9. námskafli
Samband við áheyrendur og minnisblöð
1 Gott samband við áheyrendur auðveldar kennsluna til muna. Ræðumaður ávinnur sér virðingu þeirra og kennslan verður áhrifaríkari. Þú ættir sem ræðumaður að hafa svo gott samband við áheyrendur að þú greinir samstundis öll viðbrögð þeirra. Minnisblöð eru mikilvægur þáttur í því að hafa þannig samband við áheyrendur. Of ítarlegir minnispunktar geta spillt fyrir en ef þú ert vanur að tala með hjálp minnisblaða truflar það ekki, jafnvel þótt aðstæður útheimti að þau séu nokkuð ítarlegri en venjulega. Vanur ræðumaður missir ekki samband við áheyrendur sína með því að líta annaðhvort of oft á minnisblöðin eða á röngum tíma. Þetta er tekið til meðferðar á ráðleggingakortinu og kallast „Samband við áheyrendur, minnisblöð.“
2 Augnasamband við áheyrendur. Augnasamband er það að sjá áheyrendur. Það merkir að horfa á einstaklingana í hópnum, ekki aðeins hópinn í heild. Það merkir að sjá svipbrigði þeirra og bregðast við þeim.
3 Að horfa á áheyrendur sína merkir ekki að snúa höfðinu reglulega fram og aftur svo að enginn verði útundan. Horfðu á einhvern meðal áheyrenda og beindu einni eða tveim setningum til hans. Horfðu því næst á einhvern annan og segðu nokkrar setningar við hann. Starðu ekki svo lengi á einhvern að hann fari hjá sér og einbeittu þér ekki aðeins að fáeinum meðal áheyrenda. Haltu áfram að fara yfir áheyrendahópinn með þessum hætti, en þegar þú beinir athyglinni að einhverjum einstökum áheyranda skaltu tala beint til hans og taka eftir viðbrögðum hans áður en þú snýrð þér að þeim næsta. Hafðu minnisblöðin á ræðupúltinu, í hendinni eða í Biblíunni þannig að þú getir litið snöggt á þau með því aðeins að hreyfa augun. Ef þú þarft að lúta höfði til að líta á minnisblöðin hefur það slæm áhrif á samband þitt við áheyrendur.
4 Leiðbeinandinn fylgist bæði með hve oft þú lítur á minnisblöðin og eins hvenær. Ef þú lítur á minnisblöðin þegar þú ert í þann veginn að ná hástigi í ræðunni sérðu ekki viðbrögð áheyrenda. Ef þú ert stöðugt að líta á minnisblöðin missirðu einnig sambandið. Oftast ber það vitni um taugaspennu eða ónógan undirbúning.
5 Stundum fá hæfir ræðumenn það verkefni að flytja ræðu eftir handriti og það hefur vissulega nokkur áhrif á augnasamband þeirra við áheyrendur. En ef þeir eru vel undirbúnir og vel heima í efninu geta þeir litið á áheyrendur af og til án þess að fipast, og það verður þeim hvatning til að lesa á áhrifaríkan hátt.
6 Samband við áheyrendur með beinu ávarpi. Beint ávarp er jafnmikilvægt og augnasamband. Það tengist orðunum sem þú notar þegar þú ávarpar áheyrendur.
7 Þegar þú talar einslega við einhvern ávarpar þú hann beint með persónufornöfnum eins og „þú“ og „þér“ eða „við“ og „okkar.“ Þegar við á geturðu ávarpað stærri áheyrendahóp á sama hátt. Reyndu að líta á ræðuna sem samtal við einn eða tvo einstaklinga hverju sinni. Fylgstu grannt með þeim svo að þú getir brugðist við eins og þeir hafi raunverulega talað við þig. Það gerir flutninginn persónulegri.
8 En sýndu varúð. Vertu ekki of kumpánlegur við áheyrendur. Þú þarft ekki að vera persónulegri við þá en værir þú í virðulegu samtali við einn eða tvo í boðunarstarfinu, en þú getur og ættir að vera jafnhreinskilinn.
9 Og gættu þín á öðru. Þú verður að nota persónufornöfn varfærnislega svo að þú móðgir ekki áheyrendurna. Ef þú værir til dæmis að ræða um lögleysi ættirðu ekki að ávarpa áheyrendur eins og þú sért að gefa í skyn að þeir séu lögbrjótar. Ef þú ert á þjónustusamkomu að fjalla um slakan meðalstarfstíma gætirðu haft sjálfan þig inni í umræðunni með því að nota persónufornafnið „við“ í stað þess að segja alltaf „þið.“ Tillitssemi og nærgætni auðvelda þér að forðast slíkt.
――――◆◆◆◆◆――――
10 Notkun á minnispunktum. Fáir nýir ræðumenn tala eftir minnispunktum fyrst í stað. Venjulega skrifa þeir ræðuna orðrétt fyrirfram og ýmist lesa hana upp eða flytja hana eftir minni. Leiðbeinandinn lítur fram hjá þessu í byrjun, en þegar þú kemur að „Notkun á minnispunktum“ á ráðleggingakortinu hvetur hann þig til að tala eftir minnisblöðum. Þegar þú nærð tökum á því kemstu að raun um að þú hefur stigið stórt skref í átt að því marki að verða hæfur til að flytja opinbera fyrirlestra.
11 Ólæsir, bæði börn og fullorðnir, flytja ræður og nota skýringamyndir til minnis. Þú getur líka undirbúið ræðu þína með einföldum minnispunktum. Þú talar að staðaldri án handrits í boðunarstarfinu. Þú getur gert það jafnauðveldlega í skólanum um leið og þú hefur ákveðið það.
12 Þar eð markmiðið með þessum þjálfunarlið er að hjálpa þér að losna við handritið, bæði í undirbúningi og flutningi, ættirðu ekki að læra ræðuna utanbókar. Þá yrði þetta þjálfunarstig til einskis.
13 Ef þú notar ritningarstaði geturðu spurt þig spurninga eins og hvernig, hver, hvenær, hvar og svo framvegis. Síðan geturðu notað þessar spurningar í ræðuuppkastinu eftir því sem við á. Þegar þú flytur ræðuna skaltu einfaldlega lesa ritningarstað, spyrja sjálfan þig eða húsráðanda þessara spurninga eftir því sem við á og síðan svara þeim. Flóknara er það ekki.
14 Byrjendur eru oft smeykir um að gleyma einhverju. En ef þú hefur unnið rökrétt úr efninu tekur enginn eftir því þótt þú sleppir einhverju úr. Efnisyfirferðin er ekki aðalatriðið á þessu stigi hvort eð er. Nú skiptir mestu að þú lærir að flytja ræðu eftir minnispunktum.
15 Þegar þú flytur þessa ræðu getur þér fundist sem þú hafir týnt niður ýmsu af því sem þú varst búinn að tileinka þér. En örvæntu ekki. Það skilar sér aftur og þú kemst að raun um að þú hefur enn betra vald á því þegar þú hefur lært að tala án handrits.
16 Fáein orð um minnisblöð sem þú notar fyrir ræður í Guðveldisskólanum. Þú átt að nota þau til að minna þig á hugmyndir, ekki til að lesa upp af þeim. Minnispunktar ættu að vera stuttir. Þeir ættu einnig að vera snyrtilegir og læsilegir. Ef sviðsetningin er endurheimsókn ættu minnisblöðin að vera lítt áberandi, ef til vill falin í biblíunni þinni. Ef ræðan er flutt frá ræðupallinum og þú veist að þú stendur við ræðupúltið ættu minnisblöðin ekki að vera neitt vandamál. En ef þú ert ekki viss skaltu undirbúa þig samkvæmt því.
17 Önnur hjálp er að skrifa stefið efst á minnisblaðið. Aðalatriðin ættu einnig að skera sig vel úr. Reyndu að strika undir þau eða skrifa þau með upphafsstöfum.
18 Þó svo að þú notir aðeins stutta minnispunkta við flutning ræðunnar þýðir það ekki að þú getir kastað höndum til undirbúnings hennar. Fyrst skaltu undirbúa ræðuna í smáatriðum með því að skrifa minnispunkta sem þú hefur eins nákvæma og þér finnst þurfa. Síðan skaltu gera aðra minnispunkta, mun styttri. Það eru þessir minnispunktar sem þú notar svo þegar þú flytur ræðuna.
19 Leggðu nú bæði minnisblöðin fyrir framan þig og segðu eins mikið og þú getur um fyrsta aðalatriðið með því að líta aðeins á styttri minnispunktana. Líttu síðan á ítarlegri minnispunktana og athugaðu hvað þér hefur yfirsést. Snúðu þér svo að næsta aðalatriði í styttri minnispunktunum og farðu eins að. Að lokum þekkirðu stuttu minnispunktana svo vel að þú nærð að muna allt sem er á nákvæmara minnisblaðinu með því einu að líta á þessi fáu stuttorðu minnisatriði. Með æfingu og reynslu lærirðu að meta kosti þess að tala án þess að hafa útskrifaða ræðu og notar ekki handrit nema það sé nauðsynlegt. Þú verður afslappaðri þegar þú talar og áheyrendur þínir hlýða á með meiri virðingu.
[Spurningar]
1. Útskýrðu mikilvægi þess að hafa samband við áheyrendur og hlutverk minnisblaða til þess.
2-5. Hvað stuðlar að góðu augnasambandi við áheyrendur?
6-9. Bentu á aðra leið til að ná sambandi við áheyrendur og hvað þurfi að forðast.
10, 11. Hvað ætti að hvetja okkur til að læra að nota minnispunkta?
12, 13. Hvernig á að gera minnispunkta?
14, 15. Hvað ætti ekki að draga úr okkur kjark?
16, 17. Hvað þarf að hafa í huga við gerð minnisblaða?
18, 19. Hvernig er hægt að æfa sig í að nota minnispunkta?