Er þessi leikur fyrir þig?
„EFTIR því hvernig á það er litið er Doom annaðhvort æsilegur skotleikur, þar sem tölvuleikir ná nýjum hátindi tæknilegs fullkomleika, eða skefjalaust og gróft ofbeldi þar sem tölvuleikirnir sökkva dýpra en áður hefur gerst.“ Þannig komst Peter Lewis að orði í tölvudálknum í dagblaðinu The New York Times. Margir tölvuleikir eru reyndar illa dulið ofbeldi, blóðug manndráp eða jafnvel blygðunarlaust klám. Búist er við að einn af nýjustu leikjunum — Doom II — seljist grimmt þótt hann kosti um 4500 krónur vestanhafs. Er leikur af þessu tagi við hæfi friðelskandi kristinna manna? Lýsing Lewis hjálpar þér kannski að komast að niðurstöðu um það.
„Spilarinn er í hlutverki harðsnúins hermanns sem er staddur á einu af tunglum Mars þegar iðnaðarslys opnar dyr helvítis. . . . Hermaðurinn þarf að þræða völundarganga með lagni og kænsku . . . og berja, skjóta, steikja og saga sundur djöfla og fyrrverandi menn við nálega hvert fótmál. . . .
Það er hægur vandi að lýsa framförunum sem orðið hafa með Doom II: Fleiri djöflar, fleiri þröngir gangar, fleiri vopn og meira blóð.“
Í frásögn sinni af tölvuráðstefnu í Las Vegas í Nevada sagði dagblaðið The New York Times: „Það var greinilega margmiðlunarklámið sem þótti mesta nýlundan þetta árið . . . Það dró til sín hvað flesta ráðstefnugesti.“
Biblíuritarinn Jakob sagði: „Sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta.“ (Jakobsbréfið 3:17) Foreldrar, hafið þið skoðað nýlega hvaða tölvuleikjum börnin ykkar hafa aðgang að? Þarf að hafa fleiri orð um það?