Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g99 8.1. bls. 30
  • Horft á heiminn

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Horft á heiminn
  • Vaknið! – 1999
  • Millifyrirsagnir
  • Hjartasjúkdómar kvenna
  • Sendu ekki bara börnin
  • Óvæntur ilmur
  • Góðu hliðarnar á El Niño
  • Kaffibollaviðvörun
Vaknið! – 1999
g99 8.1. bls. 30

Horft á heiminn

Hjartasjúkdómar kvenna

Allt fram á sjöunda áratuginn voru hjarta- og æðasjúkdómar aðallega karlasjúkdómar í Brasilíu, að sögn tímaritsins Veja. En það breyttist þegar konur tóku að streyma út á vinnumarkaðinn. Þegar konur máttu þola sömu „streitu, reykingar og skyndibitafæði“ á vinnustað og karlar færðust hjartasjúkdómar í aukana meðal kvenna. Þótt sumir telji að hormónastarfsemi kvenna veiti þeim vissa vernd gegn kransæðasjúkdómum „dregur úr hormónaverndinni eftir 35 ára aldur og konur eru þá í sömu hættu og karlar,“ að sögn blaðsins. Árið 1995 létust helmingi fleiri brasilískar konur af völdum hjartasjúkdóma en af völdum krabbameins í brjósti og legi samanlagt.

Sendu ekki bara börnin

Þegar nemandi í þriðja bekk kvartaði undan því í trúfræðslutíma að börnum væru settar ótal reglur en fullorðnum engar, bað kennarinn bekkinn að semja tíu boðorð handa fullorðnum. Að sögn kaþólska vikublaðsins Christ in der Gegenwart, sem gefið er út í Þýskalandi, nefndu flestir nemendanna gæsku, friðsemd, sanngirni, heiðarleika og sannsögli. Eitt barnanna skrifaði eftirfarandi: „1. Þú skalt ekki vera ósanngjarn. 2. Þú skalt ekki skammast svona mikið. 3. Þú skalt ekki reka á eftir okkur. 4. Þú skalt ekki trufla okkur í sífellu. 5. Þú skalt ekki hlæja að okkur. 6. Þú skalt ekki þvinga okkur. 7. Viðurkenndu að við höfum stundum rétt fyrir okkur. 8. Þú skalt ekki setja þínar eigin reglur. 9. Þú skalt eiga góð samskipti við aðra. 10. Farðu sjálfur í kirkju, sendu ekki bara börnin.“

Óvæntur ilmur

Vínframleiðendur hafa lengi vitað að ilmur er mikilvægur til að greina milli víntegunda. Nú eru vísindamenn að flokka þau ríflega 500 efnasambönd, sem geta gefið víni einkennandi ilm, og tilgangurinn er sá að þróa betri vín. Að sögn tímaritsins New Scientist hafa vísindamennirnir fengið til liðs við sig fólk með næmt lyktarskyn. Þefarahópar hafa líkt ilmi einstakra vínefna við ilminn af lauk, hunangi, spergli, tóbaki, súkkulaði og þurrkuðum fíkjum. Í óvenjulegri kantinum eru nefndir „myglaðir sokkar, fúlegg og brennandi gúmmí.“ Ein tegund víngers myndar ilmefni sem skynja má á ýmsa vegu. „Næmi manns fyrir efninu ræður því hvort vínið verður margslungnara eða hvort lyktin verður eins og af svitablautri undirdýnu á hesti,“ segir Jane Robichaud sem vinnur að rannsókninni.

Góðu hliðarnar á El Niño

Hlýsjávarfyrirbærinu El Niño hefur verið „kennt um hvaðeina, allt frá manndrápsstormum í Bandaríkjunum til skógarelda í Brasilíu og kaffiuppskerubrests í Keníu,“ að sögn Reuters-fréttastofunnar. En sérfræðingar segja að El Niño hafi haft sínar góðu hliðar, þrátt fyrir storma og þurrka. Að sögn fréttastofunnar er búist við að kaffiframleiðsla Brasilíumanna „verði 35 milljónir sekkja á þessari uppskerutíð, sú mesta í heilan áratug,“ og „óvænt úrkoma á óvæntum stöðum hefur fyllt vatnsforðabúr og jarðlög um heim allan.“ „Vatn er vandamál víða um heim. Á mörgum þessara staða er skortur á vatni. . . . Vatnsveitustjórar biðu eftir El Niño,“ segir Ants Leetmaa, forstöðumaður Bandarísku loftslagsmiðstöðvarinnar.

Kaffibollaviðvörun

„Agnarsmáir vandræðagemlingar — þeirra á meðal hættulegir gerlar á borð við saurgerla — eru að sækja í sig veðrið af því að fólk þvær bollana sína yfirleitt ekki nógu vel og sótthreinsar ekki vaska og matargerðarborð á skrifstofum,“ að sögn dagblaðsins The Toronto Star. Vísindamennirnir Charles Gerba og Ralph Meer rannsökuðu kaffibolla og kaffigerðaráhöld á 12 skrifstofum. Iðragerlar fundust í hér um bil 40 prósentum bolla og 20 prósentum svampa í skrifstofuvöskum, og stundum saurgerlar sem geta verið hættulegir. „Það er yfirleitt merki um að hreinlæti sé áfátt,“ segir Gerba. Frétt blaðsins lýkur með þessum orðum: „Ef ekki er uppþvottavél á staðnum ætti að þvo kaffibolla upp úr heitu sápuvatni og sótthreinsa þá síðan með klórlausn eða öðru sótthreinsiefni. Tuskur og svampa ætti að hreinsa reglulega.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila