Hvað segir Biblían um kjarnorkustríð?
Kjarnorkustríð heldur áfram að vera ógn við heiminn því að stórveldin halda áfram að halda við kjarnavopnum sínum og bæta fleirum við í vopnabúr sín. Fólk hefur eðlilega áhyggjur af því að eftir því sem kjarnavopnin eru fleiri þeim mun meiri hætta sé á að kjarnorkustyrjöld brjótist út. Menn óttast jafnvel að ef aðeins einu smáu kjarnavopni verði beitt muni það hrinda af stað allsherjarkjarnorkustríði sem tortímir heiminum. Við búum við það sem Bulletin of the Atomic Scientists kallar „stöðuga hættu á kjarnorkustríði“.
Gæti kjarnorkustyrjöld brotist út? Ef svo yrði, myndi jörðin þá standa það af sér? Og hvernig getum við tekist á við ótta við kjarnorkustríð? Hvað segir Biblían?
Í þessari grein
Spáir Biblían kjarnorkustríði?
Biblían talar ekki beint um kjarnorkustríð. En hættan á því er komin til vegna viðhorfa og atburða sem Biblían sagði fyrir um.
Skoðaðu eftirfarandi biblíuvers með hliðsjón af því sem er að gerast í heiminum núna.
Biblíuvers: Lærisveinar Jesú spurðu hann: „Hvert verður tákn þess að þú sért nærverandi og að lokaskeið þessarar heimsskipanar sé hafið?“ Jesús svaraði: „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki.“ – Matteus 24:3, 7.
Heimsatburðir: Það kemur sífellt oftar til vopnaðra átaka á milli þjóða, þar á meðal þjóða sem ráða yfir kjarnavopnum eða gætu framleitt þau.
„Heimurinn hefur á undanförnum árum orðið mun ofbeldisfyllri. Átökum hefur fjölgað.“ – The Armed Conflict Location & Event Data Project.
Biblíuvers: „Á tíma endalokanna mun konungur suðursins stimpast við [konung norðursins].“ – Daníel 11:40.
Heimsatburðir: Þjóðir sem keppast um völd og bandamenn þeirra eru að stangast á, eða „stimpast“, eins og Biblían sagði fyrir. Stærstu kjarnorkuveldin eru kannski ekki í beinum átökum en þau eru að efla kjarnavopnin sín.
„Við höfum séð skýrari merki um aukin átök á milli ríkja undanfarinn áratug. Þar á meðal hafa valdamikil ríki stutt andstæð öfl.“ – The Uppsala Conflict Data Program.
Biblíuvers: „Á síðustu dögum verða hættulegir og erfiðir tímar. Menn verða … ósáttfúsir, rógberar, hafa enga sjálfstjórn, grimmir.“ – 2. Tímóteusarbréf 3:1–3.
Heimsatburðir: Þjóðarleiðtogar hafa tilhneigingu til að vera ósammála rétt eins og margir aðrir nú á dögum. Og í stað þess að leysa úr málunum á friðsaman hátt reyna þeir gjarnan að leysa deilur með því að beita valdi sínu eða hóta að gera það. Slíkt eykur hættuna á kjarnorkustríði.
„Ef menn reyna ekki að finna leið til að vinna vel saman verða átök stöðugt hættulegri.“ – Samir Saran og Jane Harman, World Economic Forum.
Myndi Guð leyfa kjarnorkustríð?
Biblían svarar því ekki. Hún segir að „ógnvekjandi atburðir“ myndu gerast á okkar dögum. (Lúkas 21:11) Dæmi um slíka atburði er að kjarnorkusprengjum var varpað í síðari heimsstyrjöldinni. Biblían útskýrir hvers vegna Guð hefur leyft stríð. Horfðu á myndbandið Af hverju leyfir Guð þjáningar? til að fá að vita meira um það.
Mun jörðin standa?
Já. Jafnvel þó að menn notuðu kjarnavopn aftur myndi Guð ekki leyfa ástandinu að verða svo slæmt að heiminum yrði eytt. Biblían segir bæði að jörðin muni standa þrátt fyrir ógnir og að hún verði byggð mönnum að eilífu.
Sumir ímynda sér að í framtíðinni verði jörðin byggð fáeinum mönnum sem berjast við að komast af í auðn sem er menguð af geislavirku regni. En Biblían gefur til kynna að allur skaði sem jörðin hlýtur vegna styrjalda verði bættur.
Guð vill að við njótum hamingju á fallegri jörð.
Skaparinn hefur hannað jörðina með magnaða getu til að jafna sig. Og við vitum líka að Guð á eftir að nota kraft sinn til að lagfæra jörðina. Hún verður alltaf stórfenglegt heimili mannsins. – Sálmur 37:11, 29; Opinberunarbókin 21:5.
Hvernig getum við tekist á við ótta við kjarnorkustríð?
Sumir óttast kannski kjarnorkustríð og afleiðingar þess. Loforð Biblíunnar og ráð hennar geta hjálpað þeim sem finna fyrir slíkum ótta að takast á við hann eða draga úr honum. Hvernig?
Biblían lýsir bjartri framtíð jarðarinnar og íbúa hennar. Að vita af þessari von getur verið eins og „akkeri fyrir líf okkar“ og dregið úr áhyggjum. (Hebreabréfið 6:19, neðanmáls) Við getum líka dregið úr áhyggjum með því að taka einn dag í einu og hugsa ekki of mikið um hvað gæti gerst í framtíðinni. Jesús sagði: „Hverjum degi nægja sín vandamál.“ – Matteus 6:34.
Það er mikilvægt fyrir okkur öll að huga að andlegri og tilfinningalegri líðan okkar. Við getum gert það með því að takmarka hvað við hleypum miklu að okkur af upplýsingum sem valda okkur áhyggjum og kvíða. Það geta til dæmis verið umræður, spár og skoðanir varðandi nýlega framvindu í kjarnorkumálum. Það er ekki það sama og að loka augunum fyrir staðreyndum. Við erum öllu heldur að gera það sem við getum til að hætta að hafa stöðugar áhyggjur af því sem við getum ekki haft neina stjórn á, og á kannski ekki eftir að gerast.
Gefðu þér hlé frá því að hugsa um slæmar fréttir og einbeittu þér að því góða í lífi þínu.
Biblían gefur örugga von um bjartari framtíð.
Að fræðast meira um loforð Guðs getur gefið þér von, gleði og innri frið.
Spáir Biblían heimsendi af völdum kjarnorkustríðs?
Sumir halda að orðið „Harmagedón“ þýði allsherjarkjarnorkustríð. Án efa hafa þeir í huga eyðilegginguna sem það myndi valda.
En Biblían notar orðið „Harmagedón“ um stríð á milli „konunga allrar heimsbyggðarinnar“ – mennskra stjórnvalda – og Guðs.a (Opinberunarbókin 16:14, 16) Harmagedón kemur ekki til með að eyðileggja jörðina og útrýma fólki handahófskennt eins og kjarnorkusprengja myndi gera. Öllu heldur mun Guð eyða aðeins hinum illu í Harmagedón en það gerir mögulegt að koma á sönnum friði og öryggi. – Sálmur 37:9, 10; Jesaja 32:17, 18; Matteus 6:10.
Hver segir Biblían að sé lausnin á stríðsvandanum?
Jehóvab Guð mun sýna mátt sinn gegn stríðandi þjóðum með því að stöðva átök þeirra og eyðileggja stríðsvopnin. Hann notar til þess himneska stjórn, ríki sitt, sem mun taka stjórnina yfir málefnum jarðarinnar. – Daníel 2:44.
Ríki Guðs mun kenna fólki hvernig það getur lifað í friði og einingu. Það verður aðeins ein stjórn yfir allri jörðinni og því verður ekki lengur ágreiningur á milli stjórna. Menn munu ekki einu sinni læra að fara í hernað. (Míka 4:1–3) Hvað hlýst af því? „Hver og einn mun sitja [búa í friði, Today’s English Version] undir sínum vínviði og sínu fíkjutré og enginn mun hræða þá.“ – Míka 4:4.
a Sjá greinina „Hvað er stríðið við Harmagedón?“
b Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?“