Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 27 bls. 38-42
  • Áhersla á ræðustef og aðalatriði

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Áhersla á ræðustef og aðalatriði
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • Unnið úr stefinu
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Aðalatriðin dregin fram
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
  • Aðalatriðin dregin fram
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Að semja uppkast
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Sjá meira
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 27 bls. 38-42

8. námskafli

Áhersla á ræðustef og aðalatriði

1 Ræða þarf að hafa stef til að marka stefnuna og hnýta hana þægilega saman í eina heild. Hvert svo sem stefið er verður það að vera sem rauður þráður gegnum ræðuna. Það er kjarni hennar. Helst þarf að vera hægt að segja stefið í einni setningu sem jafnframt felur í sér alla þætti ræðuefnisins. Öllum áheyrendum ætti að vera ljóst hvert stefið er og það tekst ef því er gefin viðeigandi áhersla.

2 Ræðustef er alls ekki yfirgripsmikið efni eins og „trú“ heldur er það ein afmörkuð hlið þess máls sem rætt er um. Stefið gæti til dæmis verið „Trú þín — hversu langt nær hún?“ eða „Trú er nauðsynleg til að þóknast Guði“ eða „Grundvöllur trúar þinnar“ eða „Haltu áfram að vaxa í trúnni.“ Enda þótt öll þessi stef fjalli um trú ræða þau efnið hvert á sinn hátt svo að vinna þarf úr þeim á gerólíka vegu.

3 Þú getur þurft að viða að þér efni áður en þú velur stef. En stefið verður að liggja ljóst fyrir áður en þú byrjar að semja minnispunkta ræðunnar eða áður en aðalatriðin eru valin. Tökum dæmi: Þú ætlar kannski að ræða um skipulag votta Jehóva í lok hverrar námsstundar á heimabiblíunámskeiði. Það er yfirgripsmikið efni. Til að ákveða hvað þú ætlar að segja um þetta efni þarftu að hugsa um áheyrendur þína og markmið ræðunnar. Þú velur síðan stefið á þeim grundvelli. Sértu að reyna að hjálpa biblíunemanda að taka þátt í boðunarstarfinu geturðu ákveðið að sýna fram á að vottar Jehóva líki eftir Jesú Kristi með því að prédika hús úr húsi. Þá yrði það stefið. Allt sem þú segðir væri því skýring á þeim þætti þessa yfirgripsmikla efnis, vottar Jehóva.

4 Hvernig geturðu lagt áherslu á ákveðið stef í ræðunni? Fyrst þarftu að velja viðeigandi stef sem hæfir markmiði þínu. Það kostar undirbúning. Þegar stefið er valið og ræðan byggð á því leggurðu næstum sjálfkrafa áherslu á það ef þú fylgir minnispunktunum sem þú hefur undirbúið. En þú tryggir enn frekar að stefið komi fram ef þú endurtekur lykilorð eða meginhugmynd þess af og til í ræðunni.

5 Viðeigandi stef. Í Guðveldisskólanum er yfirleitt ekkert vandamál að finna sér stef við hæfi því að það er oftast valið fyrir þig. En svo er ekki um allar ræður sem þú þarft að flytja. Því er viturlegt að gefa stefinu góðan gaum.

6 Hvað ákvarðar hvort stef sé viðeigandi? Þar er að mörgu að hyggja. Þú þarft að hafa áheyrendur í huga, markmið þitt og efnið sem þér hefur verið úthlutað, ef um það er að ræða. Ef þú kemst að raun um að þú ert að flytja ræðu án þess að leggja áherslu á nokkurt stef má vera að þú hafir hreinlega ekki byggt ræðuna á neinni meginhugmynd. Vera má að þú sért með of margt í ræðunni sem kemur stefinu hreinlega ekkert við.

7 Að endurtaka lykilorð eða hugmynd stefsins. Ein leið til að halda stefinu á loft í öllum ræðuköflum er að endurtaka lykilorð eða meginhugmynd þess. Stef í tónlist er laglína sem er endurtekin nógu oft til að einkenna allt tónverkið. Oftast þekkist verkið á fáeinum töktum. Laglínan er ekki alltaf endurtekin í sömu mynd. Stundum eru aðeins einn eða tveir taktar notaðir og öðru hverju bregður fyrir tilbrigðum um stefið, en á einn eða annan hátt fléttar tónskáldið stefinu haganlega inn í tónverkið uns það gagntekur allt verkið og einkennir það.

8 Þannig ætti ræðustefið að vera. Lykilorð eða hugmyndir þess koma fram aftur og aftur eins og endurtekin laglína í tónverki. Samheiti eða umorðuð meginhugmynd stefsins er eins og tilbrigði um stefið. Sé slíkum aðferðum beitt með lagni og ekki svo oft að ræðan verði tilbreytingarlaus dregur það fram stefið svo að öll ræðan ber svipmót þess. Áheyrendur hafa þá aðalatriðin skýr í huga þegar þeir halda heimleiðis.

――――◆◆◆◆◆――――

9 Eftir að hafa ákveðið ræðustefið er næsta undirbúningsskrefið að velja aðalatriðin sem þú ætlar að nota til að vinna úr því. Á ráðleggingakortinu er þetta kallað „Aðalatriðin dregin fram.“

10 Hver eru aðalatriði ræðu? Þau eru ekki aðeins áhugaverðar hugmyndir eða efni sem minnst er á stuttlega. Þau eru aðalefni ræðunnar, hugmyndir sem fjallað er um í alllöngu máli. Þau eru eins og hillumerkingar eða skilti í matvöruverslun sem hjálpa þér að finna hvað er á hverri hillu, og þau ráða því líka hvað á heima á viðkomandi hillum og hvað ekki. Sultur og hlaup eiga ekki heima undir skiltinu MORGUNKORN og myndu aðeins valda ruglingi. Hrísgrjón eiga ekki heima undir skiltinu TE OG KAFFI. Ef hillurnar eru svo yfirfullar að hillumerkingarnar sjást ekki er erfitt að finna nokkurn skapaðan hlut. En ef skiltin sjást greinilega er auðvelt að átta sig á hvað maður hefur fyrir framan sig. Eins er það með aðalatriði ræðunnar. Svo framarlega sem þau skiljast og hægt er að muna eftir þeim þurfa áheyrendur ekki að skrifa hjá sér marga minnispunkta til að fylgja þér ræðuna á enda.

11 Eitt enn: Val á aðalatriðum og notkun þeirra er breytileg eftir áheyrendum og markmiði ræðunnar. Skólahirðirinn ætti þar af leiðandi að meta val nemandans á aðalatriðum eftir því hvernig þau eru notuð en ekki eftir því hvernig hann hefði sjálfur valið þau.

12 Hafðu aðeins hið allra nauðsynlegasta með þegar þú velur efnið. Spyrðu hvað geri atriði mikilvægt. Það er mikilvægt ef þú nærð ekki markmiði þínu með ræðunni án þess. Ef þú ert til dæmis að ræða um lausnargjaldið við mann sem þekkir ekki til þeirrar kenningar er mikilvægt að sýna fram á að Jesús hafi verið maður hér á jörð. Að öðrum kosti er ekki hægt að sýna fram á að lausnarfórn hans hafi samsvarað lífi Adams. Þar af leiðandi þarf það að vera eitt af þeim aðalatriðum sem þú fjallar um. Ef þú værir hins vegar búinn að sanna fyrir viðmælanda þínum að þrenningarkenningin sé röng þarftu líklega ekki að ræða sérstaklega um að Jesús hafi verið maður því að hann er þegar búinn að viðurkenna það. Og þar af leiðandi ætti að vera tiltölulega auðvelt að sýna fram á að fórn Jesú hafi samsvarað fullkomnu lífi Adams. Þá væri ekki nauðsynlegt að fjalla sérstaklega um að Jesús hafi verið maður.

13 Spyrðu þig því hvað áheyrendur viti nú þegar. Hvað þarftu að sýna fram á til að ná markmiði þínu? Ef þú veist svarið við fyrri spurningunni geturðu svarað þeirri síðari með því að safna efninu saman, leggja allt þekkt efni til hliðar um stund og raða síðan öllu því sem eftir er í eins fáa efnisflokka og hægt er. Þessir efnisflokkar verða eins og skilti sem benda á hvaða andlegu fæðu þú hafir fram að færa. Þessi merki eða aðalatriði mega aldrei falla í skugga eða verða óljós. Þau eru aðalatriði ræðunnar og verða því að skera sig úr.

14 Ekki of mörg aðalatriði. Ákveðið ræðuefni skiptist aðeins niður í fáein aðalatriði. Oftast má telja þau á fingrum annarrar handar, óháð því hve langan tíma þú hefur til að flytja þau. Gættu þess að falla ekki í þá algengu tálgryfju að reyna að láta of mörg atriði skera sig úr. Þegar matvöruverslun verður of stór og vöruflokkar of margir getur maður þurft að spyrja til vegar. Áheyrendur ná aðeins að meðtaka vissan fjölda mismunandi hugmynda í einu. Og því lengri sem ræðan er, þeim mun einfaldari verður hún að vera og aðalatriðin kröftugri og skýrari. Reyndu því ekki að láta áheyrendur muna of margt. Veldu það sem þú telur vera algerlega ómissandi fyrir þá og notaðu síðan allan tímann til að ræða um það.

15 Hvað ræður því hvort atriðin eru hæfilega mörg eða of mörg? Nota má einfalda reglu til að kanna það: Ef hægt er að sleppa einhverri hugmynd og ná samt markmiði ræðunnar, þá er ekki um aðalatriði að ræða. Þú getur valið að nota þetta sem tengilið eða minnispunkt til að fullmóta ræðuna, en það ætti ekki á neinn hátt að skera sig úr eins og það væri ómissandi.

16 Eitt enn: Þú þarft að hafa nægan tíma til að vinna vel og sannfærandi úr hverju einstöku atriði. Ef segja þarf mikið á stuttum tíma skaltu segja sem minnst um efni sem áheyrendur þekkja nú þegar. Skerðu burt allt nema það sem er áheyrendum framandi og útskýrðu það svo vel að þeir geti ekki gleymt því.

17 Loks þarf ræðan að hafa á sér einfalt yfirbragð. Það ræðst meira af því hvernig efnið er tengt saman en efnismagninu. Ef þú kæmir til dæmis inn í verslun þar sem vörurnar stæðu í einni hrúgu á miðju gólfinu virtist hún yfirfull og mjög ruglingsleg. Þú fyndir ekki nokkurn hlut. En þegar vörum er vel raðað og skyldar vörur flokkaðar saman og merktar með viðeigandi skilti hefur það góð áhrif og auðvelt er að finna hvern einstakan hlut. Gerðu ræðuna einfalda með því að flokka hugsanir þínar með fáeinum aðalhugmyndum.

18 Unnið úr hverju aðalatriði fyrir sig. Sérhvert aðalatriði þarf að standa óstutt og vinna þarf úr hverju fyrir sig. Það kemur ekki í veg fyrir stutt yfirlit eða ágrip aðalatriða í inngangi eða niðurlagi ræðunnar. En í sjálfu meginmáli ræðunnar ættirðu aðeins að ræða um eina aðalhugmynd hverju sinni og hoppa ekki til baka eða láta hugmyndir skarast meira en nauðsynlegt er sökum samhengis eða áherslu. Þegar þú lærir að gera minnispunkta með efnisorðum er það mikil hjálp til að ákvarða hvort unnið sé úr aðalatriðunum hverju fyrir sig.

19 Annað efni styður aðalatriðin. Sönnunargögn, ritningarstaðir eða annað efni ætti að beina athyglinni að aðalhugmyndinni og styrkja hana.

20 Meðan á undirbúningi stendur skaltu brjóta allt stuðningsefni til mergjar og halda því einu eftir sem beinlínis styður aðalatriðin, ýmist með því að skýra þau, sanna eða styrkja. Öllu óviðkomandi ætti að sleppa. Það myndi aðeins flækja málið.

21 Allt stuðningsefni ætti að tengjast ákveðinni aðalhugmynd. Láttu ekki áheyrendur um heimfærsluna. Sýndu greinilega fram á tengslin. Segðu hver tengslin séu. Það sem er ekki sagt skilst venjulega ekki. Þú getur náð þessu fram með því að endurtaka lykilorð sem lýsa aðalhugmyndinni eða með því að endurtaka aðalhugmyndina annað slagið. Þegar þú nærð tökum á þeirri list að láta stuðningsefnið beina athyglinni að aðalatriðum ræðunnar og að hnýta hvert aðalatriði við stefið, þá verða ræður þínar þægilega einfaldar, auðveldar í flutningi og erfitt verður að gleyma þeim.

[Spurningar]

1-4. Hvað er átt við með ræðustefi?

5, 6. Hvernig geturðu kannað hvort stef sé viðeigandi?

7, 8. Nefndu dæmi um hvernig leggja megi áherslu á stefið.

9-13. Útskýrðu hver séu aðalatriði ræðu. Nefndu dæmi.

14-17. Hvers vegna ættu aðalatriði ræðunnar ekki að vera of mörg?

18. Hvernig ætti að vinna úr aðalatriðunum?

19-21. Hvernig á að nota stuðningsefni?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila