Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.10. bls. 24-27
  • Býflugnarækt „sæt“ saga

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Býflugnarækt „sæt“ saga
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Umsjón með ‚daglegum kraftaverkum‘
  • Lykillinn að árangursríkri býflugnarækt
  • Fjölbreyttar afurðir
  • „Vitur af eðlishvöt“
  • „Land sem flýtur í mjólk og hunangi“
    Varðturninn: „Land sem flýtur í mjólk og hunangi“
Vaknið! – 1997
g97 8.10. bls. 24-27

Býflugnarækt „sæt“ saga

Eftir fréttaritara Vaknið! í Grikklandi

FÖLUR ljómi dögunarinnar breiðist hægt yfir himininn. Í svala morgunþokunnar nemur pallbíll hljóðlega staðar við vegkant neðst í fjallshlíð. Tvær skuggalegar verur birtast, íklæddar hönskum, stígvélum, bómullarsamfestingum og barmstórum höttum með blæju. Rösklega en varlega raða þær tugum trékassa á bílinn. Eru þetta þjófar að stinga af með auðfenginn ránsfeng? Nei, þetta eru tveir býflugnabændur sem hugsa vel um dýrmætan býflugnaher sinn, reiðubúnir að leggja í ferð þangað sem finnast plöntur með blómsafa.

Býflugnabændur eru sérstök manngerð sem státar af gagnkvæmu sambandi við sérstaka skordýrategund. Annars vegar er það býflugan sjálf sem er trúlega arðsömust allra skordýra vegna hunangs- og bývaxframleiðslu sinnar og fyrir að fræva fjölda nytjaplantna. Hins vegar eru þeir sem draga fram lífið á býflugnarækt og elska jafnframt þessi litlu kvikindi og „skilja hvað knýr þau áfram,“ eins og einn þeirra kemst að orði.

Umsjón með ‚daglegum kraftaverkum‘

Það kann að virðast auðvelt að gerast býflugnabóndi: Verða sér úti um nokkrar býkúpur fullar af býflugum, koma þeim fyrir á stað þar sem nægur blómsafi er fyrir hendi og snúa aftur eftir nokkra mánuði til að vitja afurðanna. En svo auðvelt er það nú ekki. Við ræddum við atvinnubýflugnabændurna John og Mariu til að komast að því hvað raunverulega þurfi til, og þau sögðu okkur fúslega frá starfinu sem þeim er svo kært.

„Býflugnarækt snýst um dagleg kraftaverk,“ segir John um leið og hann hallar sér yfir opna býkúpu. „Enn sem komið er skilur enginn til hlítar þrautskipulagt samfélag býflugnanna, háþróaða tjáskiptatækni þeirra og afburðavinnulag.“

John rekur sögu býflugnaræktarinnar og segir að áður fyrr hafi býflugnabændur eyðilagt býflugnabú í holum trjám og gjótum til að ná hunanginu. Árið 1851 uppgötvaði Lorenzo Lorraine Langstroth, bandarískur býflugnabóndi, að býflugur hafa um sex millímetra bil á milli vaxplatna. Hægt var að nota trébýkúpur gerðar af manna höndum ef sams konar bil var haft milli taflna eða tréramma. Nú var hægt að taka einn og einn ramma úr býkúpu og ná hunanginu og vaxinu án þess að eyðileggja býflugnabúið.

„Til að býflugnarækt gangi að óskum þarf manni að þykja mjög vænt um býflugnabúin,“ segir John. „Maður er býflugunum eins og faðir, og ég held að þeim sé það ljóst og þær hegði sér samkvæmt því. Maður verður jafnframt læknir þeirra, umsjónarmaður og fóðrari yfir hinn erfiða vetrartíma.“

Maria bætir við: „Góður býflugnabóndi getur ráðið margt um ástand býflugnabús með því einu að horfa á það, en í einu búi eru yfirleitt á bilinu átta til áttatíu þúsund býflugur. Suðið í býflugunum þegar býkúpan er opnuð segir reyndum manni hvort býflugnabúið dafni, sé afkastamikið og ‚hamingjusamt,‘ hvort býflugurnar séu svangar eða ‚munaðarlausar‘ vegna þess að drottningin er dáin, hvort þær séu í uppnámi af einhverjum ástæðum, og margt, margt fleira.“

Lykillinn að árangursríkri býflugnarækt

„Það skiptir sköpum að býflugnabóndinn vandi staðarval býkúpnanna vel,“ útskýrir John. „Við leggjum okkur í framkróka um að finna blómstrandi engi þar sem býflugurnar geta fundið æti.

Býflugnabóndinn leitar ef til vill að blómstrandi appelsínutrjám og linditrjám til að býflugurnar hafi nóg fyrir stafni. Á sumrin og haustin eru svæði þéttsetin furutrjám og þin tilvalin til framleiðslu á rauðleitu gæðahunangi sem selst vel á mörkuðum. Blómstrandi blóðbergsengi gefa af sér besta hunangið — kóngahunang eins og býflugnabændur kalla það. Býflugur gæða sér líka á hvítsmára, steinsmára og refasmára.“

Heilbrigð skynsemi skiptir sköpum. Maria segir: „Þegar við setjum býkúpurnar í fjalllendi er best að koma þeim fyrir sem neðst í fjallinu til að býflugurnar geti flogið upp í móti í leit að blómskrúðugum trjám og síðan drekkhlaðnar niður í móti til býkúpnanna. Ef býkúpurnar væru hátt í fjallshlíðinni ofan við trén yrðu býflugurnar úrvinda og það drægi mjög úr framleiðni búsins.“

„Sérhverjum býflugnabónda er ljóst þýðingarmikið hlutverk drottningarinnar í vexti og viðgangi býflugnabúsins,“ segir John um leið og hann lyftir ramma gætilega upp úr einni býkúpunni. Á miðjum rammanum kúrir ung drottning. „Í býflugnabúum, þar sem lítið hunang er framleitt og nýliðun er léleg, þarf að lóga drottningunni og fá aðra í staðinn. Býflugnabú með ungum drottningum framleiða mesta hunangið. Og þegar við viljum mynda ný býflugnabú tökum við tvískipta býkúpu fulla af heilbrigðum býflugum og skiljum að efri og neðri kassana. Í öðrum þeirra er drottningin, þannig að við setjum unga, frjóvgaða drottningu í hinn. Þegar blómin eru byrjuð að blómstra verður nýja drottningin farin að verpa eggjum og fylla býkúpuna af ungum vinnuflugum eða þernum.“

Hve lengi lifir býfluga? Okkur er sagt að æviskeið þernu sé í öfugu hlutfalli við afköst hennar. Á sumrin sveimar býflugan milli blóma í ætisleit í um það bil 15 tíma á dag og flýgur um á rúmlega 20 kílómetra hraða á klukkustund. Þá lifir hún aðeins í sex vikur. Á veturna reynir minna á býflugurnar því þær vinna aðeins tvo til þrjá tíma á dag og geta því lifað í nokkra mánuði.

Fjölbreyttar afurðir

Það fyrsta sem kemur í hugann þegar minnst er á býflugnarækt er að sjálfsögðu hunang. Þetta sæta og seigfljótandi þykkni hefur vinnufluga eða þerna búið til úr blóm- og plöntusafa. Býflugnabú getur að jafnaði gefið af sér 29 kílógrömm af hunangi á ári. Bývax er önnur verðmæt aukaafurð af starfsemi býflugunnar. Vaxkakan í býkúpunni er nothæf í um fimm eða sex ár. Þá hefur hún dökknað af völdum ýmissa örvera og sníkjudýra, sem tekið hafa sér bólfestu í henni, og verður að endurnýja hana. Bývax er unnið úr gömlum vaxkökum. Að meðaltali fást 9 til 18 kílógrömm af bývaxi fyrir hvert tonn af hunangi sem framleitt er.

Drottning, þernur og karlflugur fá prótín, vítamín, steinefni og fitu aðallega úr frjódufti sem sumir telja úrvals náttúrumeðal við margvíslegum kvillum. Býflugnabú getur gefið af sér um fimm kílógrömm af frjódufti á einu ári. Própolis er síðan vaxkennt trjákvoðuefni sem býflugur nota til að einangra býkúpuna og hjúpa óboðna gesti sem ekki er hægt að fjarlægja sökum stærðar.

Framleiðsla um fjórðungs fæðunnar, sem við neytum, er beint eða óbeint háð hæfni býflugunnar til að fræva nytjaplöntur. Epli, möndlur, vatnsmelónur, plómur, perur, gúrkur og mismunandi berjategundir eru öll háð frævun býflugna, og einnig ýmsar fræjurtir, meðal annars gulrætur, laukar og jafnvel sólblóm. Býflugur hafa líka áhrif á kjöt- og mjólkurframleiðslu því þær fræva refasmárann sem búpeningur er fóðraður á.

„Vitur af eðlishvöt“

„Ég held að flestir býflugnabændur trúi á Guð,“ segir Maria og minnir okkur á að maðurinn geti ekki útskýrt hina margbrotnu þjóðfélagsskipan býflugnanna, hið hrífandi og flókna samfélag þeirra og hina stórkostlegu tjáskiptahæfni þeirra og ratvísi. Margir, sem rannsaka og annast býflugur, viðurkenna fúslega að þetta sé allt því að þakka að þær séu ‚vitrar af eðlishvöt,‘ að hinn mikli skapari okkar, Jehóva Guð, hafi veitt þeim slíka eðlisávísun í ríkum mæli. — Samanber Orðskviðina 30:24, NW.

[Rammi/Mynd á blaðsíðu 26]

Frá blómum til borðs

1 Býflugan heimsækir blóm og safnar blómsafa

Býflugurnar fljúga milli blóma og safna blómsafa í hunangsmaga sem er útvíkkun á vélindanu. Býflugan þarf að heimsækja um 1000 til 1500 smáblóm til að fylla hunangsmagann.

2 Í býkúpunni er blómsafa komið fyrir í vaxkökunni

Þegar býflugan kemur af mörkinni í býkúpuna ælir hún innihaldi hunangsmagans upp í unga þernu eða vinnuflugu. Þernan kemur blómsafanum fyrir í hólfi og breytir honum í hunang.

3 Býflugnabóndinn sækir hunangið

Hann skefur burt vaxið, sem lokar hólfum vaxkökunnar í hverjum ramma, með upphituðu eggjárni. Síðan setur hann rammana í skilvindu til að ná hunanginu.

4 Hunang er sett á krukkur eða önnur ílát

Merkimiðar á hunangskrukkum segja til um hvaða plöntur býflugurnar sóttu hunangið í. Ef krukkan er gegnsæ geturðu gengið úr skugga um gæðin með því að athuga litinn á hunanginu.

5 Hunang er heilsubót!

Líkaminn er fljótur að melta hunang og umbreyta því í orku. Skýrslur sýna að nota má hunang á brunasár og ýmsa grunna áverka á húð.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila