Síðustu dagar — hver eru teiknin?
„Og engar klukkur hringdu og enginn grét, óháð því hver missir hans var, því að nánast allir bjuggust við að deyja. . . . Og fólk sagði: ‚Þetta er heimsendir,‘ og trúði því.“ — Ítalskur sagnaritari um áhrif svartadauða á 14. öld.
MARGT manna á liðnum öldum trúði í einlægni, en þó ranglega, að það lifði hina síðustu daga. Í því dæmi, sem getið er hér að ofan, var það plágan mikla, nefnd svartidauði, sem margir álitu vera tákn heimsendis. Sumir ætla að um þriðjungur Evrópumanna hafi látist í plágunni. Endirinn kom þó ekki. Enn var ekki kominn tími Guðs til að skerast í leikinn.
Hvernig er þá hægt að vita með vissu hvort vottar Jehóva hafa rétt fyrir sér þegar þeir halda því fram að núverandi heimsskipan sé rétt í þann mund að líða undir lok og að Guðsríki muni yfirtaka stjórnina yfir jörðinni? Aðeins með því að kynna sér fullyrðingar þeirra og bera þær saman við spár Biblíunnar. Hvaða spádómar lýsa þeim atburðum sem eiga að einkenna hina síðustu daga?
Stríð, hungursneyð og drepsótt
Nokkur af meginatriðum þessara spádóma birtast í hnotskurn í hinni frægu sýn Opinberunarbókarinnar 6:1-8 um riddarana:
„Út gekk annar hestur, rauður, og þeim sem á honum sat var gefið vald að taka burt friðinn af jörðunni, svo að menn brytjuðu hverjir aðra niður.“ Veittu því athygli að riddarinn á þessum hesti átti að taka burt friðinn af jörðinni, ekki aðeins frá fáeinum þjóðum. Hann táknar því tíma styrjalda og slátrunar á heimsmælikvarða. Höfum við orðið vitni að slíku á 20. öldinni?
„Svartur hestur, og sá er á honum sat hafði vog í hendi sér.“ Hér birtist viðeigandi tákn hungurs og matvælaskorts. Er það vandamál áberandi í okkar kynslóð?
„Bleikur hestur, og sá er á honum sat, hann hét Dauði og Hel var í för með honum. Þeim var gefið vald yfir fjórða hluta jarðarinnar, til þess að deyða með sverði, með hungri og drepsótt og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Hérna sópar ótímabær dauði, annaðhvort vegna styrjalda, hungurs, drepsótta eða villidýra, fórnarlömbum sínum í gröfina, Helju. Hafa ekki tugir milljóna manna látið lífið langt fyrir aldur fram á okkar dögum?
Jesús lýsti nánar ýmsu er gerast ætti þegar þessi sýn fengi uppfyllingu: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar . . . Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.“ Hann sagði líka fyrir að „þetta fagnaðarerindi um ríkið,“ Guðsríki, yrði prédikað um allan heim áður en endirinn kæmi.
Þessu til viðbótar lýsti Páll postuli hátterni manna á síðustu dögum og sagði að þeir myndu verða „sérgóðir, fégjarnir . . . foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir.“ Hann bætti við að þeir myndu ‚elska munaðarlífið meira en Guð og hafa á sér yfirskyn guðhræðslunnar en afneita krafti hennar.‘a
Við skulum hafa hugfast að enda þótt spádómar Jesú gefi til kynna að náð sé hástigi í sögu mannkynsins þegar allir þessir atburðir gerast innan sömu kynslóðar, þá útheimtir það ekki að þeir séu tíðari eða öflugri en var á tímum fyrri kynslóða, enda þótt svo kynni vel að vera.
Hefur þú orðið vitni að þessum atburðum og aðstæðum núna á 20. öldinni, einkum frá og með 1914? Sérð þú þá núna árið 1988? Við skulum rifja upp suma af helstu atburðunum sem hafa haft eða hafa núna áhrif á mannkynið og leita svars við spurningunni: Gefa þeir til kynna að nú sé það í nánd að Guð skerist í leikinn með ríki sínu? — Lúkas 21:29-33.
[Neðanmáls]
a Þessa spádóma er að finna í heild á eftirfarandi stöðum í Biblíunni: Matteusi kafla 24; Lúkasi 21; Markúsi 13; 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Áletrun á stalli þessa dæmigerða minnismerkis frá fyrri heimsstyrjöldinni hljóðar svo: „Til ævarandi minningar um fallna hermenn frá bænum Evesham [á Englandi] sem gáfu líf sitt fyrir föðurlandið í stríðinu mikla.“