Hjálpum blindum að læra um Jehóva
1. Hvernig sýndi Jesús blindum samkennd?
1 Örfáum dögum fyrir dauða Jesú, þegar hann var á leið út úr borginni Jeríkó, hrópuðu tveir blindir betlarar til hans: „Drottinn, miskunna þú okkur.“ Þótt prófraunirnar, sem Jesús átti í vændum, hafi hvílt þungt á honum nam hann staðar, kallaði mennina til sín og læknaði þá. (Matt. 20:29-34) Hvernig getum við líkt eftir samkennd Jesú með blindum?
2. Hvernig getum við vitnað fyrir blindum einstaklingum sem við hittum á förnum vegi?“
2 Verum hjálpsöm: Þegar þú hittir blindan einstakling, til dæmis á förnum vegi, skaltu kynna þig og bjóða aðstoð. Hann gæti verið tortrygginn í fyrstu því blindir verða oft fyrir því að aðrir misnota traust þeirra. En einlægur áhugi þinn og vinsemd getur hjálpað honum að slaka á. Hafðu líka í huga að sumir eru blindir en aðrir sjónskertir og þurfa því aðstoð í samræmi við það. Þegar þú ert búinn að aðstoða viðkomandi gætirðu nefnt að þú takir þátt í biblíufræðslustarfi. Þú skalt bjóðast til að lesa fyrir hann biblíuvers svo sem Sálm 146:8 eða Jesaja 35:5, 6. Ef viðkomandi getur lesið blindraletur, öðru nafni punktaletur, skaltu bjóða honum rit á blindraletri, ef þau eru til á hans máli, sem geta hjálpað honum að kynnast Biblíunni betur. Þú gætir líka hjálpað honum að sækja hljóðskrár af jw.org. Ef hann hefur skjálestrarforrit í tölvunni sinni og talgervil gæti hann jafnvel haft gagn af textagreinunum á jw.org ásamt þeim ritum sem hægt er að hlaða niður á RTF-sniði (Rich Text Format) á nokkrum erlendum málum – Sjá rammann „Þegar við hjálpum blindum“.
3. Hvernig getum við ,spurst fyrir um‘ blint fólk á safnaðarsvæði okkar?
3 Spyrjumst fyrir um blinda: Við hittum sjaldan blint fólk í boðunarstarfinu hús úr húsi af því að mörgum þeirra finnst óþægilegt að koma til dyra og tala við ókunnuga. Þess vegna þurfum við að vera tilbúin að leggja eitthvað á okkur til að ,spyrjast fyrir um‘ blinda einstaklinga svo við getum vitnað fyrir þeim. (Matt. 10:11) Áttu vinnufélaga eða skólafélaga sem er blindur? Taktu frumkvæðið og talaðu við hann. Þekkirðu einhvern sem á blindan ættingja? Eru einhver samtök á safnaðarsvæði þínu sem veita blindum og sjónskertum þjónustu eða bjóða þeim leiguíbúðir? Útskýrðu fyrir ættingja hins blinda, starfsmanni í móttöku eða forstöðumanni að vottar Jehóva hafi áhuga á að hjálpa blindum og sjónskertum og bjóði rit á blindraletri, ef þau eru til á málinu, auk hljóðbóka og -bæklinga. Sýndu viðkomandi loforð Biblíunnar um að Guð sjái bráðum til þess að enginn verði blindur framar. Ef viðkomandi skilur ensku gætir þú líka boðist til að sýna myndskeiðið á jw.org sem heitir „Without It, I Would Feel Lost“, sem segir frá reynslu blinds manns sem hefur notið góðs af því að hafa Biblíuna á blindraletri. Með því að útskýra tilgang heimsóknarinnar gæti opnast leið til að hafa samband við blindan einstakling.
4. Hvað getum við lært af reynslu Janetar?
4 Blind systir, sem heitir Janet, heimsótti fólk í íbúðakjarna fyrir blinda. Hún tók unga konu tali og sagði við hana: „Jesús læknaði blinda og með því sýndi hann hvað hann ætlar að gera fyrir alla sem eru blindir.“ Þær ræddu saman um Opinberunarbókina 21:3, 4 og Janet útskýrði hvernig þetta loforð rætist fyrir tilstilli ríkis Guðs. Konan varð þögul um stund og sagði: „Ég hef aldrei heyrt þetta út frá sjónarhóli blindra. Flest sjáandi fólk heldur að fólk sé blint vegna einhvers sem það eða forfeður þess hafi gert.“ Janet sendi henni vefslóðina á bókina Hvað kennir Biblían? í tölvupósti og nú hittast þær tvisvar í viku til að ræða saman um efni bókarinnar.
5. Hvaða blessun fylgir því að sýna blindum áhuga enda þótt við getum ekki gefið þeim sjón eins og Jesús gerði?
5 Enda þótt við getum ekki gefið blindum sjón eins og Jesús gerði getum við hjálpað öllum, líka bókstaflega blindum, að skilja sannleikann í orði Guðs þrátt fyrir að guð þessarar aldar hafi blindað huga þeirra. (2. Kor. 4:4) Jesús læknaði mennina tvo í grennd við Jeríkó vegna þess að hann „kenndi í brjósti um þá“. (Matt. 20:34) Ef við sýnum blindum slíkan áhuga gætum við notið þeirrar einstöku gleði að hjálpa fólki að kynnast Jehóva, en hann mun sjá til þess að enginn verði blindur framar.