Skiptir máli hvernig við klæðum okkur?
„ÉG VEIT ekki hvað ég á að fara í!“ Hljómar þetta kunnuglega? Ef þig vantar hjálp við að velja þér föt eru tískuhúsin auðvitað óðfús að aðstoða þig með nýjustu tískunni — eða rugla þig í ríminu.
Og til að torvelda fólki að ákveða sig er frekar hvatt til druslulegs klæðnaðar en sparilegs. Tískublað sagði í ritstjórnargrein um þessa öfugþróun tíunda áratugarins: „Það er hughreystandi að vita að það er ekki aðeins boðlegt heldur beinlínis æskilegt að vera í svolítið snjáðum, slitnum og upplituðum fötum.“
Kraftmiklar auglýsingar, fyrirmyndir úr sjónvarpinu, kunningjarnir, löngun til að koma sjálfum sér á framfæri og styrkja eigin sjálfsmynd hefur á undanförnum árum haft sterk áhrif á fataval fólks, einkum unglinganna. Sumir stela jafnvel til að tolla í tískunni.
Margar vinsælar tískusveiflur þessa áratugar eru arfur frá hippahreyfingu sjöunda áratugarins eða öðrum öfgastefnum allra síðustu áratuga. Sítt og ógreitt hár, alskegg og druslulegur klæðnaður var yfirlýsing um að menn væru að hunsa hefðbundin gildi. En uppreisnarklæðnaðurinn kynti líka undir fylgispekt við nýja siði og olli nýjum hópþrýstingi.
Klæðnaður er orðinn almenn og áhrifamikil tjáningaraðferð. Föt, einkum þó stuttermabolir, eru auglýsingaskilti fyrir vinsælar íþróttir og íþróttagarpa, glens, vonbrigði, yfirgang, siðgæði — eða siðleysi — og alls kyns vörur og varning. Og þau geta hneykslað. „Unglingatískan auglýsir hrottaskap,“ stóð nýverið í fyrirsögn í tímaritinu Newsweek. Í greininni var talað við 21 árs gamlan pilt sem sagði um stuttermabolinn sinn: „Ég geng í honum af því að hann segir fólki hvers konar hugarástandi ég er í. Ég læt engan segja mér fyrir verkum og vil fá að vera í friði.“
Það er breytilegt frá manni til manns hvers konar boðskap þeir spranga með á bringunni eða bakinu. En fylgispektin er augljós, hvort sem það er við hópinn, uppreisnarandann, ég-hyggjuna, taumleysi eða ofbeldi. Einn fatahönnuður skýtur göt á fötin eftir óskum viðskiptavina. „Þeir geta valið um göt eftir skammbyssuskot, riffilskot eða vélbyssuskot,“ segir hann. „Þetta er bara ákveðin tíska.“
Hvað tjáir tískan?
„Klæðnaður er oftast leið til að kenna sig við ákveðna þjóðfélagsstétt,“ segir Jane de Teliga, safnvörður við tískudeild Powerhouse-safnsins í Sydney í Ástralíu. „Maður velur hvaða þjóðfélagsstétt maður vill láta kenna sig við og klæðist samkvæmt því.“ Dr. Dianna Kenny, lektor í sálfræði við Sydney-háskóla, bendir á að það sé alveg eins hægt að flokka fólk eftir klæðnaði eins og eftir trú, efnahag, atvinnu, þjóðerni, menntun og heimilisfangi. Að sögn tímaritsins Jet kom til kynþáttaýfinga í skóla einum í Bandaríkjunum, þar sem nemendur eru næstum allir hvítir, „út af því að hvítar skólastúlkur klæddust pokafötum, fléttuðu hárið og löguðu sig að öðru leyti að skopparatískunni sem er að jafnaði tengd blökkumönnum.“
Hóptryggðin birtist líka í ýmsum menningarkimum, til dæmis innan tónlistarinnar: „Algengt er að klæðnaður manna fari eftir tónlistarsmekk þeirra,“ segir tímaritið Maclean’s, „reggí-aðdáendur klæðast skærum litum og húfum Jamaíkabúa, en aðdáendur ‚grunge‘-rokks spóka sig í flónelskyrtum og eru með prjónahúfur.“ En hver sem útgáfan er getur hirðuleysislegt, flækingslegt og fátæklegt útlit kostað skildinginn ef því er gefið nafnið „grunge.“
Hvað er að verða um fatahefðir?
„Allt er öfugt við það sem ætla mætti,“ segir dálkahöfundurinn Woody Hochswender. „Fatatíska karlmanna, sem áður réðst af ströngum hefðum, gerist æ óstýrilátari . . . Allt á að líta út eins og því sé kastað á mann með heykvísl.“ Undir vissum kringumstæðum getur þessi tískustefna hins vegar borið vott um verulegt áhugaleysi eða lýst takmarkaðri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum.
Tímaritið Perceptual and Motor Skills fjallaði einu sinni um það hvernig nemendur skynjuðu kennara. Þar stóð: „Þótt kennari í gallabuxum væri talinn skemmtilegur var minnst mark tekið á skoðunum hans og hann var oftast talinn sá kennari sem virtist ekkert vita.“ Tímaritið lét þess einnig getið að „kennslukona í gallabuxum væri álitin skemmtileg, viðmótsgóð og ekki sérlega vel að sér. Hún naut takmarkaðrar virðingar, leit ekki út eins og kennari og var almennt talin vinsæl.“
Í viðskiptalífinu er algengt að fólk noti tískufatnað til að draga athygli að sjálfu sér. Á síðustu árum hafa æ fleiri konur sóst eftir að klífa metorðastigann. „Ég klæðist til sóknar,“ segir Marie sem gegnir stjórnunarstarfi hjá útgáfufyrirtæki. „Ég vil skera mig úr. Ég vil koma mér á framfæri með stórkostlegu útliti,“ bætir hún við. Hún viðurkennir hreinskilnislega að hún sé að beina athyglinni að sjálfri sér.
Óhjákvæmilegt er að vinsælir tískustraumar teygi sig inn fyrir kirkjuveggina. Þeir sem reyna að tolla í tískunni nota gjarnan kirkjuferðir til að flíka nýjustu fötunum. Hempuklæddur prestur horfir svo ofan úr prédikunarstólnum yfir söfnuð sem er ýmist klæddur gallabuxum og íþróttaskóm eða flaggar nýjustu tískudellunni.
Af hverju er fólk svona upptekið af sjálfu sér og ímynd sinni?
Að sögn sérfræðinga bera tískudellur, einkum meðal unga fólksins, vott um ákveðna sjálfshyggju og athyglisþörf. Þeir lýsa henni sem „þrálátri tilhneigingu unglingsins til að líta á sjálfan sig sem miðpunkt athyglinnar.“ Unglingurinn er í rauninni að segja: „Ég held að þú sért eins gagntekinn af mér og ég er.“ — American Journal of Orthopsychiatry.
Sú lífsskoðun að maðurinn sé miðpunktur alls og Guð skipti ekki máli hefur líka stuðlað að því hugarfari að þú, einstaklingurinn, sért mikilvægasta persóna alheimsins, og viðskiptaheimurinn hefur oft kynt undir þessari skoðun. Vandinn er bara sá að nú eru næstum sex milljarðar manna á jörðinni sem eru allir ‚mikilvægastir.‘ Efnishyggjan hefur yfirbugað milljónir manna í kristna heiminum sem sækjast af kappi eftir „lífsins gæðum, hér og nú.“ (Samanber 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.) Þegar svo haft er í huga hve fjölskyldunni hefur hnignað og sannur kærleikur dvínað kemur það ekki á óvart að margir, og þá sér í lagi unglingar, skuli grípa dauðahaldi í hvaðeina sem veitir þeim öryggiskennd og styrkir sjálfsmynd þeirra.
En þeir sem láta sér annt um klæðnað sinn og stöðu frammi fyrir Guði spyrja eðlilega í hvaða mæli þeir eigi að fylgja breytilegri fatahefð. Hvernig geturðu vitað hvort þú ert viðeigandi til fara? Sendirðu villandi eða jafnvel röng skilaboð um sjálfan þig með klæðaburði þínum?
Ertu viðeigandi klæddur?
Klæðaburður þinn er í eðli sínu smekksatriði. Menn hafa misjöfn fjárráð og misjafnan smekk. Og siðvenjur eru ólíkar eftir svæðum, löndum og loftslagi. En hvar sem þú ert í sveit settur ættirðu að hafa eftirfarandi meginreglu í huga: „Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1) Með öðrum orðum, klæddu þig í samræmi við stað og stund. Og þú skalt „fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum.“ — Míka 6:8.
Hér er ekki átt við það að þú eigir að vera teprulegur eða tilgerðarlegur í klæðaburði heldur að klæðnaðurinn eigi að vera „sæmandi“ og bera vott um heilbrigt hugarfar. (1. Tímóteusarbréf 2:9, 10) Málið snýst oft um hófsemi, og tímaritið Working Woman setur hófsemi í samband við góðan smekk og glæsileik. Það er góð þumalfingursregla að fötin séu ekki það fyrsta sem fólk tekur eftir þegar þig ber að garði. Tímaritið segir: „Klæddu þig . . . þannig að fólk geti horft fram hjá fötunum og séð mannkosti þína.“
Tímaritið Perceptual and Motor Skills segir: „Af ritum, sem fjalla um hlutverk klæðnaðar í skoðanamyndun og orðalausum tjáskiptum fólks, má ráða að klæðnaður eigi stóran þátt í að móta skoðun okkar á öðrum.“ Kona á fimmtugsaldri, sem naut þess að draga að sér athygli annarra með klæðaburði sínum, segir: „Þetta olli mér gífurlegum erfiðleikum af því að mörkin milli atvinnu og einkalífs urðu óljós. Karlmenn, sem ég hitti í viðskiptaerindum, voru sífellt að bjóða mér út að borða.“ Önnur kona, sem er bókari, segir um annan og mjög ólíkan fatastíl: „Ég hef fylgst með því hvernig karlmenn koma fram við konur sem klæða sig druslulega eða mjög karlmannlega. Þær eru álitnar árásargjarnar og víla ekkert fyrir sér, og fyrir vikið eru karlarnir harðari við þær.“
Ung stúlka, sem heitir Jeffie, lét klippa sig samkvæmt nýjustu tískudellu en komst þá að raun um að hún sendi frá sér villandi skilaboð. „Ég hélt bara að ég væri svolítið ‚öðruvísi‘ í útliti,“ segir hún. „En fólk fór að spyrja mig hvort ég væri virkilega vottur Jehóva, og það fannst mér vandræðalegt.“ Jeffie þurfti að spyrja sig ýmissa áleitinna spurninga. Sannleikurinn er sá að bæði munnur okkar, klæðnaður og klipping talar „af gnægð hjartans.“ (Matteus 12:34) Hvað segir klæðaburðurinn um þig — að þig langi til að beina athyglinni að skaparanum eða sjálfum þér?
Klæddu þig „í réttu hófi“
Veltu því jafnframt fyrir þér hvaða áhrif fötin þín hafi á sjálfan þig. Þú getur blásið upp sjálfsálitið með því að klæða þig nógu áberandi, ýtt undir neikvæða sjálfsmynd með því að vera druslulega klæddur, og stuttermabolir geta auglýst uppáhaldskvikmyndastjörnuna þína eða íþróttagarpinn eða einhverja aðra hetju sem stjakar þér í átt til hetjudýrkunar og hún er ekkert annað en skurðgoðadýrkun. Já, fötin þín tala til annarra og segja þeim frá þér.
Hvað ertu að segja öðrum ef þú klæðir þig til að láta taka eftir þér eða vera lokkandi í útliti? Ertu að ýta undir persónueinkenni sem þú ættir í raun réttri að reyna að sigrast á? Og hvers konar manneskju ertu að reyna að laða að þér? Ráðin í Rómverjabréfinu 12:3 geta hjálpað okkur að sigrast á sjálfshyggju, hégómagirnd og neikvæðum hugsunum. Páll postuli ráðleggur fólki að „hugsa ekki hærra um sig en hugsa ber, heldur í réttu hófi.“ Hóf og heilbrigt hugarfar er sama og skynsemi.
Þetta er mjög mikilvægt fyrir þá sem gegna ábyrgðar- og trúnaðarstöðum. Fordæmi þeirra hefur sterk áhrif á aðra. Þeir sem sækjast eftir þjónustusérréttindum í kristna söfnuðinum ættu auðvitað líka að sýna hógværð og virðingu í klæðaburði sínum, klippingu og snyrtingu. Sama er að segja um eiginkonur þeirra. Okkur ætti aldrei að langa til að vera eins og maðurinn sem Jesús nefndi sérstaklega í dæmisögu sinni um brúðkaupsveisluna: „Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann, sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum.“ Þegar konungur komst að raun um að maðurinn hafði enga boðlega ástæðu til að sýna ekki tilhlýðilega virðingu í klæðaburði sagði hann við þjóna sína: „Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur.“ — Matteus 22:11-13.
Það er því mikilvægt að foreldrar glæði með börnum sínum smekkvísi og heilbrigða afstöðu til klæðnaðar, bæði með orðum sínum og fordæmi. Foreldrar geta stundum þurft að vera fastir fyrir þegar þeir rökræða við son eða dóttur. En það er líka mjög hvetjandi þegar við fáum óvænt hrós fyrir smekklegan klæðnað og góða hegðun unga fólksins í söfnuðinum og sjálfra okkar.
Já, þjónar Jehóva hafa losað sig úr fjötrum hégómagirndar, dýrra tískusveiflna og sjálfshyggju. Þeir hafa meginreglur Guðs til leiðsagnar en ekki anda heimsins. (1. Korintubréf 2:12) Ef þú lifir eftir þessum meginreglum ættirðu ekki að eiga mjög erfitt með að velja þér föt. Og þá eru fötin eins og smekklegur rammi utan um mynd — þau hvorki yfirgnæfa persónuleika þinn né auvirða hann. Og því meir sem þú reynir að líkjast Guði, þeim mun betur ræktar þú með þér andlega fegurð sem takmarkast ekki af fötunum sem þú gengur í.