Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g 1.12 bls. 21-23
  • Ég fann svarið við óréttlætinu

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ég fann svarið við óréttlætinu
  • Vaknið! – 2012
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Martröðin hefst
  • Undir stjórn kommúnista
  • „Versta manneskjan í salnum“ gaf mér von
  • Úr fangelsi og flótti til vesturs
  • Horft næstum 90 ár aftur í tímann
  • Hvattur áfram af hollustu fjölskyldu minnar við Guð
    Vaknið! – 1998
  • Verður ákalli eftir réttlæti svarað?
    Fleiri viðfangsefni
  • Ég trúði ekki að Guð væri til
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (almenn útgáfa) – 2017
  • Hvað á ég að gjalda Jehóva?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2009
Sjá meira
Vaknið! – 2012
g 1.12 bls. 21-23

Ég fann svarið við óréttlætinu

Ursula Menne segir frá

Frá því ég man eftir mér hef ég haft brennandi löngun til að sjá alla njóta sanngirni og réttlætis. Þessi löngun varð meira að segja til þess að ég var send í fangelsi í Austur-Þýskalandi meðan kommúnistar voru þar við völd. Og svo ólíklega vildi til að einmitt þar fann ég svarið við óréttlætinu. Ég ætla að segja ykkur hvernig það vildi til.

ÉG FÆDDIST árið 1922 í borginni Halle í Þýskalandi en hún á sér meira en 1.200 ára sögu. Hún er um 200 kílómetra suðvestur af Berlín og var eitt af fyrstu höfuðvígjum mótmælendatrúarinnar. Käthe, systir mín, fæddist 1923. Pabbi var í hernum en mamma söng í leikhúsinu.

Ég hafði frá föður mínum sterka löngun til að ráða bót á óréttlæti. Þegar pabbi hætti í hernum keypti hann verslun. Viðskiptavinir hans voru að mestu leyti fátækir. Hann hafði samúð með þeim og leyfði þeim að versla út á reikning. En göfuglyndið varð til þess að hann varð gjaldþrota. Reynsla pabba hefði átt að kenna mér að það er miklu erfiðara og flóknara en maður heldur að berjast gegn misrétti og óréttlæti. En æskuhugsjónir eru eins og eldur sem erfitt er að slökkva.

Frá móður minni erfði ég listgáfu og hún kom okkur Käthe í kynni við tónlist, söng og dans. Ég var fjörugur krakki og líf okkar systranna var yndislegt, það er að segja fram til 1939.

Martröðin hefst

Þegar ég hafði lokið grunnskóla fór ég í listdansskóla en þar lærði ég meðal annars Ausdruckstanz (tjáningardans) hjá Mary Wigman. Hún var brautryðjandi í expressjónískum dansi þar sem listamaðurinn tjáir tilfinningar sínar í dansinum. Ég fór einnig að mála myndir. Unglingsárin voru því í byrjun ánægjuleg og full af skemmtilegheitum og lærdómi. En þá rann upp árið 1939 og síðari heimsstyrjöldin skall á. Við urðum fyrir öðru áfalli árið 1941 þegar pabbi lést úr berklum.

Stríð er martröð. Þótt ég væri aðeins 17 ára þegar stríðið braust út fannst mér heimurinn hafa gengið af göflunum. Ég horfði upp á nasismann heltaka ósköp venjulegt fólk. Síðan kom skorturinn, dauðinn og eyðileggingin. Húsið okkar skemmdist illa í loftárás og nokkrir úr fjölskyldunni létu lífið í stríðinu.

Þegar hernaðarátökunum lauk árið 1945 vorum við mamma og Käthe enn þá búsettar í Halle. Þegar hér var komið sögu átti ég eiginmann og litla dóttur en við hjónin vorum ekki hamingjusöm. Við slitum samvistum og ég vann sem dansari og málari til að sjá fyrir mér og dóttur minni.

Eftir stríð var Þýskalandi skipt í fjögur hernaðarsvæði og borgin okkar var á svæði Sovétríkjanna. Við urðum því öll að venjast því að vera undir stjórn kommúnista. Árið 1949 varð okkar hluti Þýskalands að Þýska alþýðulýðveldinu, yfirleitt kallað Austur-Þýskaland.

Undir stjórn kommúnista

Á þessum tíma veiktist mamma og ég þurfti að sjá um hana. Ég fór að vinna á skrifstofu sveitarstjórnarinnar. Um svipað leyti komst ég í samband við andófshóp stúdenta sem reyndi að vekja athygli á sumu af því ranglæti sem framið var. Sem dæmi má nefna að unglingi var neitað um háskólavist af því að faðir hans hafði verið félagi í nasistaflokknum. Þessi námsmaður var mér vel kunnugur þar sem við spiluðum oft saman á hljóðfæri. „Hvers vegna ætti hann að gjalda þess sem faðir hans gerði?“ hugsaði ég með mér. Ég starfaði æ meira með andófshópnum og ákvað að taka þátt í opinberum mótmælum. Einu sinni setti ég meira að segja upp dreifirit við inngang dómhússins í bænum.

Ég var ritari friðarnefndarinnar á svæðinu og sum af bréfunum, sem mér var falið að vélrita, ofbuðu réttlætiskennd minni. Einu sinni áformaði nefndin af pólitískum ástæðum að senda kommúnískt áróðursefni til roskins manns sem bjó í Vestur-Þýskalandi. Ætlunin var að gera hann tortryggilegan. Þessi óheiðarlega meðferð á manninum hneykslaði mig svo að ég faldi pakkana á skrifstofunni. Þeir voru aldrei póstlagðir.

„Versta manneskjan í salnum“ gaf mér von

Í júní árið 1951 komu tveir menn inn í skrifstofuna til mín og sögðu: „Þú ert handtekin.“ Þeir fóru með mig í fangelsi sem kallað var Roter Ochse eða Rauði uxinn. Ári síðar var ég ákærð fyrir undirróður gegn ríkinu. Námsmaður hafði svikið mig í hendur leynilögreglunnar Stasi og sagt þeim frá því þegar ég dreifði ritunum í mótmælaskyni. Réttarhöldin voru skrípaleikur því að enginn tók tillit til þess sem ég sagði mér til varnar. Ég var dæmd í sex ára fangelsi. Þar veiktist ég og var lögð inn á sjúkrasal fangelsisins þar sem voru um 40 aðrar konur. Þegar ég sá allt þetta harmþrungna fólk greip mig ofsahræðsla. Ég hljóp að hurðinni og barði hana með hnefunum.

„Hvað er að þér?“ spurði vörðurinn.

„Ég verð að komast út héðan,“ æpti ég. „Látið mig í einangrun ef þið viljið en hleypið mér bara út héðan!“ Auðvitað lét hann sem hann heyrði ekki til mín. Stuttu síðar tók ég eftir konu sem var frábrugðin hinum. Augu hennar endurspegluðu innri ró. Ég settist hjá henni.

„Ef þú sest hjá mér skaltu fara varlega,“ sagði hún mér til mikillar undrunar. Síðan bætti hún við: „Ég er álitin vera versta manneskjan í salnum af því að ég er vottur Jehóva.“

Á þessum tíma vissi ég ekki að vottar Jehóva væru álitnir óvinir kommúnistaríkisins. En það sem ég vissi um þá var að tveir biblíunemendur (eins og vottarnir voru kallaðir áður fyrr) höfðu heimsótt föður minn reglubundið þegar ég var barn. Ég mundi reyndar að pabbi hafði sagt: „Biblíunemendurnir hafa rétt fyrir sér.“

Ég grét. Það hughreysti mig svo að hitta þessa elskulegu konu en hún hét Berta Brüggemeier. „Viltu segja mér frá Jehóva,“ bað ég. Þaðan í frá höfðum við mikið saman að sælda og ræddum oft um efni Biblíunnar. Á meðal þess sem ég lærði var að hinn sanni Guð, Jehóva, er Guð kærleika, réttlætis og friðar. Ég lærði einnig að hann ætlar að gera að engu allan þann skaða sem vondir menn og harðstjórar hafa valdið. Í Sálmi 37:10, 11 segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn . . . En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“

Úr fangelsi og flótti til vesturs

Mér var sleppt úr haldi 1956 en þá hafði ég setið rúmlega fimm ár í fangelsi. Ég átti þá tvær dætur, þær Hannelore og Sabine, og fimm dögum eftir að ég varð laus flúðum við yfir til Vestur-Þýskalands. Þar skildum við hjónin og ég hafði aftur samband við vottana. Þegar ég kynnti mér Biblíuna betur gerði ég mér ljóst að ég yrði að gera miklar breytingar til þess að lifa eftir lífsreglum Jehóva. Ég gerði það og lét skírast árið 1958.

Síðar giftist ég Klaus Menne en hann var vottur Jehóva. Hjónaband okkar var farsælt og við eignuðumst tvö börn, Benjamin og Tabiu. Sá sorglegi atburður gerðist fyrir um það bil 20 árum að Klaus lést af slysförum. Ég hef verið ekkja síðan þá. En mér er mikil huggun í upprisuvoninni þar sem ég veit að hinir dánu verða reistir upp til lífsins í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Postulasagan 24:15). Það veitir mér líka huggun að vita að börnin mín fjögur starfa öll í þjónustu Jehóva.

Af biblíunámi mínu hef ég lært að enginn nema Jehóva getur veitt raunverulegt réttlæti. Ólíkt mönnum tekur hann bæði tillit til allra aðstæðna okkar og bakgrunns, en það er oft hulið augum annarra. Þessi dýrmæta þekking hefur gefið mér hugarró, einkum þegar ég verð vitni að óréttlæti eða upplifi það. Í Prédikaranum 5:8 segir: „Sjáir þú hinn snauða undirokaðan og að rétti og réttlæti er hallað í héraðinu þá furða þú þig ekki á því athæfi því að hár vakir yfir háum og hinn hæsti yfir þeim öllum.“ „Hinn hæsti“ er auðvitað skapari okkar. Í Hebreabréfinu 4:13 segir: „Allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“

Horft næstum 90 ár aftur í tímann

Ég er stundum spurð að því hvernig það hafi verið að vera bæði undir stjórn nasista og kommúnista. Hvorugt var auðvelt. Stjórnarfar beggja staðfesti einfaldlega að mennirnir geta ekki stjórnað sér sjálfir, og hið sama er raunar að segja um allt stjórnarfar manna, hvaða nafni sem það nefnist. Í Biblíunni segir blátt fram: „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ Það eru orð að sönnu. – Prédikarinn 8:9.

Þegar ég var ung og auðtrúa leitaði ég að réttlátu stjórnarfari manna. Nú veit ég betur. Það er aðeins á valdi skapara okkar að koma á sönnu réttlæti í heiminum. Og það mun hann gera með því að uppræta alla hina illu og fela Jesú Kristi, syni sínum, stjórnina yfir jörðinni. Jesús lét alltaf hag annarra sitja fyrir eigin hag. Í Biblíunni er sagt um hann: „Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti.“ (Hebreabréfið 1:9) Ég er svo þakklát fyrir að Guð leiddi mig til þessa dásamlega og réttláta konungs og ég vona að ég fái að lifa undir stjórn hans að eilífu.

[Mynd á bls. 23]

Með Hannelore og Sabine, dætrum mínum, við komuna til Vestur-Þýskalands.

[Mynd á bls. 23]

Með Benjamin, syni mínum, og Söndru, eiginkonu hans.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila