Hinn undursamlegi barnsheili
HEILINN er undursamlegt fyrirbæri allt frá fyrstu byrjun. Þrem vikum eftir getnað telur hann 125.000 frumur og vex síðan í rykkjum með hraða sem nemur 250.000 frumum á mínútu. Þessi öri vöxtur heldur áfram allt fram til fæðingar. Þá eru frumur heilans orðnar 100.000.000.000 talsins — jafnmargar og stjörnur vetrarbrautarinnar!
En barnsheilinn tekur til starfa miklu fyrr, mörgum mánuðum fyrir fæðingu. Hann nemur breytingar og ytri áhrif frá sínu vota umhverfi. Barnið heyrir, finnur bragð, skynjar ljós, bregst við snertingu, lærir og man. Tilfinningalíf móðurinnar getur haft áhrif á það. Blíð orð og ljúf tónlist róar það. Reiðilegt tal og rokktónlist gerir það órólegt. Taktfastur hjartsláttur móðurinnar sefar það, en ef hún verður gripin skyndilegri hræðslu, sem kemur hjartanu til að slá örar, slær hjarta barnsins tvöfalt hraðar. Mædd móðir ‚smitar‘ barnið í kviði sér óróleika en stillt og kyrrlát móðir ber rósamt barn undir belti. Glöð móðir getur látið barnið í kviði sér taka viðbragð af gleði. Allt þetta og margt fleira heldur barnsheilanum uppteknum. Hann er undursamlegt líffæri, meira að segja áður en barnið kemur í heiminn.
Nýjustu rannsóknir benda til að taugafrumum heilans, nefndar taugungar, fjölgi ekki eftir fæðingu. Enginn vafi leikur þó á að taugungarnir vaxa mikið eftir fæðingu og mynda tengsl hver við annan í þúsundmilljónatali. Heili nýfædds barns er aðeins um fjórðungur af heila fullvaxta manns en þrefaldast að stærð fyrsta árið. Löngu áður en barnið nær unglingsaldri er heilinn búinn að ná fullorðinsþyngd (1,4 kg). Það þýðir þó ekki að hann geymi jafnmikla þekkingu og fullvaxta maður, því að þekking og vitneskja ræðst ekki af þyngd heilans eða frumufjölda heldur fjölda tengistaða tveggja eða fleiri taugafrumna, nefnd taugamót.
Fjöldi þessara taugamóta er nánast ofvaxinn skilningi okkar. Ætlað er að heilinn geti myndað hvorki meira né minna en þúsund milljón milljón taugamót — það er talan einn með 15 núllum á eftir! Það gerist þó aðeins ef heilinn fær ríkulega örvun í gegnum skilningarvitin fimm. Umhverfið þarf að örva bæði huglæga og tilfinningalega starfsemi barnsins, en það er það sem fær taugagriplurnar til að vaxa. Taugagriplurnar eru örfínt net greinóttra skúfa á endum taugunganna sem tengja þá.
Einnig skiptir máli hvenær þessi taugatengsl myndast. Þau myndast mun hraðar hjá börnum en fullorðnum. Máltækið „það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja“ er rétt að því leyti að það er erfiðara að kenna gömlum en ungum. Þegar árin færast yfir myndast ný tengsl milli taugunganna hægar og þau eru fljótari að hverfa aftur. Skilyrðið fyrir því að þau myndist er hið sama og hjá barninu — auðgandi, örvandi umhverfi. Hugurinn þarf að vera sívirkur! Hann má ekki staðna í einhverju ákveðnu fari. Hann má ekki setjast í helgan stein.
En sá vöxtur, sem er undursamlegur, á sér stað í heila ungbarnsins. Hann er eins og svampur sem sýgur í sig það sem í kringum hann er! Á tveim árum lærir barnið flókið tungumál, aðeins með því að hlusta á það. Ef það heyrir tvö tungumál lærir það þau bæði. Ef þrjú eru töluð í umhverfi þess lærir það þau öll þrjú. Maður einn kenndi ungum börnum sínum fimm tungumál samtímis — japönsku, ítölsku, þýsku, frönsku og ensku. Kona lét litla dóttur sína heyra allmörg tungumál, og fimm ára gömul gat hún talað átta reiprennandi. Tungumálanám er venjulega erfitt fyrir fullorðna en fyrir börnin er það ósköp eðlilegt að læra málið næstum fyrirhafnarlaust.
Hæfnin til að læra tungumál er aðeins eitt dæmi um meðfædda getu barnsheilans. Samhæfing vöðvanna, tónvísi og listrænir hæfileikar, þörfin fyrir tilgang og markmið, samviska og siðferðisvitund, ást, óeigingirni og þörfin fyrir að tilbiðja Guð — allt byggist þetta á sérhæfðum ferlum í heilanum. (Sjá Postulasöguna 17:27.) Með öðrum orðum er ákveðnum tauganetum ásköpuð næmni til að þroska þessa hæfileika og marga fleiri.
Við verðum þó að gera okkur grein fyrir að þá hæfileika og tilhneigingar, sem barnið hefur við fæðingu, þarf að örva með áhrifum frá umhverfinu til að þeir nái að vaxa. Eigi þeir að ná þroska þarf barnið að verða fyrir ákveðinni reynslu, umhverfi eða kennslu. Til að bestur árangur náist þarf slíkt að eiga sér stað á þeim tíma sem barnið er næmast fyrir hverju um sig, sérstaklega þegar um smábarn er að ræða.
Þegar tímasetning og umhverfi er rétt verður árangurinn ótrúlegur. Þá geta börnin lært ekki aðeins tungumál heldur líka hljóðfæraleik og hæfni til margs konar íþrótta kemur fram. Þá þjálfast samviska þeirra, þau taka á móti kærleikanum og tileinka sér hann og grundvöllur er lagður að sannri guðsdýrkun. Allt þetta og fjölmargt fleira getur barnsheilinn gert ef sáð er í hann góðu sæði og foreldrarnir veita kærleiksríka vökvun.