Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g88 8.7. bls. 22-23
  • Mengunin stöðvuð fyrir fullt og allt!

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Mengunin stöðvuð fyrir fullt og allt!
  • Vaknið! – 1988
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hinn vægðarlausi morðingi loksins stöðvaður!
  • Banvæn uppskera mengunarinnar
    Vaknið! – 1988
  • Orsakir mengunarinnar leitaðar uppi
    Vaknið! – 1988
  • Mengunin upprætt úr huga og hjarta
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1993
  • Loftið
    Vaknið! – 2023
Sjá meira
Vaknið! – 1988
g88 8.7. bls. 22-23

Mengunin stöðvuð fyrir fullt og allt!

„SÚ niðurstaða verður ekki umflúin að umhverfið er langtum ótryggara en almennt er talið.“ Ef þessi orð voru sönn árið 1970 þegar metsöluhöfundurinn G. R. Taylor skrifaði þau, þá eru þau enn sannari núna! Líkurnar á að mönnum takist að yfirstíga þær hindranir, sem standa í veginum fyrir varanlegri lausn mengunarvandans, eru þverrandi. Hinn augljósi sannleikur er sá að mennirnir þurfa til hjálp frá Guði.

Þegar Guð skapaði mennina gaf hann þeim fyrirmæli um að annast jörðina. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Í staðinn hafa þeir mengað hana í fáfræði sinni og hroka. En skaparinn hefur heitið að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ Þegar stjórn Guðs hefur rutt úr vegi þeim sem menga jörðina vísvitandi verður hægt að uppræta orsakir mengunarinnar. — Opinberunarbókin 11:18.

Jesajabók 11:9 gefur í skyn hvernig það verður gert þar sem segir: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva].“ Vafalaust mun skaparinn kenna mönnum allt sem þeir þurfa að vita um jörðina og umhverfi sitt til að annast hana vel og forðast hvaðeina sem yrði til tjóns eða skaða.

Guð mun lyfta mönnum upp til fullkomleika, til þess ástands sem fyrstu mennirnir voru skapaðir í. Ekki verður hætta á mannlegum mistökum þegar hugur manna verður fullkominn, ræður yfir nákvæmri þekkingu og lætur stjórnast af fullkominni dómgreind. Vanræksla og aðrir veikleikar holdsins, eins og við þekkjum þá núna, munu hverfa. Vernd Guðs mun koma í veg fyrir slys af ýmsu tagi. Jafnvel náttúruöflin munu lúta fullkominni stjórn. — Samanber Markús 4:39.

‚Þekkingin á Jehóva‘ mun enn fremur rækta með mönnum kærleiksríka umhyggju fyrir öðrum og virðingu og rétt mat á sköpunarverki Guðs sem mun koma í veg fyrir að menn langi til að menga. ‚Þekkingin á Jehóva‘ er meira að segja nú þegar byrjuð að breyta fólki á þennan veg, fólki sem hefur „afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans“ og kappkostar að lifa eftir kristnum meginreglum. Má þar meðal annars nefna regluna „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjáfan þig“ og „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar.“ Þá má einnig nefna regluna: „Enginn hyggi að eigin hag, heldur hag annarra.“ — Kólossubréfið 3:9, 10; Markús 12:31; Hebreabréfið 13:5; 1. Korintubréf 10:24.

Hinn vægðarlausi morðingi loksins stöðvaður!

Enn hefur ekki verið minnst á helsta frumkvöðul mengunarinnar. Hann er hinn mikli óvinur Guðs, hinn ósýnilegi morðingi djöfullinn. (Jóhannes 8:44; Hebreabréfið 2:14) Hinn gerspillti hugur Satans er snjall að finna upp leiðir til að veikja traust manna til Guðs og spilla sköpunarverki hans. Menguð og óhrein jörð er skapara sínum til lítils sóma, honum sem gerði hana til að vera tandurhrein og fögur. Hið sama er að segja um menn, skapaða í Guðs mynd, sem leyfa djöflinum að afvegaleiða sig til að fara að hans vilja. (Efesusbréfið 2:2) Svo lengi sem Satan leikur lausum hala munu menn fara halloka í baráttunni gegn mengun. En ekki miklu lengur!

Biblíuritari segir svo frá: „Nú sá ég engil stíga niður af himni. . . . Og hann tók drekann, þann gamla höggorm, sem er djöfull og Satan, og batt hann um þúsund ár . . . svo að hann leiddi ekki framar þjóðirnar afvega, allt til þess er fullnuðust þúsund árin.“ (Opinberunarbókin 20:1-3) Þessi engill er Drottinn Jesús Kristur sem mun binda Satan og þar með losa alheiminn við áhrif hans um þúsund ár og ryðja úr vegi helstu hindruninni fyrir mengunarlausum heimi.

Meðan Kristur ríkir um þúsund ár mun reikistjarnan jörð hafa nægan tíma til að ná sér eftir ásókn mengunarinnar. Ríki Guðs getur auðveldlega gert að engu það tjón sem orðið er. Megum við þangað til, í ljósi þess hve banvæn áhrif mengunarinnar eru, vernda okkur sem best við getum fyrir henni. Að sjálfsögðu eru okkur takmörk sett í því og tæpast raunhæft að taka alvarlega hið gamansama ráð Toms Lehrers: ‚Drekktu ekki vatnið og andaðu ekki að þér loftinu.‘ En ýmislegt annað er þó hægt að gera. (Sjá rammann.)

Þótt við gerum það sem hyggilegt og raunhæft má telja til að vernda okkur fyrir mengun ættum við að hafa hugfast að besta verndin gegn henni er sú að setja traust okkar á ríki Guðs. Aðeins það mun leysa vandann í eitt skipti fyrir öll. Á síðastliðnu ári aðstoðuðu vottar Jehóva yfir þrjár milljónir heimila eða einstaklinga, sem langaði til að kynnast kröfum Guðs til þeirra er fá að lifa í hinum mengunarlausa nýja heimi, að nema Biblíuna. Þessi þjónusta stendur öllum til boða og kostar ekkert. Langar þig til að notfæra þér hana?

Það er mikið gleðiefni að vita að barátta okkar gegn menguninni — hinum vægðarlausa morðingja — verður brátt afstaðin! Hið sama má segja um baráttu okkar gegn banvænum afleiðingum hennar. Mengun og helsti frumkvöðull hennar, Satan djöfullinn, hvorttveggja morðingjar, verða bráðlega stöðvaðir fyrir fullt og allt!

[Rammi á blaðsíðu 23]

Það sem þú getur gert til að vernda þig

◼ Fylgstu með almennu heilsufari þínu og gættu þess að þú fáir reglubundið nægilega hreyfingu og hvíld.

◼ Forðastu reykingar, ofnotkun áfengis og fíkniefnaneyslu, svo og aðra ósiði sem veikja mótstöðuafl líkamans.

◼ Forðastu óhófleg sólböð.

◼ Notaðu vatnssíu ef hætta er á að neysluvatn sé mengað.

◼ Forðastu að því marki sem raunhæft er matvæli sem innihalda aukaefni.

◼ Forðastu óþarfa lyfjanotkun því að nánast öll lyf hafa aukaverkanir.

◼ Fylgdu lögum og reglum um mengunarvarnir.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila