Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.7. bls. 17-18
  • Banvæn uppskera mengunarinnar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Banvæn uppskera mengunarinnar
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sýnileg uppskera mengunarinnar
  • Orsakir mengunarinnar leitaðar uppi
    Vaknið! – 1988
  • Mengunin stöðvuð fyrir fullt og allt!
    Vaknið! – 1988
  • Loftið
    Vaknið! – 2023
  • Hvernig hefur okkur gengið að bjarga jörðinni?
    Vaknið! – 2004
Vaknið! – 1988
g88 8.7. bls. 17-18

Banvæn uppskera mengunarinnar

ÞEGAR tónlistarmaðurinn og háðfuglinn Tom Lehrer söng um mengun á sjöunda áratugnum og ráðlagði þeim sem legðu leið sína til Bandaríkjanna að drekka ekki vatnið og anda ekki að sér loftinu þar hugsaði hann það sem fyndi.

Engin hlær að því núna. Þegar allt kemur til alls er mengun ekkert til að skopast að. Andrúmsloftið er mengað vegna húsahitunar, reyks og loftkenndra úrgangsefna frá iðjuverum, útblásturs bifreiða og geislavirks ofanfalls; vatnið er mengað af olíu og efnum sem farið hafa niður fyrir slysni, og jarðvegurinn af súru regni og úrgangi frá efnaverksmiðjum. Sú var tíðin að nöfn eins og Chernóbýl, Love Canal, Amoco Cadiz, og Bhopal voru óþekkt. Núna kemur áhyggjusvipur á fólk þegar þau heyrast. Siðmenningin er komin á glapstigu og ógnar milljónum manna með ýmist langvinnum veikindum eða skyndilegum dauða.

Mengun er sérlega viðsjárverð fyrir þá sök að oftar en ekki er hún ósýnileg. Andrúmsloftið getur virst hreint og ferskt en verið geislavirkt, og matvæli og vatn geta virst heilnæm en verið troðfull af eiturefnum! Mengunin getur verið banvæn þótt ósýnileg sé.

Sýnileg uppskera mengunarinnar

Enda þótt mengunin geti verið ósýnileg er hin banvæna uppskera hennar það ekki. Menn sjá hana allt í kringum sig. Fólk deyr úr krabbameini og öndunarfærasjúkdómum; byggingar og minnismerki eru að grotna niður og eyðileggjast; dýra- og jurtalíf er á hröðu undanhaldi; fiskur horfinn úr ám og dauðir eða deyjandi skógar.

Núna hefur annað fyrirbæri vakið athygli manna sem virðist einnig bera vörumerki mengunarinnar. Vísindamenn hafa fundið gat á ósonlaginu sem umlykur jörðina, og það fer stækkandi. Sumir telja það stafa af klór-flúrkolefnum er rekja megi til gífurlegrar notkunar úðabrúsa. Á þetta tjón á ósonlaginu, sem á þátt í að sía hættulega geisla úr sólarljósinu, eftir að valda stóraukinni tíðni húðkrabba eða kannski einhverju enn verra?

Mengunin er orðin svo hrikaleg að vöxtum að eitthvað þarf að gera til úrbóta — og það fljótt — ef takast á að afstýra stórslysi. Vaxandi vitund fólks um alvöru málsins hefur orðið hvati að stofnun umhverfisverndarhópa og jafnvel átt sinn þátt í að koma nýjum stjórnmálaflokkum í áhrifastöðu. Í Vestur-Þýskalandi tókst umhverfisverndarflokki græningja til dæmis að ná til sín 8,3 af hundraði atkvæða í kosningum til þjóðþingsins árið 1987.

Getum við leyft okkur að vona að umhyggja manna fyrir umhverfi sínu og framtíð megni að hvetja mannkyn til jákvæðra og markvissra aðgerða til að stemma stigu við þessum ósýnilega vágesti, menguninni? Getum við sem einstaklingar verndað okkur fyrir skaðlegum áhrifum hennar?

[Rammi á blaðsíðu 18]

Menguð er jörðin

Bandaríkin: „Vísindamenn . . . [hafa] látið í ljós auknar áhyggjur af því að súrt regn hafi, auk þess að drepa líf í vötnunum, dregið úr vexti skóga og ef til vill stofnað heilsu fólks í hættu með því að menga drykkjarvatn.“ — Maclean’s.

Brasilía: „Íbúar [Cubatão] kalla hann ‚Dauðadalinn.‘ . . . Trén og jarðvegurinn eru lífvana og æ fleiri börn fæðast andvana eða deyjandi. Það sem lifir er mengunin.“ — Latin America Daily Post.

Danmörk: „Ekkert getur bjargað strönd Danmerkur frá vistfræðilegu stórslysi nema allmörg köld, vindasöm sumur í röð, með tíðum norðvestlægum stormum. . . . Fiskur og sjávarlíf mun ekki geta lifað af [á einu svæði] vegna súrefnisskorts.“ — Basler Zeitung.

Heimskautin: „Suðurskautið virðist þokkalega hreint þar eð 90 af hundraði jarðarbúa eiga heima á norðurhveli jarðar. En síðla árs 1985 uppgötvuðu vísindamenn, sem unnu að eftirliti með heiðhvolfi jarðar, stórt gat á ósonlaginu yfir Suðurskauti . . .

Norðurskautið líkist á hinn bóginn stundum kolabæ um síðustu aldamót, því að á veturna, þegar Norðurheimskautssvæðið hallast frá sólu og sífelld nótt ríkir, getur sólin ekki komið af stað hreinsandi vindum og úrkomu. Þá liggur stærsti, einstaki mengunarmassi í heimi ofan á toppi hnattarins eins og óhrein húfa.

Síðla í nóvember er sólin alveg hætt að koma upp. Þegar hún birtist á ný seint í janúar skín hún á mökk úr súlfötum og sóti sem heldur velli þar til vorstormarnir sópa honum burt.“ — National Geographic.

Ísland: „Greinilegt er, af þeim mælingum sem fram hafa farið, að mengun í Reykjavík er meiri en menn höfðu áður álitið.“ Mælingar við Miklatorg sýna verulega aukningu á magni svifryks milli áranna 1986 og 1987. — Skýrsla frá Hollustuvernd ríkisins.

Kína: „Loftmengun er svo megn í flestum borgum í norðausturhluta Kína að síðla dags geta engir nema stæltir heimamenn gengið um göturnar án þess að svíða í lungun og vökna um augun.“ — Time.

Sovétríkin: „Slysið í kjarnakljúfnum í Chernóbýl . . . markaði straumhvörf í nútímasiðmenningu. Þetta var stórslys sem á eftir að hafa áþreifanleg áhrif á okkur um aldaraðir. . . . 570 milljónir Evrópubúa voru, eru og eiga eftir að verða fyrir mismikilli viðbótargeislun í 300 ár með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.“ — Psychologie Heute.

Vestur-Þýskaland: „Blanda eiturefna fór fyrir slysni út í Rín [vegna eldsvoða í efnageymslu í grennd við Basel í Sviss] og eyðilagði 15 ára starf við endurlífgun og hreinsun Rínar [og drap fisk í tonnatali]. . . . Slysið í Sandoz hefur valdið miklu umhverfistjóni á 280 kílómetra kafla Rínar.“ — Der Spiegel.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila