Stóri hvíti fuglinn snýr aftur
Eftir fréttaritara Vaknið! í Japan
VOPNAÐIR bareflum tóku mennirnir að berja fallegu hvítu fuglana til dauða, hvern af öðrum. Fuglarnir voru albatrosar. Mennirnir voru Hanemon Tamaoki og félagar hans. Staðurinn var Torishima, eyja um 600 kílómetra suður af Tókíó, árið 1887.
Tamaoki hafði áformað þetta í mörg ár. Mjúkar fjaðrir í dýnur voru mjög eftirsóttar bæði í heimalandi hans og annars staðar, og Torishima var afskekkt eyja. Einu íbúar hennar voru þúsundir albatrosa er komu þangað reglulega til varps. Meðal þeirra var sóltrosinn, stærstur sjófuga á norðurhveli jarðar, en honum sóttist Tamaoki sérstaklega eftir. Ímyndið ykkur bara hve margar fjaðrir var að finna á bústnum, átta kílógramma fugli með rösklega tveggja og hálfs metra vænghaf! Sóltrosinn var auk þess gæfur og reyndi ekki að forða sér, jafnvel þótt hann væri í hættu.
Tamaoki hafði með sér allt að 300 verkamenn til eyjarinnar til að drepa fuglana og reyta þá. Þeir reistu þorp og litla járnbraut til að flytja dauðu fuglana. Afköstin voru slík að Tamaoki varð brátt moldríkur — á kostnað fimm milljóna fugla. Slík var tortímingin að þegar eldfjallið á eynni gaus árið 1902 og eyddi þorpinu og öllum íbúum þess, töldu sumir að það væri „bölvun fyrir að drepa albatrosann.“ Þrátt fyrir þetta komu menn aftur ári síðar til að ná þeim fuglum sem eftir voru.
Í næstum 1500 kílómetra fjarlægð, á afskekktum klettaeyjum milli Taívan og Okinawa á Austur-Kínahafi, hafði maður að nafni Tatsushiro Koga stundað þessa sömu ábatasömu iðju. Líkt og Tamaoki komst Koga að því að fuglarnir voru fljótt uppurnir. Hann yfirgaf loks eyna árið 1900 — en ekki fyrr en hann hafði drepið rösklega eina milljón albatrosa.
Sorglegar afleiðingar græðginnar
Þessi fjöldadráp á fuglunum var harmleikur sem hafði skelfilegar afleiðingar. Af trosategundum heims lifa þrjár á Norður-Kyrrahafi með aðalvarpstöðvar á eyjunum sem Tamaoki og Koga létu greipar sópa um. Sóltrosinn eða stélstutti albatrosinn (Diomedea albatrus) verpti hvergi annars staðar í heiminum að því er talið var.
Albatrosinn vakti fyrr á tímum lotningu og aðdáun sæfara á úthöfum. Þjóðsögur og munnmæli um hafið lýsa honum sem fyrirboða vinda, misturs og þoku. En það er þó engin goðsögn að óvenjulangir vængir þessa stóra hvíta fugls gera honum kleift að svífa yfir heil heimshöf á fáeinum sólarhringum, mest allan tímann á útþöndum, nánast hreyfingarlausum vængjum. Engir fuglar komast í hálfkvisti við hann í svifhæfni og úthaldi á höfum úti.
Enda þótt albatrosinn geti svifið tígulega um loftin blá er hann klunnalegur og hægfara á jörðu niðri. Langir vængir og frekar bústinn bolur koma í veg fyrir að hann sé fljótur að taka flugið. Þetta og óttaleysi hans við menn gerði hann að auðveldri bráð. Fyrir vikið var hann kallaður glópafugl eða malamúkki.a
Ábyrgðarlausir menn héldu útrýmingunni glaðbeittir áfram með þá vitneskju að vopni að dauðir albatrosar gæfu vel í aðra hönd. Athugun leiddi í ljós að árið 1933 voru innan við 600 fuglar á Torishima. Japanska stjórnin greip þá til örþrifaráða og bannaði allar mannaferðir á eynni. En ófyrirleitnir menn þustu þangað til að drepa eins marga fugla og þeir gátu áður en bannið tók gildi. Árið 1935 voru aðeins 50 fuglar eftir að sögn sérfræðings nokkurs. Að lokum varð að lýsa sóltrosann útdauðan. Græðgi manna hafði haft sorglegar afleiðingar. En sitthvað óvænt var framundan.
Heimkoman hefst
Kvöld eitt í janúar 1951 var maður að klöngrast í klettum Torishima þegar skolthljóð gerði honum bilt við. Allt í einu horfðist hann í augu við albatrosa! Sóltrosinn hafði einhvern veginn lifað af og var farinn að verpa á Torishima á ný. En í þetta sinn gerðu fuglarnir sér hreiður í brattlendi þar sem nær ómögulegt var fyrir menn að komast og virtust nú hafa illan bifur á þeim. Náttúruunnendur voru himinlifandi!
Japansstjórn brást snöggt við, lét gróðursetja tröllapunt til að þétta jarðveginn undir hreiður og lagði bann við mannaferðum á Torishima. Albatrosinn var lýstur þjóðargersemi og alfriðaður.
Síðan árið 1976 hefur Hiroshi Hasegawa við Toho-háskóla í Japan rannsakað fuglana og heimsækir eyna þrisvar á ári til að skoða þá. Hann sagði í viðtali við Vaknið! að með því að hringmerkja fætur fuglanna árlega í mismunandi lit hefði hann uppgötvað að sóltrosar kæmu aðeins einu sinni á þriggja til fjögurra ára fresti til upprunastaðar síns til að verpa. Þeir verða kynþroska við sex ára aldur og verpa aðeins einu eggi í einu. Þar af leiðandi tæki það fuglana langan tíma að fjölga sér þótt þeir lifi að meðaltali 20 ár. Aðeins 90 af 176 eggjum, sem verpt var á Torishima veturinn 1996-97, klöktust út.
Hvað gera albatrosar utan varptímans? Hasegawa segir fátt um það vitað. Þeir forðast greinilega bæði land og fólk. Elta albatrosar skip og setjast á þau? Að sögn Hasegawa er það aðeins þjóðtrú sem ekki á sér stoð í veruleikanum. Hann kveðst nokkuð viss um að „japanskir albatrosar setjast ekki á skip“ en bætir við að annars staðar í heiminum „gæti hugsast að einhverjir fuglar staldri við stuttan tíma sé þeim gefið.“ Megnið af tímanum gera þeir það sem þeim einum er lagið — að svífa með hagstæðum loftstraumum og sveima um heimshöfin. Þegar þeir þreytast setjast þeir á sjóinn og sofa. Þeir nærast á smokkfiski, flugfiski, kröbbum og rækjum. Fuglarnir, sem Hasegawa hefur merkt, sjást með reglulegu millibili á Beringshafi og Alaskaflóa. Árið 1985 sást svo til sóltrosa út af Kaliforníuströnd í fyrsta skipti í næstum heila öld og varð heldur betur uppi fótur og fit meðal fuglaskoðara þar.
Hvað um framtíðina?
Sóltrosum fjölgar sem betur fer jafnt og þétt. Hasegawa áætlar að í maí á síðasta ári hafi þeir verið „rösklega 900 að ungunum meðtöldum.“ Hann bætir við: „Árið 2000 ættu að vera meira en 1000 fuglar á Torishima einni saman og 100 ungar að klekjast út á hverju ári.“ Það er einnig ánægjuefni að árið 1988 sáust sóltrosar fjölga sér á ný á Austur-Kínahafi eftir 88 ára hlé. Fuglarnir hafa valið sér varpstöð á klettaey á umdeildu svæði sem ætti að vernda þá fyrir átroðningi manna um hríð.
Smám saman er verið að bæta skaðann sem varð fyrir hundrað árum. Eða hvað? Vísindamenn hafa oft tekið eftir því að fuglar, sem fangaðir eru til merkingar, verða frávita af hræðslu og æla. Úr maganum kemur alls kyns plastdrasl, einnota sígarettukveikjarar og annað sorp sem fólk fleygir kæruleysislega frá sér í hafið, forðabúr fuglanna.
Verður heimska mannsins til að koma stóra hvíta fuglinum aftur á heljarþröm?
[Neðanmáls]
a „‚Malamúkki‘ eða ‚múkki‘ er dregið af hollenska orðinu ‚mallemok‘ sem merkir heimskur máfur.“ (Birds of the World eftir Oliver L. Austin yngra.) Á japönsku kom orðið ahodori, sem þýðir „glópafugl,“ í stað gamla nafnsins er merkti „stóri hvíti fugl.“
[Mynd á blaðsíðu 16]
Torishima, heimkynni sóltrosans.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Langir og grannir vængir albatrosans gera hann að mesta svifflugsnillingi jarðar.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Sóltrosinn hefur aftur náð fótfestu á Torishima.