Heimilislaus börn — er til einhver lausn?
FÓLK sem lætur sér annt um náunga sinn vill ekki gefast upp, rétt eins og ekkert sé hægt að gera til að hjálpa heimilislausum börnum. Það gerir sér ljóst að götubörnin þurfa meira en þak yfir höfuðið. Börn þrífast þegar þau hafa hugarfrið, sjálfstraust, heilbrigði og eitthvað skynsamlegt og gagnlegt fyrir stafni. Fórnfúsir karlar og konur bjóða sig fúslega fram í þágu hinna heimilislausu og það er hrósunarvert. En þrátt fyrir allt sem þau leggja á sig er vandamálið fjarri því að vera leyst.
Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að leysa þetta vandamál er sú að núverandi heimsskipan viðheldur því ástandi sem er rót vandans. Þetta er eins og biluð bifreið sem er ekki lengur viðgerðarhæf. Ættum við ekki að vera raunsæ og horfast í augu við að sköpunargáfa manna ein sér nægir ekki til að byggja upp réttlátt þjóðfélag?
Til allrar hamingju er breyting þó möguleg, þótt ekki sé af mannavöldum. Aðeins alvaldur Guð ræður yfir nægri visku og mætti til að ráða niðurlögum alls þess sem skaðlegt er á jörðinni. Orð hans, Biblían, segir okkur frá himneskri stjórn, Guðsríki, og lýsir því hvernig hún muni fullnægja þrá mannsins eftir réttlátum heimi hér á jörð. — Daníel 2:44.
Guð lætur sér annt um okkur
Heldur þú að Guð hafi mátt til þess að þurrka út núverandi heimsskipan og koma á nýjum lífsháttum? Ef svo er skaltu muna að málið snýst ekki aðeins um hjálpræði manna heldur fyrst og fremst nafn Jehóva Guðs. Hann er skapari alls, besta fordæmið um reglufestu og stundvísi og fullvissar okkur um að hann muni á sínum tíma og á sinn hátt láta til skarar skríða fyrir milligöngu ríkis síns. Þetta ríki er ekki eitthvað óljóst og þokukennt heldur himnesk stjórn, fullfær um að svara þörfum mannkyns með styrkri yfirumsjón og markvissri fræðslu. — Jesaja 48:17, 18.
Heimilislaus börn geta sótt hughreystingu í orð Davíðs í Sálmi 27:10: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ Það er líka uppörvandi að vita að lág staða í heiminum er engin hindrun í vegi þess að menn geti fengið að kynnast vilja Guðs. Í Orðskviðunum 22:2 stendur: „Ríkur og fátækur hittast, [Jehóva] skóp þá alla saman.“ Já, hinir bágstöddu geta, ef þeir eru einlægir, treyst að Jehóva Guð sé fús að hjálpa þeim. — Sálmur 10:14, 17.
Jehóva hefur áhuga á velferð okkar og veit hvernig á að fullnægja réttmætum löngunum okkar. Einu sinni sagði hann við Ísraelsmenn fyrir munn spámannsins Jesaja: „Sú fasta, sem mér líkar, . . . er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðalausan mann, að þú þá klæðir hann.“ (Jesaja 58:6, 7) Þetta er það réttlæti og jafnrétti sem Guð mun koma á fyrir milligöngu ríki síns. Engum verður sýnd fyrirlitning eða látið eins og hann sé ekki til. Sálmur 145:19 segir okkur: „Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.“ Kærleikur til Guðs og náungans mun tengja menn sterkum böndum og þar af leiðandi verða engin heimilislaus börn til. Enginn verður yfirgefinn til að spjara sig sem best hann getur!
Mun ófullkomleiki manna standa í vegi fyrir tilgangi Guðs?
Nei, tilhneigingar mannsins til þess sem illt er munu ekki fá að standa í vegi fyrir því að sá tilgangur Jehóva rætist að breyta jörðinni í paradís unaðarins. Þeir sem fá þau sérréttindi að lifa í nýjum heimi Guðs, annaðhvort með því að lifa af stríðið við Harmagedón, sem Biblían segir frá, eða með því að rísa upp frá dauðum til nýs lífs á jörðu, verða hvattir til að gera sitt allra besta. — Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 16:14, 16.
Engum mun finnast starf sitt innihaldslaust og allir fá laun erfiðis síns. Taktu eftir fyrirheiti Guðs: „Eigi munu þeir reisa og aðrir í búa, eigi munu þeir planta og aðrir eta, því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna, og mínir útvöldu skulu sjálfir njóta handaverka sinna. Eigi munu þeir erfiða til ónýtis og eigi börn geta til skammlífis, því að þeir eru kynslóð manna, er [Jehóva] hefir blessað, og niðjar þeirra verða hjá þeim.“ (Jesaja 65:22, 23) Myndir þú og fjölskylda þín ekki þiggja það að sjá þessi orð rætast? Þá verður ekki hungursneyð, fátækt, atvinnuleysi eða heimilislaus börn!
Enginn vafi leikur á að þeir sem eiga við bágindi að stríða núna, svo sem heimilislaus börn, munu meta mjög mikils þá blessun að geta átt þægilegt heimili og tilheyra hamingjusamri fjölskyldu. Eins og við lesum í Jesaja 65:17: „Hins fyrra skal ekki minnst verða, og það skal engum í hug koma.“ Þeir sem þá lifa munu uppgötva að bág lífsskilyrði eru eilíflega horfin og að menn allra þjóða, tungna og kynþátta vinna saman í ástríku bræðralagi. Fjölskyldur, sem lifa þá tíma, munu vafalaust halda áfram að gefa Guði dýrð. Sálmur 37:11 segir um þessa jarðnesku paradís: „Hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“
Hvernig getur þú búið þig undir framtíðina?
Nú þegar er hægt að afla sér þekkingar sem veitir líf og rækta með sér æskilega eiginleika svo sem ástúð og góðvild. Hvernig? Jehóva elskar mannkynið og ‚dregur‘ fólk til sonar síns, Jesú Krists, með því að láta það kynnast orði sínu og þjónum sínum. (Jóhannes 6:44) Hann á sér líka skipulag á jörð sem rekur umfangsmikið fræðslustarf til að hjálpa fólki að gera vilja Guðs, þannig að það geti hlakkað til eilífs lífs, hamingju og lífsfyllingar. Fagnaðarerindið um Guðsríki er einnig prédikað fólki í nauðum. (Matteus 24:14) Orð Guðs segir: „Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.“ (Orðskviðirnir 14:21) Það er uppörvandi að vita að jafnvel hinir verst settu geta nálgast Guð ef þeir gera það af réttu tilefni. Sálmaritarinn skrifar: „Ég er þjáður og snauður, hraða þér til mín, ó Guð. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, dvel eigi [Jehóva]!“ — Sálmur 70:6.
Já, orð Guðs getur gefið þér sanna framtíðarvon. Þegar minnst er á „von“ í daglegu tali er ekki alltaf um að ræða örugga vissu. Í Brasilíu er oft sagt „A esperança é a última que morre“ sem svarar nokkurn veginn til máltækisins „Lengi væntir vonin.“ Hugmyndin er sú að fólk skuli halda í vonina jafnvel þótt lítil ástæða virðist til þess. Ritningin gefur okkur aftur á móti haldgóðar ástæður fyrir því að hafa sterka trú á Guð og fullt traust til fyrirheita hans. Við lesum í Rómverjabréfinu 10:11: „Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða.“ Sá sem byggir von sína á Biblíunni verður ekki fyrir vonbrigðum. Undur jarðar eru raunveruleg og bera vitni um visku Jehóva og kærleika, og eins gera uppfylltir biblíuspádómar þér kleift að hafa jákvæð viðhorf og sanna, raunhæfa framtíðarvon. — Rómverjabréfið 15:13.
Guðsríki er eina raunverulega launsin á vanda heimilislausra barna, já, fyrir alla sem elska réttlætið. Sá sem aflar sér núna nákvæmrar þekkingar á Biblíunni mun geta notið hamingju og eilífs lífs í nýjum heimi Guðs. Það er engin óskhyggja að trúa því að þessi loforð rætist. Eins og Orðskviðirnir 11:19 segja: „Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs.“
[Rammi á blaðsíðu 19]
Bráðabirgðalausn?
Það er erfitt að ganga ósnortinn fram hjá umkomulausu barni með útrétta hönd. Margir vilja hjálpa, en hvað á að gera? Sumir reyna að friða samviskuna með því að leggja nokkra smápeninga í lófa barnsins og greikka svo sporið. Líkurnar á því að ölmusugjöfin verði notuð fyrir mat eða húsaskjóli eru þó litlar. Líklegra er að féð verði notað til kaupa á fíkniefnum eða áfengi. Margir vilja því frekar styðja áætlanir yfirvalda sem þeir telja munu geta hjálpað heimilislausum börnum. Sumir telja að það besta, sem hægt sé að gera fyrir heimilislaust barn, sé að segja því frá hvar og hvernig það geti fengið hjálp frá yfirvöldum. Þannig reyna margir að bæta það samfélag sem þeir búa í.
[Mynd á blaðsíðu 17]
„Eigi munu þeir planta og aðrir eta.“ — Jesaja 65:22.
[Rétthafi]
Ljósmynd: FAO
[Mynd á blaðsíðu 18]
„Því að aldur fólks míns mun vera sem aldur trjánna.“ — Jesaja 65:22.