Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 28-29
  • Skurðaðgerðir án blóðgjafa njóta vaxandi viðurkenningar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Skurðaðgerðir án blóðgjafa njóta vaxandi viðurkenningar
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Áhrifaríkt og öruggt
  • ‚Gullfóturinn‘
  • Vaxandi eftirspurn eftir læknismeðferð án blóðgjafar
    Vaknið! – 2000
  • Læknar endurskoða hug sinn til skurðaðgerða án blóðgjafa
    Vaknið! – 1999
  • Hvernig er læknismeðferð í hæsta gæðaflokki?
    Ríkisþjónusta okkar – 2007
  • Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
    Vaknið!: Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
Sjá meira
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 28-29

Skurðaðgerðir án blóðgjafa njóta vaxandi viðurkenningar

ÁRIÐ 1996 gaf Konunglegi skurðlæknaháskólinn á Englandi út bækling sem nefndist Code of Practice for the Surgical Management of Jehovah’s Witnesses (Starfsreglur um skurðaðgerðir á vottum Jehóva). Þar segir: „Vegna hættunnar, sem fylgir blóðgjöfum, er æskilegt að leita annarra leiða ef þess er nokkur kostur.“

Vikurit Samtaka bandarískra spítala, AHA NEWS, hefur einnig bent á hvers vegna skurðaðgerðir án blóðgjafa njóti orðið almennrar viðurkenningar. Ritið sagði: „Fyrst í stað voru ástæðurnar trúarlegar en nú er þetta að verða eftirsóttur valkostur og háþróuð tækni. Læknismeðferð og skurðaðgerðir án blóðgjafa, sem að vissu marki má rekja til kenninga votta Jehóva, eru komnar langt fram úr þörfum einstaks trúfélags og er nú beitt á skurðstofum um land allt.“

Í viðauka tímaritsins Time haustið 1997 var fjallað um ástæður þess að margir læknar beita sér nú fyrir skurðaðgerðum án blóðgjafa. „Óttinn við alnæmi er aðeins ein ástæðan,“ stóð í greininni. Þar var sérstaklega fjallað um það starf sem unnið er á New Jersey Institute for the Advancement of Bloodless Medicine and Surgery sem er deild við Englewood-spítala í New Jersey í Bandaríkjunum.

Time sagði: „Stofnunin er í fararbroddi rösklega 50 spítala í Bandaríkjunum sem stunda skurðaðgerðir án blóðgjafa. Hún býður upp á mjög fjölbreyttar skurðaðgerðir, sem yfirleitt kalla á blóðgjafir, án þess að nota dropa af framandi blóði, og jafnframt er beitt þar aðferðum sem draga stórlega úr eða koma nánast í veg fyrir blóðmissi.“

Áhrifaríkt og öruggt

Í inngangi greinarinnar í Time var fjallað um ákveðið tilfelli. Henry Jackson hafði fengið svo stórfelldar innvortis blæðingar að hann missti 90 prósent af blóði sínu og blóðrauðinn hrapaði niður í 1,7 grömm á desílítra sem er lífshættulegt. Hann var fluttur til Englewood-spítalans frá öðrum spítala í New Jersey sem vildi ekki taka hann til meðferðar án þess að gefa honum blóð.

Undir umsjón Aryehs Shanders, læknis á Englewood-spítalanum, var Jackson gefin „kröftug blanda af járni og vítamínum, ásamt stórum skömmtum af rauðkornavaka, blóðaukandi lyfi sem örvar beinmerginn til að framleiða rauðkorn. Loks fékk hann vökva í æð til að örva þá litlu blóðrás sem eftir var.“

Time segir að fáeinum dögum síðar hafi „hinn spítalinn hringt til að kanna hvort Jackson væri látinn. Shander svaraði með óduldri ánægju að ‚hann væri aldeilis ekki dáinn heldur hinn hressasti og í þann mund að útskrifast, og yrði bráðlega farinn að sinna daglegum störfum á ný.‘“

Edwin Deitch læknir, sem er yfirmaður læknismeðferðar án blóðgjafa við háskólaspítalann í Newark í New Jersey, greindi frá því í sjónvarpsviðtali 28. nóvember 1997 hvernig rannsóknir á skurðaðgerðum án blóðgjafa hefðu þróast: „Vottar Jehóva . . . lögðu mikið á sig til að reyna að finna lækna sem vildu skera þá upp án blóðgjafa. Þessar rannsóknir leiddu í ljós að þeir náðu sér betur en búist hafði verið við, betur en fólk sem fékk blóð.“

Deitch hélt áfram: „Blóð getur dregið úr virkni ónæmiskerfisins og valdið sýkingum eftir uppskurð. Það getur aukið hættuna á því að krabbamein taki sig upp aftur, þannig að blóðgjafir geta haft óæskilegar afleiðingar þótt þær hafi í sumum tilvikum reynst gagnlegar.“ Deitch sagði um skurðaðgerðir án blóðgjafa: „Þær eru greinilega til bóta fyrir sjúklinginn því að þær fækka fylgikvillum, og þær eru ódýrari. Þess vegna hafa þær í rauninni yfirburði í öllum tilfellum.“

Eins og Time sagði eru „æ fleiri sjúklingar farnir að heimta öruggari og betri valkosti en blóðgjafir.“ Blaðið bætti við: „Sumir áætla að fjórðungur allra blóðgjafa í Bandaríkjunum sé þarflaus. Auk þess bendir ýmislegt til að sjúklingar þoli ekki jafnmikinn blóðrauða og áður var haldið, og að ungt fólk sér í lagi hafi innbyggðan varasjóð af blóði. . . . [Shander] er sannfærður um að það sé vænlegur og æskilegur kostur fyrir flesta sjúklinga að sleppa blóðgjöfum.“

Smithættan er ekki eina hættan sem fylgir blóðgjöfum. „Blóð frá blóðbanka hefur verið í kæligeymslu og getur ekki flutt súrefni að sama marki og ferskt blóð,“ segir Shander. „Við erum rétt að byrja að átta okkur á því hvað við erum að gera þegar við gefum blóð.“

‚Gullfóturinn‘

„Og svo má ekki gleyma kostnaðinum,“ sagði Time í lokin. „Hver blóðgjöf kostar um 500 dollara [um 35.000 ÍSK], og þegar stjórnunarkostnaði er bætt við hljóðar reikningurinn upp á 1 til 2 milljarða dollara [70 til 140 milljarða ÍSK] á ári. Það er meira en nóg til að velta fyrir sér öðrum kostum.“ Hinn gríðarlegi kostnaður við blóðgjafir virðist vera orðinn ein helsta ástæðan fyrir því að skurðaðgerðir án blóðgjafa eru orðnar jafnvinsælar og raun ber vitni.

Sharon Vernon, forstöðumaður þeirrar deildar St. Vincent Charity spítalans í Cleveland í Ohio í Bandaríkjunum sem veitir læknismeðferð og skurðaðgerðir án blóðgjafa, segir um slíka læknismeðferð: „Hún verður sífellt vinsælli af því að læknar eru að vakna til vitundar um að skurðaðgerðir án blóðgjafa eru gullfótur sparnaðaraðgerða. Það er reynsla okkar að jafnvel tryggingafélög, sem skipta ekki við okkur að jafnaði, senda fólk til okkar af því að þau spara á því.“

Það er ljóst að skurðaðgerðir án blóðgjafa eru óðfluga að öðlast viðurkenningu meðal lækna, og fyrir því eru margar ástæður.

[Rammagrein á blaðsíðu 29]

Nýlegir dómsúrskurðir

Í nóvember og desember 1997 féllu tveir markverðir dómar í Illinois í Bandaríkjunum. Í fyrra málinu voru Mary Jones, sem er vottur Jehóva, dæmdar jafnvirði um 10 milljóna króna í bætur vegna þess að henni höfðu verið gefnar tvær einingar af blóði árið 1993 þrátt fyrir skýra yfirlýsingu um að hún þægi ekki slíka meðferð. Þetta eru hæstu bætur sem votti hafa verið dæmdar fyrir tilfinningalegan skaða af völdum heimildarlausrar blóðgjafar.

Síðara málið var höfðað af Darlene Brown. Hún var komin 34 vikur á leið þegar henni var gefið blóð með valdi, að sögn til að vernda ófætt barn hennar. Hinn 31. desember 1997 skýrði Áfrýjunardómstóll Illinois úrskurð sinn svo: „Blóðgjöf er inngripsaðgerð sem brýtur í bága við forræði dómbærs, fullveðja manns yfir líkama sínum.“ Áfrýjunardómstóllinn dró saman niðurstöðu sína með þeim orðum að „samkvæmt lögum þessa ríkis . . . er ekki hægt að leggja þá lagakvöð á barnshafandi konu að samþykkja inngripsaðgerð.“

Hinn 9. febrúar 1998 breytti Hæstiréttur Tókíó dómi undirréttar sem hafði úrskurðað að það hefði verið réttlætanlegt af lækni að gefa Misae Takeda blóð í skurðaðgerð árið 1992. Hæstiréttur lýsti yfir að „virða beri rétt sjúklings til að velja sér meðferð. Blóðgjöfin var lögbrot.“ Misae Takeda voru dæmdar sem svarar 290.000 krónum í bætur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila