Hver getur komið á varanlegum friði?
„Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“
TEXTINN hér að ofan er tekinn úr Jesajabók Biblíunnar, 2. kafla, 4. versi. Í skýrslu, sem nefnist Human Development Report 1994, gefinni út af Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, var vitnað í þessi orð. Síðan sagði: „Þessi spádómur virtist vera að rætast með lokum kalda stríðsins [árið 1990]. Enn sem komið er hefur það þó reynst tálvon.“
Niðurskurður í hermálum
Það dregur nokkuð úr friðarvonum manna að hernaðarútgjöld hafa ekki dregist verulega saman í takt við þær breytingar sem orðið hafa í alþjóðastjórnmálum. Að vísu hefur orðið nokkur samdráttur. Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum lækkuðu hernaðarútgjöld í heiminum úr 995 milljörðum bandaríkjadollara árið 1987, og höfðu þá aldrei verið hærri, í 815 milljarða árið 1992. En 815 milljarðar dollara eru gríðarlegt fé. Það samsvarar hér um bil samanlögðum tekjum helmings jarðarbúa.
Annað, sem vinnur gegn afvopnun, er sú skoðun að hernaðarmáttur veiti visst öryggi. Þess vegna halda margar iðnaðarþjóðir því fram að verja skuli háum fjárhæðum til varnarmála, enda þótt kalda stríðinu sé lokið. Er James Woolsey var yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA sagði hann þinginu í febrúar 1993: „Við höfum banað miklum dreka [Sovétríkjunum] en búum núna í frumskógi fullum af alls konar eitursnákum.“
Þróunarlöndin réttlæta há hernaðarútgjöld sem leið til að fæla hugsanlega „dreka“ eða „eitursnáka“ frá því að ráðast á þau. En í rauninni „hafa þróunarlöndin háð fá milliríkjastríð en mörg þeirra hafa aftur á móti notað herafla sinn til að kúga eigin þjóð,“ að sögn Þróunarstofnunarinnar. Í skýrslu stofnuninnar sagði meira að segja: „Í þróunarlöndunum er 33 sinnum líklegra að fólk deyi af völdum félagslegrar vanrækslu (vannæringar og sjúkdóma sem hægt væri að fyrirbyggja) en í stríði af völdum utanaðkomandi árásar. Þó eru að meðaltali um tuttugfalt fleiri hermenn en læknar í þessum löndum. Hermennirnir eru meira að segja líklegri til að draga úr einstaklingsöryggi en auka það.“
Alþjóðleg vopnaviðskipti
Á dögum kalda stríðsins seldu risaveldin tvö bandamönnum sínum vopn í því skyni að treysta böndin og fá að hafa herstöðvar á landi þeirra og viðhalda valdi sínu. Margar þjóðir byggðu upp öfluga heri. Til dæmis eiga 33 þjóðir yfir 1000 skriðdreka hver.
Nú er kalda stríðinu lokið og pólitísk og hernaðarleg rök fyrir vopnasölu eru ekki jafnsterk og áður var. En hin efnahagslegu rök eru enn í fullu gildi því að hægt er að stórgræða á vopnasölu! Þegar eftirspurn eftir vopnum minnkar heima fyrir sannfæra vopnaframleiðendur stjórnvöld um að þeir þurfi að selja vopn til útlanda til að viðhalda heilbrigðu atvinnu- og efnahagslífi.
Tímaritið World Watch segir: „Það er þverstæðukennt að samtímis og risaveldin leggja niður sumar af kjarnaflaugum sínum leita þau af kappi nýrra leiða til að selja næstum hverjum sem vill meira af hefðbundnum sprengjum og skotvopnum.“ Og hvað er um háar fjárhæðir að ræða? Að sögn Alþjóðafriðarrannsóknarstofnunarinnar í Stokkhólmi var verslað með hefðbundin vopn á alþjóðamarkaði fyrir 151 milljarð dollara á árunum 1988 til 1992. Stærsti útflytjandinn var Bandaríkin, og lönd Sovétríkjanna fyrrverandi komu næst á eftir.
Kjarnorkuógnin er enn fyrir hendi
Hvað um kjarnorkuógnina? Bandaríkin og Sovétríkin (eða arftakar þeirra) undirrituðu samning um takmörkun meðaldrægra kjarnaflauga árið 1987 og um takmörkun langdrægra flauga (START) árið 1991 og 1993.
START-samningarnir lögðu bann við því að flugskeyti, sem skotið er frá landi, séu með fleiri en einn kjarnaodd og kváðu á um að árið 2003 skyldi vera búið að eyða næstum þrem af hverjum fjórum kjarnaoddum í öllum flaugum. En þótt dregið hafi úr hættunni á því að háð verði þriðja heimsstyrjöldin með kjarnavopnum eru eftir sem áður til gríðarlegar birgðir kjarnavopna — nóg til að eyða öllu lífi á jörðinni nokkrum sinnum.
Þegar þessi vopn eru tekin sundur eykst hættan á að kjarnakleyfum efnum verði stolið. Rússar taka sundur um 2000 kjarnaodda á ári og geyma hnefastórar plútonkúlurnar úr þeim. Framleiðsla slíkrar plútonkúlu kostar bæði óhemjufé og tæknikunnáttu, en kúlan er einmitt mikilvægasti hluti kjarnasprengju. Plútonkúlurnar eru yfirleitt umluktar stáli sem lokar geislavirknina af, þannig að þjófur gæti hugsanlega stungið einni slíkri í vasann og labbað burt með hana. Hryðjuverkamaður, sem kæmist yfir tilbúna plútonkúlu, gæti síðan hlaðið sprengi- og kveikibúnaði kringum hana og endurskapað úr henni gríðarlega öfluga sprengju.
Auk þess hafa menn áhyggjur af því að æ fleiri þjóðir komi sér upp kjarnavopnum. Fimm þjóðir eru viðurkennd kjarnorkuveldi — Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland — og nokkrar þjóðir til viðbótar eru taldar geta komið kjarnavopnum í gagnið með stuttum fyrirvara.
Eftir því sem fleiri þjóðir koma sér upp kjarnavopnum eykst hættan á að einhver þeirra beiti þeim. Það er ekki að ástæðulausu sem fólk óttast að þessum ógurlegu vopnum verði beitt. Eins og bókin The Transformation of War segir er „kraftur þeirra svo geigvænlegur að hefðbundin vopn eru hlægileg í samanburði við þau.“
Afvopnun og friður
En hvað nú ef þjóðirnar myndu losa sig við öll hin háþróuðu gereyðingarvopn? Myndi það tryggja frið í heiminum? Alls ekki. John Keegan, sérfræðingur í hernaðarsögu, segir: „Kjarnavopn hafa ekki grandað nokkrum manni síðan 9. ágúst 1945. Þær 50.000.000, sem hafa fallið í stríði síðan þá, hafa að langmestu leyti verið drepnar með ódýrum, fjöldaframleiddum vopnum og byssukúlum, sem kosta litlu meira en smáraútvarpstækin og þurrrafhlöðurnar sem hafa flætt yfir heiminn á sama tímabili.“
Manndrápin í Rúanda eru nýlegt dæmi um notkun ódýrra og einfaldra vopna, en The World Book Encyclopedia (1994) segir um landsmenn: „Flest er fólkið rómverskkaþólskt. . . . Rómversk-kaþólska kirkjan og aðrar kristnar kirkjur starfrækja flesta grunnskóla og almenna framhaldsskóla landsins.“ Þó drápu menn vopnaðir sveðjum allt að hálfa milljón manna í Rúanda. Ljóst er að það þarf eitthvað meira en fækkun hefðbundinna vopna og kjarnavopna til að koma á heimsfriði. Og það þarf líka eitthvað annað en þær kenningar sem trúarbrögð heimsins boða.
Þjóðernisátök fara vaxandi
Sadako Ogata, flóttamannafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, sagði nýverið: „Rétt eftir lok kalda stríðsins héldum við að öll vandamál myndu leysast. Við gerðum okkur ekki grein fyrir að það var önnur hlið á kalda stríðinu — að risaveldin tryggðu eða knúðu fram röð og reglu á áhrifasvæðum sínum. . . . Núna, eftir lok kalda stríðsins, gjósa því upp þjóðernisátök af miklu hefðbundnara tagi, kannski átök þeirrar tegundar sem þekktust fyrir fyrri heimsstyrjöldina.“
Arthur Schlesinger, sagnfræðingur og rithöfundur sem hlotið hefur Pulitzer verðlaunin, tekur í sama streng: „Ein tegund haturs tekur við af annarri. Þegar slaknaði á járngreip hugmyndafræðilegrar kúgunar í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum fyrrverandi, losnaði úr læðingi innibyrgður fjandskapur sökum þjóðernis, trúar og tungumála, sem á sér djúpar rætur í sögu og minningu. . . . Hafi 20. öldin verið öld hugmyndafræðilegs hernaðar hefst 21. öldin sem öld þjóðernislegs hernaðar.“
Á árabilinu 1989 til 1992 voru hernaðarátök á 82 stöðum samkvæmt talningu Sameinuðu þjóðanna, flest í þróunarlöndunum. Árið 1993 voru stórfelld átök í 42 löndum og í 37 löndum til viðbótar kom til pólitísks ofbeldis. Sameinuðu þjóðirnar — sem berjast í bökkum fjárhagslega — streittust árangurslítið við að koma á friði í aðeins 17 friðargæsluaðgerðum. Ljóst er að mannkynið þarf að leita eftir friði úr annarri átt.
Yfirvofandi vandamál
Æ fleiri eru uggandi um framtíðina. Á forsíðu mánaðarritsins The Atlantic Monthly í febrúar 1994 var einni spánni fyrir næstu áratugi lýst svo: „Þjóðir sligast undan straumi flóttamanna sem eru að flýja umhverfis- og þjóðfélagshörmungar. . . . Barist er um takmarkaðar auðlindir, einkum vatn, og hernaður og glæpir renna saman í eitt þegar vopnaðar sveitir ríkisfangslausra ræningja lenda í átökum við einkaöryggissveitir yfirstéttanna.“
Er niðurstaðan þá sú að varanlegur friður geti aldrei komist á? Alls ekki! Í næstu grein er bent á hvers vegna við getum horft björtum augum til framtíðarinnar.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Trúarbrögðin — Friðarafl?
Þegar þjóðir fara í stríð leggja trúarbrögð heims til hliðar kenningar sínar um frið og bræðralag. Breski stórfylkisforinginn Frank P. Crozier sagði um stöðu mála í fyrri heimsstyrjöldinni: „Við höfum enga betri til að örva blóðþorsta en kristnu kirkjurnar og við höfum notað þær óspart.“
Trúarbrögðin hafa gegnt stóru hlutverki í stríði í aldanna rás. Kaþólski sagnfræðingurinn E. I. Watkin viðurkenndi: „Svo erfitt sem það hlýtur að vera að viðurkenna það getum við ekki, í þágu falskrar sálubótar eða hollustu, afneitað eða lokað augunum fyrir þeirri sannsögulegu staðreynd að biskuparnir hafa ávallt stutt öll stríð sem stjórn lands þeirra hefur háð.“ Og í ritstjórnargrein í dagblaðinu Sun í Vancouver í Kanada sagði: „Kannski er það veikleiki allra stóru kirkjudeildanna að kirkjan siglir undir þjóðernisfána . . . Hvaða stríð hefur nokkurn tíma verið háð þar sem Guð var ekki sagður standa með báðum stríðsaðilum?“
Ljóst er að trúarbrögð heims hafa ekki reynst friðarafl heldur stuðlað að styrjöldum og manndrápum — eins og sýndi sig svo berlega í manndrápunum í Rúanda.
[Rammi á blaðsíðu 6]
Stríð eru tilgangslaus
Í bók sinni, I Found No Peace, sem út kom árið 1936, skrifaði fréttaritarinn Webb Miller: „Þótt undarlegt kunni að virðast áttaði ég mig ekki fyllilega á hörmungum, hryllingi, viðbjóði og tilgangsleysi [fyrri heimsstyrjaldarinnar] fyrr en nákvæmlega átta árum eftir að henni lauk.“ Hann kom þá aftur til vígvallarins í Verdun þar sem hann sagði að 1.050.000 menn hefðu fallið.
„Ég hafði verið blekktur meðan stríðið stóð yfir, alveg eins og milljónir annarra,“ skrifaði Miller. „Heimsstyrjöldinni hafði tekist það eitt að framkalla nýjar styrjaldir. Átta og hálf milljón manna hafði fallið til einskis, tugmilljónir manna höfðu þolað ólýsanlegan hrylling og hundruð milljóna manna höfðu mátt þola skort, sorg og óhamingju. Allt gerðist þetta í skjóli stórkostlegrar blekkingar.“
Síðari heimsstyrjöldin hófst þrem árum eftir útkomu þessarar bókar. Dagblaðið The Washington Post sagði: „Styrjaldir tuttugustu aldarinnar hafa verið ‚allsherjarstríð‘ gegn hermönnum jafnt sem óbreyttum borgurum. . . . Hin villimannlegu stríð liðinna alda hafa verið smáskærur í samanburði við þær.“ Heimildarmaður nokkur áætlar að frá 1914 hafi 197 milljónir manna fallið í styrjöldum og uppreisnum.
En maðurinn hefur ekki öðlast frið né hamingju þrátt fyrir öll þessi stríð og uppreisnir. Eins og The Washington Post sagði hafa „engin stjórnmála- eða efnahagskerfi á þessari öld dugað enn sem komið er til að friða eða fullnægja hinum eirðarlausu milljónum.“
[Mynd á blaðsíðu 7]
Þessi móðir er ein af hundruðum þúsunda manna sem drepnir voru í Rúanda. Margir voru myrtir af sínum eigin trúbræðrum.
[Credit Line]
Albert Facelly/Sipa Press