Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g89 8.10. bls. 7-9
  • Hafið — hver getur bjargað því?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hafið — hver getur bjargað því?
  • Vaknið! – 1989
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Er þetta Guði að kenna?
  • Hafið — dýrmæt auðlind eða skolpþró veraldar?
    Vaknið! – 1989
  • Höfin
    Vaknið! – 2023
  • Hvað er maðurinn að gera jörðinni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Höfin í hættu
    Vaknið! – 1992
Sjá meira
Vaknið! – 1989
g89 8.10. bls. 7-9

Hafið — hver getur bjargað því?

HAUSTDAG einn árið 1988 stukku níu karlmenn og fjórar konur samtímis út af brú í New York. Þau féllu um 20 metra og héngu svo þar hreyfingarlaus í fjallgöngureipum og biðu. Hver var tilgangurinn? Sá að reyna að stöðva flutningapramma sem var á leið á haf út með botnfall úr holræsakerfi borgarinnar. Tilraunin mistókst því að pramminn fór einfaldlega aðra leið fram hjá mótmælendunum og losaði farm sinn í hafið með venjulegum hætti. Þeir sem köstuðu sér af brúnni voru síðan handteknir.

Margir aðrir berjast þrautseigir, en með löglegum aðferðum gegn því að úthöfin verði aldauða. Gerðir eru samningar og sáttmálar og sett ný lög. Meðal annars hafa verið sett lög sem banna losun plastefna í sjóinn. Olíuskipum hefur verið bannað að dæla olíublönduðu skolvatni í sjóinn. Sums staðar hefur tekist að hreinsa ár og strendur.

Þegar á heildina er litið hafa sigrar þó verið fáir en ósigrar margir. Umhverfisverndarmenn óttast að svo lengi sem það er ódýrara að henda sorpi í sjóinn muni sumum alltaf takast að sniðganga lög, líkt og pramminn, sem nefndur var hér á undan, komst fram hjá þeim sem ætluðu sér að stöðva hann. Því miður eru það oftast peningar og ábatasjónarmið sem ráða ferðinni. Verndun umhverfisins skilar litlum arði en kostar stórfé.

Er þetta Guði að kenna?

Tímaritið Time áleit þó mengunarvandann nógu aðkallandi til þess að bregða út af þeirri venju sinni að tilnefna „mann ársins.“ Þess í stað var hin hrjáða jörð tilnefnd „reikistjarna ársins“ í janúarmánuði síðastliðnum. Það vekur þó nokkra athygli að greinar, sem fjalla um vistkreppuna, eru stundum mjög naprar í garð Biblíunnar.

Greinin í Time hófust með tilvitnun í Prédikarann 1:4: „Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.“ „Nei, ekki að eilífu,“ sagði greinarhöfundur. „Jörðin mun í hæsta lagi geta staðið í fjóra til fimm milljarða ára í viðbót.“ Sami greinarhöfundur lét þau orð falla síðar að túlka mætti boðið til fyrstu mannlegu hjónanna um að ‚gera sér jörðina undirgefna‘ sem „boð um að nota náttúruna eftir eigin hentisemi. Útbreiðsla kristninnar, sem er almennt talin hafa rutt tækniþróun brautina, kann um leið að hafa borið með sér sáðkorn tillitslausrar misnotkunar á náttúrunni.“ Tímaritið Life gekk meira að segja svo langt að kalla loforð Biblíunnar um að ‚hinir hógværu skulu erfa jörðina‘ sem fáránlega og falska spá.

Slíkum fullyrðingum er öllum eitt sameiginlegt: Þær eru byggðar á þeirri forsendu að annaðhvort sé Guð ekki til eða hann hafi ekki innblásið Biblíuna, eða þá að hann ráði ekki yfir visku og mætti til að stýra sköpun sinni og standa við fyrirheit sín. Hvaða augum lítur þú málið? Ber það ekki vott um nokkurn hroka að draga rakalausar ályktanir af þessu tagi? Hver sá sem hefur orðið vitni að ógnarmætti og fegurð hafsins í hvassviðri hefur um leið séð óyggjandi vitnisburð fyrir því að sá sem skapaði reikistjörnuna jörð sé mjög máttugur. Viska hans birtist alls staðar í höfunum og því margbrotna lífi sem þau iða af.

Boð Guðs til mannanna um að ‚gera sér jörðina undirgefna‘ gaf þeim ekki leyfi til að spilla henni og eyðileggja. Það fól öllu heldur í sér boð um að gæta hennar og rækta. Ef boð Guðs til mannanna um að ‚gera sér jörðina undirgefna‘ merkti að við mættum gera hana að þeim sorphaugi sem við erum að breyta henni í núna, hvers vegna gaf hann þá Adam og Evu paradísargarðinn Eden sem fyrirmynd? Og hvers vegna sagði Guð manninum að ‚yrkja hana og gæta hennar‘ með því að færa út mörk paradísar og rækta upp þau svæði þar sem uxu ‚þyrnar og þistlar‘? — 1. Mósebók 2:15; 3:18.

Í Biblíunni hefur um aldaraðir staðið athyglisverður spádómur sem getur ekki átt við aðra kynslóð en okkar sem er að eyðileggja jörðina. Þar segir að Jehóva Guð ætli „að eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:18) Aðrir spádómar Biblíunnar gefa til kynna að sá tími sé nálægur.

Sumir sem saka Guð um mengunina halda því fram að maðurinn sjálfur sé eina vonin. Heilbrigð skynsemi segir okkur að þar sé verið að snúa hlutunum við — að maðurinn beri sökina og að lausn vandans sé ekki á hans færi. Það er þó engin nýlunda að Guði sé kennt um það sem miður fer. Orðskviðirnir 19:3 afhjúpuðu endur fyrir löngu þetta skammsýna viðhorf manna: „Sumt fólk eyðileggur sjálft sig með heimskulegu hátterni sínu og kennir svo Drottni um.“ — Today’s English Version.

Það umsjónarhlutverk, sem Guð fól manninum í Eden fyrir um það bil 6000 árum, er ekki úr gildi fallið. Sérhver nútímamaður, sem virðir skapara sinn, getur sýnt það með því að virða handaverk hans í stað þess að menga umhverfi sitt og hirða ekki um afleiðingarnar. Öll getum við stuðlað að því að halda hafinu hreinu. (Sjá tillögur hér að neðan.) Því miður er heimsskipan okkar þannig uppbyggð að hver sá sem vill komast algerlega hjá því að valda mengunarspjöllum á jörðinni yrði að gerast einsetumaður fjarri mannabyggðum. Þeir sem vilja líkja eftir Jesú eiga ekki kost á slíku því að þeir hafa þjónustu að inna af hendi meðal manna. — Matteus 28:19, 20.

Einasta vonin um að endi verði bundinn á mengun hafsins er því ekki bundin mönnum heldur Guði. Loforð hans stinga mjög í stúf við endurtekin mistök mannsins, því að hann hefur aldrei brugðist því að standa við eitt einasta af þeim. Þess vegna getum við látið eftirfarandi orð Biblíunnar hughreysta okkur: „Þú, [Jehóva], þú einn ert [Jehóva]! Þú hefir skapað himininn, himnanna himna og allan þeirra her, jörðina og allt, sem á henni er, hafið og allt, sem í því er, og þú gefur því öllu líf.“ — Nehemía 9:6.

Innan skamms munu jörðin og höfin endurheimta fyrri fegurð sína. Já, hið „dimmbláa, djúpa haf“ mun ólga áfram — iðandi af lífi að eilífu. Skaparinn mun sjá til þess.

[Rammi á blaðsíðu 9]

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Þannig má sýna hafinu virðingu:

◼ Þegar þú ert á báti gildir þessi einfalda regla: Taktu heim með þér allt sem þú komst með. Gættu sérstaklega að alls konar plastumbúðum. Reyndu að missa sem minnst af fiskilínu. Helltu ekki vélarolíu í sjóinn heldur gakktu frá henni með öruggum hætti á landi.

◼ Sama regla gildir í fjörunni. Reyndu að hafa auga með plasthlutum sem þú hafðir með þér — matarpokum, einnota umbúðum, plastáhöldum og öðru slíku. Hafðu hugfast að allt slíkt getur hæglega fokið frá þér ef ekki er farg á því. Líttu vandlega í kringum þig áður en þú yfirgefur svæðið og taktu með þér allt sorp.

◼ Fylgdu sömu reglu þegar þú siglir eða veiðir á vötnum og ám eða færð þér hressingu á bakkanum. Mundu að það er rangt í sjálfu sér að menga ána. Auk þess getur það sem þú hendir í ána borist út í sjó og valdið þar meira tjóni.

◼ Fylgdu öllum settum reglum um losun úrgangsefna og endurnýtingu.

◼ Notaðu ekki meiri sápu en þú þarft þegar þú þværð föt eða leirtau.

◼ Vatn er nauðsynlegt öllu sem lifir, líkt og loftið. Sýndu því virðingu og mengaðu það ekki.

[Mynd á blaðsíðu 8]

„Hingað skalt þú komast og ekki lengra.“ — Jobsbók 38:11.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila