Verum til sóma í klæðaburði og andlits- og hársnyrtingu
1 „Karlmennirnir eru allir með hálsbindi, meira að segja litlu strákarnir. Konurnar og stúlkurnar, bæði unglingar og smástelpur, eru annaðhvort í kjól eða pilsi. Hvergi sjást gallabuxur eða óhnepptir skyrtukragar. Hér ljóma allir af ánægju.“ Þannig hljóðaði fréttatilkynning. Hvaða samkomu var verið að lýsa? Stjórnmálafundi, íþróttaviðburði eða rokktónleikum? Nei, það var verið að lýsa hópi bræðra og systra á fjölmennu landsmóti síðastliðið sumar.
2 Blaðamaður lýsti mótsgestum í annarri mótsborg á eftirfarandi hátt: „Karlmennirnir eru allir hreinir og klæddir jakkafötum og með bindi. Konurnar eru fínar án þess að vera neitt ögrandi í klæðaburði.“ Öryggisvörður, sem fylgdist líka með, sagði: „Þið hegðið ykkur vel, sýnið virðingu og eruð hrein og snyrtileg. Það er ánægjuleg sjón. Ykkur hefur tekist að losna við sorann í þessum sóðalega heimi.“ Þetta eru vissulega frábær ummæli. Erum við ekki þakklát fyrir það að bræðrafélagið skuli hafa getið sér svona gott orð? Vitanlega stuðluðu allir á á mótinu að þessum góðu ummælum með því að vera til fyrirmyndar í útliti.
3 Við erum orðin þekkt um heim allan fyrir að vera öðruvísi en aðrir í ytra útliti. (Mal. 3:18) Hvers vegna? Það er vegna þess að við tökum til okkar áminningu Ritningarinnar um að „[skrýðast] sæmandi búningi, með blygð og hóglæti . . . eins og sómir [þeim], er Guð vilja dýrka.“ — 1. Tím. 2:9, 10.
4 Hvað gefur klæðnaður þinn og snyrting í skyn? Fötin sem við klæðumst og hvernig við klæðumst þeim segir ákveðna sögu um okkur — um trú okkar, viðhorf og áform. Tískan sem við fylgjum segir til um hver við erum og fulltrúar hvers við erum. Höldum ekki á loft þeim siðspillta hugsunarhætti og hegðun sem nýtur vinsælda í heiminum. Það skiptir ekki máli hvort einhver tíska er mjög vinsæl heldur hvort hún er viðeigandi fyrir þá sem segjast vera þjónar Guðs. (Rómv. 12:2) Við viljum ekki að útlit okkar endurspegli sjálfstæðisanda eða gefi til kynna siðlausan lífsmáta heldur viljum við sýna að við ‚vegsömum Guð.‘ — 1. Pét. 2:12.
5 Öðru hvoru getur verið að nýir, óreyndir eða þeir sem eru andlega veikir taki upp klæðaburð og snyrtingu sem heimurinn hampar, án þess að íhuga hvaða ljósi það varpar á Jehóva og skipulag hans. Við ættum öll að líta í eigin barm og athuga hvort við höfum orðið fyrir áhrifum af hugsunarhætti heimsins. Við gætum farið til andlega þroskaðs trúbróður eða -systur og spurt um hreinskilið álit þeirra á klæðaburði okkar og snyrtingu og síðan vegið og metið athugasemdir þeirra í fullri alvöru.
6 Sumir taka fúslega undir að það sé ekki sama hvernig þeir eru til fara á meðan mótið fer fram, en hafa síðan önnur viðmið eftir að dagskránni lýkur og afþreying tekur við. Höldum okkur við þau viðmið sem sæma kristnum boðberum. (2. Kor. 6:3, 4) Hvert sem við förum manna á meðal þá einkennum við okkur sem votta Jehóva með barmmerki okkar ásamt viðeigandi klæðnaði og snyrtingu. Þess vegna ætti klæðnaður okkar alltaf að bera vott um smekkvísi og sómakennd, og sýna að við erum ekki „af heiminum.“ — Jóh. 15:19.
7 Gerum allt sem við getum í sumar á landsmótinu „Kostgæfir boðberar Guðsríkis“ til að sanna að við séum „Drottni Guði [okkar] helgaður lýður.“ Árangurinn mun ekki láta á sér standa og verða Jehóva til enn meiri „lofs, frægðar og heiðurs.“ — 5. Mós. 26:19.
[Rammi á blaðsíðu 5]
Við vegsömum Jehóva með því að:
■ Klæðast á þann hátt sem sæmir þjónum Guðs.
■ Forðast tísku sem endurspeglar anda heimsins.
■ Vera til sóma því að það ber vott um heilbrigða hugsun.