Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.4. bls. 5-7
  • Það sem kaþólskir segja um óskeikulleik páfa

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Það sem kaþólskir segja um óskeikulleik páfa
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Sundrung og hótanir
  • Efasemdamenn nú á tímum
  • Er páfinn óskeikull?
    Vaknið! – 1989
Vaknið! – 1989
g89 8.4. bls. 5-7

Það sem kaþólskir segja um óskeikulleik páfa

HVERNIG er litið á trúarsetninguna um óskeikulleik páfa meðal kaþólskra manna? Fréttaritari Vaknið! á Ítalíu fór á stúfana til að kanna það. Veittu athygli svörum manna:

A. M., kaþólskur lögfræðingur frá Bergamo, sagði: „Sá sem játar kaþólska trú verður að leggja trúnað á trúarsetningar hennar. Það er augljóst að ekki er hægt að skýra trúarsetninguna um óskeikulleik páfa með neinum rökum — hún er trúaratriði. Fólk annaðhvort trúir henni eða ekki.“

P. S., kaþólskur maður frá Palermo, sagði: „Að mínu mati er það ekki mikilvægast hvort Biblían styður trúarsetninguna eða ekki, heldur hitt hvort hægt er að sannreyna gildi hennar innan kirkjunnar og sýna fram á hvaða hlutverki hún gegnir núna. Við lifum í ruglingslegum heimi og erum umkringdir heilli Babýlon af hugmyndum. Fólk býr ekki lengur við neina fullvissu en það hefur mikla þörf fyrir algerlega trausta heimild sem það getur stuðst við.“

Sumir kaþólskra manna eru gagnrýnir. Svo er að sjá sem efasemdir þeirra byggist á sögu páfadæmisins. „Jafnvel þótt ég sé virkur í kaþólskri trú á ég erfitt með að trúa þessari kenningu [um óskeikulleik páfa],“ sagði L. J. sem er blaðamaður í Róm. „Saga páfanna vitnar um hið gagnstæða.“

A. P., sem er læknir í Róm, sagði: „Ég trúi henni alls ekki. Hann er maður eins og allir aðrir og gerir mistök. Það er til dæmis rangt af honum að blanda sér í stjórnmál. Aðeins Guð er óskeikull.“

Þessi kennisetning hefur sundrað kaþólskum mönnum. Í Róm, þar sem Páfagarður er staðsettur, sýndi skoðanakönnun árið 1982 að 57 af hundraði kaþólskra manna töldu óskeikulleik páfans einhverja vafasömustu trúarsetninguna. Aðeins 54,6 af hundraði kaþólskra manna í Portúgal trúa henni og einungis 37 af hundraði á Spáni.

Getur hugsast að þessi trúarsetning hafi valdið sundrung og deilum í stað þess að sameina kaþólsku kirkjuna? Sagan sýnir að hún hefur verið undirrót deilna allt frá upphafi, jafnvel á kirkjuþinginu á 19. öld sem samþykkti hana.

Sundrung og hótanir

Óneitanlega urðu snörp orðaskipti milli biskupa og kardinála á Vatíkanþinginu árið 1870. La Civiltà Cattolica frá því ári talaði um „miklar æsingar“ og vakti athygli á að ekki einu sinni Jesúítar hefðu búist við að „svona skiptar skoðanir gætu orðið um jafnheilög sannindi.“

Þýski sagnfræðingurinn Ferdinand Gregorovius skrifaði að það hefðu orðið „hávaðasamir“ fundir á þinginu. Sá sem haldinn var þann 22. mars árið 1870 var sérstaklega hávaðasamur. Josip Juraj Strossmajer biskup, einn hinna mörgu biskupa þingsins sem voru andstæðingar kenningarinnar um óskeikulleik páfa, var yfirgnæfður með hrópum biskupanna sem studdu hana. Frásagnir af þinginu greina frá því að meðan Strossmajer hafi verið að tala hafi þessir biskupar mótmælt „hástöfum“ og ‚æpt‘: „Sparkið honum út!“ og „Niður með þig! Niður með þig!“

Aðrir sagnfræðingar hafa látið þess getið að páfinn og páfaráð rómversk-kaþólsku kirkjunnar hafi beitt þingfulltrúa miklum þrýstingi til að fá trúarsetninguna samþykkta. Kaþólski sagnfræðingurinn Roger Aubert talar um „hávaðarifrildi“ Píusar IX og Guidi kardinála frá Bologna, en ávarp hans til þingsins féll páfa ekki í geð. Kardinálinn hafði minnst á erfikenningu í ræðu sinni og Píus IX er þá sagður hafa svarað kardinála: „Ég er erfikenningin!“

Páfi vildi láta samþykkja trúarkenninguna hvað sem það kostaði: „Ég er svo staðráðinn í að fá þessu framgengt,“ sagði hann, „að ég myndi slíta þinginu og skilgreina trúarsetninguna sjálfur ef ég áliti að þingið ætlaði að þegja.“ La Civiltà Cattolica viðurkenndi: „Nú á ekki lengur að gera lítið úr eða réttlæta í afsökunartón kænskubrögð meirihluta þingsins og einnig Píusar páfa IX, eða þær hömlur og erfiðleika sem voru lagðar á minnihlutann.“

Sagnfræðibók lýsir atburðunum í hnotskurn þannig: „Sendiherrar Páfagarðs hræddu biskupana til að aðhyllast þann úrskurð að páfinn væri óskeikull.“ En slík „kænskubrögð“ dugðu þó ekki til að lægja ágreiningsöldurnar heldur juku þær. Eftir lok kirkjuþingsins sagði hluti þeirra klerka, sem voru ósammála, skilið við kaþólsku kirkjuna. Út frá þeim klofningi varð til hreyfing „forn-kaþólskra“ sem enn er starfandi í Austurríki, Þýskalandi og Sviss.

Efasemdamenn nú á tímum

Deilurnar um þessa trúarsetningu hafa raunar aldrei verið settar niður. Árið 1970, þegar nálgast tók hundrað ára afmæli hennar, gusu þær aftur upp af endurnýjuðum krafti.

Undir lok sjöunda áratugarins skrifaði hollenski biskupinn Francis Simons bókina Infallibility and the Evidence þar sem komu skýrt fram efasemdir hans um óskeikulleik kaþólsku kirkjunnar og páfans. Simons sagði að vegna trúarsetningarinnar væri kirkjan orðin „stofnun sem óttast allar nýjungar og er upptekin af því að standa vörð um stöðu sína, í stað þess að vera afl framfara og heilnæmra breytinga.“

Skömmu síðar kom skarpleg árás hins kunna svissneska guðfræðings Hans Küngs. Bók hans Unfeilbar? Eine Anfrage og önnur rit kölluðu fram harkaleg viðbrögð hins kaþólska klerkaveldis. Og undir lok áttunda áratugarins skrifaði August Hasler: „Það verður sífellt ljósara að trúarsetningin um óskeikulleik páfa á sér engan grundvöll, hvorki í Biblíunni né sögu kirkjunnar fyrstu þúsund árin.“

Viðbrögð guðfræðinga, sem voru trúir kirkjunni, voru með ýmsu móti. La Civiltà Cattolica nefnir „gífurlega erfiðleika, umburðarleysi og vandamál“ sem „staðfesting annars Vatíkanþingsins á kennisetningunni um arftaka Péturs í Róm“ hefði haft í för með sér. Karl Rahner undirstrikaði að „trúarsetningarnar séu samgrónar hinni sögulegu umgjörð og alltaf opnar fyrir nýrri túlkun.“

Hvernig geta trúarsetningar verið óskeikular ef hægt er að túlka þær upp á nýtt? Hvernig geta þær verið sú fasta viðmiðun sem fólk þarfnast? Og síðast en ekki síst: Fylgdu frumkristnir menn páfa sem þeir álitu óskeikulan?

[Innskot á blaðsíðu 6]

‚Það er rangt af honum að blanda sér í stjórnmál.‘ — Læknir í Róm.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 7]

Miami Herald Publishing Co.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila