Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 18-20
  • Ráðgátan um William Shakespeare

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ráðgátan um William Shakespeare
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Ráðgátur
  • Var hann bóklærður?
  • Bækur og handrit
  • Til Lundúna — og frægðar
  • Hugsanlegir höfundar
  • Loforðum hverra getur þú treyst?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Að treysta eða treysta ekki
    Vaknið! – 2008
  • Hvernig myndir þú velja bók handa öllu mannkyni?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1986
  • Má túlka Biblíuna hvernig sem er?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1989
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 18-20

Ráðgátan um William Shakespeare

Eftir fréttaritara Vaknið! á Bretlandi

WILLIAM SHAKESPEARE er yfirleitt talinn fremsta leikskáld sögunnar. Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir að hann sé „af mörgum talinn mesta leikritaskáld allra tíma. Leikrit hans . . . eru sviðsett oftar og í fleiri löndum en verk nokkurs annars leikskálds.“ Þau hafa verið þýdd á rösklega 70 tungumál.

Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir um hið mikla ritsafn sem eignað er honum: „Enginn málsmetandi fræðimaður í verkum Shakespeares efast um að hann hafi samið leikritin og ort ljóðin.“ En aðrir rengja það. Af hverju?

Shakespeare fæddist í Stratford-upon-Avon árið 1564 og dó þar 52 árum síðar, árið 1616. Ótal bækur hafa verið samdar um hann — margar eftir áralangar rannsóknir — til að reyna að fá svar við einni mjög áleitinni spurningu: Skrifaði William Shakespeare bókmenntaverkin sem bera nafn hans?

Ráðgátur

Leikrit Shakespeares bera vott um óvenjuvíðtæka reynslu af veraldlegum málum. Hann var til dæmis vel að sér í lögum og notaði lagamál og lagalegar fyrirmyndir af mikilli leikni. Í bókinni Medical Knowledge of Shakespeare frá árinu 1860 gefur Sir John Bucknill til kynna að Shakespeare hafi búið yfir mikilli þekkingu á læknisfræði. Sömu sögu er að segja um þekkingu hans á veiðum, fálkatamningum og öðrum íþróttum, að ekki sé minnst á konunglega hirðsiði. Að sögn sagnfræðingsins Johns Michells var Shakespeare „rithöfundurinn sem vissi allt.“

Í leikritum Shakespeares er fimm sinnum fjallað um skipbrot og af sjómannamálinu má ráða að höfundurinn hafi verið reyndur sjómaður. Ferðaðist hann til annarra landa? Var hann neyddur í sjóherinn? Tók hann þátt í sigrinum yfir flotanum ósigrandi, herskipaflota Spánverja, árið 1588? Hvort tveggja myndi renna stoðum undir það að Shakespeare sé höfundur leikritanna, en ekki hefur verið hægt að leggja fram nein sönnunargögn þessu til stuðnings. Svipaða sögu er að segja af afburðaþekkingu hans á hermálum og tungutaki fótgönguliða.

Biblíutilvitnanir eru áberandi í verkum hans. Hann gæti hafa lært þær hjá móður sinni, en engin sönnun er fyrir því að hún hafi verið læs. Biblíuþekking Shakespeares leiðir okkur að vangaveltum um menntun hans.

Var hann bóklærður?

John, faðir Williams, var hanskasali, ullarkaupmaður og hugsanlega slátrari. Hann var virtur borgari en ólæs og óskrifandi. Engar nemendaskrár eru til frá barnaskólanum í Stratford en flestum heimildum ber saman um að William hafi sótt skólann. Mörgum árum síðar sagði vinur Shakespeares, leikskáldið Ben Jonson, að hann kynni „litla latínu og enn minni grísku“ sem gæti gefið til kynna að menntun hans hafi verið takmörkuð.

Höfundur leikritanna var hins vegar vel að sér í klassískum bókmenntum Grikkja og Rómverja ásamt bókmenntum — og ef til vill tungu — Frakka, Ítala og Spánverja. Hann bjó einnig yfir miklum orðaforða. Vel menntaður nútímamaður notar sjaldan meira en 4000 orð í samræðum. Enska 17. aldar skáldið John Milton notaði um 8000 orð í verkum sínum. En ein heimild segir að orðaforði Shakespeares hafi verið hvorki meira né minna en 21.000 orð!

Bækur og handrit

Allar eigur Shakespeares voru vandlega skráðar í þriggja síðna erfðaskrá án þess að nokkuð væri minnst á bækur eða handrit. Erfði Susanna, eldri dóttir hans, þau? Sé svo hljóta þau að hafa dreifst meðal afkomenda hennar. Þessi ráðgáta vakti forvitni klerks á átjándu öld sem rannsakaði öll einkabókasöfn innan 80 kílómetra fjarlægðar frá Stratford-upon-Avon, án þess að finna eitt einasta bindi sem hafði verið í eigu Shakespeares.

Leikritahandritin eru enn meiri ráðgáta — ekki er vitað um nein upprunaleg eintök sem varðveist hafa. Þrjátíu og sex leikverk voru gefin út í fyrstu fólíó-útgáfunni árið 1623, sjö árum eftir dauða Shakespeares. Margar ólöglegar útgáfur af verkum hans birtust meðan hann lifði en hann reyndi ekki að hindra útgáfu þeirra, þótt hann væri slyngur kaupsýslumaður.

Til Lundúna — og frægðar

Farandleikhópar voru algeng sjón í valdatíð Elísabetar 1. og sumir komu við í Stratford-upon-Avon árið 1587. Ef Shakespeare hefur slegist í för með þeim hefur hann verið kominn til Lundúna þetta haust. Vitað er að hann gekk til liðs við fremsta leikfélag Lundúna, Lord Chamberlain’s Men, síðar kallað King’s Men. Hagur hans vænkaðist þegar hann kom til höfuðborgarinnar. Með tíð og tíma eignaðist hann fasteignir í Lundúnum og Stratford-upon-Avon. En fátt er vitað með vissu um ferðir hans frá árinu 1583 til ársins 1592 — hin þýðingarmiklu „týndu ár.“

Globe-leikhúsið var byggt í Southwark árið 1599. Fyrir þann tíma voru leikrit með nafni Shakespeares þekkt í Lundúnum en hann hlaut samt aldrei frægð fyrir þau. Við dauða hans var engin stórútför gerð enda þótt útfarir annarra leikritahöfunda væru stórar í sniðum. Ben Jonson og Francis Beaumont voru til dæmis báðir jarðaðir með mikilli viðhöfn í Westminster Abbey í Lundúnum.

Hugsanlegir höfundar

Var nafnið Shakespeare notað til að leyna nafni hins raunverulega höfundar eða jafnvel höfunda? Stungið hefur verið upp á meira en 60 mögulegum höfundum, meðal annars leikskáldinu Christopher Marlowea og óvæntum nöfnum eins og Wolsey kardínála, sir Walter Raleigh og jafnvel Elísabetu 1. Englandsdrottningu. Hverjir koma helst til greina að mati fræðimanna?

Sá fyrsti er Francis Bacon en hann hlaut menntun sína í Cambridgeháskóla. Hann var þrem árum eldri en Shakespeare, varð þekktur lögmaður og embættismaður við hirðina og lét eftir sig fjölmörg ritverk. Tilgátan um að Bacon sé höfundur verka Shakespeares var fyrst sett fram árið 1769 en síðan enginn gaumur gefinn í hartnær 80 ár. Árið 1885 var Bacon-félagið sett á laggirnar til að halda hugmyndinni á loft og margar staðreyndir hafa verið lagðar fram málinu til stuðnings. Bacon bjó til dæmis um 30 kílómetra norður af Lundúnum nálægt borginni St. Albans sem nefnd er 15 sinnum í verkum Shakespeares. Aldrei er hins vegar minnst á Stratford-upon-Avon, heimbæ Shakespeares.

Roger Manners, fimmti jarl af Rutland, og William Stanley, sjötti jarl af Derby, eiga báðir sína stuðningsmenn. Þeir voru vel menntaðir og höfðu víðtæka reynslu af hirðlífi. En hvers vegna ættu þeir að hafa falið verk sín? Prófessor P. S. Porohovshikov, sem hélt fram málstað Rutlands árið 1939, sagði: „Fyrstu ritverk hans birtust á prenti án höfundarnafns, hin undir dulnefni einfaldlega af því að það þótti ekki viðeigandi að aðalsmaður skrifaði fyrir alþýðuleikhús.“

Sumir halda því fram að leikverk Shakespeares séu verk rithöfundahóps þar sem hver og einn lagði sína sérfræðikunnáttu af mörkum. Shakespeare var reyndur leikari. Skyldi hann hafa búið leikrit annarra til útgáfu og flutnings? Sagt var að hann ‚felldi aldrei niður línu‘ í handritum sínum. Það gæti passað ef hann hefur fengið í hendur handrit annarra leikskálda og búið þau til útgáfu með lítilsháttar breytingum.

Hver er aðalástæða þess að sumir efast um að Shakspeare sé höfundur verkanna sem honum eru eignuð? Alfræðibókin The World Book Encyclopedia segir að fólk „hafi neitað að trúa því að leikari frá Stratford-upon-Avon hafi getað skrifað þau. Það hæfði ekki ímyndinni um snillinginn, sem skrifaði leikritin, að Shakespeare væri kominn af sveitaalþýðu.“ Bókin bætir við að nánast allir aðrir, sem stungið hefur verið upp á sem höfundum, „séu af aðalsættum eða efri stéttum.“ Þess vegna eru margir, sem efast um að Shakespeare sé höfundurinn, þeirrar skoðunar að „aðeins menntaður og veraldarvanur maður í hárri þjóðfélagsstöðu hafi getað skrifað leikritin.“ En eins og fram kom fyrr í greininni eru margir fræðimenn í verkum Shakespeares á því að hann hafi skrifað þau.

Verður þessi deila útkljáð einhvern tíma í bráð? Það er ólíklegt. Finnist ekki ný gögn, svo sem upprunaleg handrit eða upplýsingar til að fylla í týndu ár Williams Shakespeares, verður „þessi óviðjafnanlegi orðsnillingur“ heillandi ráðgáta.

[Neðanmáls]

a Áhrif Christophers Marlowes eru augljós í eldri leikverkum Shakespeares, en hann dó í Lundúnum árið 1593, 29 ára að aldri. Hann er sagður hafa verið myrtur í kráarryskingum en sumir vilja meina að morðið hafi verið yfirhylming, að hann hafi farið til Ítalíu og haldið skrifum sínum áfram þar. Engar heimildir eru til um útför hans eða greftrun.

[Rammi á blaðsíðu 20]

Læsi og nafnið

William Shakespeare hefur hugsanlega skrifað nafn sitt sex sinnum á fjögur skjöl sem varðveist hafa. Nafnið er illlæsilegt og stafsetningin breytileg. Sumir heimildarmenn segja að lögfræðingar kunni að hafa skrifað undir erfðaskrána fyrir hönd Shakespeares, en þá vaknar sú viðkvæma spurning hjá öðrum hvort William Shakespeare hafi verið læs og skrifandi. Engin handrit eru til sem hann hefur ritað með eigin hendi. Susanna, dóttir hans, gat ritað nafn sitt en engar vísbendingar eru til um að hún hafi getað gert meira en það. Hin dóttir Shakespeares, Judith, var nátengd föður sínum og gerði merki í stað undirskriftar. Hún var ólæs og óskrifandi. Enginn veit af hverju Shakespeare tryggði ekki dætrum sínum aðgang að dýrðarheimi bókmenntanna.

[Myndir á blaðsíðu 19]

Andlitsmyndir af Shakespeare ungum. Ekki er þó vitað með vissu hvernig hann leit út.

[Mynd credit line]

Encyclopædia Britannica/11. útgáfa (1911)

Culver Pictures

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila