Naíróbí-þjóðgarðurinn þar sem dýrin ganga laus
Eftir fréttaritara Vaknið! í Keníu
KLUKKAN er hálf sjö að morgni. Sólin rís í austri og líkist stórum skarlatsrauðum gimsteini sem ljómar í mikilli dýrð. Gullnir geislarnir boða nýjan dag þar sem þeir speglast fagurlega í rúðum hárra skrifstofubygginga. Í göngufæri frá þessum skrifstofubyggingum getur að líta tilkomumikið og spennandi sjónarspil.
Í háu grasinu liggur ljón í felum og fylgist grannt með ungum impalahirti. Hann skynjar hættuna, stekkur af stað og ljónið fylgir fast á hæla hans. Mikill og ákafur eltingaleikur er hafinn. Ef ljóninu tekst ætlunarverk sitt fær ógæfusamt dýrið dóm sinn eftir hinu svokallaða frumskógarlögmáli.
Ákafir eltingarleikir af þessu tagi eiga sér stað á hverjum degi í Naíróbí-þjóðgarðinum sem liggur nálægt borgarmörkum Naíróbí, höfuðborgar Keníu. Næstu nágrannar dýranna eru mennirnir. Árið 1962 sást meira að segja ljón á ferð fyrir utan glæsihótel, kannski til að endurheimta gamalt umráðasvæði. En hvað varð til þess að villtu dýrin og borgarbúarnir deildu sameiginlegu búsvæði?
Erfið byrjun
Ekki var auðvelt að koma þjóðgarðinum á laggirnar og yfirstíga þurfti margar hindranir til að dýrin gætu eignast góð og örugg heimkynni. Fram að 20. öldinni gengu þau laus á stórum svæðum í Austur-Afríku. Þar hefur fólk alltaf tengst villtu dýrunum sterkum böndum og menn beittu hjörðum sínum í námunda við þau. Sumir litu meira að segja á ákveðin villt dýr sem heiðursbúfé.
En síðan fóru sportveiðimenn að streyma inn í landið með rifflana sína og margir þeirra vildu safna eins mörgum „verðlaunagripum“ og þeir gátu. Þeirra á meðal var Theodore Roosevelt, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, en hann kom til Keníu árið 1909 til að safna sýnishornum úr náttúrunni og setja á söfn. Með honum voru 600 burðarmenn og atvinnuveiðimenn. Alls voru yfir 500 dýr drepin og skinn þeirra send til Bandaríkjanna. Á svipuðum tíma kom annar þekktur veiðimaður til landsins, Játvarður Bretaprins. Þessir menn juku vinsældir sportveiðiferða og auðvitað var byssukúlan hraðari og nákvæmari en hefðbundnu veiðarfærin, bogi og örvar.
Þegar lokið var við járnbrautina frægu milli Keníu og Úganda, sem á þeim tíma var kölluð brautin brjálaða (Lunatic Line), fóru menn að setjast að á svæðinu í kringum Naíróbí. Þetta takmarkaði frelsi dýranna enn frekar. Það leit út fyrir að þau yrðu rekin í burtu fyrir fullt og allt.
En á fjórða áratug síðustu aldar fóru menn að berjast fyrir rétti dýranna. Meðal þessara aðgerðarsinna voru endurskoðandinn Mervyn Cowie og Archie Ritchie sem var veiðieftirlitsmaður á þeim tíma. Á fundum og í fréttatilkynningum fóru þeir fram á að nýlendustjórnin kæmi á laggirnar þjóðgarði sem gæti dregið úr eða jafnvel stöðvað skefjalausa eyðingu dýranna. Stjórnin tók ekki vel í þessa hugmynd. Hún var ekki tilbúin til að nota ákveðið landsvæði einungis til þess að vernda gróður og dýralíf, á svæði sem var að breytast í stærsta þéttbýlisvæði Austur-Afríku.
Náttúruverndarmenn urðu síðan fyrir öðru bakslagi í seinni heimsstyrjöldinni þegar svæðinu, þar sem þjóðgarðurinn er núna, var rótað upp á heræfingum. Dýr féllu líka í styrjöldinni. Stöðug viðvera hermanna á svæðinu varð einnig til þess að dýrin hættu að óttast menn og það jók hættuna á því að þau yrðu mannætur. Til að koma í veg fyrir að það gerðist þurfti að lífláta nokkur dýr, þar á meðal fræga ljónynju, sem kölluð var Lúlú, og hjörðina hennar.
En síðan breyttist afstaða yfirvalda, mörgum hindrunum var rutt úr vegi og náttúruverndarmenn fengu sínu framgengt. Loksins, eftir langa og róstusama meðgöngu, „fæddist“ Naíróbí-þjóðgarðurinn — fyrsti þjóðgarður sinnar tegundar í Austur-Afríku — þegar Sir Philip Mitchell, þáverandi landstjóri Keníu, skrifaði undir „fæðingarvottorðið“ 16. desember 1946.
Paradís ferðamannsins
Naíróbí-þjóðgarðurinn er frekar lítill miðað við aðra þjóðgarða í Austur-Afríku. Áætluð stærð hans er 117 ferkílómetrar og aðalinngangurinn er innan við 10 kílómetra frá miðbæ Naíróbí. En þetta er einmitt það sem garðurinn er frægur fyrir. Fáir staðir á jörðinni geta boðið upp á jafnyfirgripsmikið útsýni — sjaldséðar andstæður milli nútímaborgarinnar Naíróbí og afrísku gresjunnar.
Þar sem garðurinn er svona lítill geta gestirnir séð flestöll stóru dýrin, fyrir utan fílinn, í meiri nálægð við hvert annað en í stóru þjóðgörðunum. Í garðinum eru 100 spendýrategundir og yfir 400 fuglategundir. Garðurinn liggur nálægt aðflugsleiðinni að alþjóðaflugvellinum í Naíróbí.
Sá sem heimsækir Naíróbí getur yfirgefið þægindin á nýtískuhóteli í bænum, keyrt fram hjá glæsilegum skrifstofubyggingum og verið kominn á nokkrum mínútum á aldagamlar sléttur og séð víðáttumikið kjarrlendi og skóga. Þar má einnig sjá ljón og önnur veiðidýr að verki. Að horfa á rándýr elta bráð sína með glampandi háhýsi borgarinnar í bakgrunni er sjón sem gleymist seint.
Í þjóðgarðinum er afar mikið af villtum dýrum eins og til dæmis buffölum, hlébörðum, blettatígrum, gíröffum, öpum, hundruðum antilópa og hinum sjaldgæfa svarta nashyrningi sem nú er í útrýmingarhættu. Flest þessara dýra búa þarna allan ársins hring. En á þurrkatímanum í febrúar-mars og ágúst-september má sjá stórar hjarðir af faranddýrum, eins og gnúum, safnast saman í kringum vatnsbólin í garðinum.
Í sumum vatnsbólunum, sem réttilega kallast flóðhesta-vötnin, liggja hópar af þessum tunnulaga risum á kafi allan daginn en koma síðan upp úr á nóttinni og fara á beit. Meðfram vatnsbólunum eru síðan merktar gönguleiðir sem gefa fólki kost á að stíga út úr ökutækinu og fá sér göngutúr. En rétt er að minna á að fólk verður að fara mjög varlega því að slíkar gönguferðir geta reynst hættulegar. Í sumum vatnsbólunum eru krókódílar sem geta legið á vatnsbökkunum án þess að grunlausir gestir taki eftir þeim. Til að verða ekki krókódílamatur er því gott að vera í fylgd þjálfaðra þjóðgarðsvarða.
Mikið er af þekktum fuglategundum í garðinum. Strúturinn, sem er stærsti núlifandi fugl í heiminum og verður allt að tveggja metra hár, hefur fundið sér þar varanlegan samastað. Hátt yfir borginni svífur síðan hinn illa þokkaði hrægammur í leit að æti. Þó að fuglinn sé ekki fagur á að líta er mikill hagur í honum þar sem hann losar garðinn við öll hræ sem gætu annars hýst skaðlegar bakteríur.
Einstaka sinnum má koma auga á örva sem einnig er nefndur sekreterafugl. Hann er með skrautfjaðrir í hnakka sem minna á örvamæli eða fjaðrapenna sem skrifarar notuðu hér áður fyrr. Hann er á sífelldum þönum, rétt eins og hann sé að hendast úr einu verkefni í annað. Í garðinum býr einnig skuggafuglinn, króntranan, söðulstorkurinn og kúhegrinn.
Þótt garðurinn sé tiltölulega lítill má í raun segja að hann sé vistfræðilegt meistaraverk. Í vesturhluta hans eru næstum sex prósent landsins skógivaxin og þar er úrkoman um 700 til 1100 millimetrar á ári. Á þessu svæði má sjá fjöldann allan af trjám á borð við höfðakastaníuna og hið fagra tígurskrúð. Víðáttumiklar sléttur, dalir og fjallshryggir setja svip á suður- og austurhluta garðsins þar sem úrkoman er um 500 til 700 millimetrar á ári. Þar er að finna gróður sem er einkennandi fyrir hitabeltisgresjur eins og til dæmis steppuroðagras, eyðimerkurdöðlur, eiturörvavið og fjölmargar akasíutegundir.
Ekki má gleyma bröttum og stórbrotnum klettaveggjunum sem liggja 100 metra niður að botni dalsins. Þeir geta reynt töluvert á áhugamenn um klettaklifur — að minnsta kosti þá sem þora að prófa.
Garður í hættu
Mörg þeirra vandamála, sem tengjast verndun náttúrulífs, eiga sér einn sameiginlegan orsakavald — manninn. Hætta er á að Naíróbí-þjóðgarðurinn hverfi vegna vaxandi byggðar. Naíróbíborg, sem gerði þjóðgarðinn frægan á sínum tíma, heldur áfram að breiða úr sér og þrengja að dýrunum. Sífellt fleiri flytja til borgarinnar þannig að eftirspurn eftir landi eykst og ekki geta dýrin mótmælt. Frárennsli frá verksmiðjum á svæðinu stofnar einnig öllum lífverum í garðinum í hættu.
Annað sem er mjög nauðsynlegt fyrir framtíð þjóðgarðsins er að faranddýrin geti komist inn í garðinn og út úr honum. Stór hluti hans er gyrtur af til að dýrin ráfi ekki inn í borgina. Aukinn landbúnaður og búskapur er að loka af þröngri farandslóð sem enn er opin á suðurhlið garðsins. Ef hún lokast alveg gæti það haft hörmulegar afleiðingar. Dýr, sem yfirgefa garðinn í leit að beitilandi, geta kannski aldrei snúið aftur. Til að bjarga farandslóðinni hefur helsta náttúruverndarfélag landsins, Kenya Wildlife Service, leigt land sem liggur að garðinum. En þrátt fyrir vandamálin eru enn þúsundir gesta sem koma á hverju ári til að sjá hinar heillandi andstæður sem einkenna Naíróbí-þjóðgarðinn.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Gíraffi
[Mynd á blaðsíðu 25]
Hlébarði
[Mynd á blaðsíðu 26]
Marbúar
[Mynd á blaðsíðu 26]
Krókódíll
[Mynd á blaðsíðu 26]
Ljón
[Mynd á blaðsíðu 26]
Króntrana
[Mynd á blaðsíðu 26]
Svarti nashyrningurinn
[Mynd á blaðsíðu 26]
Strútur