnir ferns konar aðferðir til að fá þá til að játa á sig villutrú. Í fyrsta lagi var þeim hótað að þeir yrðu brenndir á báli. Í öðru lagi voru þeir hlekkjaðir í litlum, dimmum, rökum fangaklefa. Í þriðja lagi voru gestir látnir beita þá sálarlegum þrýstingi, og að síðustu var beitt pyndingum. Við þær var meðal annars notaður píningarbekkur, talía og eldur. Munkar stóðu hjá til að skrá hverja þá játningu sem fram kynni að koma. Sýknun var nánast óhugsandi.
Refsidómar
Refsidómar voru kveðnir upp á sunnudögum, í kirkjunni eða á torginu, að klerkunum viðstöddum. Vægur dómur gat kveðið á um syndabót. Hún fól þó í sér að skylt var að bera gult krossmark saumað í klæðin sem gerði hlutaðeigandi nánast ógerlegt að fá nokkurs staðar vinnu. Dómarinn gat kveðið á um opinbera hýðingu, fangelsisvist eða þá aftöku á báli sem hin veraldlegu yfirvöld sáu um.
Samfara hinum þyngri dómum voru eignir hins dæmda gerðar upptækar og skipt milli kirkju og ríkis. Þeir sem eftir voru af fjölskyldu trúvillingsins urðu fyrir miklu tjóni og þjáningum. Hús trúvillinga og þeirra sem höfðu veitt trúvillingum húsaskjól voru jöfnuð við jörðu.
Meira að segja voru haldin réttarhöld yfir látnum mönnum sem sakaðir voru um trúvillu. Ef þeir voru dæmdir sekir voru jarðneskar leifar þeirra grafnar upp og brenndar, og eigur þeirra gerðar upptækar. Einnig það leiddi stórkostlegar þjáningar yfir saklausa, eftirlifandi fjölskyldumeðlimi.
Þannig starfaði að jafnaði rannsóknarréttur miðalda, með ýmsum frávikum eftir stað og stund.
Páfi heimilar pyndingar
Árið 1252 gaf Innosentíus páfi IV út páfabréf sitt Ad exstirpanda þar sem hann heimilaði opinberlega að pyndingum væri beitt við hina kirkjulegu dómstóla rannsóknarréttarins. Páfarnir Alexander IV, Úrbanus IV og Klement IV gáfu út ítarlegri reglur um það hvernig pyndingum skyldi beitt.
Í fyrstu var hinum kirkjulegu rannsóknaraðilum ekki leyft að vera viðstaddir þegar pyndingum var beitt, en páfarnir Alexander IV og Úrbanus IV felldu það bann úr gildi. Með þeim hætti var hægt að halda áfram „yfirheyrslum“ í píningarstofunni. Þegar pyndingar voru upphaflega leyfðar skyldi þeim beitt aðeins einu sinni, en rannsóknarmenn páfa fóru í kringum það með því að segja að nýjar pyndingarlotur væru einungis „framhald“ fyrstu lotunnar.
Innan tíðar var jafnvel farið að pynda vitni til að ganga úr skugga um að þau hefðu örugglega ákært alla trúvillinga sem þau þekktu. Stundum var ákærður maður, sem játaði á sig villutrú, pyndaður áfram jafnvel eftir játningu sína. Alfræðibókin The Catholic Encyclopedia segir það hafa verið gert „til að knýja hann til að bera vitni gegn vinum sínum og sökunautum.“ — 8. bindi, bls. 32.
Sex alda ógnarstjórn
Þannig var rannsóknarrétturinn, sem tók til starfa á fyrri helmingi 13. aldar, og hafði það hlutverk um nokkurra alda skeið að beygja hvern þann sem talaði eða jafnvel hugsaði öðruvísi en kaþólska kirkjan. Hann breiddi með sér ógn og skelfingu út um hina kaþólsku Evrópu. Þegar rannsóknarrétturinn fór að fara sér hægar í Frakklandi og öðrum löndum Vestur- og Mið-Evrópu, undir lok 15. aldar, færðist hann allur í aukana á Spáni.
Spánska rannsóknarréttinum, sem Sixtus páfi IV setti á laggirnar árið 1478, var fyrst beint gegn spænskum Gyðingum og spænskum Múhameðstrúarmönnum. Margir þeirra, sem höfðu játast undir kaþólska trú vegna ótta, voru grunaðir um að halda áfram að iðka upphaflega trú sína með leynd. Síðar var rannsóknarréttinum beitt sem ógnarvopni gegn mótmælendum og öðrum andófsmönnum.
Frá Spáni og Portúgal fluttist rannsóknarrétturinn til nýlendna þessara tveggja, kaþólsku konungsdæma í Mið- og Suður-Ameríku og annars staðar. Hann var ekki lagður niður fyrr en Napóleon réðist inn í Spán í byrjun 19. aldar. Hann var reistur við um stund eftir fall Napóleons en lagður endanlega niður árið 1834, fyrir aðeins einni og hálfri öld.
[Neðanmáls]
a Kaþólskir sagnfræðingar gera oft engan greinarmun á hinum ýmsu villutrúarhópum miðalda, nefna þá alla Mani-hópa. Mani eða Manes, uppi á þriðju öld okkar tímatals, var stofnandi trúar þar sem blandað var saman persneskri Saraþústratrú, Búddatrú og fráhvarfskristni gnostíka. Þótt andófshópar, svo sem Katarar, hafi byggt trú sína á kenningum Manis, var alls ekki svo um andófshópa, svo sem Valdensana, sem voru miklum mun nær Biblíunni.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Rannsóknardómarinn beitti ýmsum pyndingaraðferðum.
[Rétthafi]
Mynd: Bibliothéque Nationale, París
[Mynd á blaðsíðu 25]
Innosentíus páfi IV heimilaði pyndingar.