Heimilislaus börn — hver á sökina?
Eftir fréttaritara Vaknið! í Brasilíu
KVÖLD eitt fer Francisco með konu sína og börn á veitingahús sem selur pitsur. Drengur, sóðalega til fara, býðst til að gæta bifreiðarinnar á bílastæðinu meðan fjölskyldan matast. Þegar Francisco og fjölskylda hans yfirgefa veitingahúsið réttir drengurinn ákafur fram höndina til að taka við fáeinum skildingum fyrir þjónustu sína. Börn eins og hann reyna að afla sér viðurværis á götum úti langt fram á kvöld. Þau eru ekkert að flýta sér heim því að þau eiga heima á götunni.
HEIMILISLAUS börn eru skoðuð sem afhrak þjóðfélagsins og hafa verið nefnd „einskis manns börn“ eða „krakkar sem kastað er á glæ.“ Fjöldinn er óhugnanlegur — ef til vill 40 milljónir. Nákvæm tala liggur ekki á lausu. Því miður eru þó allir sérfræðingar sammála um að vandamálið fari ört versnandi um allan heim, einkum í Rómönsku Ameríku. Sú sjón að sjá heimilislaus börn hnipra sig saman í dyragættum eða betla á götum úti er svo ömurleg að þjóðfélagið breytir þeim í ópersónulegar talnaskýrslur, yppir öxlum og heldur áfram sínum daglegu störfum. En þjóðfélagið hefur ekki lengur efni á því. Samkvæmt upplýsingum frá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna nota 60 af hundraði heimilislausra barna frá 8 til 17 ára skynvilluefni, 40 af hundraði neyta áfengis, 16 af hundraði eru þrælar fíkniefna og 92 af hundraði reykja. Og þar eð þau ráða ekki yfir neinni kunnáttu, sem kemur að gagni í atvinnulífinu, draga þau oft fram lífið á betli, þjófnaði eða vændi. Þau alast upp sem „einskis manns börn“ og eiga á hættu að verða afbrotamenn, og afbrotamenn ógna öryggi samfélagsins.
Brasilíska dagblaðið O Estado de São Paulo flutti þessa frétt af óaldarflokki heimilislausra barna: „Þau eiga enga fjölskyldu, enga ættingja og enga framtíðarvon. Þau lifa hvern dag eins og hann væri sá síðasti. . . . Börnin . . . láta engan tíma fara til spillis: Á fáeinum sekúndum hrifsa þau armbandsúr af unglingi, slíta hálsfesti af konu eða gera atlögu að vasa gamals manns. Þau bíða ekki heldur boðanna að hverfa í mannfjöldann. Kynlífið hefst snemma meðal . . . barnanna. Ellefu ára stúlkur og tólf ára piltar byrja að vera saman og slíta svo ástarsambandinu eftir einn eða tvo mánuði, jafnléttilega og til þess var stofnað.“
Hvers vegna þau eiga heima á götunni
Það er ekki auðvelt að hjálpa heimilislausum börnum. Í skýrslu einni sagði að 30 af hundraði götubarnanna þyrðu ekki að gefa yfirvöldum nokkrar upplýsingar um uppruna sinn, ekki einu sinni að segja til nafns. En hvers vegna eiga þau heima á götunni? Ætli það stafi af sjálfstæðislöngun? Sú var ástæðan hjá brasilískum pilti sem sagðist ekki vilja fara heim aftur vegna þess að faðir hans vildi ekki leyfa honum að gera það sem honum sýndist. Mexíkanska dagblaðið El Universal segir þó meginástæðuna fyrir hinum mikla fjölda götubarna vera þá að feður þeirra hafi yfirgefið fjölskylduna. Því má segja að hnignun hjónabandsins sé ein af meginorsökunum fyrir því hve götubörnunum hefur fjölgað.
Þar við bætist að sumir foreldrar sýna litla ábyrgðartilfinningu gagnvart börnum sínum, misþyrma þeim, misnota kynferðislega, reka á dyr eða hreinlega láta eins og þau séu ekki til. Barni, sem hefur verið vanrækt eða misþyrmt, finnst því stundum að það sé betur sett eitt saman, jafnvel á götunni.
En börn þarfnast ástar, umhyggju og handleiðslu. James Grant, einn af framkvæmdastjórum Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, lýsti því með vel völdum orðum sem höfð voru eftir honum í ritstjórnargrein í dagblaðinu Latin America Daily Post undir yfirskriftinni „Börn og framtíðin“. Þar segir: „Níutíu af hundraði af heilafrumum barna hafa tengst þegar þau hafa náð þriggja eða fjögurra ára aldri, og líkamsþroski hefur náð því stigi að lífsmynstur einstaklingsins er að miklu leyti mótað. Börnin hafa því sterka þörf fyrir vernd þessi fyrstu æviár, bæði til að verja rétt þeirra til að ná eðlilegum þroska og eins til að sem mest sé hlúð að þroska uppvaxandi fólks þannig að það geti stuðlað í ríkari mæli að velferð fjölskyldna sinna og þjóða.“
Margir eru því uggandi og kenna bágum efnahag, stjórnvöldum eða almenningi um að heimilislaus börn skuli vera til. Í sömu ritstjórnargrein sagði enn fremur: „Málstaður mannúðarsinna eða efnahagssinna fyrir því að ‚fjárfesta í börnum‘ hefur hvorugur skilað miklu. . . . ‚Efnahagsaðgerðir‘ hafa oft falist í því að dregið hefur verið úr niðurgreiðslum á matvælum og daglegum nauðsynjum. . . . Þegar slíkur niðurskurður leggst ofan á vaxandi atvinnuleysi og dvínandi rauntekjur kemur samdráttur efnahagslífsins verst niður á þeim sem síst geta borið hann — fátækustu fjölskyldunum og börnum þeirra.“
Enginn vafi leikur á að bágur efnahagur margra ríkja er enn ein ástæðan fyrir því að heimilislausum börnum fer fjölgandi. Foreldrar ýta börnum sínum út á götu svo að þau geti aflað sér einhvers með hvaða ráðum sem þeim detta í hug. En hvers vegna er svona erfitt að leysa þetta vandamál?