Fornt biblíuhandrit skoðað með geimaldartækni
TÖLVUMÖGNUN, tæknin sem var notuð til að gera skýrar myndir af yfirborði tunglsins eða Mars, hefur nú verið beitt til að vekja aftur til lífs ógreinilegt letur ævaforns biblíuhandrits.
Handritið fannst árið 1892 í Katrínarklaustri við rætur Sínaífjalls. Um er að ræða afrit frá seinni hluta annarrar eða fyrri hluta þriðju aldar af þýðingu guðspjallanna fjögurra á sýrlensku, afbrigði af arameísku, tungumáli sem var í almennri notkun á dögum Jesú. Sumir fræðimenn álíta að þýðingin hafi hugsanlega verið gerð við lok fyrstu aldar.
Lengi vel tókst mönnum ekki að lesa úr textanum. Vandinn var sá að handritið er uppskafningur, en svo eru nefnd handrit þar sem hið upphaflega mál hefur verið skafið út og annar texti ritaður ofan í. Þetta höfðu síðari tíma skrifarar gert. Efnaleifar úr blekinu höfðu þó skilið eftir dauf spor í bókfellinu um það sem upphaflega stóð þar.
Geimaldartæknin til bjargar
Með svonefndri tölvumögnun hefur verið hægt að koma hinu upphaflega handriti til bjargar. Byrjað var á því að ljósmynda hverja síðu fyrir sig. Þessu næst voru ljósmyndirnar stafsettar eða breytt í stafrænt form. Það var gert þannig að með hjálp tölvu voru myndirnar skoðaðar depil fyrir depil og hverjum depli gefið ákveðið tölugildi eftir því hve ljós eða dökkur hann var. Því dekkri sem depillinn var, þeim mun hærra tölugildi fékk hann, en hvítur depill fékk tölugildið núll. Þegar því var lokið var hægt að lýsa eða dekkja hvaða part myndarinnar sem vera skyldi, með því einfaldlega að gefa honum nýtt tölugildi. Þannig var hægt að deyfa letrið, sem síðar var skrifað, og magna hið eldra. Með þessum hætti mátti kalla fram í dagsljósið það sem hulið hafði verið um aldaraðir.
Hvað gat að líta?
Hverju hyggjast vísindamenn ná fram með þessum flóknu rannsóknum? Að sjálfsögðu hlýtur biblíufræðimönnum alltaf að vera geysimikill fengur í sérhverju handriti guðspjallanna sem er þetta gamalt. Verið gat að þetta handrit varpaði að einhverju leyti nýju ljósi á þann biblíutexta er við nú höfum.
Eitt athyglisvert atriði, sem kom í ljós, er niðurlag Markúsarguðspjalls. Lýkur bókinni með Markúsi 16:8 eða eiga þar heima versin 9 til 19 sem er að finna í fjölmörgum öðrum fornum handritum? Ef Markús 16:8 stæði við blaðsíðulok mætti hugsa sér að fleiri vers ættu að fylgja á næstu blaðsíðu sem ef til vill væri týnd. Í ljós kom að Markús 16:8 stendur á miðri blaðsíðu í vinstri dálki. Fyrir neðan er röð af litlum hringjum, síðan örlítið bil og því næst hefst Lúkasarguðspjall. Það sýnir, svo ekki verður um villst, hvar bókinni lauk. Engin vers eða blaðsíður vantaði.
Nokkur textafrávik gætu verið tilefni biblíurannsókna. Fátt kom þó á óvart. Það er þó alls ekki til tjóns. Það staðfestir einfaldlega að sá biblíutexti, sem við nú höfum, er í raun sá sami og biblíuritararnir settu upphaflega á blað. Geimaldartæknin hefur brúað um nítján alda bil til að sýna okkur að Jehóva Guð er ekki aðeins hinn mikli höfundur Heilagrar ritningar heldur líka verndari hennar.