Er að koma heimsendir? Segir Biblían fyrir um algera eyðingu?
Hvað dettur þér í hug þegar þú heyrir talað um heimsendi? Kannski sérðu fyrir þér hamfarir um allan heim sem binda enda á allt líf á jörðinni. Sumir trúa að heimurinn stefni í slíka ógæfu, ekki síst þegar þeir hafa lesið fréttir eins og þessar:
„Það er ekki ólíklegt að kjarnorkustríð verði – af ásettu ráði, fyrir slysni eða vegna misskilnings.“ – Bulletin of the Atomic Scientists.
„Síðustu tíu ár hafa gríðarlega mörg met verið slegin víða um heim í ofsaveðrum, skógareldum, þurrkum, kóralbleikingu, hitabylgjum og flóðum.“ – National Geographic.
„Versti engisprettufaraldur sem komið hefur í áratugi í Afríku.“ – The Associated Press.
Á eftir að verða heimsendir? Hvað segir Biblían?
Á jörðin eftir að eyðast?
Nei. Biblían, orð Guðs, lofar okkur að jörðin standi að eilífu. (Prédikarinn 1:4) Guð ætlar ekki að gera jörðina sem hann skapaði að engu heldur „eyða þeim sem eyða jörðina“. – Opinberunarbókin 11:18.
Er að koma heimsendir?
Samkvæmt Biblíunni er sá „heimur“ sem tekur enda fólk sem gefur engan gaum að leiðsögn Guðs og lifir algerlega eftir eigin höfði. Guð á eftir að binda enda á „heim óguðlegra manna“, rétt eins og hann gerði á dögum Nóa. – 2. Pétursbréf 2:5; 3:7.
Í 1. Jóhannesarbréfi 2:17 segir: „Heimurinn líður undir lok ásamt girndum sínum.“ Á þessu versi sést að Guð ætlar ekki að binda enda á tilvist jarðarinnar heldur þeirra sem halda áfram að gera það sem er rangt.
Hvenær kemur endirinn?
Biblían segir ekki nákvæmlega hvenær endirinn kemur. (Matteus 24:36) En hún lætur í ljós að hann sé nálægur. Hún segir eftirfarandi:
Stríð, hungursneyðir, farsóttir og miklir jarðskjálftar myndu verða „á einum stað eftir annan“. – Matteus 24:3, 7, 14; Lúkas 21:10, 11; Opinberunarbókin 6:1–8.
Fólk yrði upp til hópa mjög eigingjarnt. Menn myndu til dæmis „elska peninga“, verða „vanþakklátir“ og „hafa enga sjálfstjórn“. – 2. Tímóteusarbréf 3:1–5.
Margir eru sammála því að frá 1914 hafi heimsástandið passað við það sem Biblían sagði fyrir og að endirinn sé skammt undan. Þú getur fengið frekari upplýsingar í greinunum „Hvað gefur tímatal Biblíunnar til kynna varðandi árið 1914?“ og „Hvert er tákn hinna ,síðustu daga‘ eða ,tíma endalokanna‘?“
Segir síðasta bók Biblíunnar fyrir um algera eyðingu?
Síðasta bók Biblíunnar talar um tímann „þegar Drottinn Jesús opinberast“, en það gerist þegar Jesús kemur með mætti til að fjarlægja alla illsku af jörðinni og launa þeim sem tilbiðja Guð. – 2. Þessaloníkubréf 1:6, 7; 1. Pétursbréf 1:7, 13.
Bókin segir fyrir um atburði sem eiga eftir að gerast. (Opinberunarbókin 1:1) Hún færir okkur góðar fréttir og von. (Opinberunarbókin 1:3) Hún sýnir að Guð á eftir að afmá allt óréttlæti og breyta jörðinni í paradís. Þá þurfa menn ekki lengur að þjást, kveljast eða deyja. – Opinberunarbókin 21:3, 4.
Langar þig að fræðast meira um þessi dásamlegu loforð Biblíunnar? Vottar Jehóva bjóða upp á ókeypis biblíunámskeið sem getur hjálpað þér við það. Þér er velkomið að hafa samband.