Biblíurit mikils metin í Sovétríkjunum fyrrverandi
Eftir fréttaritara Vaknið! í Rússlandi.
Á FYRRI hluta árs 1991 heyrðu 14 lýðveldi auk Rússlands undir Sovétríkin þáverandi. Nú eru lýðveldin orðin sjálfstæð ríki. Íbúar Rússlands eru þó fleiri en íbúar hinna landanna 14 samanlagt og það er ríflega þrefalt stærra að flatarmáli en þau. Í september 1994 voru 117.276 vottar Jehóva í Sovétríkjunum fyrrverandi önnum kafnir að segja nágrönnum sínum frá sannleika Biblíunnar.
Núna eru tímaritin Varðturninn og Vaknið! prentuð mánaðarlega í stóru upplagi á rússnesku til notkunar í Sovétríkjunum fyrrverandi. Að auki er smáritum og bókum dreift þar í miklu magni. Bréf, sem skrifstofu votta Jehóva í grennd við St. Pétursborg hafa borist, sýna greinilega að fólk kann mjög vel að meta þessi biblíurit.
Litrík tímarit mikils metin
Maður frá miðhluta Síberíu skrifaði: „Fyrir algera tilviljun sá ég vinnufélaga minn með Varðturninn í höndunum. Ég bað hann að sýna mér blaðið. Fyrst renndi ég bara augum yfir litmyndirnar. Svo fór ég að lesa meira og meira . . . Ég rankaði ekki við mér fyrr en ég var ég búinn að lesa blaðið á enda. Spurningarnar í blaðinu voru áhugaverðar, lifandi og liprar.“
Annar Síberíumaður segir: „Af hendingu komst ég yfir eintak af blaði ykkar. Mig langar ekki til að skjalla ykkur, en þetta er það besta sem ég hef nokkurn tíma lesið um trúmál.“
Hjúkrunarkona frá St. Pétursborg, næststærstu borg Rússlands, skrifaði: „Kærar þakkir fyrir hina frábæru greinaröð í Vaknið! 8. janúar 1995 [júlí-september 1995 á íslensku] um útbruna. Þessar greinar leystu ekki vandamál mín en þær veittu mér þann stuðning sem ég hef verið að bíða eftir og leita að.“
Sautján ára skólanemi skrifaði: „Ég er mjög þakklátur öllum þeim sem gefa út svona frábær rit. Ég var á leið út úr kvikmyndahúsi ásamt vinum mínum þegar við sáum fáein tímarit liggjandi í tómu sæti. Við tókum þau til handargagns. . . . Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég las Varðturninn. Verður framtíðin virkilega svona? Núna er ég að lesa guðspjöllin og reyna að skilja þau. Blöðin ykkar útskýra mjög rækilega það sem Biblían segir.“
Tuttugu og sex ára karlmaður segir: „Ég er afar þakklátur fyrir greinina ‚Er sjálfsmorð lausnin?‘ í Vaknið! 8. apríl 1994 [júlí-september 1994 á íslensku]. Sjálfsmorð hefur oft hvarflað að mér vegna þunglyndistilhneigingar minnar og sjálfsfróunaráráttu. En orð Jehóva Guðs og bænir til hans hafa forðað mér frá að binda enda á líf mitt. Þessi grein styrkti trú mína á miskunn Guðs og að hann muni hjálpa mér að ráða við vandamál mín. Hann sér að ég iðrast. Hann vill að ég lifi. Ég þakka honum fyrir stuðninginn sem þessi grein veitti mér.“
Fimmtán ára stúlka sagði í sambandi við sömu grein í Vaknið!: „Þetta tímarit hefur haft mikil áhrif á líf mitt.“ Þegar ég var átta ára fór sú tilfinning að sækja á mig að enginn þarfnaðist mín. Foreldrar mínir höfðu ekki tíma til að tala við mig og ég reyndi að leysa vandamál mín upp á eigin spýtur. Ég dró mig inn í skel. Ég átti í sífelldum rifrildum við ættingja mína. Þá hvarflaði að mér að fremja sjálfsmorð. Ég er svo sannarlega ánægð að ég skyldi hitta votta Jehóva.“
Kona frá vesturhluta Rússlands segir: „Ég var einu sinni að bíða eftir strætisvagni þegar ég heyrði tal tveggja ungra manna um Biblíuna. Það vakti áhuga minn og ég gaf mig á tal við þá. Þessir ungu menn gáfu mér eintak af Varðturninum. Ég las blaðið með ánægju og áhuga og mig langar til að vita meira um Biblíuna. Ég vildi gjarnan halda sambandi við ykkur fyrir milligöngu blaðanna og mig langar til að kynnast Biblíunni og nema hana reglulega.“
Önnur rit einnig mikils metin
Ung kona frá Kákasus skrifar: „Kona kom á skrifstofuna til okkar og fór að segja okkur frá einhvers konar móti. Ég fékk áhuga á því sem hún sagði af því að hún var svo glöð og áköf. Næsta dag gaf hún mér bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð. Ég las hana með áfergju. Hún var stórfengleg. Mér leið eins og ég hefði verið að reika um í myrkri en hefði nú loksins fundið dyrnar að ljósinu. Eftir að hafa leitað óralengi fann ég svörin við öllum spurningum mínum í einni bók. Mig brestur orð til að lýsa gleði minni.“
Maður frá Mið-Asíu segir: „Ég tilheyri evangelískri kirkju. Við finnum átakanlega fyrir skorti á andlegu lesefni. Við biðjum ykkur að senda okkur sem fyrst bækur og bæklinga til náms og frekari dreifingar.“
Maður frá Armeníu í grennd við Svartahaf skrifar: „Ég las bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? og hann var eins og hressandi andblær. Loksins hef ég fundið rit sem hjálpa mér að kynnast Biblíunni. Vinsamlegast sendið mér bækur til slíks náms.“
Kona frá Síberíu segir: „Einn af vottum Jehóva heimsótti okkur og skildi eftir bókina Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Ég hef verið guðleysingi frá því að ég var í skóla en bókin varð mér hvatning til að hugleiða málið gaumgæfilega og byrja að rannsaka Biblíuna.“
Tveggja barna móðir lét í ljós þakklæti sitt fyrir þessa sömu bók um ævi Jesú Krists og sagði: „Þetta er bók sem börn geta skilið og haft gaman af. Hún vekur upp aukna löngun til að kynnast Biblíunni og lesa trúarrit. Auk þess er bókin frábærlega vel úr garði gerð.“
Á síðasta ári létu 34.608 manns í Sovétríkjunum fyrrverandi skírast niðurdýfingarskírn og sýndu þar með að þeir kynnu að meta það sem þeir voru að læra. Megi hin biblíutengdu rit, sem vottar Jehóva gefa út, fá mikla og góða dreifingu í þessum heimshluta, og megi þúsundir manna til viðbótar taka við þeim biblíusannleika sem þau innihalda.