Hafið — dýrmæt auðlind eða skolpþró veraldar?
Ólgaðu áfram, þú dimmbláa, djúpa haf!
Tíu þúsund flotar fá ekki gert þér mein.
Eftir manninn liggur jörðin spillt
en yfirráð hans enda í fjörunni.
Lausleg þýðing úr Childe Harold’s Pilgrimage, eftir Byron lávarð.
SÚ VAR tíðin að þessi orð voru meira en ljóðmæli, þau voru sannmæli. Svo er ekki lengur. Orð skáldsins, sem lýstu svo vel víðáttu úthafanna og smæð mannsins sem megnaði ekki að spilla þeim, virðast jafnfánýt núna og röng og sú hugmynd að maðurinn gæti aldrei flogið. Áhrifum mannsins er ekki lokið í fjöruborðinu. Hann hefur sett mark sitt á höfin og það er ekki fallegt mark.
Flest eigum við ánægjulegar endurminningar frá sjávarströndinni. Við munum hvernig sólargeislarnir glitruðu á sjónum, hvernig öldurnar brotnuðu taktfast í fjörunni, hvernig við lékum okkur í fjöruborðinu, jafnvel syntum í sjónum. Tilhugsunin ein lætur okkur hlakka til næstu ferðar í fjöruna eða á sólarströnd. En nú er ekki lengur öruggt að við getum alltaf baðað okkur í sjónum. Þótt það sé kannski nokkurt áhyggjuefni er þó margt annað sem ætti að valda okkur mun þyngri áhyggjum. Hafið gegnir stærra hlutverki en aðeins að gleðja skilningarvit okkar mannanna.
Svo er höfunum fyrir að þakka að við höfum súrefni til að anda að okkur. Að sögn The New Encyclopædia Britannica mynda höfin, sér í lagi þörungagróðurinn í þeim, um 90 af hundraði þess súrefnis sem við öndum að okkur. Aðrir álíta að plöntusvif sjávarins myndi allt að þriðjungi súrefnisins í andrúmsloftinu. Höfin draga úr hitasveiflum á jörðinni, viðhalda ótrúlega fjölbreyttu lífi og gegna mikilvægu hlutverki í loftslagi jarðar og hringrás regnsins. Í stuttu máli eru höfin forsenda fyrir lífinu á jörðinni.
Skolpþró veraldar
Því miður álítur maðurinn höfin einnig hentug sem skolpþró. Skolp, efnaúrgangur frá verksmiðjum og skordýraeitur frá landbúnaðinum berast út í höfin með ám og skolpleiðslum eða er losaður af skipum og flutningarprömmum. „Lengi tekur sjórinn við,“ hafa menn hugsað. En sjórinn gerir það ekki endalaust. Þurft hefur að loka vinsælum baðströndum víða um heim á síðustu árum þegar sorpi tók að skola á land í stórum stíl.
Það varð uppi mikið fjölmiðlafár vestanhafs þegar dóti tengdu fíkniefnaneyslu, notuðum lyfjasprautum og blóðsýnaglösum — sum hver með eyðniveiru — skolaði á land á austurströnd Bandaríkjanna. Þar fundust hlunkar af óverkuðu holræsabotnfalli, dauðar tilraunarottur og magasekkur úr manni, auk ýmissa enn ógeðfelldari hluta.
Mengun er líka orðin áberandi á ströndum sem liggja að Norðursjó, Eystrasalti, Adríahafi, Miðjarðarhafi, Svartahafi og Kyrrahafsströnd Sovétríkjanna. Baðströndum hefur víða verið lokað vegna sjúkdómahættu. Hinn heimskunni hafrannsóknamaður Jacques Cousteau sagði nýverið að baðgestir sums staðar við Miðjarðarhaf ættu á hættu að sýkjast af 30 sjúkdómum, allt frá graftarígerð upp í drep í holdi. Hann spáir því að svo muni fara að enginn muni voga sér að dýfa tá í Miðjarðarhaf.
En úrgangurinn frá mannkyninu hefur fleira í för með sér en lokaðar baðstrendur og óþægindi fyrir sundgesti. Mengunin nær líka niður í hafdjúpin.
Fyrir allnokkrum árum byrjaði New Yorkborg að sigla með holræsabotnfall 198 kílómetra út af strönd Bandaríkjanna og losa það þar. Nú eru sjómenn farnir að veiða í neðansjávargljúfrum um 130 kílómetra út af ströndinni fisk með sár og fúna ugga, og krabba og humar með götóttar skeljar sem líkjast einna helst því að þær hafi verið brenndar með lóðlampa. Yfirvöld vísa því á bug að nokkur tengsl geti verið milli úrgangsins frá borginni og sýkingarinnar í fiskinum, en fiskimennirnir eru annarrar skoðunar. Hafnarstjóri einn sagði í viðtali við tímaritið Time að New Yorkbúar myndu „fá sorpið sitt til baka í fisknum sem þeir borða.“
Sérfræðingar telja að mengun í höfunum stefni hratt í það að verða alþjóðavandamál sem ekki takmarkast við iðnaðarþjóðirnar. Vanþróuðu ríkin eru á sama báti og fyrir því liggja tvær ástæður. Í fyrsta lagi eru heimshöfin í rauninni eitt stórt haf með straumum sem virða engin landamæri. Í öðru lagi eru sum iðnríki byrjuð að notfæra sér hin fátækari ríki sem sorphauga fyrir úrgang sinn. Á aðeins tveim síðastliðnum árum sendu Bandaríkin og Vestur-Evrópa um þrjár milljónir tonna af hættulegum úrgangi til Austur-Evrópu og Asíulanda. Þar við bætist að mörg erlend fyrirtæki reisa verksmiðjur í Asíu og Afríku án þess að gera ráð fyrir mengunarvörnum.
Plastplágan
Með uppfinningu plastsins hefur maðurinn einnig búið sér til vandamál sem hann ræður lítið við. Stundum er svo að sjá sem tæknin geti ekki án þess verið. Plast kann að virðast ómissandi, en gallinn er einnig sá að það brotnar afarhægt niður úti í náttúrunni. Þegar maðurinn er búinn að nota það á hann í mestu vandræðum með að losna við það. Plastið, sem notað er til að halda saman sex dósum af bjór, getur enst einhvers staðar á bilinu 450 til 1000 ár.
Eins og þig vafalaust býður í grun er mjög algengt að menn losi sig við plast með því að henda því í sjóinn. Í nýlega útkominni skýrslu er því haldið fram að ár hvert sé kastað í sjóinn um 23.000 tonnum af umbúðaplasti og að um 136.000 tonn af veiðarfærum glatist. Að sögn tímaritsins U.S. News & World Report er „kastað fyrir borð af kaupskipum og herskipum 690.000 plastílátum dag hvern.“ Sérfræðingur hefur reiknað út að jafnvel úti á miðju Kyrrahafi séu að meðaltali um 50.000 plasthlutir á hvern ferkílómetra.
Höfin geta ekki brotið niður allt þetta plast. Það flýtur yfirleitt á sjónum uns því skolar á land einhvers staðar þar sem það heldur áfram að spilla fegurð jarðar. En það veldur líka öðru tjóni sem er langtum alvarlegra.
Of dýrkeypt
Gallinn við plast, eins og önnur mengunarefni, er sá að það eyðir lífi. Risasæskjaldbökur villast á sorppokum úr plasti og hálfgagnsæjum marglyttum sem þær eru sólgnar í. Plastpokarnir annaðhvort standa í skjaldbökunum eða þær gleypa þá í heilu lagi. Hvort heldur er drepa pokarnir þær.
Alls konar sjávarlífverur, allt frá hvölum upp í höfrunga og seli, flækjast í netum og veiðarfærum sem annaðhvort slitna upp eða hefur verið hent. Selir að leik reka trýnið í gegnum plasthringi, en geta svo ekki náð þeim af sér aftur eða einu sinni opnað skoltinn. Þeir svelta síðan hægfara í hel. Sjófuglar flækjast í fiskilínum og skaða sig til ólífis þegar þeir berjast æðislega um til að losa sig. Og þetta eru ekki einangruð tilfelli. Ár hvert drepst um ein milljón sjófugla og hundrað þúsund sjávarspendýr af völdum plastmengunarinnar.
Efnamengun gengur af fjölda sjávardýra dauðum þessu til viðbótar. Sumarið 1988 tók dauðum selum að skola á land við strendur Norðursjávar. Á nokkrum mánuðum drápust um 12.000 af hinum 18.000 landselum sem eiga heimkynni í Norðursjó. Það var veira sem varð þeim að bana. En það er aðeins hluti skýringarinnar. Þeir milljarðar lítra af úrgangsefnum, sem streyma stöðugt út í Norðursjó og Eystrasalt, áttu sinn þátt í að veikla ónæmiskerfi selanna og stuðla þannig að útbreiðslu sjúkdómsins.
Þótt mengun sé sérstaklega mikil í Eystrasalti og Norðursjó væri það erfitt verk fyrir sjávardýr að finna ómengaðan sjávarblett. Á hinum afskekktu heimskautum, bæði í norðri og suðri, bera mörgæsir, náhvalir, ísbirnir, fiskar og selir merki efnamengunar og skordýraeiturs í líkamsvefjum sínum. Hræ af mjaldri (hvaltegund) við St. Lawrenceflóa í Kanada eru talin hættulegur úrgangur sökum þess hve mikið er af eiturefnum í þeim. Um 40 af hundraði höfrunga meðfram Atlantshafsströnd Bandaríkjanna hafa drepist á aðeins rúmlega einu ári. Þeir sem skolaði á land voru með sár og blöðrur og stórar húðflyksur höfðu fallið af.
Viðkvæmu jafnvæginu í höfunum raskað
Mengun sjávar hefur aðrar, miður æskilegar afleiðingar. Hún raskar jafnvægi flókinna vistkerfa með hrikalegustu afleiðingum. Höfin eru búin sínum eigin mengunarvörnum. Árósar og fen við ármynni eru stórvirkar síur sem skilja skaðleg efni úr vatninu áður en það blandast sjónum. Höfin geta ráðið við gífurlegt magn mengunarefna án þess að verða fyrir skaða. En maðurinn er að þurrka upp fenjasvæðin, ofkeyra árósana og samtímis að fleygja úrgangi í höfin hraðar en þau geta eytt honum.
Þegar skolp og yfirborðsvatn af landbúnaðarsvæðum rennur stjórnlaust í höfin ofnærir það þörungagróðurinn í sjónum sem litar hann síðan rauðan eða brúnan. Ofvöxtur þörunganna eyðir upp súrefni sjávarins og drepur annað líf á stórum svæðum. Þetta er vaxandi vandamál um heim allan.
Manninum hefur jafnvel tekist að menga sjóinn á áður óþekkta vegu. Þar má nefna sem dæmi varmamengun. Hún felst í því að heitu úrgangsvatni er sleppt í sjóinn með þeim afleiðingum að hitastig á takmörkuðu svæði hækkar eilítið. Það eykur síðan vöxt ákveðinna lífvera sem raskar jafnvægi vistkerfisins.
Að síðustu skal nefnd hávaðamengun. Að sögn The New York Times hefur maðurinn spillt hinum hljóða heimi undirdjúpanna með sprengingum í tengslum við jarðskjálftarannsóknir, borun eftir olíu og með hinum stóru skipum sem sigla um höfin þver og endilöng. Hávaðinn skaddar hin viðkvæmu heyrnarfæri fiska, hvala og sela, og dregur jafnvel úr hæfni þeirra til að skiptast á boðum. Í bók sinni Cosmos fullyrðir Carl Sagan að hvalir kunni í eina tíð að hafa getað heyrt lágtíðnihljóð hvers annar þúsundir kílómetra, til dæmis allt frá Alaska til Suðurskautsins. Hann telur að hávaðatruflun af mannavöldum hafi stytt þessa vegalengd niður í nokkur hundruð kílómetra. „Við höfum slitið hvalina úr tengslum hvern við annan,“ segir hann.
Það sem er að gerast í höfunum sýnir okkur hversu samfléttaðir hinir ýmsu þættir mengunarvandans eru. Vegna tjóns, sem maðurinn hefur valdið á ósonlaginu í andrúmslofti jarðar, sleppur meira útfjólublátt ljós niður til jarðar þar sem það drepur svif nálægt yfirborði sjávar. Svif tekur til sín koldíoxíð og eyðing þess stuðlar þannig að hægfara upphitun andrúmsloftsins sem kölluð er gróðurhúsaáhrifin. Jafnvel súrt regn kemur hér við sögu, því að það skilar köfnunarefni, sem menn blása út í andrúmsloftið, niður í höfin þar sem það á hugsanlega sinn þátt í hinum skaðlegu þörungaplágum. Maðurinn hefur sannarlega ofið sér flókinn og lífshættulegan vef!
Er þá engin vonarglæta framundan? Hvernig fer fyrir höfunum okkar? Eru þau dæmd til að verða að lífvana forarþró full af sorpi og úrgangsefnum?
[Rammi á blaðsíðu 5]
VANDAMÁL ALLRA ÞJÓÐA
◼ Árið 1987 þurfti að hætta veiðum á þriðjungi bandarískra skelfiskmiða vegna mengunar.
◼ Sylt er þýsk eyja í Norðursjó, fræg fyrir hreinar strendur og vinsæll sumarleyfisstaður. Sumarið 1988 þakti metersþykkt, daunillt froðulag strendurnar — afleiðing þörungaplágunnar og mengunar.
◼ Nokkrir náttúrufræðingar hlökkuðu til þess skoða eyna Laysan, sem er afskekkt og óbyggð eyja í Kyrrahafi um 1600 kílómetra frá Hawaii. Fjörurnar voru þaktar plasti og öðrum úrgangi.
◼ Um allan heim er um sex milljónum tonna af olíu dælt í sjóinn ár hvert — oftast af ásettu ráði.
◼ Að sögn Greenpeace-samtakanna er meiri geislavirkur úrgangur í Írlandshafi en öllum öðrum höfum heims samanlagt. Hugsanlegt er að það sé örsök þess að hvítblæði er orðið 50 af hundraði tíðara meðfram ströndinni en áður var.
◼ Í öllum fjörum allra ríkja sem liggja að Indlandshafi eru tjöruklumpar úr olíu sem skolað hefur verið úr olíuskipum.
◼ Net sem hafa annaðhvort slitnað upp eða verið kastað, oft nefnd drauganet, drepa um 30.000 loðseli á norðurslóð ár hvert. Talið er að fiskiskip frá Asíulöndum týni um 16 kílómetrum af netatrossum á hverri nóttu.
◼ Þegar ítölsk stjórnvöld fullyrtu að 86 af hundraði stranda Ítalíu væru hreinar sögðu umhverfisverndarsinnar að 34 af hundraði væri nærri lagi. Um 70 af hundraði borga við Miðjarðarhafsströnd hleypa skolpi beint út í sjó.
◼ Hinar 20.000 eyjar út af Suðaustur-Asíu hafa orðið fyrir miklum mengunarspjöllum vegna tinvinslu á grunnsævi, sprenginga og losunar úrgangs frá landi og skipum. Ýmsar dýrategundir eru nú í útrýmingarhættu af þessum sökum, kóralrif hafa skemmst og fjörur eru mengaðar fituefnum og tjöruklumpum.
◼ Brasilíska tímaritið Veja birti grein sem nefndist „Neyðaróp,“ en í henni var fjallað um mengun meðfram ströndum Brasilíu. Hana má rekja til iðnvæðingar án viðeigandi mengunarvarna og þess að skolpi er veitt beint út í sjó.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Olíumengun drepur lifandi verur í þúsundatali.
[Rétthafi]
H. Armstrong Roberts