Hvattur áfram af hollustu fjölskyldu minnar við Guð
Frásaga Horsts Henschels
„Þú getur verið ánægður ef þú færð þetta bréf því að ég hef staðist allt til enda. Eftir tvo tíma verð ég líflátinn.“ Þannig hófst síðasta bréf pabba til mín. Hinn 10. maí 1944 var hann tekinn af lífi vegna þess að hann neitaði að þjóna í her Hitlers. Hollusta hans við Guð og hollusta móður minnar og systur minnar Elfriede, hefur haft mikil áhrif á líf mitt.
PABBI byrjaði að lesa rit votta Jehóva árið 1932, um það leyti sem ég fæddist. Hann sá meðal annars hræsni klerkastéttarinnar. Þar af leiðandi hafði hann ekki frekari áhuga á kirkjum.
Stuttu eftir að seinni heimsstyrjöldin braust út árið 1939 var pabbi kvaddur í þýska herinn. Hann sagði við mömmu: „Samkvæmt Biblíunni ætti ég ekki að fara. Þessi dráp eru ekki rétt.“
„Þeir drepa þig ef þú ferð ekki,“ svaraði mamma. „Hvað verður þá um fjölskyldu þína?“ Pabbi gekk því í herinn.
Mamma, sem fram að því hafði ekki numið Biblíuna, reyndi seinna að hafa samband við votta Jehóva en það var mjög hættulegt á þeim tíma. Hún fann Dóru en eiginmaður hennar var í fangabúðum vegna trúar sinnar. Dóra gaf henni eintak af Varðturninum, en hún sagði mömmu hreint út: „Mundu að ég verð líklega drepin ef Gestapó (leynilögreglan) kemst að því að ég hafi látið þig fá þetta.“
Þegar fram liðu stundir fékk mamma fleiri rit frá vottum Jehóva og byrjaði að meta biblíusannindin sem þau innihéldu. Seinna byrjaði Max Ruebsam frá grannborginni Dresden að heimsækja okkur í Meissen. Hann kenndi okkur með hjálp Biblíunnar og stofnaði sjálfum sér í mikla hættu. Hann var handtekinn skömmu síðar.
Biblíunám mömmu leiddi til þess að hún fór að trúa á Jehóva og vígði honum líf sitt og gaf tákn um það með vatnsskírn í maí 1943. Við pabbi létum skírast nokkrum mánuðum síðar. Systir mín Elfriede, sem var tvítug og vann í Dresden, lét einnig skírast um þetta leyti. Það var því mitt í seinni heimsstyrjöldinni sem við öll fjögur vígðum líf okkar Jehóva. Árið 1943 fæddi mamma yngstu systur okkar, Renate.
Ofsótt vegna trúar okkar
Áður en ég lét skírast sagði ég mig úr Hitlersæskunni. Kennarar mínir börðu mig þegar ég neitaði að heilsa með Hitlerskveðju sem var krafist daglega í skólanum. Ég fagnaði því að foreldrar mínir skyldu hafa styrkt mig svo að ég var trúfastur.
En stundum kom það fyrir að ég sagði „Heil Hitler!“, annaðhvort vegna líkamlegrar refsingar eða sökum ótta. Þá kom ég heim með tárvot augu og foreldrar mínir báðu með mér að ég gæti hert upp hugann og staðist næstu árásir óvinarins. Oftar en einu sinni veigraði ég mér við að gera það sem var rétt út af ótta, en Jehóva yfirgaf mig aldrei.
Dag einn komu Gestapómenn og leituðu í húsinu okkar. Gestapómaður spurði mömmu: „Ert þú vottur Jehóva?“ Ég sé hana enn fyrir mér halla sér að dyrakarminum og segja ákveðin: „Já“ — enda þótt hún vissi að það þýddi að hún yrði að lokum handtekin.
Tveim vikum seinna komu Gestapómenn til að handtaka mömmu. Hún var þá önnum kafin að annast Renate sem var ekki orðin ársgömul. „Ég er að gefa barninu mínu!“ mótmælti mamma. En konan, sem kom með lögreglumanninum, tók barnið úr fangi hennar og skipaði: „Hafðu þig til! Þú verður að fara.“ Þetta var sannarlega erfið stund fyrir mömmu.
Við litla systir mín vorum í umsjá pabba þar sem ekki var enn búið að handtaka hann. Morgun einn um tveim vikum eftir að mamma var flutt burt, faðmaði ég pabba mjög fast áður en ég fór í skólann. Þennan dag var pabbi handtekinn af því að hann neitaði að snúa aftur til herþjónustu. Þegar ég kom heim síðdegis var hann farinn og ég sá hann aldrei aftur.
Afi, amma og aðrir ættingjar okkar — sem voru allir á móti vottum Jehóva og tilheyrðu sumir nasistaflokknum — fengu forræði yfir litlu systur minni og mér. Þau leyfðu mér ekki að lesa Biblíuna. En eftir að ég hafði fengið biblíu með leynd frá nágrannakonu fór ég að lesa. Ég kraup líka fyrir framan rúm litlu systur og bað.
Á meðan þessu fór fram hafði systir mín Elfriede þolað ýmsar trúarraunir. Hún neitaði að vinna lengur í verksmiðju í Dresden, sem framleiddi hergögn, en henni tókst að fá vinnu við umsjón almenningsgarða og lystigarða í Meissen. Þegar hún fór á skrifstofuna til að sækja launin sín neitaði hún að heilsa með Hitlerskveðju. Að lokum var hún handtekin og henni stungið í fangelsi.
Því miður veiktist Elfriede af barnaveiki og skarlatssótt fáeinum vikum eftir að hún var sett í fangelsi. Hún var aðeins 21 árs þegar hún dó. Í einu af síðustu bréfunum sínum vitnaði hún í Lúkas 17:10: „Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gjört allt, sem yður var boðið: ‚Ónýtir þjónar erum vér, vér höfum gjört það eitt, sem vér vorum skyldir að gjöra.‘“ Hollusta hennar við Guð hefur verið mér til huggunar. — Kólossubréfið 4:11.
Raunir pabba
Á meðan pabbi var í fangelsi heimsótti móðurafi minn hann til að reyna að fá hann til að skipta um skoðun. Pabbi var leiddur fram fyrir hann, hlekkjaður á höndum og fótum. Pabbi hafnaði ákveðinn þeirri uppástungu að gegna herþjónustu vegna barna sinna. Einn fangavarðanna sagði við afa: „Jafnvel þótt þessi maður ætti tíu börn myndi hann ekki hegða sér öðruvísi.“
Afi sneri heim öskureiður. „Þessi glæpamaður!“ öskraði hann. „Þessi ónytjungur! Hvernig getur hann yfirgefið sín eigin börn?“ Þótt afi væri í uppnámi var ég ánægður að vita að pabbi væri staðfastur.
Að lokum var pabbi dæmdur til dauða og hálshöggvinn. Einhvern tíma eftir það fékk ég síðasta bréfið frá honum. Þar sem hann vissi ekki í hvaða fangelsi mamma var, hafði hann skrifað mér. Ég fór upp í herbergið mitt á rishæðinni og las upphafsorðin sem er að finna í inngangi þessarar greinar. Ég var dapur og grét en það gladdi mig að hann hafði reynst Jehóva trúfastur.
Harmur mömmu
Mamma hafði verið send í fangelsi í suðurhluta Þýskalands þar sem hún beið réttarhalda. Dag einn kom vörður inn í klefann hennar og sagði henni vingjarnlega að sitja áfram því að hann hefði slæmar fréttir að færa. En mamma stóð upp og sagði: „Ég veit að maðurinn minn hefur verið drepinn.“ Seinna sendu þeir henni blóðlituð fötin hans, þögult vitni um þær misþyrmingar sem hann þurfti að þola fyrir dauða sinn.
Öðru sinni var mamma kölluð inn á fangelsisskrifstofuna og henni sagt umbúðalaust: „Dóttir þín dó í fangelsinu. Hvernig viltu að hún verði jarðsett?“ Tilkynningin var svo skyndileg og óvænt að mamma vissi fyrst ekki hvað hún ætti að segja. En sterk trú hennar á Jehóva hélt henni uppi.
Ættingjar mínir sáu almennt vel um okkur systkinin. Þeir voru mjög vingjarnlegir við okkur. Reyndar talaði einn þeirra við kennara mína og bað þá að sýna mér þolinmæði. Kennararnir urðu líka mjög vingjarnlegir og refsuðu mér ekki þegar ég heilsaði þeim ekki með Hitlerskveðju. En öll þessi vinsemd var sýnd í þeim tilgangi að snúa mér frá biblíulegri sannfæringu minni. Því miður tókst það stundum.
Aðeins nokkrum mánuðum áður en stríðinu lauk í maí 1945 sótti ég sjálfviljugur nokkrar guðsþjónustur ungliðahreyfingar nasista. Ég skrifaði mömmu um það og af bréfum mínum fékk hún það á tilfinninguna að ég hefði horfið frá markmiði mínu að þjóna Jehóva. Hún sagði mér síðar að hún hefði verið niðurbrotnari við að fá þessi bréf en að heyra um dauða pabba og Elfriede.
Stuttu seinna lauk stríðinu og mamma sneri aftur úr fangelsinu. Með hennar hjálp náði ég aftur andlegum styrk.
Þjónusta í fullu starfi
Síðla árs 1949, fjórum árum eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk, ræddi farandumsjónarmaður um Malakí 3:10: „Færið alla tíundina í forðabúrið til þess að fæðsla sé til í húsi mínu, og reynið mig einu sinni á þennan hátt — segir [Jehóva] allsherjar.“ Það knúði mig til að fylla út umsókn um að prédika í fullu starfi. Hinn 1. janúar 1950 varð ég því brautryðjandi eins og boðberar í fullu starfi eru kallaðir. Seinna fluttist ég til Spremberg þar sem meiri þörf var á brautryðjendum.
Í ágúst sama ár var mér boðið að þjóna á deildarskrifstofu votta Jehóva í Magdeburg í Austur-Þýskalandi. En aðeins tveim dögum eftir komu mína þangað hinn 31. ágúst komu lögreglumenn hlaupandi inn á lóðina og fullyrtu að glæpamenn héldu sig þar í felum. Flestir vottanna voru handteknir og settir í fangelsi en mér tókst að sleppa og komast til Vestur-Berlínar þar sem Varðturnsfélagið hafði skrifstofu. Þar sagði ég frá því sem gerst hafði í Magdeburg. Þá var mér sagt að verið væri að handtaka marga votta alls staðar í Austur-Þýskalandi. Reyndar komst ég að því að lögreglan væri að leita að mér í Spremberg!
Handtaka og fangelsisvist
Mér var falið brautryðjandastarf í Austur-Berlín. Fáeinum mánuðum síðar, þegar ég var að flytja biblíurit frá Vestur-Berlín til Austur-Þýskalands, var ég handtekinn og fluttur til Cottbus þar sem réttað var yfir mér og ég dæmdur í 12 ára fangelsi.
Meðal annars var ég ákærður fyrir stríðsæsingar. Við réttarhöldin sagði ég í lokayfirlýsingu minni: „Hvernig er hægt að dæma mig, vott Jehóva, sem stríðsæsingamann þegar faðir minn neitaði að taka þátt í stríðinu af því að hann var vottur Jehóva og var hálshöggvinn fyrir vikið?“ En auðvitað hafði þetta fólk ekki áhuga á sannleikanum.
Ég var 19 ára og það var erfitt að hugsa til þess að vera í fangelsi í 12 ár. Ég vissi samt að margir aðrir hefðu hlotið svipaðan dóm. Stundum aðskildu yfirvöldin vottana hvern frá öðrum; en þá ræddum við sannindi Biblíunnar við aðra fanga og sumir gerðust vottar.
Öðru hverju vorum við vottarnir hafðir í sömu fangaálmu. Þá einbeittum við okkur að því að skilja Biblíuna betur. Við lærðum heilu kaflana í Biblíunni utan að og reyndum jafnvel að leggja á minnið heilu biblíubækurnar. Við settum okkur viss markmið eins og hvað ætti að gera og læra dag hvern. Stundum vorum við það uppteknir að við sögðum hver við annan: „Við höfum engan tíma,“ jafnvel þótt við eyddum öllum deginum í klefum okkar án nokkurra verkefna!
Yfirheyrslur leynilögreglunnar gátu verið óskaplega þreytandi. Þær gátu haldið áfram dag og nótt og þeim fylgdu alls konar hótanir. Einu sinni varð ég ákaflega þreyttur og niðurdreginn og mér fannst jafnvel erfitt að biðja. Eftir tvo eða þrjá daga tók ég af klefaveggnum mínum, án nokkurrar sérstakrar ástæðu, pappaspjald sem húsreglurnar stóðu á. Þegar ég sneri því við sá ég skrift. Ég hélt spjaldinu upp í dauft ljósið og sá orðin: „Hræðist eigi hann sem getur holdið deytt en enga sál,“ og „sem minn augastein ég elska alla þá er sýna trú.“ Þau eru nú hluti af söng númer tíu í söngbók votta Jehóva!
Það var greinilegt að annar bróðir í svipuðu ástandi hafði verið í þessum klefa og Jehóva Guð hafði styrkt hann. Ég endurheimti þegar í stað andlegan styrk og þakkaði Jehóva fyrir þessa uppörvun. Ég gleymi aldrei þessari lexíu af því að hún kenndi mér að með hjálp Jehóva er ekkert ómögulegt þótt sjálfur geti ég ekki haldið áfram í eigin krafti.
Mamma var flutt til Vestur-Þýskalands þannig að hún hafði ekkert samband við mig á þeim tíma. En við Hanna höfðum vaxið úr grasi í sama söfnuði og hún var nátengd fjölskyldu minni. Hún heimsótti mig öll þessi ár sem ég dvaldist í fangelsi og skrifaði mér einnig uppörvandi bréf og sendi mér dýrmæta matarpakka. Ég kvæntist henni þegar ég losnaði úr fangelsi árið 1957, eftir að hafa afplánað sex ár af 12 ára dóminum.
Sem ástkær eiginkona hefur Hanna þjónað trúföst mér við hlið við ýmis verkefni og hún hefur alltaf stutt mig vel. Aðeins Jehóva getur endurgoldið henni það sem hún hefur gert fyrir mig allan þann tíma sem við höfum þjónað saman í fullu starfi.
Þjónusta eftir fangavist
Við Hanna hófum þjónustu í fullu starfi á skrifstofu Varðturnsfélagsins í Vestur-Berlín. Þar var mér falið að vinna byggingarvinnu sem trésmiður. Seinna gerðumst við bæði brautryðjendur í Vestur-Berlín.
Willi Pohl, sem hafði umsjón með starfi okkar í Vestur-Berlín, hvatti mig til að halda áfram að læra ensku. „Ég má ekki vera að því,“ svaraði ég. En ég er glaður að hafa hlýtt og haldið áfram enskunámi mínu! Afleiðingin var sú að árið 1962 var mér boðið að sækja tíu mánaða námskeið 37. bekkjar biblíuskólans Gíleað í Brooklyn í New York. Eftir að ég sneri aftur til Þýskalands 2. desember 1962, unnum við Hanna 16 ár í farandumsjónarstarfi og heimsóttum söfnuði um allt Þýskaland. Árið 1978 var okkur boðið að þjóna á deildarskrifstofunni í Wiesbaden. Þegar starfsemi deildarskrifstofunnar var flutt í nýrra og stærra húsnæði í Selters um miðjan níunda áratuginn, þjónuðum við á þessum fallega stað í mörg ár.
Mikils metin þjónustusérréttindi
Árið 1989 gerðist nokkuð algerlega óvænt — Berlínarmúrinn féll og vottarnir í löndum Austur-Evrópu öðluðust trúfrelsi. Árið 1992 var okkur Hönnu boðið til Lviv í Úkraínu til að styðja sívaxandi hóp boðbera Guðsríkis á því svæði.
Árið eftir vorum við beðin um að fara til Rússlands til að hjálpa til við að skipuleggja starf Guðsríkis þar. Í Solnetsjnoje, þorpi um 40 km frá St. Pétursborg, voru reistar skrifstofur til að sjá um prédikunarstarfið í öllu Rússlandi og flestum öðrum ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna. Þegar við komum þangað var þegar byrjað að reisa íbúðarhúsin sem og stórar skrifstofur og geymsluhúsnæði.
Gleði okkar var takmarkalaus við vígslu nýju deildarskrifstofunnar 21. júní 1997. Alls söfnuðust saman 1492 frá 42 löndum í Solnetsjnoje fyrir þessa sérstöku dagskrá. Næsta dag söfnuðust alls 8400 saman á Petrovskíj-leikvanginum í St. Pétursborg til að hlýða á yfirlit yfir vígsludagskrána og hvetjandi frásögur gesta frá öðrum löndum.
Við höfum séð stórkostlega aukningu í hinum 15 ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna! Árið 1946 voru um 4800 boðberar Guðsríkis að prédika á þessu svæði. Næstum 40 árum seinna, árið 1985, voru þeir orðnir 26.905. Nú eru meira en 125.000 boðberar Guðsríkis í tíu ríkjum fyrrverandi Sovétríkjanna sem deildarskrifstofan okkar hér í Solnetsjnoje sér um, og meira en 100.000 manns prédika í hinum fimm fyrrverandi Sovétlýðveldunum! Við vorum yfir okkur glöð að meira en 600.000 skyldu sækja minningarhátíðina um dauða Jesú í mars 1997 í hinum 15 fyrrverandi Sovétlýðveldum!
Mig undrar þegar ég sé hve stórkostlega Jehóva Guð hefur stýrt söfnun og skipulagningu fólks síns á þessum „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Eins og sálmaritari Biblíunnar segir gefur Jehóva þjónum sínum innsæi, fræðir þá um veginn sem þeir eiga að ganga og gefur þeim ráð með augun hvílandi á þeim. (Sálmur 32:8, NW) Ég tel það vera sérréttindi að tilheyra alþjóðlegu skipulagi fólks Jehóva!
[Mynd á blaðsíðu 13]
Með systrum mínum tveim árið 1943.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Pabbi var hálshöggvinn.
[Mynd á blaðsíðu 14]
Mamma hjálpaði mér að ná aftur andlegum styrk.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Með eiginkonu minni, Hönnu.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Vígsluræðan í ríkissalnum við rússnesku deildarskrifstofuna.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Húsgarður og gluggar matsalarins á nýrri deildarskrifstofu okkar í Rússlandi.