Er páfinn óskeikull?
‚TRÚARSETNINGIN sem sigur kaþólskrar trúar yfir skynsemishyggjunni veltur á.‘ Þannig fagnaði tímarit Jesúíta, La Civiltà Cattolica, því árið 1870 er fyrsta Vatíkanþingið lýsti hátíðlega yfir trúarsetningunni um óskeikulleik páfans.
„Trúarsetning“ er á máli kaþólskra trúarkenning sem er „algild og óumdeilanleg.“ Samþykkt þingsins árið 1870 um óskeilulleik páfa hljóðar svo:
„Það er trúarsetning, opinberuð af Guði, að páfinn í Róm, þegar hann talar ex cathedra, þ.e. í krafti síns háa postullega embættisvalds sem hirðir og kennari allra kristinna manna, og skýrir kenningu um trú eða siðferði sem allri kirkjunni ber að halda, sé, vegna þess fulltingis Guðs sem honum er heitið í persónu hins blessaða Péturs, óskeikull eins og guðlegur lausnari ætlaði kirkju sinni að vera er hún skýrði kennisetningar um trú og siðferði, og að slíkar skýringar páfans í Róm séu óbreytanlegar í sjálfu sér, en ekki fyrst við samþykkt kirkjunnar.“
Tryggir páfann í bak og fyrir
Þessi forskrift, sem mörgum þykir torskilin, er auk þess óskýr að sögn þýsks guðfræðings, Augusts Bernhards Haslers, sem nú er látinn. Hann sagði að orðalagið ex cathedra væri „óljóst“ og „óákveðið“ og hélt því fram að það væri „nánast aldrei hægt að vita með vissu hvaða ákvarðanir eigi að skoða sem óskeikular.“ Að sögn annars guðfræðings, Heinrichs Fries, er forskriftin „tvíræð“ en Joseph Ratzinger viðurkennir að trúarsetningin hafi valdið „flóknum deilum.“
Hasler hélt því fram að ‚hugtökin væru svo óljós‘ að bæði væri hægt að heimfæra trúarsetninguna víðtækt í því skyni að auka vald páfans og einnig að túlka hana þröngt, þannig að alltaf væri hægt að halda því fram að rangar kenningar fortíðarinnar tilheyrðu ekki hinu svonefnda óskeikula kenningasafni páfa. Með þessum hætti hefur kirkjan tryggt sig í bak og fyrir.
Sú trúarsetning að páfinn sé óskeikull merkir því að enda þótt páfanum verði á mistök, eins og öllum öðrum mönnum, sé hann óskeikull þegar hann skýrir og skilgreinir siðferðis- eða trúarkenningar ex cathedra, það er að segja í embætti hirðis rómversk-kaþólsku kirkjunnar.
En hvað skyldi kaþólskum mönnum sjálfum finnast um þessa kennisetningu?
[Mynd á blaðsíðu 4]
Píus páfi IX hélt trúarsetningunni um óskeikulleik páfa fast fram árið 1870.
[Rétthafi]
Culver Pictures