Forneðlurnar ólíkar að útliti og stærð
AF ÖLLUM útdauðum lífverutegundum hafa fáar örvað ímyndunarafl mannsins meira en forneðlurnar. Oft ímynda menn sér að þær hafi verið tröllauknar að stærð og óhugnanlegar í útliti. Þegar nafnið Dinosauria var myndað af tveim grískum orðum, sem merkja „hræðileg eðla,“ höfðu einungis fundist steingerðar leifar af stórum dýrum. Þess vegna ímynduðu menn sér þessi dýr sem risastór og óhugnanleg skrímsli.
Sum af skriðdýrum fortíðarinnar voru líka tröllaukin og ógnvekjandi í útliti. Trúlega vógu þau yfir tífalt meira en stór afríkufíll. Hins vegar hafa steingervingafræðingar smám saman fundið bein margra smávaxnari forneðla. Sum voru á stærð við asna og sum ekki miklu stærri en hæna! Við skulum nú virða fyrir okkur fáein af þessum athyglisverðu skriðdýrum fortíðar.
Skriðdýr sem flugu
Af hinum forvitnilegu skriðdýrum fortíðar má nefna flugeðlurnar (pterosauria). Þær tilheyrðu þó ekki sama flokki og forneðlurnar og voru ekki heldur fuglar. Þetta voru fleyg skriðdýr sem falla í sérflokk meðal annarra skriðdýra svo sem forneðla og krókódíla. Sumar þeirra höfðu upp í 8 metra vænghaf. Árið 1975 fundust í Texas leifar af flugeðlu sem benda til að sumar hafi haft yfir 15 metra vænghaf. Þetta eru trúlega stærstu dýr sem flogið hafa.
Flugeðlurnar voru með tennur, hauskúpu, mjaðmagrind og afturfætur líkt og skriðdýr en líktust að engu leyti risaeðlunum. Og þótt þær hafi líkst fugli með stífum vængjum voru þær mjög ólíkar eiginlegum fuglum. Líkt og fuglarnir voru flugeðlurnar með hol bein og fá hreyfanleg liðamót í vængjum og ökklum. Fuglsvængur er hins vegar með fjöðrum en ekki flughúð eins og hjá flugeðlunum. Og fjórði fingurinn í framlimum flugeðlunnar var langur og studdi vænghúðina, en hjá fuglum er það annar fingurinn sem veitir vængnum mestan styrk.
Fleglarnir
Fleglarnir (ornithiscia) voru annar af tveim meginflokkum skriðdýra sem teljast til forneðlanna. Hjá fleglum er mjaðmabyggingin lík og hjá fuglum, aðeins miklu stærri. Sumir voru frekar smágerðir, aðrir tröllslegir vexti. Grænskeglan (ignanodon) var allt upp í 9 metrar á lengd. Beinagrindur nokkurra gerða af andeðlum (hadrosaurus) sýna skolta líka andarnefi með fjölmörgum tönnum. Dýrin gengu eða hlupu á tveim fótum og gátu verið allt að 10 metrar að lengd.
Kambeðlur (stegosaurus) voru fleglar með stórar beinplötur sem stóðu út í loftið eftir bakinu endilöngu. Þær gengu á fjórum fótum og voru um 6 metrar á lengd og um 2,4 metrar á hæð um lendarnar. Nýlega hefur sú hugmynd komið fram að beinplöturnar á bakinu hafi ekki aðeins verið varnartæki heldur einnig hluti af kælikerfi líkamans. Afturfæturnir voru stórvaxnir og klunnalegir en framfæturnir smærri. Skepnan bar því smátt höfuðið nærri jörðu. Á halanum stóðu langir beingaddar út í loftið.
Horneðlur (ceratopsia) töldust einnig til fleglanna og voru þær útbreiddar um alla jörðina. Þær voru á bilinu 1,8 til 8 metrar á lengd. Horneðlunni svipaði nokkuð til afríska flóðhestsins en var brynvarin eins og skriðdreki með stóran útvöxt úr hauskúpunni sem myndaði skjöld yfir hálsinn. Önnur tegund, nashyrningseðlan (triceratops), sem hafði þrjú horn, var algeng í heimi forneðlanna. Hornin tvö yfir augunum gátu verið hátt í einn metra á lengd. Fjölmargir steingervingar nashyrningseðlunnar hafa fundist í Red Deer River-dalnum í Alberta í Kanada.
Eðlungarnir — tröll í heimi forneðlanna
Annar flokkur forneðlanna var eðlungarnir (saurischia) með mjaðmagrind líka eðlum þótt mun stærri væru. Þetta voru sannkallaðar risaeðlur — bæði stórar og ógnvekjandi á að líta. Í þeirra hópi var þórseðlan (apatosaurus, áður nefnd brontosaurus), jurtaæta sem gekk á fjórum fótum. Hún gat orðið 21 metri á lengd og er talin hafa vegið 30 tonn. Þessar forneðlur hafa verið grafnar úr jörð í Norður-Ameríku og Evrópu.
Þórseðlubróðir (diplodocus) var ekki smávaxnari. Hann hafði fjóra fætur en líktist meira snáki í lögun með sínum langa hálsi og hala. Hann er lengsta forneðla sem fundist hefur, um 27 metrar á lengd, en eitthvað léttari en þórseðlan. Þórseðlubróðir hefur fundist í Norður-Ameríku og var með nasirnar ofan á trýninu þannig að hann gat haft höfuðið nánast í kaf í vatni.
Og þá má ekki gleyma forneðlunni sem nefnd hefur verið finngálkn (brachiosaurus). Beinagrind hennar fannst í Tansaníu og mældist 21 metri á lengd. Talið er að hún hafi getað vegið yfir 85 tonn. Hún var um 12 metrar á hæð og búkurinn hallaði aftur að halanum, ekki ósvipað og gíraffi.
Árið 1985 var grafinn úr jörð óvenjustór, steingerður hryggur í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum. Forstöðumaður náttúrusögusafnsins í Nýju-Mexíkó kallaði hann skjálftaeðlu (seismosaurus). Skepnan er talin hafa verið um 30 metrar á lengd og ef til vill vegið um 100 tonn!
Hin grimmdarlega grameðla (tyrannosaurus rex) var um þriggja metra há um lendarnar. Hún gat verið um 6 metrar á hæð þegar hún stóð. Hún var hér um bil 12 metrar á lengd. Höfuðið var allt að 1,2 metrar á lengd og í stórum kjaftinum voru um 15 sentimetra langar, keilulaga tennur. Afturfæturnir voru stórir og klunnalegir en framfæturnir afar smáir. Hún var með gríðarstóran hala líkt og eðla. Menn telja nú að grameðlan hafi ekki gengið upprétt heldur haldið búknum hér um bil láréttum og notað halann til að halda jafnvægi.
Sjónarsviðið breytist
Af steingervingunum er augljóst að forneðlurnar lifðu út um alla jörðina í landslagi sem nú er löngu horfið. Þessar furðulegu skepnur hlutu sömu örlög og svo margar aðrar tegundir jurta og dýra — þær dóu út. Steingervingafræðingurinn D. A. Russell hefur þetta að segja um það hvenær það gerðist: „Því miður eru núverandi aðferðir til að tímasetja atburði, sem gerðust fyrir svona löngu, fremur ónákvæmar.“
Hvað kom fyrir forneðlurnar? Hvað segir skyndileg tilkoma þeirra og skyndilegur aldauði okkur? Vekur tilvist forneðlanna efasemdir um að sum undirstöðuatriði þróunarkenningar Darwins séu rétt? Við munum nú skoða þessar spurningar í greininni sem á eftir fer.
[Skýringarmynd á blaðsíðu 8, 9]
[Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
9 metrar
6 metrar
3 metrar