Ferðin langa frá lífi og dauða í Kambódíu
Frásögn Wathanas Meas
ÁRIÐ 1974 var ég að berjast gegn Rauðu khmerunum í Kambódíu. Ég var liðsforingi í kambódíska hernum. Í orrustu einni handsömuðum við liðsmann Rauðu khmeranna. Það sem hann sagði mér um framtíðaráform Pols Pots breytti lífi mínu og var upphafið að langri ferð, bæði í bókstaflegum og andlegum skilningi.a
En byrjum á upphafi þessarar viðburðaríku ferðar. Ég fæddist árið 1945 í Phnom Penh í Kambódíu eða Kampútseu eins og það heitir á máli Khmera. Móðir mín gegndi síðar mikilvægri stöðu innan leynilögreglunnar. Hún var sérstakur útsendari Norodoms Sihanouks prins, stjórnanda landsins. Þar eð hún hafði forræði yfir mér og hafði í mörgu að snúast varð hún að skilja mig eftir í búddhatrúarhofi til uppfræðslu.
Búddhatrúaruppruni minn
Ég var átta ára gamall þegar ég fór að búa hjá yfirbúddhatrúarmunknum. Fram til ársins 1969 bjó ég ýmist í hofinu eða heima. Munkurinn, sem ég þjónaði, hét Chuon Nat, æðsta yfirvald búddhatrúarmanna í Kambódíu á þeim tíma. Ég var ritari hans um hríð og hjálpaði honum við að þýða helgibók búddhatrúarmanna, „Körfurnar þrjár“ (Tipitaka, á sanskrít Tripitaka), úr forn-indversku máli yfir á kambódísku.
Ég var vígður sem munkur árið 1964 og þjónaði til 1969. Á þessu tímabili sóttu á mig margar spurningar, til dæmis hvers vegna það væru svona miklar þjáningar í heiminum og hvernig þær hefðu komið til. Ég sá fólk reyna að þóknast guðum sínum á marga vegu án þess að vita hvernig þeir gætu leyst vandamálin. Ég fann engin fullnægjandi svör í búddhatrúarritunum og hinir munkarnir ekki heldur. Ég varð svo vonsvikinn að ég ákvað að yfirgefa hofið og hætta sem munkur.
Árið 1971 gekk ég í kambódíska herinn og var sendur til Víetnams sama ár. Ég var hækkaður í tign, gerður að undirliðsforingja sökum menntunar minnar og settur í sérsveitirnar. Við börðumst gegn kommúnistasveitum Rauðu khmeranna og sveitum Víetkong.
Stríð og breytingar í Kambódíu
Hermennskan herti mig. Ég vandist því að horfa næstum daglega upp á fólk deyja. Sjálfur tók ég þátt í 157 bardögum. Eitt sinn vorum við umkringdir af Rauðu khmerunum langt inni í frumskóginum í meira en mánuð. Rösklega 700 menn féllu. Aðeins um 15 manna okkar lifðu umsátrið af. Ég var einn þeirra og var særður, en ég komst þaðan lifandi.
Árið 1974 handsömuðum við einn af liðsmönnum Rauðu khmeranna. Þegar ég yfirheyrði hann sagði hann mér að Pol Pot hefði í hyggju að útrýma öllum fyrrverandi embættismönnum stjórnarinnar, meðal annars þeim sem væru í hernum. Hann sagði mér að skilja allt eftir og flýja og bætti við: „Breyttu stöðugt um nafn. Láttu engan vita hver þú ert. Láttu sem þú sért fávís og ómenntaður. Segðu engum frá fortíð þinni.“ Ég sleppti honum úr haldi en viðvörunarorð hans greyptust í huga mér.
Okkur hermönnunum hafði verið tjáð að við værum að berjast fyrir land og þjóð en samt vorum við að drepa Kambódíumenn. Rauðu khmerarnir, kommúnistafylking er vildi komast til valda, voru landar okkar. Reyndar er þorri íbúa Kambódíu, sem eru níu milljónir, af þjóðflokki Khmera þótt fæstir tilheyri Rauðu khmerunum. Mér fannst þetta algerlega út í hött. Við vorum að drepa saklausa og óvopnaða bændur sem höfðu engan áhuga á stríðinu.
Það var alltaf átakanleg reynsla að snúa heim úr bardaga. Eiginkonur og börn biðu í ofvæni eftir að sjá hvort eiginmenn eða feður sneru heilu og höldnu heim. Ég varð að segja mörgum að ástvinir þeirra hefðu fallið. Í öllu þessu veitti skilningur minn á búddhafræðum mér enga huggun.
Núna hugsa ég aftur til þess hvernig ástandið breyttist í Kambódíu. Fyrir 1970 var þar tiltölulega friðsamt og öruggt. Fæstir áttu byssu, enda ólöglegt nema hafa tilskilin leyfi. Mjög lítið var um rán eða gripdeildir. En eftir að borgarastríðið braust út með uppreisn Pols Pots og liðsveita hans gerbreyttist allt. Byssur voru á hverju strái. Jafnvel 12 til 13 ára krakkar voru þjálfaðir til herþjónustu og kennt að skjóta og drepa. Liðsmenn Pols Pots töldu sum börn á að drepa foreldra sína. Hermennirnir sögðu við þau: „Ef þú elskar landið þarftu að hata óvini þína. Ef foreldrar þínir vinna fyrir stjórnina eru þeir óvinir okkar og þú verður að drepa þá — eða verða drepinn sjálfur.“
Hreinsanir Pols Pots
Árið 1975 sigraði Pol Pot í stríðinu og Kambódía varð kommúnistaland. Pol Pot byrjaði að losa sig við alla stúdenta, kennara, embættismenn og alla aðra sem höfðu einhverja menntun. Þeir sem gengu með gleraugu máttu búast við því að verða drepnir af því að talið var víst að þeir væru menntaðir! Stjórn Pols Pots flutti flesta íbúa borga og bæja út á landsbyggðina til landbúnaðarstarfa. Allir urðu að klæðast sams konar fötum. Við urðum að vinna 15 tíma á dag, án þess að fá nægan mat, lyf og fatnað og fengum aðeins tveggja til þriggja tíma svefn. Ég ákvað að yfirgefa heimaland mitt áður en það væri um seinan.
Ég minntist ráðlegginga hermanns Rauðu khmeranna og henti öllum ljósmyndum, gögnum og öðru sem gæti beint grunsemdum að mér. Ég gróf holu og faldi sum af skjölum mínum. Síðan hélt ég til vesturs í átt að Taílandi. Það var hættuför. Ég varð að forðast vegartálma og vera sérstaklega gætinn þegar útgöngubann var í gildi þar sem aðeins hermenn Rauðu khmeranna höfðu leyfi yfirvalda til að vera á ferli.
Ég settist að hjá vini mínum um hríð í héraði einu. En þá fluttu Rauðu khmerarnir alla af svæðinu og byrjuðu að drepa kennara og lækna. Ég komst undan ásamt þrem vinum. Við földum okkur í frumskóginum og borðuðum þá ávexti sem við fundum á trjánum. Um síðir kom ég í lítið þorp í Battambang-héraði þar sem vinur minn átti heima. Mér til mikillar undrunar rakst ég þar á hermanninn fyrrverandi sem hafði ráðlagt mér hvernig ég ætti að flýja! Þar eð ég hafði sleppt honum úr haldi, faldi hann mig í gryfju í þrjá mánuði. Hann fékk barn til að láta mat falla niður til mín í gryfjuna án þess að líta ofan í hana.
Síðar náði ég að flýja þaðan og hafði upp á móður minni, systur og móðursystur sem voru einnig á flótta til taílensku landamæranna. Þetta var dapurlegt tímabil. Móðir mín var veik og dó um síðir af sjúkdómum og matarskorti í flóttamannabúðum. Einn sólargeisli fann sér þó leið inn í líf mitt og veitti mér von. Ég kynntist Sopheap Um sem varð eiginkona mín. Við náðum að flýja yfir taílensku landamærin ásamt móðursystur minni og systur og komast í flóttamannabúðir Sameinuðu þjóðanna. Fjölskylda okkar hafði goldið afhroð í borgarastríðinu í Kambódíu. Við misstum 18 nákomna ættingja, meðal annars bróður minn og konu hans.
Nýtt líf í Bandaríkjunum
Fortíð okkar var könnuð í flóttamannabúðunum og Sameinuðu þjóðirnar reyndu að fá einhvern til að kosta för okkar til Bandaríkjanna. Að lokum tókst það. Árið 1980 komum við til St. Paul í Minnesota. Ég gerði mér grein fyrir að ég yrði að ná tökum á enskunni sem fyrst ef ég ætlaði að ná fótfestu í nýja landinu. Ábyrgðarmaður minn sendi mig í skóla í aðeins nokkra mánuði, enda þótt ég ætti að vera lengur. Þess í stað útvegaði hann mér vinnu sem húsvörður á hóteli. En enskukunnátta mín var ekki upp á marga fiska og mistökin urðu mörg hver æði skopleg. Þegar eigandinn bað mig að sækja stiga koma ég að vörmu spori með ruslið!
Ógnvekjandi heimsókn
Árið 1984 vann ég á næturvöktum og svaf á daginn. Við bjuggum á svæði þar sem stöðugt skarst í odda með Asíubúum og svertingjum. Glæpir og fíkniefni voru daglegt brauð. Morgun einn vakti konan mín mig klukkan tíu og sagði mér að þeldökkur maður stæði við dyrnar. Hún var hrædd af því að hún hélt að hann væri kominn til að ræna okkur. Ég kíkti út um gægjugatið og sá vel klæddan blökkumann standa þar með skjalatösku í hendi og hvítan mann sér við hlið. Mér sýndist ekkert athugavert við þá.
Ég spurði hann hvað hann væri að selja og hann kynnti fyrir mér Varðturninn og Vaknið! en ég skildi ekki neitt. Ég reyndi að afþakka blöðin af því að nokkrum mánuðum áður hafði sölumaður, sem var mótmælendatrúar, ginnt mig til að greiða 165 dollara fyrir fimm bóka ritröð. En blökkumaðurinn sýndi mér myndirnar í blöðunum. Þær voru svo fallegar og aðlaðandi og maðurinn brosti breitt og vingjarnlega. Ég gaf honum því einn dollar og þáði blöðin.
Um tveim vikum seinna kom hann aftur og spurði hvort ég ætti kambódíska biblíu. Það vildi svo til að ég átti biblíu, sem ég hafði fengið í naðversku kirkjunni, þótt ég skildi ekki það sem í henni stæði. En ég hreifst af því að tveir menn af ólíkum litarhætti skyldu heimsækja mig. Þá spurði maðurinn hvort ég vildi læra ensku. Það vildi ég að sjálfsögðu en útskýrði að ég hefði ekki efni á að borga fyrir kennslu. Hann sagðist myndi kenna mér endurgjaldslaust með hjálp biblíurits. Þótt ég vissi ekki hvaða trúflokki hann tilheyrði hugsaði ég með mér að ég þyrfti að minnsta kosti ekki að borga fyrir og gæti lært að lesa og skrifa ensku.
Ég læri ensku og kynnist Biblíunni
Það tók sinn tíma. Hann sýndi mér fyrstu bók Biblíunnar, 1. Mósebók, og ég sagði nafnið á kambódísku, „Lo ca bat.“ Síðan sagði hann „Biblían“ og ég svaraði „Compee.“ Ég byrjaði að taka framförum og fann áhugann kvikna. Ég var vanur að taka með mér ensk-kambódísku orðabókina, Nýheimsþýðingu Biblíunnar og kambódísku biblíuna í vinnuna. Í hléum lærði ég ensku með því að bera ritin saman orð fyrir orð. Þetta gekk hægt. Með vikulegum kennslustundum tók námið rösklega þrjú ár. En að lokum gat ég lesið enskuna!
Konan mín sótti enn búddhatrúarhof og skildi mat eftir handa forfeðrunum. Það naut náttúrlega enginn góðs af honum nema flugurnar! Ég hafði marga rótgróna ósiði frá því er ég var í hernum og búddhatrúnni. Þegar ég var munkur var fólk vant að koma með fórnir, þar á meðal sígarettur. Fólkið trúði því að ef munkur reykti sígaretturnar væri eins og forfeður þess væru að reykja. Þannig ánetjaðist ég níkótíni. Og í hernum drakk ég stíft og reykti ópíum til að hleypa í mig kjarki fyrir bardaga. Ég þurfti því að gera miklar breytingar þegar ég byrjaði að nema Biblíuna. Þá komst ég að raun um hve mikil hjálp bænin getur verið. Á aðeins fáeinum mánuðum sigraðist ég á ósiðunum. Fjölskylda mín varð himinlifandi!
Ég lét skírast sem vottur árið 1989 í Minnesota. Um svipað leyti komst ég að því að kambódískumælandi hópur votta og fjölmargir Kambódíumenn byggju í Long Beach í Kaliforníu. Við hjónin ræddum málin og ákváðum að flytja þangað. Þessi breyting gerði baggamuninn! Systir mín var skírð fyrst, síðan móðursystir mín (sem er núna 85 ára) og svo konan mín. Börnin mín þrjú fylgdu síðan í kjölfarið. Systir mín giftist síðar votti sem nú er öldungur í söfnuðinum.
Við höfum þurft að þola margar raunir hér í Bandaríkjunum. Við höfum lent í erfiðum fjárhagsörðugleikum og stundum átt við heilsubrest að stríða, en með því að halda okkur fast við meginreglur Biblíunnar höfum við varðveitt traust okkar á Jehóva. Hann hefur blessað viðleitni mína á andlega sviðinu. Árið 1992 var ég útnefndur safnaðarþjónn og 1995 varð ég öldungur hér í Long Beach.
Ferðinni löngu, sem hófst þegar ég var búddhatrúarmunkur og síðan liðsforingi á vígvöllum hinnar stríðshrjáðu Kambódíu, er lokið með friði og hamingju í þessu nýja landi og heimili okkar. Og við höfum öðlast trú á Jehóva Guð og Krist Jesú. Það veldur mér sársauka að vita að fólk er enn að drepa hvert annað í Kambódíu. Þeim mun meiri ástæða er fyrir mig og fjölskyldu mína að kunngera og vænta hins fyrirheitna nýja heims þar sem stríð verða ekki framar til og allir elska náunga sinn eins og sjálfan sig. — Jesaja 2:2-4; Matteus 22:37-39; Opinberunarbókin 21:1-4.
[Neðanmáls]
a Pol Pot var þá leiðtogi kommúnistahersveita Rauðu khmeranna sem sigruðu í stríðinu og lögðu Kambódíu undir sig.
[Kort/Mynd á blaðsíðu 24]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
VÍETNAM
LAOS
TAÍLAND
KAMBÓDÍA
Battambang
Phnom Penh
Þegar ég var búddhatrúarmunkur.
[Rétthafi]
Mountain High Maps® Rétthafi © 1997 Digital Wisdom, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 26]
Ásamt fjölskyldu minni fyrir utan ríkissalinn.