Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.7. bls. 12-17
  • Hjálp handa fórnarlömbum — hörmunganna í Rúanda

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hjálp handa fórnarlömbum — hörmunganna í Rúanda
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Friður og ró tekur snöggan endi
  • Þeir reyndu að hjálpa hver öðrum
  • Þeir forðuðust ættflokkahatur
  • Ólýsanlegar þjáningar
  • Skjót viðbrögð
  • Baráttan við sjúkdóma
  • Þakklátt, andlega sinnað fólk
  • Áframhaldandi hjálpar þörf
  • Trúarbrögð og stríð
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2013
  • Eigum hlut í hugguninni sem Jehóva veitir
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1997
  • Hvað er orðið um náungakærleikann?
    Vaknið! – 1999
  • Jehóva hlustaði á bænir mínar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
Sjá meira
Vaknið! – 1995
g95 8.7. bls. 12-17

Hjálp handa fórnarlömbum — hörmunganna í Rúanda

RÚANDA liggur í hjarta Afríku og hefur oft verið kallað „hið afríska Sviss.“ Gróðursældin, sem blasir við þegar flogið er yfir landið, er slík að mönnum kemur Edengarðurinn ósjálfrátt í hug. Það er engin furða að menn skuli hafa lýst Rúanda sem paradís.

Sú var tíðin að tvö tré voru gróðursett fyrir hvert eitt sem fellt var. Einn dagur á ári var helgaður trjárækt. Ávaxtatré voru gróðursett meðfram vegum. Samgöngur um landið voru góðar. Aðalvegirnir, sem tengdu höfuðborgina Kígalí og hin ýmsu héruð, voru malbikaðir. Höfuðborgin var í örum vexti. Hinn almenni verkamaður þénaði nóg til að ná endum saman.

Boðunarstarf votta Jehóva stóð líka í blóma í Rúanda. Snemma á síðasta ári voru yfir 2600 vottar önnum kafnir að bera fagnaðarerindið um Guðsríki til hinna átta milljóna landsmanna sem eru aðallega kaþólskrar trúar. (Matteus 24:14) Í marsmánuði héldu vottarnir yfir 10.000 biblíunám á heimilum manna. Og söfnuðirnir í Kígalí og nágrenni voru 15 talsins.

Farandumsjónarmaður votta Jehóva sagði: „Í nóvember 1992 þjónaði ég 18 söfnuðum. En í mars 1994 hafði þeim fjölgað í 27. Brautryðjendum (boðberum í fullu starfi) fjölgaði einnig ár frá ári.“ Laugardaginn 26. mars voru 9834 viðstaddir minningarhátíðina um dauða Krists.

En ástandið í Rúanda breyttist nánasta á einni nóttu til hins verra.a

Friður og ró tekur snöggan endi

Um klukkan 20:00 að kvöldi 6. apríl létust forsetar Rúanda og Búrúndi, sem báðir voru hútúmenn, í flugslysi í Kígalí. Um nóttina mátti heyra í lögregluflautum út um alla borgina og vegir voru lokaðir. Snemma næsta morgun tóku hermenn og menn vopnaðir sveðjum að drepa tútsímenn. Ntabana Eugène — borgarumsjónarmaður votta Jehóva í Kígalí — eiginkona hans, sonur og dóttir voru meðal þeirra fyrstu sem drepnir voru.

Evrópsk fjölskylda votta Jehóva hafði numið Biblíuna með allmörgum nágrönnum sem voru tútsíættar. Níu þessara nágranna leituðu hælis á heimili Evrópumannanna þegar óðir morðingjar fóru hús úr húsi. Á nokkrum mínútum ruddust um 40 menn inn í húsið, brutu allt og brömluðu og veltu um húsgögnum. Því miður voru tútsínágrannarnir drepnir. Hinum var leyft að forða sér þótt þeir hefðu reynt að hjálpa vinum sínum.

Manndrápin héldu áfram vikum saman. Talið er að 500.000 Rúandamenn eða fleiri hafi verið drepnir. Þúsundir, aðallega tútsímenn, áttu fótum fjör að launa. Útibússkrifstofa votta Jehóva í Saír lét bræðurna í Frakklandi vita að þörf væri á hjálpargögnum. „Við báðum þá að senda einn gám af notuðum fötum,“ sögðu fulltrúar útibúsins í Saír til skýringar. „Bræðurnir í Frakklandi hafa sent okkur fimm gáma af mestmegnis nýjum fötum og skófatnaði.“ Hinn 11. júní voru send um 65 tonn af fötum. Útibúið í Kenía sendi flóttamönnunum einnig föt og lyf ásamt Varðturninum á máli heimamanna.

Í júlí voru hersveitir undir stjórn tútsímanna, sem kalla sig Föðurlandsfylkingu Rúanda, búnar að sigra sveitir stjórnarhersins undir forystu hútúmanna. Eftir það tóku hútúmenn að flýja land hundruð þúsundum saman. Glundroðinn var alger þegar rösklega tvær milljónir Rúandamanna leituðu hælis í flóttamannabúðum sem reistar voru í flýti í grannlöndunum.

Þeir reyndu að hjálpa hver öðrum

Tveir af sex, sem unnu á þýðingaskrifstofu votta Jehóva í Kígalí, voru tútsíættar, Ananie Mbanda and Mukagisagara Denise. Hútúbræðrunum tókst að vernda þau um nokkurra vikna skeið. En í maílok 1994 voru þessir tveir vottar af tútsíættum drepnir.

Vottar Jehóva hættu eða jafnvel fórnuðu lífi sínu til að reyna að vernda kristna bræður sína af öðrum ættflokki. (Jóhannes 13:34, 35; 15:13) Sem dæmi ná nefna Mukabalisa Chantal sem er tútsíættar. Þegar Föðurlandsfylking Rúanda var að leita að hútúmönnum á leikvanginum, þar sem hún dvaldist, bað hún vinum sínum af hútúættum griða. Uppreisnarmönnunum grömdust afskipti hennar en samt sem áður hrópaði einn upp yfir sig: „Þið vottar Jehóva eru sannarlega sterkt bræðrafélag. Ykkar trú er sú besta!“

Þeir forðuðust ættflokkahatur

Ekki ber svo að skilja að vottar Jehóva séu algerlega ónæmir fyrir því ættflokkahatri sem verið hefur um aldaraðir í þessum hluta Afríku. Vottur frá Frakklandi, sem tók þátt í hjálparstarfinu, sagði: „Jafnvel kristnir bræður okkar verða að leggja hart að sér til að smitast ekki af hatrinu sem hefur stuðlað að ólýsanlegum manndrápum.

Við hittum bræður sem sáu fjölskyldur sínar brytjaðar niður fyrir augunum á sér. Ein kristin systir okkar var til dæmis ekki búin að vera gift nema tvo daga þegar maðurinn hennar var drepinn. Sumir vottar sáu börn sín og foreldra drepna. Systir, sem er núna í Úganda, sá alla fjölskyldu sína drepna, einnig eiginmann sinn. Þetta undirstrikar bara þjáningarnar, bæði hinar tilfinningalegu og líkamlegu, sem hafa snert hverja einustu fjölskyldu votta Jehóva.“

Alls voru um 400 vottar drepnir í ættflokkaátökunum. En enginn þeirra féll fyrir hendi trúbróður síns. Hins vegar drápu tútsí- og hútúmenn, sem tilheyrðu ýmist rómversk-kaþólsku kirkjunni eða kirkjudeildum mótmælenda, hver annan í þúsundatali. Eins og alkunna er taka vottar Jehóva um heim allan alls engan þátt í styrjöldum, byltingum eða öðrum slíkum átökum heimsins. — Jóhannes 17:14, 16; 18:36; Opinberunarbókin 12:9.

Ólýsanlegar þjáningar

Síðastliðið sumar fékk fólk um heim allan að sjá næstum ólýsanlegar þjáningar í myndum. Rúandískir flóttamenn sáust streyma í hundruðþúsundatali til grannlandanna þar sem þeir þurftu að búa við mjög bága hreinlætisaðstöðu. Einn af vottum Jehóva, sem fór með hjálpargögn frá Frakklandi, lýsti ástandinu eins og hann og félagar hans sáu það hinn 30. júlí.

„Hryllileg sjón blasti við okkur. Lík lágu meðfram veginum svo kílómetrum skipti. Lík voru grafin í fjöldagröfum í þúsundatali. Daunninn var ólýsanlegur á leið okkar gegnum ólgandi mannhafið og börnin léku sér innan um líkin. Þarna lágu lík foreldra með börn sem héngu lifandi á baki þeirra. Það hefur djúp áhrif á mann að sjá slíka sjón aftur og aftur. Manni finnst maður vera algerlega hjálparvana og það er ómöglegt að vera ósnortinn af þessum ólýsanlega hryllingi og eyðileggingu.“

Þegar flóttamennirnir streymdu þúsundum saman til Saír um miðjan júlí fóru vottar í Saír að landamærunum og héldu biblíuritum sínum á lofti þannig að kristnir bræður þeirra og áhugasamir gætu þekkt þá. Vottunum, sem flúðu frá Rúanda, var síðan safnað saman og farið með þá í ríkissal í Góma þar í grenndinni þar sem þeir fengu aðhlynningu. Vottar með reynslu af heilbrigðisstörfum gerðu hvað þeir gátu til að lina þjáningar sjúkra enda þótt viðeigandi lyf og aðstöðu vantaði.

Skjót viðbrögð

Föstudaginn 22. júlí barst vottum Jehóva í Frakklandi neyðarkall frá Afríku gegnum bréfsíma. Símbréfið lýsti neyð kristinna bræðra þeirra sem flúðu frá Rúanda. Það liðu ekki nema 5 til 10 mínútur frá því að bréfið barst þangað til bræðurnir ákváðu að senda flugvél með farm af hjálpargögnum. Næsta helgi var annasöm þegar unnið var ákaft að undirbúningi. Það er í sjálfu sér eftirtektarvert að það skyldu ganga jafnvel og raun bar vitni í ljósi þess að þeir höfðu enga reynslu af svona gríðarlega umfangsmiklu og nálega fyrirvaralausu hjálparstarfi.

Viðbrögðin vottanna við beiðninni um neyðaraðstoð voru afbragðsgóð. Vottar í Belgíu, Frakklandi og Sviss lögðu fram jafnvirði yfir 90.000.000 króna, og þá eru önnur lönd ótalin. Aflað var hjálpargagna, svo sem matvæla, lyfja og nauðsynlegs búnaðar, og öllu var pakkað í kassa og þeir merktir í húsakynnum votta Jehóva í Louviers í Frakklandi og í Brussel í Belgíu. Vottarnir lögðu nótt við dag til að hafa sendinguna tilbúna til flutnings til Ostend í Belgíu. Miðvikudaginn 27. júlí var flutningaþota fermd með ríflega 35 tonnum. Daginn eftir fór minni sending, aðallega lækningavörur. Tveim dögum síðar, á laugardegi, fór enn ein flugvél með meiri lækningavörur handa fórnarlömbunum.

Vottar frá Frakkland, þeirra á meðal læknir, fóru til Góma á undan stóru sendingunni. Mánudaginn 25. júlí, þegar Henri Tallet læknir kom til Góma, voru um 20 vottar látnir af völdum kóleru og fleiri dóu daglega. Flytja þurfti hjálpargögnin landleiðis um 250 kílómetra leið frá Bújúmbúra þannig að sendingin kom ekki til Góma fyrr en föstudagsmorguninn 29. júlí.

Baráttan við sjúkdóma

Á meðan höfðu um 1600 vottar og vinir þeirra þjappað sér saman á lóð litla ríkissalarins í Góma. Það var aðeins eitt salerni handa öllu þessu fólki en ekkert vatn og sáralítill matur. Nokkrir tugir manna voru smitaðir af kóleru og þeim var troðið inn í ríkissalinn. Sífellt fleiri létust.

Kólera veldur miklu vökvatapi. Augun verða glansandi og ranghvolfast síðan. Ef vökvunarmeðferð er hafin tímanlega nær sjúklingurinn sér á tveim dögum. Þess vegna var þegar í stað hafist handa við vökvunarmeðferð með þeim litlu lyfjum sem til tiltæk voru.

Bræðurnir reyndu enn fremur að einangra hina sjúku til að koma í veg fyrir að þeir smituðu aðra. Þeir könnuðu möguleikann á að flytja flóttamenn burt frá Góma þar sem ástandið var mjög slæmt. Hentugur staður fannst í grennd við Kivu-vatn, fjarri rykinu og dauninum af líkunum sem fyllti loftið.

Grafið var fyrir kömrum og strangar hreinlætisreglur settar. Meðal annars skyldu allir þvo sér um hendurnar í skál með klórvatni eftir að hafa noað kamarinn. Lögð var áhersla á að þessum reglum væri fylgt og allir fóru eftir þeim. Dauðsföllum fækkaði fljótlega.

Þegar stóra hjálpargagnasendingin kom föstudaginn 29. júlí var komið á fót litlum spítala í ríkissalnum í Góma. Um 60 tjaldbeddar voru settir upp ásamt vatnshreinsibúnaði. Enn fremur var farið með tjöld til vottanna á strönd Kivu-vatns. Á skammri stundu reistu þeir 50 tjöld í snyrtilegum, beinum röðum.

Um tíma voru um 150 vottar og vinir þeirra alvarlega veikir. Í fyrstu vikunni í ágúst voru yfir 40 þeirra látnir í Góma. En lækningavörurnar og aðstoðin barst í tæka tíð til að bjarga mörgum mannslífum og koma í veg fyrir miklar þjáningar.

Þakklátt, andlega sinnað fólk

Hinir landflótta vottar voru innilega þakklátir fyrir allt sem gert var fyrir þá. Þeir voru snortnir af kærleika kristinna bræðra sinna í öðrum löndum og skýrum vitnisburði þess að þeir tilheyrðu sannarlega alþjóðlegu bræðrafélagi.

Þrátt fyrir þrengingarnar hafa flóttamennirnir varðveitt andlegt hugarfar sitt. Haft var á orði að „þeir virtust hafa meiri áhuga á að fá andlega fæðu en efnislega hjálp, enda þótt þeir væru allslausir.“ Að fenginni beiðni voru send 5000 eintök af biblíunámsbókinni Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð á Rúandamálinu kinjarúanda til hinna ýmsu flóttamannabúða.b

Flóttamennirnir tóku sér stund til að ræða um ritningargrein daglega og skipulögðu safnaðarsamkomur. Þá voru einnig gerðar ráðstafanir til að halda uppi kennslu fyrir börnin. Kennarar notfærðu sér þessar kennslustundir til að fræða börnin um hreinlætisreglur og leggja áherslu á að lífið ylti á því að farið væri eftir þeim.

Áframhaldandi hjálpar þörf

Haft var uppi á landflótta vottum í hundraðatali annars staðar en í Góma, til dæmis í Rútshúrú. Þessum bræðrum var veitt sams konar hjálp. Hinn 31. júlí flugu sjö vottar suður frá Góma til Búkavú þar sem voru um 450 landflótta vottar. Margir þeirra voru einnig frá Búrúndí. Kólera hafði brotist út þar og aðstoð var veitt í von um að takast mætti að koma í veg fyrir dauðsföll meðal bræðranna.

Daginn eftir ferðaðist sendinefndin næstum 150 kílómetra landleiðis til Úvíra í Saír, en á þeirri leið voru um 1600 vottar á sjö stöðum, bæði frá Rúanda og Búrúndí. Þeir fengu leiðbeiningar um hvernig þeir gætu verndað sig fyrir sjúkdómum. Í skýrslu byggðri á frásögn sendinefndarinnar sagði: „Það sem gert hefur verið fram til þessa er aðeins byrjunin, og þeir 4700, sem njóta aðstoðar okkar núna, munu þarfnast frekari hjálpar um margra mánaða skeið.“

Samkvæmt fregnum voru hundruð votta snúnir aftur til Rúanda í ágúst. Farið hafði verið ránshendi um nálega öll hús og eigum stolið. Það erfiða verk blasir því við að endurbyggja hús og ríkissali.

Þjónar Guðs halda áfram að biðja ákaft fyrir þeim sem gengið hafa gegnum þessar hræðilegu þjáningar í Rúanda. Við vitum að ofbeldi getur færst í aukana eftir því sem nær dregur endalokum þessa heimskerfis. En vottar Jehóva um heim allan munu halda áfram að varðveita kristið hlutleysi sitt og sýna ósvikna umhyggju.

[Neðanmáls]

a Sjá greinina „Tragedy in Rwanda — Who Is Responsible?“ (Harmleikurinn í Rúanda — hver ber ábyrgðina?) í Varðturninum 15. desember 1994 (enskri útgáfu).

b Útgefin af Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninum í New York, Inc.

[Kort á blaðsíðu 12]

(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)

RÚANDA

Kígalí

ÚGANDA

SAÍR

Góma

Rútshúrú

Kívúvatn

Búkavú

Úvíra

BÚRÚNDÍ

Bújúmbúra

[Myndir á blaðsíðu 15]

Til vinstri: Ntabana Eugène og fjöldkylda hans voru myrt. Til hægri: Mukagisagara Denise, sem var tútsíættar, var myrt þrátt fyrir ákafar tilraunir bræðra af hútúættum til að bjarga henni.

[Myndir á blaðsíðu 16, 17]

Að ofan: Umönnun sjúkra í ríkissalnum í Góma. Að neðan til vinstri: Vottarnir létu í té yfir 35 tonn af hjálpargögnum sem send voru með flutningaþotu. Fyrir neðan: Við Kívú-vatn þangað sem vottar voru fluttir. Að neðan til hægri: Flóttamenn frá Rúanda við ríkissal í Saír.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila