Hvað kom fyrir forneðlurnar?
„STEINGERVINGAFRÆÐI er sú fræðigrein sem fæst við steingervinga og steingervingar eru menjar lífs á liðnum öldum.“ En eins og steingervingafræðingur sagði er þetta „vísindagrein sem einkennist mjög af þrætum og óvissu.“ Það kemur berlega í ljós viðvíkjandi forneðlunum. Vísindamaður við Princeton-háskóla, G. L. Jepson að nafni, telur upp nokkrar af þeim getgátum sem slegið hefur verið fram um örlög þeirra:
„Mishæfir rithöfundar hafa slegið því fram að forneðlurnar hafi horfið vegna loftslagsbreytinga . . . eða vegna þess að möguleikar til fæðuöflunar hafi breyst. . . . Aðrir hafa kennt sjúkdómum eða sníkjudýrum um, . . . breytingum á loftþrýstingi eða samsetningu andrúmslofts, eitruðum lofttegundum, ryki frá eldgosum, of miklu súrefni frá plöntum, loftsteinum, halastjörnum, að smá spendýr, sem átu egg, hafi þurrausið genamengið, geimgeislun, umpólun jarðar, flóðum, landreki, . . . uppþornun mýra eða vatnasvæða, sólblettum.“ — The Riddle of the Dinosaur.
Ljóst er af slíkum getgátum að vísindamenn geta ekki með nokkurri vissu svarað þeirri spurningu hvað kom fyrir forneðlurnar.
Hamfarakenningin
Ein af nýjustu kenningunum er smíð feðganna Luis og Walter Alvarez. Walter Alvarez uppgötvaði forvitnilegt, þunnt, rautt leirlag milli tveggja kalksteinslaga í bergmyndun fyrir utan borgina Gubbio á Mið-Ítalíu. Í neðra kalksteinslaginu var mikið af steingervingum en nánast ekkert í því efra. Jarðfræðingar drógu af því þá ályktun að lífverurnar hefðu skyndilega þurrkast út og að hið þunna, rauða leirlag stæði í einhverju sambandi við það.
Efnagreining leirlagsins leiddi í ljós óvenjuhátt hlutfall málmsins iridíum, eða þrítugfalt hærra en almennt er að finna í bergi. Jarðfræðingar vissu að í þessum mæli gæti þetta sjaldgæfa frumefni aðeins verið komið innan úr kjarna jarðar eða utan úr geimnum. Þeir drógu þá ályktun að smástirni hefði rekist á jörðina, valdið aldauða forneðlanna og skilið eftir iridíumlagið.
Eftir að iridíumauðugi leirinn fannst við Gubbio fundust áþekk jarðlög víðar um jörðina. Styrkir það kenninguna um smástirnið? Vísindamenn eru mistrúaðir á það, en eins og bókin The Riddle of the Dinosaurs viðurkennir blés kenning Alvarezar „nýju lífi í rannsóknirnar á þróun tegundanna og aldauða.“ Og steingervingafræðingurinn Stephen Jay Gould viðurkennir að hún gæti dregið úr „mikilvægi samkeppninnar milli tegundanna.“
Rithöfundur, sem skrifar um vísindi, segir um þessa nýju kenningu og aldauða forneðlanna sem virðist hafa verið skyndilegur: „Þetta gæti raskað grundvelli þróunarlíffræðinnar og vakið efasemdir um hinar núverandi hugmyndir um náttúruval.“
Vísindamaðurinn David Jablonski við University of Arizona segir að ‚aldauði margra jurta og dýra hafi verið skyndilegur og sérkennilegur. Stórtækur aldauði er ekki bara samanlögð áhrif hægfara útrýmingar. Eitthvað óvenjulegt gerðist.‘ Tilkoma þeirra var einnig skyndileg. Tímaritið Scientific American segir: „Skyndileg tilkoma beggja undirættbálka flugeðlanna, án nokkurra augljósra forfeðra, er dæmigerð fyrir steingervingaskrána.“ Svo er einnig um forneðlurnar. Fremur skyndileg tilkoma þeirra og aldauði stingur í stúf við hið almenna viðhorf um hægfara þróun.
Aldursgreining forneðlanna
Forneðlubein finnast nær eingöngu í jarðlögum fyrir neðan jarðlög með mannvistarleifum, þannig að margir telja þær hafa verið uppi áður en maðurinn kom til sögunnar. Jarðfræðingar kalla þetta tímabil miðlífsöld og deila henni niður í krítar-, júra- og tríastíma. Hvert þessara tímabila er talið hafa verið tugir milljóna ára. En hefur það verið staðfest með nokkurri vissu?
Ein sú aðferð, sem notuð er til að aldursgreina steingervinga, er nefnd kolefnisaðferðin. Þessi aldursgreiningaraðferð byggist á því að mælt er hve mikið af geislavirku kolefni-14 hefur sundrast síðan lífveran dó. „Þegar lífvera deyr tekur hún ekki lengur til sín nýtt koldíoxíð úr umhverfi sínu og hlutfall hinnar geislavirku samsætu minnkar með tímanum eftir því sem hún sundrast,“ segir Science and Technology Illustrated.
En þessi mæliaðferð hefur sína annmarka. Í fyrsta lagi er geislavirkni steingervings, sem talinn er vera um 50.000 ára gamall, svo lítil að hún er vart mælanleg. Í öðru lagi er geislavirkni, þótt sýnin séu yngri, orðin svo lítil að það er eftir sem áður afar erfitt að mæla hana nákvæmlega. Í þriðja lagi geta vísindamenn mælt núverandi myndunarhraða geislavirks kolefnis, en þeir geta hins vegar með engum ráðum mælt hve hátt hlutfall þess var í fjarlægri fortíð.
Hvort heldur vísindamenn nota kolefnisaðferðina til að aldursgreina steingervinga eða aðrar aðferðir, svo sem mælingar á sundrun geislavirks kalíums, úraníums eða þóríums til að aldursgreina berg, geta þeir með engum ráðum fullyrt hvert var upprunalegt hlutfall þessara frumefna á liðnum öldum. Því segir Melvin A. Cook, prófessor í málmfræði: „Við getum einungis getið okkur til um styrkleika þeirra [geislavirku efnanna] og aldursgreiningarnar eru því aldrei nákvæmari en þær ágiskanir.“ Rétt er að hafa það í huga með tilliti til þess að flóðið á dögum Nóa, fyrir liðlega 4300 árum, olli gífurlegum breytingum á loftslagi jarðar.
Jarðfræðingarnir Charles Officer og Charles Drake við Dartmouth College varpa fram enn frekari efasemdum um nákvæmni aldursgreininga sem byggja á geislavirkum efnum. Þeir segja: „Við teljum að iridíum og önnur tengd frumefni hafi ekki sest til á augabragði . . . heldur hafi aðstreymi þeirra verið mikið og breytileg á tiltölulega stuttu, jarðsögulegu tímabili af stærðargráðunni 10.000 til 100.000 ár.“ Þeir halda því fram að landrek og hreyfingar meginlandanna hafi haft í för með sér mikið umrót um allan hnöttinn, valdið eldgosum, lokað fyrir sólarljós og mengað andrúmsloftið. Slík umturnun gæti auðvitað breytt hlutföllum geislavirkra efna og þar með skekkt gang geislavirkniklukknanna.
Sköpunarsagan og forneðlurnar
Enda þótt mælingar byggðar á sundrun geislavirkra efna sé athyglisverð hugmynd byggjast þær eftir sem áður á ágiskunum og ósannanlegum forsendum. Sköpunarsaga Biblíunnar í 1. kafla 1. Mósebókar greinir aftur á móti einfaldlega frá röð sköpunarinnar í megindráttum. Hún gerir ráð fyrir að sköpun jarðar hafi hugsanlega getað tekið þúsundir milljóna ára og ‚sköpunardagarnir‘ sex, þegar jörðin var búin undir ábúð manna, margar árþúsundir.
Sumar horneðlur (og flugeðlur) kunna að hafa verið skapaðar á fimmta tímabilinu sem 1. Mósebók tilgreinir, þegar Biblían segir að Guð hafi myndað „fleyga fugla“ og „hin stóru lagardýr.“ Ef til vill voru aðrar tegundir forneðla skapaðar á sjötta sköpunartímabilinu. Í ljósi þess hve ríkulegur gróður var á jörðinni á þeim tíma hefur hinn mikli fjöldi risaeðla, sem hafa verið býsna átfrekar, fallið vel inn í umhverfið á þeim tíma. — 1. Mósebók 1:20-24.
Þegar forneðlurnar höfðu lokið hlutverki sínu batt Guð enda á líf þeirra. Biblían er hins vegar þögul um það hvernig hann gerði það og hvenær. Við megum vera viss um að Jehóva skapaði forneðlurnar í vissum tilgangi, jafnvel þótt við skiljum ekki til fullnustu núna hver sá tilgangur var. Þær voru engin mistök, þær komu ekki til vegna þróunar. Sú staðreynd að þær skuli birtast skyndilega í steingervingaskránni, án þess að þar finnist nokkrir forfeður sem hægt er að tengja þær við, og einnig hverfa skyndilega án þess að skilja eftir sig nokkra tengiliði við aðrar tegundir, mælir sterklega gegn þeirri skoðun að slíkar skepnur hafi þróast smám saman á milljónum ára. Steingervingaskráin styður þannig ekki þróunarkenninguna. Hún kemur þess í stað heim og saman við sköpunarsögu Biblíunnar.
[Innskot á blaðsíðu 10]
Vitnisburður steingervingaskrárinnar um forneðlurnar styður ekki þróunarkenninguna heldur sköpunarsöguna.