Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g16 Nr. 1 bls. 9-11
  • Líf án sjónar

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Líf án sjónar
  • Vaknið! – 2016
  • Svipað efni
  • Hjálpum blindum að læra um Jehóva
    Ríkisþjónusta okkar – 2015
  • Tökum framförum í boðuninni – boðum blindum trúna
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2020
  • Bænum blindrar konu er svarað
    Reynslusögur af vottum Jehóva
  • Þau sáu kærleika í verki
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
Sjá meira
Vaknið! – 2016
g16 Nr. 1 bls. 9-11
Paqui með eiginmanni sínum.

Líf án sjónar

„Ég missti nánast alla sjón við fæðingu þegar of sterkir augndropar voru settir í augun á mér. Á unglingsárunum missti ég sjónina alveg og varð alvarlega þunglynd.“ – Paqui, kona á miðjum aldri. Hún er gift manni sem einnig er blindur.

BLINDA eða alvarleg sjónskerðing getur komið af ýmsum völdum, meðal annars vegna slysa eða sjúkdóma sem skaða augun, sjóntaugarnar eða heilann. Fólk sem missir sjónina fer oft í afneitun og finnur fyrir sorg og kvíða. En margir lifa þó innihaldsríku lífi þrátt fyrir sjónleysið.

Við fáum megnið af upplýsingum um umhverfi okkar í gegnum sjónina. Þegar einhver missir sjónina þarf hann því að treysta meira á önnur skilningarvit eins og heyrn, lyktarskyn, snertingu og bragðskyn.

Í tímaritinu Scientific American kemur fram að rannsóknir á sveigjanleika heilans benda til þess að hann búi yfir hæfni „til að breyta sér eftir aðstæðum“. Greinin bætir við: „Margar rannsóknir sýna að heili, sem fær ekki boð frá einu skynfæri, eykur næmni annarra skynfæra.“ Hugleiddu eftirfarandi.

Heyrn: Við búum til mynd í huganum þegar við heyrum fótatak eða raddir. „Ég hef lært að þekkja fólk af göngulaginu eða röddinni,“ segir Fernando sem er blindur. Juan, sem einnig er blindur, segir: „Blindur einstaklingur þekkir fólk á röddinni.“ Við tökum öll eftir hljómfalli í röddum fólks og getum skynjað tilfinningar og líðan þess sem talar. Sá sem er blindur tekur jafnvel enn betur eftir slíku.

Hljóð geta gefið þrautþjálfuðu eyra hins blinda heilmikið af upplýsingum varðandi umhverfið, til dæmis úr hvaða átt bílar koma, stærð á herbergi eða hvar hindranir eru á veginum.

Lyktarskyn: Lykt getur sagt okkur miklu meira en bara hverju við finnum lyktina af. Blind manneskja notar lyktarskynið til að búa til kort í huganum af leið sem hún er vön að ganga. Hún leggur á minnið lyktina af kaffihúsum, veitingastöðum, verslunum og ýmsu öðru. Snertiskynið og kunnugleg hljóð hjálpa einnig til við að gera kortið nákvæmara.

Snertiskyn: „Ég sé með fingrunum,“ segir Francisco. Hægt er að stækka þetta „sjónsvið“ með því að nota blindrastaf. Manasés fæddist blindur og lærði að nota blindrastaf þegar hann var barn. Hann segir: „Ég nota önnur skilningarvit, minnið og munstrið í gangstéttinni, sem ég finn með stafnum mínum, til að vita nákvæmlega hvar ég er staddur.“

Varðturninn lesinn á blindraletri.

Tímaritið Varðturninn lesinn á blindraletri.

Margir blindir nota snertiskynið til að lesa rit á blindraletri. Núna geta blindir notað ýmsar aðferðir til að auðga andann og styrkja trú sína. Auk rita á blindraletri er hægt að hlusta á hljóðupptökur og nýta sér tölvutæknina. Þannig geta blindir lesið Biblíuna og ýmis biblíunámsrit.a

Þessi hjálpargögn til bilíunáms hafa veitt Paqui og manni hennar, en minnst var á þau í byrjun greinarinnar, ómetanlega huggun og von. Í söfnuði Votta Jehóva þar sem þau búa hafa þau þar að auki eignast stóra andlega fjölskyldu sem hefur veitt þeim mikinn stuðning. „Núna er líf okkar innihaldsríkt og við erum að mestu leyti sjálfbjarga,“ segir Paqui.

Það er auðvitað töluverð áskorun að vera blindur. En það ber svo sannarlega vitni um aðlögunarhæfni og þrautseigju mannsins þegar fólk lætur ekki þessa erfiðleika stöðva sig heldur nýtur lífsins.

a Vottar Jehóva gefa út biblíunámsrit á blindraletri á meira en 25 tungumálum.

Líf mitt er innihaldsríkt þó að ég sé blindur

Marco Antonio með blindrahundinn sinn Dante.

Marco Antonio er eiginmaður, faðir og meðeigandi í fyrirtæki. Hann fæddist blindur. Í viðtali við Vaknið! talar hann um hindranir sem hafa orðið á vegi hans og það sem hefur veitt honum gleði.

Hvernig ferðu að því að reka fyrirtæki?

Í vinnunni sé ég um að svara fyrirspurnum í síma, funda með viðskiptavinum og birgjum ásamt því að sinna bankaviðskiptum.

Hvað gerirðu í frístundum þínum?

Ég elska tónlist. Tónlistin hjálpar mér að slaka á. Ég leik á píanó þrátt fyrir að það sé ekki auðvelt þar sem ég get ekki samtímis spilað með báðum höndum og lesið blindraletursnóturnar. Þegar ég leik lag í fyrsta skipti les ég það með hægri hendinni og spila á píanóið með vinstri. Svo skipti ég um hönd og endurtek leikinn. Þegar ég hef lært lagið utanbókar get ég spilað það með báðum höndum.

Hvaða áskorunum hefur þú mætt?

Foreldrar mínir og bræður hugsuðu vel um mig þegar ég ólst upp en gáfu mér samt enga sérmeðferð þótt ég sé blindur. Auðvitað hrasaði ég og rak mig í eins og gengur og gerist, en ég lærði að gera flesta hluti sem maður með fulla sjón gerir. Það eina sem mér fannst erfitt að sætta mig við þegar ég komst á fullorðinsárin var að geta ekki keyrt bíl.

Ég á ástríka fjölskyldu – eiginkonu og son – og við styðjum hvert annað. Sonur minn, hann David, erfði sjúkdóminn minn, sjóntaugarvisnun. Ég reyni að setja honum gott fordæmi og kenna honum að með þolinmæði og áræðni getur hann gert heilmargt.

Hvers vegna ákvaðstu að fá þér blindrahund?

Með hjálp hundsins – hann heitir Dante – get ég gengið hraðar og öruggar en áður. Loli, konan mín, er ekki blind. Hún fer með mér og hundinum þegar ég þarf að fara nýja leið. Þannig lærum við Dante leiðina. Ég verð að viðurkenna að í byrjun átti ég mjög erfitt með að treysta á hund. En Dante var traustsins verður. Hann einbeitir sér að vinnunni sama hvað gengur á í kringum okkur. En þegar ég tek af honum beislið hegðar hann sér eins og venjulegur hundur.

Þú ert vottur Jehóva. Hvernig bætirðu við þig biblíuþekkingu?

Þegar tækni fyrir blinda var takmarkaðri las Lori fyrir mig úr Biblíunni og biblíunámsritum. Hún hjálpaði mér heilmikið. Þannig gat ég meira að segja flutt ræður á safnaðarsamkomum. Núorðið les ég sjálfur því að ég er með Biblíuna og námsritin á blindraletri. Ég get líka nýtt mér vefsíðu Votta Jehóva, jw.org, þar sem ég sæki hljóðupptökur. Svo nota ég líka blindrabirti sem gerir mér kleift að lesa af tölvuskjánum. Hann myndar blindraletur með litlum pinnum sem ýtast upp. Þetta er í raun alveg frábært tæki!

Eitt verkefni, sem hefur glatt mig sérstaklega, er að aðstoða við að færa rit yfir á blindraletur á deildarskrifstofu Votta Jehóva í Madríd á Spáni. Ábendingar blindra eru mikils metnar því að það eykur gæði ritanna. Því get ég sagt með sanni að mér finnst ég bæði metinn og elskaður af trúsystkinum mínum.

Nýturðu þín í félagsskap?

Já, sérstaklega þegar ég er með fjölskyldu minni og trúsystkinum. Ég fer líka með þeim út í prédikunarstarfið. Trúsystkini mín koma ekkert öðruvísi fram við mig en aðra. Þau gleyma því jafnvel stundum að ég er blindur.

Mig langar til að bæta því við að boðunarstarfið gerir mér kleift að deila með öðrum voninni sem ég hef fundið í Biblíunni. Til dæmis segir í Jesaja 35:5 að undir stjórn Guðsríkis muni „augu blindra ljúkast upp“. Þegar Jesús Kristur var hér á jörð veitti hann okkur innsýn í þessa framtíð þegar hann gaf blindum sjón. (Matteus 15:30, 31) Blinda, eins og önnur fötlun, er því tímabundið vandamál. Í hinni komandi paradís á jörð mun enginn segjast vera veikur eða fatlaður. – Jesaja 33:24; Lúkas 23:43.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila