„Land sem flýtur í mjólk og hunangi“
ÞEGAR Jehóva Guð leysti Ísraelsmenn úr þrælkuninni í Egyptalandi lofaði hann að leiða þá inn í „gott og víðáttumikið land sem flýtur í mjólk og hunangi“. – 2. Mósebók 3:8.
Ísraelsmenn voru með kýr, sauðfé og geitur eftir að þeir settust að í fyrirheitna landinu þannig að þeir höfðu meira en nóg af mjólk. En hvað um hunangið? Sumir telja að með hunangi sé átt við síróp unnið úr döðlum, fíkjum eða vínberjum. Og þegar Biblían talar um býflugnahunang er oftast átt við villihunang en ekki hunang ræktaðra býflugna. (Dómarabókin 14:8, 9; 1. Samúelsbók 14:27; Matteus 3:1, 4) ‚Flaut‘ landið virkilega bæði í hunangi og mjólk?
Nýlegur fornleifafundur í Ísrael varpar ljósi á málið. Í fréttatilkynningu frá Hebreska háskólanum segir um fundinn: „Þetta er elsta býflugnabú sem fundist hefur við fornleifauppgröft nokkurs staðar í Austurlöndum nær, segir prófessor (Amihai) Mazar. Það er frá 10. til fyrri hluta 9. aldar f.Kr.“
Fornleifafræðingar fundu meira en 30 býkúpur í þremur röðum og þeir telja að á svæðinu hafi verið um 100 býkúpur. Við rannsóknir á býkúpunum fundust líkamsleifar af býflugum og agnir af býflugnavaxi. Fræðimenn áætla að „þessar býkúpur hafi getað skilað allt að hálfu tonni af hunangi á ári“.
Hunang þótti mikið lostæti til forna en býflugnavaxið var notað í málm- og leðuriðnaði. Vaxið var líka borið á skriftartöflur úr tré sem voru eins og grunnur bakki í laginu. Eftir notkun var hægt að bræða vaxið og endurnýta það. Hvaða ályktun hafa fornleifafræðingar dregið af þessari uppgötvun?
„Biblían minnist ekki á býflugnarækt í Ísrael á þessum tíma,“ segir í fréttatilkynningunni. „En býflugnabúið sem fannst í Tel Rehov bendir til þess að býflugnarækt og vinnsla hunangs og vax hafi verið þekktur iðnaður allt frá tímum fyrra musterisins [musteris Salómons]. Þess vegna er hugsanlegt að þegar Biblían talar um ‚hunang‘ sé raunverulega átt við býflugnahunang.“
[Rétthafi myndar á bls. 15]
Institute of Archaeology/Hebrew University © Tel Rehov Excavations