Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.4. bls. 13-17
  • Fegurð þjóðgarða Alpafjalla

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Fegurð þjóðgarða Alpafjalla
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Tilgangur þeirra
  • Auðugt villidýrasafn náttúrunnar
  • Gróðurlíf Alpafjalla
  • Naíróbí-þjóðgarðurinn þar sem dýrin ganga laus
    Vaknið! – 2003
Vaknið! – 1998
g98 8.4. bls. 13-17

Fegurð þjóðgarða Alpafjalla

Eftir fréttaritara Vaknið! í Frakklandi

KRISTALTÆR vatnslækur, þægilegt skrjáf laufsins, heiðskír himinn, geislar sólarinnar í laufþykkni trjánna. Þessi fagra sjón og þægilegu hljóð heilsa okkur og við erum viss um að þau séu einungis forsmekkur dýrlegs dags. Hvar erum við? Í Écrinsþjóðgarðinum í Dauphiné-ölpunum í Frakklandi.

Við einn inngang garðsins í Ailefroide, í jaðri skógarins, benda upplýsingaspjöld á að vissar athafnir séu bannaðar í garðinum, eins og að tjalda og kveikja elda. Við erum beðin um að taka allt rusl heim með okkur og við tökum eftir því að hundar eru bannaðir þar sem þeir hræða oft eða ónáða dýrin.

Tilgangur þeirra

En hvað er þjóðgarður eiginlega og hvaða tilgangi þjónar hann? Fyrsti þjóðgarðurinn, Yellowstoneþjóðgarður, var stofnaður árið 1872 í Wyomingríki í Bandaríkjunum. Síðan hafa margir verið opnaðir í öllum heimsálfum. Í Frakklandi eru sjö þjóðgarðar og þrír þeirra eru á Alpafjallahálfmánanum sem teygir sig frá Frakklandi til Austurríkis. Fyrsti þjóðgarðurinn í Evrópu var stofnaður árið 1914 í Graubündenkantónu (Grisons) í Sviss. Gran Paradiso þjóðgarðurinn á Ítalíu var síðan opnaður árið 1922. Aðrir þjóðgarðar á Alpafjallahálfmánanum eru meðal annars Berchtesgaden í Þýskalandi, Hohe Tauern í Austurríki, Stelvio á Ítalíu og Triglav í Slóveníu. Fyrsti þjóðgarðurinn í Frakklandi var Vanoise, stofnaður árið 1963.

Aðalmarkmið þjóðgarða er að vernda gróðurríki og dýralíf. En hafa ber í huga að til eru margir aðrir garðar sem vinna að nákvæmlega sama marki án þess að teljast þjóðgarðar. Meðal þeirra eru Vercors-héraðsgarðurinn í Frakklandi og Karwendel-friðlandið í Austurríki. Þjóðgarðar hafa samt sérstöðu sem veitir þjóðgarðsvörðum viss völd. Þeim er heimilt að sekta þá sem fylgja ekki reglum garðsins. Í Sviss geta menn til dæmis þurft að greiða allt að 500 svissneskum frönkum (25.000 kr.) fyrir að koma með hund í þjóðgarð.

Sumum kann að finnast það of mikið. En það eru ástæður fyrir vissum bönnum og sektum. Íhugaðu þetta: Eitt sinn er við vorum í Mercantourþjóðgarði í Maritimölpunum í Suðaustur-Frakklandi, rákumst við á agnarsmáa, unga gemsu. Hún virtist vera ein og algerlega hjálparvana. Við snertum hana samt ekki þar sem við héldum að lyktin af okkur gæti komið í veg fyrir að móðirin tæki við henni aftur. En ímyndaðu þér ef við hefðum haft hund með okkur! Aumingja gemsan hefði orðið skelfingu lostin, sérstaklega ef hundurinn hefði byrjað að gelta.

Eru verðirnir þá ekkert annað en garðalögregla? Jú, auðvitað. Vörður nokkur, sem við hittum í Mercantourgarðinum, sýndi okkur hvar gemsahjörð hafði nýfarið framhjá og skilið slóð sína eftir í nýföllnum snjónum. Hann sýndi okkur í hvaða átt sporin eftir klaufirnar lágu. Það minnti okkur á að auk þess að varðveita náttúrlegt jafnvægi garðsins er hlutverk varðanna að gefa upplýsingar og kenna.

Auðugt villidýrasafn náttúrunnar

Í fjarlægri hlíð lengra meðfram göngustígnum sjáum við gemsur ærslast á hjarninu. Við komum líka auga á tvö múrmeldýr ærslast í skriðu. Sum þessara múrmeldýra eru ótrúlega gæf og nálgast göngumenn í von um að fá gómsætan bita.

Hjarðir steingeita lifa í nokkrum þjóðgörðum Alpafjalla. Þær eru flestar í Gran Paradiso garðinum á Ítalíu. Við vorum himinlifandi yfir að sjá nokkrar í Mercantour. Þessi suðlægi garður er auðugur af dýralífi. Múfflonfé, sem er nokkurs konar villisauðfé, ráfar um garðinn og úlfar hafa birst aftur á undanförnum árum. Gestir þurfa samt ekki að hafa áhyggjur þar sem úlfarnir hætta sér sjaldan nærri göngustígunum og þeir fælast menn. Áður fyrr reikuðu birnir einnig um svissnesku Alpana en sá síðasti, sem sást þar, var drepinn árið 1904. Í Vestur-Evrópu er nú hægt að finna skógarbirni í Pýreneafjöllunum á landamærum Frakklands og Spánar, í Kantabríufjöllum á Norður-Spáni og í Abruzziþjóðgarðinum á Mið-Ítalíu. Hins vegar má stundum heyra hjört baula í Svissneska þjóðgarðinum þar sem þeir eru fjölmargir.

Fyrir utan stóru dýrin er feikinóg af smádýrum til að gleðja gestina, svo sem hreysikettir og snæhérar, sem verða hvítir á veturna, og refir, múrmeldýr og íkornar. Að auki byggja ótal skordýr þessi svæði, þar á meðal glæsileg fiðrildi og iðnir maurar. Fuglaáhugamenn verða svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum. Þú gætir komið auga á örn svífa hátt yfir höfði þér í Svissneska þjóðgarðinum og í Vanoise- og Mercantourgörðunum og jafnvel lambagamm eða skegg-gamm. Það er einnig frekar algengt að heyra hið einkennandi hljóð spætu þegar hún borar goggnum í trjábolinn til að leita að skordýrum. Margir spyrja hvernig þessir fjallabúar geti lifað af veturna í Ölpunum. Þessi dýr eru vel fallin til þess að búa við slíkar aðstæður enda þótt sjúkar og gamlar skepnur falli í vetrarhörkunum.

Gróðurlíf Alpafjalla

Plönturnar eru jafnvel verndaðar í garðinum. Þar af leiðandi er bannað að tína blómin, þar á meðal hina glæsilegu brandlilju sem vex meðfram göngustígnum okkar. Kannski furðar þig á því. Sumar plönturnar — svo sem hinn frægi alpafífill, fjallabjalla, urðalyngrós, fjallakornblóm og nokkur afbrigði maríuvandarættarinnar — eru sjaldgæfar og það er nauðsynlegt að vernda þær til að tryggja að þær lifi áfram. Fjölbreytni blómanna er sannarlega tilkomumikil.

Fegurð náttúrunnar birtist einnig í trjánum sem prýða garðana. Gylltur litblær lerkisins skreytir skóginn á haustin. Lindifuran virðist hins vegar bjóða vetrarhörkunni birginn með því að vera stöðugur fæðugjafi handa fugli sem almennt er kallaður hnotbrjóturinn. Fuglinn flytur furufræuppskeru sína í sarpinum og grefur hana svo í jörð til neyslu í framtíðinni. Þannig stuðlar hann að útbreiðslu furunnar til staða sem hún að öðrum kosti hefði ekki náð til. Við gætum eflaust eytt öllum deginum í að virða fyrir okkur fegurðina sem umlykur okkur. En ef við eigum að komast í fjallakofann verðum við að hraða okkur.

Við höldum göngunni áfram og bráðlega tekur við erfiðari slóð. Gemsurnar virðast bíða eftir okkur í skóginum og við náum að taka nokkrar myndir. En þessar fallegu skepnur eru greinilega hræddar við okkur og flýja þegar við nálgumst þær. Við hugsum um hið stórkostlega loforð Guðs í Jesaja 11:6-9: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra. Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, . . . Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra.“ Við gleðjumst yfir þeirri von að brátt verði öll jörðin að gríðarstórum paradísargarði þar sem menn og dýr búa saman óttalaus.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Gemsa á heimaslóð í frönsku Ölpunum.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Varfærið múrmeldýr í Vanoise-þjóðgarðinum í Frakklandi.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Örn í Mercantour-þjóð- garðinum í Frakklandi.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Gemsur að klifra í frönsku Ölpunum.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Ung gemsa

[Mynd á blaðsíðu 16]

Urðalyngrós

[Mynd á blaðsíðu 16]

Silfurþistill

[Mynd á blaðsíðu 16]

Sporasóley

[Mynd á blaðsíðu 16]

Steingeit

[Mynd á blaðsíðu 17]

Brandlilja

[Mynd á blaðsíðu 17]

Túrbanlilja

[Mynd á blaðsíðu 17]

Alpaþyrnir

[Mynd á blaðsíðu 17]

Múrmeldýr

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila