Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.1. bls. 24-27
  • Óheilbrigt líferni — Hve kostnaðarsamt?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Óheilbrigt líferni — Hve kostnaðarsamt?
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Breytt líferni
  • Misnotkun áfengis — alvarlegt þjóðfélagsvandamál
    Vaknið! – 2005
  • Horfst í augu við staðreyndirnar: Staða tóbaksmála núna
    Vaknið! – 1986
Vaknið! – 1998
g98 8.1. bls. 24-27

Óheilbrigt líferni — Hve kostnaðarsamt?

„SJÚKDÓMAR eru hvers manns herra,“ segir danskur málsháttur. Þeir sem hafa átt í höggi við langvinnan sjúkdóm geta fúslega borið því vitni hve miskunnarlaus sá „herra“ getur verið! Það kann þó að koma þér á óvart að sjúkdómar eru oftar líkari boðsgesti en húsbónda eða herra. Bandarísku sóttvarnamiðstöðvarnar rekja um 30 af hundraði legudaga sjúklinga á spítölum til sjúkdóma og meiðsla sem hefði mátt fyrirbyggja. Hverjar eru orsakir þeirra? Óheilbrigt og áhættusamt líferni. Íhugum fáein dæmi.

REYKINGAR. Ira er 53 ára gamall og þjáist af lungnaþembu — afleiðing nærri fjögurra áratuga reykinga. Til að meðhöndla sjúkdóminn þarf hann að staðaldri að fá súrefni af kút sem kostar hann rúmlega 28.000 krónur á mánuði. Árið 1994 lagðist hann inn á spítala í níu daga til meðhöndlunar og hljóðaði reikningurinn upp á 1.260.000 krónur þannig að ársútgjöld hans vegna heilsunnar það árið námu vel yfir eina og hálfa milljón króna. Samt finnst Ira ekkert liggja á að hætta reykingum. „Ég hef bara þessa ofboðslegu löngun í tóbak,“ segir hann.

Ira er ekkert einsdæmi. Þrátt fyrir að hætturnar samfara reykingum séu alkunnar kveikir fólk sér í um það bil 15 milljörðum sígarettna á dag um heim allan. Í Bandaríkjunum er áætlað að kostnaður heilbrigðiskerfisins af reykingasjúkdómum nemi 3500 milljörðum króna á ári. Það þýðir að árið 1993 hafi að meðaltali farið 145 krónur í lækniskostnað vegna reykingasjúkdóma fyrir hvern keyptan sígarettupakka.

Kostnaður af völdum reykinga getur farið að hlaðast upp um leið og barn fæðist. Svo dæmi sé tekið leiddi bandarísk könnun í ljós að börnum reykjandi mæðra væri tvöfalt hættara við að fæðast með skarð í vör eða gómglufu, en það getur kallað á allt að fjórar skurðaðgerðir fram til tveggja ára aldurs. Meðalæviútgjöld vegna læknisþjónustu og annars kostnaðar af þessum völdum nema sjö milljónum króna á hvern einstakling. En að sjálfsögðu er ómögulegt að verðleggja það tilfinningatjón sem því fylgir að fæðast með líkamsgalla.

Sumir segja það vega upp á móti hinum háa kostnaði heilbrigðiskerfisins af reykingum að margir reykingamenn lifa ekki nógu lengi til að fá almannatryggingabætur. En tímaritið The New England Journal of Medicine bendir á að „þessi ályktun sé umdeild; þar að auki séu flestir sammála um að ótímabær dauði af völdum reykinga sé ekki mannúðleg aðferð til að halda heilbrigðisútgjöldum í skefjum.“

MISNOTKUN ÁFENGIS. Áfengismisnotkun hefur verið tengd við mörg heilsuvandamál, meðal annars skorpulifur, hjartasjúkdóma, magabólgu, magasár og brisbólgu. Hún getur einnig gert menn viðkvæmari fyrir smitsjúkdómum á borð við lungnabólgu. Í Bandaríkjunum er árlega varið „10 milljörðum dollara [700 milljörðum króna] til að meðhöndla fólk sem ræður ekki við áfengisneyslu sína“ að sögn dr. Stantons Peeles.

Áfengi hefur oft áhrif á fóstur í móðurkviði. Ár hvert fæðast tugþúsundir barna í Bandaríkjunum einum með fæðingargalla vegna drykkju mæðra sinna á meðgöngunni. Sum barnanna greinast með fósturskemmdir af völdum áfengis og eru oft sködduð líkamlega og andlega. Meðalæviútgjöld vegna lækniskostnaðar fyrir hvert slíkt barn eru talin vera um 100 milljónir króna.

Þar eð áfengi slævir sjálfstjórnina á óhófleg drykkja oft sinn þátt í ofbeldisköstum sem geta endað með meiðslum er kalla á aðhlynningu lækna. Þá er líka að nefna þann óhemjuskaða sem ölvaðir ökumenn valda. Hugleiddu áhrifin sem það hafði á Lindsey, átta ára stúlku, sem losa þurfti úr aftursætinu eftir að drukkinn ökumaður ók á bíl móður hennar. Lindsey var sjö vikur á spítala og þurfti að gangast undir margar skurðaðgerðir. Sjúkrahússkostnaðurinn nam meira en 20 milljónum króna. Það var mesta mildi að hún skyldi lifa af.

FÍKNIEFNANEYSLA. Rannsóknarmaður nokkur telur að kostnaður vegna fíkniefnaneyslu í Bandaríkjunum nemi 4700 milljörðum króna á ári. Joseph A. Califano yngri, forstjóri efnafíknamiðstöðvar við Columbia-háskóla í New York, bendir á aðra kostnaðarsama hlið vandans: „Krakkbörn, sem voru sjaldséð fyrir áratug, fylla nú nýburadeildir sjúkrahúsa þar sem sólarhringsumönnun kostar 2000 dollara [140.000 krónur]. . . . Það getur kostað eina milljón dollara [70 milljónir króna] að hjálpa hverju barni sem nær fullorðinsaldri.“ Og sú staðreynd að „ófrískar mæður leita sér ekki aðstoðar á meðgöngutímanum eða hætta neyslu fíkniefna skýrir meginhluta þriggja milljarða dollara [210 milljarða króna] útgjalda Medicaid árið 1994 vegna umönnunar legudeildarsjúklinga með fíkniefnavanda.“

Harmleikurinn magnast þegar við leiðum hugann að öðrum kostnaði samhliða þessum lesti sem ekki verður reiknaður til fjár. Hjónabandserjur, vanrækt börn, peningaleysi og greiðsluþrot eru algeng vandamál fjölskyldna sem splundrast vegna fíkniefnaneyslu.

LAUSLÆTI. Meira en 12 milljónir manna í Bandaríkjunum fá kynsjúkdóma ár hvert þannig að landið hefur hæsta kynsjúkdómahlutfall í nokkru þróuðu ríki. David Celentano við John Hopkins University School of Hygiene and Public Health kallar þetta „þjóðarskömm.“ Beinn kostnaður af völdum þessara sjúkdóma nemur um 700 milljörðum króna á ári og þá er alnæmi ekki meðtalið. Unglingar eru í sérstakri hættu. Og það er ekkert undarlegt því að samkvæmt einni skýrslu hafa um 70 prósent 17 til 18 ára skólanema haft kynmök og af þeim hátt í 40 prósent að minnsta kosti fjóra rekkjunauta.

Alnæmi eitt sér er meiriháttar baggi á heilbrigðiskerfinu. Í ársbyrjun 1996 kostaði áhrifaríkasta meðferðin sem völ var á — blanda af próteasatálmum og hefðbundnum eldri lyfjum — milli 840.000 og 1.260.000 krónur á ári á hvern sjúkling. En þetta er aðeins brot af hinum dulda kostnaði samfara alnæmi, sem er meðal annars skert afköst og framleiðni fórnarlambsins og þeirra sem taka sér frí úr vinnu eða skóla til að annast það. Talið er að árið 2000 muni HIV-veiran og alnæmi hafa sogað til sín á bilinu 25.000 til 36.000 milljarða króna um heim allan — sem samsvarar því að þurrka út allt hagkerfi Ástralíu eða Indlands.

OFBELDI. Þegar Joycelyn Elders var landlæknir Bandaríkjanna greindi hún frá því að kostnaður heilbrigðiskerfisins vegna ofbeldis næmi 950 milljörðum króna árið 1992. Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, sagði: „Ein af ástæðum þess að bandarísk heilbrigðisþjónusta er svo dýr er sú að spítalar okkar og bráðamóttökur eru fullar af fólki sem hefur verið sundurstungið eða skotið.“ Það er því ekki að ástæðulausu að tímaritið The Journal of the American Medical Association skuli kalla ofbeldið í Bandaríkjunum „heilsufarslegt neyðarástand.“ Síðan segir tímaritið: „Enda þótt ofbeldi sé ekki sjúkdómur í ‚hefðbundnum‘ skilningi þá eru áhrif þess á heilsu einstaklinga og almennings jafndjúptæk og áhrif margra lífeðlisfræðilegra sjúkdóma — jafnvel enn djúptækari.“

Í skýrslu 40 sjúkrahúsa í Colorado í Bandaríkjunum var greint frá því að meðalkostnaður á hvert fórnarlamb ofbeldis hafi numið 670.000 krónum fyrstu níu mánuði ársins 1993. Meira en helmingur þeirra sem lagðist inn á sjúkrahús hafði enga sjúkratryggingu og margir þeirra gátu ekki eða vildu ekki greiða kostnaðinn. Slíkt hefur í för með sér hærri skatta, hærri tryggingariðgjöld og hærri spítalareikninga. Samtök sjúkrahúsa í Colorado segja: „Við borgum öll brúsann.“

Breytt líferni

Séð frá bæjardyrum manna virðist harla lítil von til að unnt verði að snúa við þessari tilhneigingu til óheilbrigðs lífernis. „Bandaríkin eru enginn Edengarður og við losnum aldrei við alla efnafíkn,“ segir í skýrslu Columbíu-háskólans. „En því meir sem við höldum slíkri fíkn í skefjum, því ríkulegar uppskerum við heilbrigðari börn, minna ofbeldi og glæpi, lægri skatta, lægri útgjöld til heilbrigðisþjónustu, meiri hagnað, betur menntaða nemendur og færri alnæmistilfelli.“

Vottar Jehóva hafa komist að raun um að Biblían er besta hjálpin til að ná þessu marki. Hún er engin venjuleg bók. Hún er innblásin af skapara mannsins, Jehóva Guði. (2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hann er ‚sá sem kennir þér að gera það sem þér er gagnlegt, sem vísar þér þann veg er þú skalt ganga.‘ (Jesaja 48:17) Meginreglur Biblíunnar eru heilsubætandi og þeir sem fylgja ráðleggingum hennar geta notið virkilega góðs af.

Tökum Esther sem dæmi, en hún var eitt sinn stórreykingakona.a Eftir að hún byrjaði að kynna sér Biblíuna hjá vottum Jehóva bauð biblíukennarinn henni að eyða degi með sér við að skoða höfuðstöðvar votta Jehóva í Brooklyn í New York. Esther var hikandi í fyrstu. Hún vissi að vottar Jehóva reykja ekki og velti fyrir sér hvernig hún gæti verið heilan dag hjá þeim. Hún setti því eina sígarettu í töskuna sína og hugsaði með sér að laumast bara inn á salerni til að reykja hana ef þörf krefði. Eftir eina skoðunarferðina fór hún inn á kvennasnyrtinguna eins og hún hafði ráðgert og tók sígarettuna fram. En þá tók hún eftir því að herbergið var tandurhreint og loftið ferskt. „Ég gat bara ekki óhreinkað herbergið með því að reykja þessa sígarettu,“ segir Esther, „svo að ég sturtaði henni niður klósettið. Þetta var síðasta sígarettan sem ég snerti á!“

Um allan heim eru milljónir manna að læra að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar líkt og Esther. Þeir gera sjálfum sér gagn og verða verðmætari samfélagsþegnar. En mikilvægast af öllu er að þeir heiðra skapara sinn, Jehóva Guð. — Samanber Orðskviðina 27:11.

Enda þótt besta viðleitni mannsins geti ekki endurskapað ‚Edengarð‘ segir Biblían að Guð muni gera það. Síðara Pétursbréf 3:13 segir: „Eftir fyrirheiti hans [Guðs] væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (Samanber Jesaja 51:3.) Á þessari nýju jörð verður heilsugæsla ekki lengur áhyggjuefni því að mannkynið mun njóta lífsins og fullkominnar heilsu — eins og Guð ætlaðist til frá upphafi. (Jesaja 33:24) Langar þig að læra meira um fyrirheit Guðs? Vottar Jehóva eru fúsir að hjálpa þér til þess.

[Neðanmáls]

a Nafninu er breytt.

[Rétthafi myndar á blaðsíðu 26]

© 1985 P. F. Bentley/Black Star

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila