Horft á heiminn
Alnæmi og Asía
Enda þótt alnæmisfaraldurinn virðist í örlítilli rénun sums staðar á Vesturlöndum er hann stjórnlaus víða í Asíu. Alnæmistilfelli á Indlandi „71-földuðust á fyrri helmingi tíunda áratugarins,“ samkvæmt frétt tímaritsins Asiaweek. Taíland, sem var í 57. sæti á heimsvísu miðað við fjölda alnæmistilfella árið 1990, var komið í 5. sæti um miðjan áratuginn. Kambódía hoppaði úr 173. sæti í 59. Og á Filippseyjum fjölgaði tilfellum um 131 prósent á sama tímabili. Mörgum er ljóst að vandinn stafar að hluta til af blómlegri barnakynlífsferðamennsku í sumum þessara landa, en Asiaweek segir að sumir stjórnmálamenn í löndum, sem „reiða sig mjög á erlendan gjaldeyri ferðamanna, . . . séu tregir til að gera marktækar ráðstafanir“ gegn henni.
Þjóðverjar með ofnæmi
Í niðurstöðum rannsóknar, sem Samtök sjúkratryggingasjóða í Þýskalandi hafa birt, kemur fram að einn af hverjum fjórum Þjóðverjum 14 ára og eldri er haldinn einhverju ofnæmi. Næstum sex milljónir manna í Þýskalandi eru haldnar frjónæmi og er það algengasta ofnæmið. Um 2,3 milljónir þola illa sólskin og rösklega 2 milljónir hafa ofnæmi fyrir dýrahári, að sögn dagblaðsins Süddeutsche Zeitung. Rösklega 40 af hundraði þeirra sem þjást af ofnæmi taka lyf gegn því og 10 af hundraði segja að sjúkdómseinkennin raski eðlilegu, daglegu lífi verulega. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að „ofnæmishættan er mikil meðal sumra starfsstétta, svo sem bakara, húsgagnasmiða, hjúkrunarfræðinga og lækna.“
Þvoðu þér um hendurnar!
„Handþvottur er besta, einfaldasta og ódýrasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu margra smitsjúkdóma,“ að sögn ítalska dagblaðsins Corriere della Sera. Þó „sleppa fleiri en 3 af hverjum 10 Ítölum því að þvo sér um hendurnar eftir að þeir hafa farið á klósettið, jafnvel þótt þeir gangi síðan beint að matarborðinu.“ Niðurstöður þessarar könnunar eru nálega þær sömu og sambærilegra kannana meðal annarra þjóða. „Hendurnar geta borið sýkla í mat og valdið veikindum,“ að sögn örverufræðingsins Enricos Maglianos. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir smit? Með því að þvo sér um hendurnar — líka undir nöglunum — með sápu og heitu eða volgu vatni í að minnsta kosti hálfa mínútu (það er lágmarkstíminn sem þarf til að losna við sýkla). Meðal annars þarf að nudda saman höndunum í 10 til 15 sekúndur. Síðan skal skola þær og þurrka vel og enda á fingrunum, segir í grein blaðsins.
Ill meðferð á börnum og ónæmiskerfið
Að sögn vísindamanna við Mie-háskólann í Japan hefur langvarandi, ill meðferð skaðleg áhrif á ónæmiskerfi barna svo að þau verða næmari en ella fyrir sjúkdómum. Háskólinn rannsakaði lík 50 barna á aldrinum eins mánaðar til níu ára sem höfðu dáið úr heilablæðingu eða af öðrum orsökum sem rekja mátti til líkamlegrar misþyrmingar. Hóstarkirtill barnanna, „sem stýrir starfsemi ónæmiskerfisins, var aðeins helmingur af eðlilegri þyngd,“ að sögn dagblaðsins Mainichi Daily News. Því lengur sem misþyrmingarnar stóðu, þeim mun meira skrapp kirtillinn saman. „Hóstarkirtill barns, sem hafði verið misþyrmt í meira en sex mánuði, vó aðeins einn sextánda af þyngd hóstarkirtils í barni sem ekki hafði verið misþyrmt,“ segir blaðið. Vísindamenn hafa orðið varir við sams konar kirtilrýrnun í börnum sem hafa sætt andlegu ofbeldi eða eru vannærð sökum þess að foreldrarnir hafa ekki matreitt handa þeim.
Tengsl Kína og Mesópótamíu
Lengi hefur verið talið að fornkínversk menning hafi átt upptök sín í Huang He dalnum í Kína við Gulafljót, án utanaðkomandi áhrifa. Þessi kenning er nú véfengd eftir nýlegan fornleifafund. Franska tímaritið Courrier International greinir frá því að hópur fornleifafræðinga hafi fundið leifar, sem virðast vera af fornu musteri umgirtu múrum, í grennd við Chengtu í Sichuan-héraði í Kína. Fornleifafræðingarnir segja að gerð musterisins og byggingarlag minni mjög á stallapíramídana í Forn-Mesópótamíu. Prófessor Ichiro Kominami við Kýótó-háskóla segir að „hugsanlegt sé að [Sichuan] hafi verið vagga sérstæðrar, fornkínverskrar menningar nátengdri menningu Indus og Mesópótamíu.“
Dauðsföll af völdum lifrarbólgu B
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að meira en ein milljón manna deyi árlega af völdum lifrarbólgu B. Barnalæknirinn Jagdish Chinnappa segir að þar af deyi næstum 150.000 á Indlandi. Hann sagði á ráðstefnu á vegum fjölþjóðlegs lyfjafyrirtækis að á Indlandi væru „35 til 40 milljónir manna sem bæru lifrarbólgu B-veiruna en það væri um 10 af hundraði allra smitbera í heiminum,“ að sögn dagblaðsins The Times of India. Blaðið bætir við að „rekja megi annað hvert langvarandi lifrarsjúkdómstilfelli og átta af hverjum tíu tilfellum krabbameins á byrjunarstigi í lifur til lifrarbólgu B sýkingar.“
Loftmengun innanhúss
Nýleg rannsókn á vegum Tata orkurannsóknarstofnunarinnar í Nýju-Delí á Indlandi leiðir í ljós að 2,2 milljónir Indverja deyja ár hvert af völdum sjúkdóma sem rekja má til loftmengunar. Dagblaðið The Indian Express segir rannsóknina hafa leitt í ljós að loftmengunin sé mest innanhúss. Konur í fátækrahverfum, sem elda við kola-, tað- eða viðareld, eru í mestri hættu. Þótt reynt sé að stemma stigu við loftmengun utanhúss telja sérfræðingar að lítið hafi verið gert til að draga úr hættunni á heimilum milljóna manna. „Þetta er dulin hætta sem engin skjót lausn virðist á,“ segir forstöðumaður stofnunarinnar, R. K. Pachauri.
Vatnsstríð
Menn voru svartsýnir í spám sínum á fyrsta heimsþingi um vatn, sem haldið var í Marrakesh í Marokkó í mars 1997. Mengun, þurrkar og mannfjölgun ganga sífellt nær vatnsforðanum. Að sögn franska dagblaðsins Le Monde „vex vatnsþörfin tvöfalt hraðar en íbúatala jarðar.“ Árið 2025 munu tveir þriðju hlutar jarðarbúa eiga heima á svæðum þar sem vatn verður af skornum skammti, að sögn Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar. Finnist ekki viðunandi lausn óttast sumir að stríð verði háð út af vatni þegar kemur fram á næstu öld. Nú þegar hafa „Sameinuðu þjóðirnar bent á um 300 svæði þar sem hætta er á átökum,“ að sögn Le Monde.
Ofbeldisglæpir í Venesúela
Íbúar Venesúela eru um 20.000.000 talsins og þar eru að meðaltali framin um 400 morð á mánuði, að því er segir í dagblaðinu El Universal. Rannsókn á vegum samtaka einna leiðir í ljós að meginorsakir vaxandi glæpa séu ekki fjárhagslegar heldur þjóðfélags- og menningarlegar. Dagblaðið sagði undir fyrirsögninni „Fátækt ekki meginorsök afbrota“ að samkvæmt skýrslunni megi rekja ofbeldið í Venesúela til bágs siðferðis og uppeldis heima fyrir. Sérfræðingar telja að bæta megi ástandið með því að kenna fólki ábyrgar uppeldisaðferðir og hvetja það til að sinna fjölskyldunni meira.
Stuðlað að heilbrigðu líferni
Í skýrslu sinni, World Health Report 1997, varar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin við því að „miklar þjáningar“ blasi við mannkyni. Ár hvert draga krabbamein og hjartasjúkdómar, ásamt ýmsum langvinnum sjúkdómum, meira en 24 milljónir manna til dauða og geta aukið byrðar hundruða milljóna annarra. Búist er við að krabbameinstilfellum í heiminum fjölgi um helming í flestum löndum á næstu 25 árum. Hjartasjúkdómar og heilablóðföll, sem eru helstu dánarorsakir fólks í ríkum löndum, eiga eftir að verða algengari í fátækari löndum. Stofnunin hvetur þar af leiðandi til „öflugrar og stöðugrar“ herferðar um allan heim í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigðu líferni og fækka áhættuþáttunum — óheilbrigðu mataræði, reykingum, offitu og hreyfingarleysi — sem leiða oft til banvænna sjúkdóma.