‚Alræmdustu vísindasvikin‘
Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi
„Alræmdustu vísindasvik aldarinnar“ voru Piltdown-maðurinn, að sögn Lundúnablaðsins The Times. Hann fannst árið 1912 en blekkingin var afhjúpuð árið 1953 eftir að vísindalegar rannsóknir leiddu í ljós að í stað þess að vera týndur hlekkur í einhverri ímyndaðri þróunarkeðju mannsins var höfuðskelin af nútímamanni og neðri kjálkinn úr órangútan. Hver var svona snjall blekkingameistari?
Í mörg ár beindist grunurinn að manninum sem fann leifarnar, Charles Dawson lögfræðingi og áhugamanni um jarðfræði. Aðrir sem komu til greina voru Sir Arthur Keith, ákafur þróunarsinni og fyrrverandi formaður Royal College of Surgeons, breski rithöfundurinn Sir Arthur Conan Doyle og franskur prestur sem hét Pierre Teilhard de Chardin. Hins vegar skorti endanlegar sannanir og Dawson var að lokum talinn ábyrgur.
Nú er hinn raunverulegi sökudólgur fundinn. Hann hét Martin A. C. Hinton og var forstöðumaður dýrafræðideildar Náttúrufræðisafns Lundúna, en hann dó árið 1961. Fyrir níu árum fannst í safninu ferðakoffort úr striga sem hafði verið í eigu Hintons. Í því voru fílstennur, brot af steingerðum flóðhesti og önnur bein sem höfðu verið vandlega flokkuð. Öll voru lituð með járni og mangan í sömu hlutföllum og Piltdown-beinin. En þegar króm fannst í tönnunum, sem einnig var notað við litunina, var öllum vafa eytt.
Þegar Brian Gardiner, prófessor við King’s College í Lundúnum, kynnti niðurstöðurnar sagði hann: „Hinton var þekktur hrekkjalómur. . . . Ástæðuna er að finna í nokkrum bréfum.“ Gardiner lauk máli sínu þannig: „Ég er fullkomlega viss um að það hafi verið hann.“ Rökin hníga að því að Hinton hafi viljað hefna sín á Arthur Smith Woodward, yfirmanni sínum, sem hafði ekki veitt honum þá viðurkenningu eða þá peninga sem Hinton fannst hann eiga skilið. Woodward lét blekkjast og hann var sannfærður um að Piltdown-maðurinn væri ekta allt fram til dauðadags, fimm árum áður en upp komst um svikin. Eina spurningin, sem enn er ósvarað, er þessi: Hvers vegna játaði Hinton ekki svikin um leið og Woodward lýsti opinberlega yfir að hann teldi sviknu brotin góð og gild? Það virðist sem Hinton hafi ekki fundist hann eiga annarra kosta völ en að halda lyginni leyndri þar sem Piltdown-maðurinn fékk fljótt samþykki vísindaheimsins.
Þegar svo frægir menn töldu Piltdown-manninn ósvikinn var almenningur einnig blekktur. Út um allan heim var eftirlíkingum og myndum af höfuðkúpunni stillt áberandi upp á söfnum, en bækur og tímarit breiddu fréttina snarlega út. Hin skaðlegu áhrif hrekkjabragðs Hintons verða ekki metin. Ábending Biblíunnar er því mjög viðeigandi: „Eins og óður maður, sem kastar tundurörvum, banvænum skeytum, eins er sá maður, er svikið hefir náunga sinn og segir síðan: ‚Ég er bara að gjöra að gamni mínu.‘“ — Orðskviðirnir 26:18, 19.
[Mynd/Skyringamynd á blaðsíðu 31]
Dökku svæðin eru brot úr höfuðskel manns.
Allt ljósa svæðið er gert úr gifsi.
Dökku svæðin eru tennur og brot úr kjálkabeini órangútans.