Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.1. bls. 4-6
  • Hvers vegna margir trúa á heimsendi

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvers vegna margir trúa á heimsendi
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Biblíulegur uppruni
  • Biblían og heimsendir
  • Misskilningur á fyrstu öld
  • Aðrir þurfa líka leiðréttingu
  • Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hvenær?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Er að koma heimsendir? Segir Biblían fyrir um algera eyðingu?
    Fleiri viðfangsefni
  • Heimsslit Opinberunarbókarinnar — hver eru þau?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Fjórum spurningum um endinn svarað
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
Sjá meira
Vaknið! – 1996
g96 8.1. bls. 4-6

Hvers vegna margir trúa á heimsendi

FLESTIR fallast fúslega á að heimurinn sé í miklum nauðum. „Ég hef spurt fólk frá ýmsum heimshornum hvaða framtíðarmöguleika það telji okkur eiga,“ segir vakningarprédikarinn Billy Graham. „Flestir eru svartsýnir. . . . Orðin ‚Harmagedón‘ og ‚heimsendir‘ eru notuð æ ofan í æ til að lýsa atburðum á vettvangi heimsmálanna.“

Af hverju eru orðin „Harmagedón“ og „heimsendir“ oft notuð til að lýsa ástandinu eins og það er nú? Hvaða þýðingu hafa þau.

Biblíulegur uppruni

Biblían talar um ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ og tengir það við stað „sem á hebresku kallast Harmagedón.“ (Opinberunarbókin 16:14-16) Ensk-íslensk orðabók Arnar og Örlygs skýrir orðið „Armageddon“ (Harmagedón) sem ‚staðinn þar sem standa mun hin mikla úrslitaorrusta milli afla góðs og ills við heimsendi.‘

Opinberunarbók Biblíunnar er oft sett í samband við heimsendi, heimsslit eða veraldarumrót. Hún fjallar vissulega um eyðingu hinna illu fyrir hendi Guðs og um þúsundáraríki sonar hans, Jesú Krists. (Opinberunarbókin 19:11-16; 20:6) Grískt heiti Opinberunarbókarinnar, Apokalypsis, sem merkir „opinberun“ eða „afhjúpun,“ hefur verið tekið upp í mörg tungumál og gjarnan í annarri merkingu. Þannig skilgreinir Webster’s New Collegiate Dictionary enska útgáfu orðsins sem „yfirvofandi alheimshamfarir þar sem Guð eyðir stjórnvöldum hins illa og vekur réttláta til lífs í messíönsku ríki.“

Þegar fólk talar um heiminn og heimsástandið nú á tímum er það augljóslega undir áhrifum þess sem Biblían segir. En hvað segir Biblían eiginlega um heimsendi?

Biblían og heimsendir

Biblían spáir greinilega heimsendi. Jesús Kristur og lærisveinar hans töluðu um endalokatímann. (Matteus 13:39, 40, 49; 24:3; 2. Tímóteusarbréf 3:1; 2. Pétursbréf 3:3) En þeir áttu ekki við að jörðinni sjálfri yrði eytt. Biblían segir um hina bókstaflegu jörð: „Hún haggast eigi um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Orðin „endir veraldar“ merkja einfaldlega „endalok heimskerfisins.“ — New World Translation.

Pétur postuli talaði um heiminn fyrir flóðið á dögum Nóa og sagði: „Gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var [heim óguðlegra manna], svo að hann fórst.“ Pétur segir síðan að núverandi heimur ‚varðveitist til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.‘ (2. Pétursbréf 3:5-7) Jóhannes postuli skrifaði einnig: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Við endi þessa heims verður ósýnilegur, óguðlegur stjórnandi hans líka tekinn úr umferð. (Opinberunarbókin 20:1-3) Páll postuli skrifaði um þennan illa valdhafa: „Guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu.“ Jesús sagði um hann: „Nú skal höfðingja þessa heims [Satan djöflinum] út kastað.“ — 2. Korintubréf 4:4; Jóhannes 12:31.

Verður það ekki blessun að losna við þennan heim og illan stjórnanda hans? Það hefur lengi verið bænarefni kristinna manna sem beðið hafa um að Guðsríki komi og að vilji hans verði gerður á jörðu. Þeir eru að biðja um að Jesús Kristur gangi fram að boði föður síns og losi jörðina við alla illsku. — Sálmur 110:1, 2; Orðskviðirnir 2:21, 22; Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10.

En þetta vekur spurningu: Getur hugsast að falskar eða rangar heimsendisspár manna komi til af misskilningi eða rangri túlkun sannra spádóma Biblíunnar? Könnum málið.

Misskilningur á fyrstu öld

Tökum atburði á fyrstu öld sem dæmi. Rétt áður en Jesús steig upp til himna spurðu postularnir hann ákafir í bragði: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Þá langaði til að njóta allrar blessunar Guðsríkis þegar í stað en Jesús sagði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.“ — Postulasagan 1:6, 7.

Aðeins þrem dögum fyrir dauða sinn hafði Jesús sagt eitthvað ámóta: „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ Hann bætti við: „En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ (Matteus 24:42, 44; Markús 13:32, 33) Fáeinum mánuðum áður hafði Jesús líka sagt: „Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Lúkas 12:40.

Þrátt fyrir slík varnaðarorð Jesú voru frumkristnir menn svo ákafir að sjá Krist snúa aftur og njóta þeirrar blessunar, sem það hefði í för með sér, að þeir fóru að geta sér til um hvenær fyrirheitin um Guðsríki myndu rætast. Þess vegna skrifaði Páll postuli Þessaloníkumönnum: „Að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður, að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur [Jehóva] væri þegar fyrir höndum.“ — 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.

Orð Páls gefa til kynna að sumir frumkristnir menn hafi gert sér rangar vonir. Enda þótt kristnir menn í Þessaloníku hafi kannski ekki verið að spá því að þeir ættu að ‚sameinast Kristi á himnum‘ á einhverjum vissum degi héldu þeir greinilega að það væri nærri. Þeir þurftu á leiðréttingu að halda og fengu hana í bréfi Páls.

Aðrir þurfa líka leiðréttingu

Eins og bent var á í fyrstu greininni í blaðinu hafa aðrir einnig vænst uppfyllingar fyrirheita Guðs á ýmsum tímum eftir fyrstu öldina. Sumir spáðu heimsendi ýmist að þúsund árum liðnum frá fæðingu Jesú eða dauða. En spár þeirra reyndust líka rangar.

Þetta vekur ýmsar spurningar: Gefur misskilningur í sambandi við uppfyllingu fyrirheita Biblíunnar til kynna að fyrirheitin sjálf séu uppspuni. Eru fyrirheit Guðs áreiðanleg? Og hvernig hafa kristnir menn nú á tímum verið leiðréttir í þessu máli?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila