10. námskafli
Málfimi, samtalsform og framburður
1 Þarftu oft að leita að réttu orðunum þegar þú stendur upp til að flytja ræðu? Hnýturðu um viss orð þegar þú lest upphátt? Ef svo er þarftu að æfa þig í málfimi. Málfimur maður á auðvelt með að koma orðum að hugsun sinni. Hér er ekki átt við „tungulipran“ mann sem getur látið dæluna ganga yfirborðskennt og hugsunarlaust. Málfimur maður er þægilegur áheyrnar, mál hans er létt og frjálslegt. Málfimi er einn þáttur góðrar ræðumennsku sem tekið er til meðferðar á ráðleggingakortinu.
2 Stirðmæli má oftast rekja til óskýrrar hugsunar og ófullnægjandi undirbúnings en það getur einnig stafað af takmörkuðum orðaforða eða slæmu orðavali. Stirðmæli í upplestri stafar venjulega af ónógri æfingu í upplestri, en staut eða hik getur líka orsakast af því að lesandinn þekkir ekki orðin. Í boðunarstarfinu getur stirðmæli stafað af öllu þessu, ásamt óöryggi og feimni. Þar er þetta sérlega alvarlegt vandamál því að í sumum tilvikum geta áheyrendur bókstaflega gengið burt. Áheyrendur í ríkissalnum ganga ekki bókstaflega út en hugur þeirra reikar og stór hluti þess sem þú segir fer fyrir ofan garð og neðan. Málfimi er því mikilvægur eiginleiki sem þú þarft að leggja þig fram um að þjálfa.
3 Margir ræðumenn hafa þann óþægilega óvana að skjóta inn „hérna, sko, er“ eða öðrum slíkum hikorðum. Sumir styðjast við málhækjur eins og „e-e-e“ eða u-u-u.“ Ef þú veist ekki hve oft þú skýtur inn hikorðum eða málhækjum í ræðu þína gætirðu reynt að láta einhvern hlusta þegar þú æfir þig og grípa fram í fyrir þér og endurtaka hikorðið í hvert sinn sem þú segir það. Árangurinn gæti komið þér á óvart.
4 Aðrir hafa þann slæma ávana að vera sífellt að hætta í miðri setningu og byrja upp á nýtt. Ef þú gerir það skaltu reyna að sigrast á því í daglegu tali. Leggðu þig meðvitað fram um að hugsa fyrst og móta skýra hugsun. Segðu síðan það sem þú ætlar þér án þess að hætta í miðju kafi eða breyta um hugmynd í miðjum klíðum.
5 Eitt enn. Við erum vön að nota orð til að tjá okkur. Orðin ættu að koma eðlilega ef við vitum nákvæmlega hvað við ætlum að segja. Þú þarft ekki að hugsa um orðin. Reyndar er betra æfingarinnar vegna að gæta þess að hugmyndin sé skýr í huga þér og hugsa síðan um orðin meðan þú talar. Ef þú gerir það og einbeitir þér að hugmyndunum fremur en orðunum, sem þú ætlar að tjá þær með, þá ættu orðin að koma sjálfkrafa og þú ættir að geta tjáð hugsanir þínar eins og þú skynjar þær. En um leið og þú ferð að hugsa um orð í stað hugmynda verður þú haltrandi í máli.
6 Ef það er orðavalið sem veldur stirðmæli þarftu að nema reglulega um tíma til að auka orðaforðann. Taktu sérstaklega eftir framandi orðum í Varðturninum og öðrum ritum Félagsins og bættu sumum þeirra við daglegan orðaforða þinn.
7 Þar sem stirðlæsi stafar í flestum tilvikum af vanþekkingu á orðum væri viturlegt af þér að æfa upplestur reglulega og kerfisbundið, ef þú ert stirðlæs.
8 Það má til dæmis gera á þann hátt að velja sér eina eða tvær efnisgreinar og lesa þær vandlega í hljóði uns þú ert vel heima í meginhugmynd alls efniskaflans. Einangraðu samstæðar hugmyndir og merktu við í hvert sinn sem ný hugmynd byrjar. Æfðu þig síðan í að lesa þennan efniskafla upphátt. Lestu hann aftur og aftur uns þú getur lesið allt efnið án þess að hika eða þagna á röngum stöðum.
9 Þú ættir að segja framandi eða erfið orð aftur og aftur þar til þú átt auðvelt með að bera þau fram. Þegar þú getur sagt þetta erfiða orð eitt sér skaltu lesa alla setninguna ásamt orðinu uns þú getur bætt því jafnauðveldlega við setninguna og þeim orðum sem þú þekkir betur.
10 Æfðu þig einnig jafnt og þétt í að lesa án undirbúnings. Lestu til dæmis dagstextann og skýringarnar við hann upphátt þegar þú sérð hann í fyrsta skipti. Þjálfaðu augun til að sjá í sömu andrá þau orð sem mynda ákveðna hugmynd frekar en að sjá aðeins eitt orð í einu. Með æfingunni geturðu þjálfað þig í þessum mikilvæga eiginleika góðs máls og lestrar.
――――◆◆◆◆◆――――
11 „Samtalsform“ er annar eiginleiki góðrar ræðumennsku sem nefndur er á ráðleggingakortinu. Þú átt ekki í neinum vandræðum með samtalsformið í daglegu lífi en hvað gerist þegar þú flytur ræðu? Sumir, sem að öllu jöfnu eiga auðvelt með að tjá sig og jafnvel tala við fjölmennan hóp, verða einhvern veginn formlegir og tala í „ræðutón“ þegar þeir eru beðnir um að undirbúa og „flytja ræðu.“ Engu að síður er samtalsformið heppilegast til að flytja opinberan fyrirlestur.
12 Talmálsorð notuð. Orðfæri ræður miklu um áhrif samtalsformsins. Við undirbúning ræðu, sem ætlunin er að flytja eftir minnispunktum, er yfirleitt ekki gott að endurtaka nákvæmlega það orðalag sem birtist á prenti. Ritmál er frábrugðið talmáli. Mótaðu því hugmyndirnar í samræmi við það orðfæri sem þér er tamt. Forðastu flóknar setningar.
13 Málfar þitt á ræðupallinum ætti að endurspegla daglegt orðfæri þitt. Þú ættir ekki að reyna að „gera þig merkilegan.“ Engu að síður er eðlilegt að ræðan, sem þú hefur undirbúið, verði fágaðri en daglegt málfar þitt því að þú hefur ígrundað efnið fyrirfram og verður því fimari í máli. Þar af leiðandi ættirðu að geta tjáð þig á hnitmiðaðri hátt.
14 Þetta leggur áherslu á mikilvægi daglegrar æfingar. Vertu eðlilegur þegar þú talar. Forðastu slangur. Forðastu að endurtaka sömu orð og setningar í sífellu til að koma ólíkum hugsunum á framfæri. Lærðu að tala innihaldsríkt mál. Leggðu metnað í að tala gott daglegt mál. Þá renna orðin auðveldlega fram af munni þínum þegar þú ert á ræðupallinum og þú getur talað eðlilega, litríkt og hnökralaust mál sem öllum þykir þægilegt á að hlýða.
15 Þetta skiptir sérstaklega miklu máli í boðunarstarfinu. Þegar þú flytur nemendaræðu og sviðssetningin er samtal við húsráðanda, reyndu þá að tala eins og þú sért í boðunarstarfinu með því að nota orðfæri sem þér væri tamt að nota þar. Þá verður ræðan óformleg og eðlileg, auk þess að þjálfa þig í áhrifaríkari kynningum í boðunarstarfinu.
16 Eðlilegt hljómfall. Samtalsform felst ekki einvörðungu í réttu orðfæri. Framsetning eða flutningur skiptir einnig máli. Þar er átt við raddblæ, hrynjandi og eðlilega tjáningu. Flutningurinn á að vera jafneðlilegur og um væri að ræða samtal í dagsins önn, þó svo að hækka þurfi róminn þegar talað er fyrir stórum hópi.
17 Samtalsformið er andstæða ræðuformsins. Það er laust við „fyrirlestrartóninn“ og alla tilgerð.
18 Ein ástæðan fyrir því að byrjendur í ræðulistinni glata oft samtalsforminu er sú að þeir undirbúa orðalag ræðunnar allt of rækilega. Hugsaðu ekki sem svo að þú þurfir að kunna ræðuna næstum utanbókar til að vera nægilega vel undirbúinn. Við undirbúning minnispunktaræðu ætti að leggja áhersluna á að íhuga vandlega þær hugmyndir sem fjalla skal um. Þú ættir að rifja hugmyndirnar upp uns eitt leiðir af öðru í huga þér. Það ætti ekki að vera erfitt ef þú hefur unnið rökrétt og skipulega úr þeim, og hugmyndirnar ættu að koma eðlilega og auðveldlega fram þegar ræðan er flutt. Ef svo er og séu þær bornar fram í þeim tilgangi að koma góðu efni á framfæri verður ræðan flutt í samtalsformi.
19 Ein leið til að tryggja þetta er að gera sér far um að tala til mismunandi einstaklinga meðal áheyrenda. Beindu máli þínu að einum í einu. Hugsaðu þér að hann hafi spurt spurningar og svaraðu henni síðan. Ímyndaðu þér að þú sért að útskýra þetta ákveðna efni í persónulegum samræðum við þennan einstakling. Snúðu þér síðan að einhverjum öðrum áheyranda og farðu eins að.
20 Samtalsform í upplestri er einhver erfiðasti þáttur góðrar ræðumennsku en jafnframt einn sá mikilvægasti. Þegar við lesum upphátt á opinberum vettvangi er það að sjálfsögðu aðallega úr Biblíunni. Við erum þá að lesa ritningarstaði í minnispunktaræðu. Það ætti að lesa úr Biblíunni af tilfinningu og með skýrum skilningi á efninu. Lesturinn ætti að vera lifandi. Sannir þjónar Guðs viðhafa hins vegar aldrei hástemmdan helgiblæ klerkastéttarinnar. Þjónar Jehóva vilja lesa orð hans með eðlilegum áherslum og því látlausa raunsæi sem hið lifandi mál bókarinnar verðskuldar.
21 Hið sama gildir að mestu leyti um upplestur í Varðturnsnáminu eða bóknáminu. Orðfæri og setningaskipan er ekki talmálsleg þannig að lesturinn getur ekki alltaf hljómað sem venjulegar samræður. En ef þú skilur það sem þú ert að lesa og lest það eins eðlilega og skilmerkilega og þér er frekast unnt, þá geturðu fengið það til að hljóma eins og minnispunktaræðu, þó svo að þú verðir nokkuð formlegri en þú ert vanur. Ef þú getur undirbúið þig fyrirfram ættirðu að merkja við í lesmálið á einhvern þann hátt sem auðveldar þér lesturinn, og gerðu þitt ítrasta til að flytja efnið eðlilega og óþvingað.
22 Samtalsform í upplestri eða ræðu byggist á því að vera einlægur og eðlilegur. Leggðu þig allan fram við flutninginn og höfðaðu til áheyrenda.
23 Það er ekki hægt að bregða fyrir sig góðu málfari við og við frekar en góðum mannasiðum. Ef þú temur þér hins vegar gott málfar dags daglega notarðu það líka á ræðupallinum, líkt og góðir mannasiðir, sem þú temur þér heima fyrir, eru þér til prýði þegar þú ert á meðal fólks.
――――◆◆◆◆◆――――
24 Framburður. Réttur framburður er einnig mikilvægur og er sjálfstæður þjálfunarliður á ráðleggingakortinu. Það hafa ekki allir kristnir menn fengið mikla veraldlega menntun frekar en þeir Pétur og Jóhannes sem voru sagðir ólærðir leikmenn. Engu að síður er mjög mikilvægt að draga ekki athyglina frá kynningu fagnaðarerindisins með lélegum framburði. Á þessu er auðvelt að ráða bót ef við gefum því nægan gaum.
25 Mjög slakur framburður getur jafnvel valdið röngum skilningi á því sem sagt er, og það væri vissulega mjög óheppilegt. Þegar þú heyrir ræðumann bera orð rangt fram hefur það venjulega sömu áhrif á eftirtektina og rautt stöðvunarljós á gatnamótum. Kannski hættirðu jafnvel að fylgjast með rökfærslunni og ferð að hugsa um orðið sem hann bar rangt fram. Þá getur athyglin beinst frá því sem sagt er að því hvernig það er sagt.
26 Segja má að í meginatriðum sé um þrenns konar vandamál að ræða í sambandi við framburð. Eitt þeirra er beinlínis rangur framburður þar sem áhersla er á röngu atkvæði eða bókstafur er borinn fram með röngu hljóði. Í flestum nútímamálum fylgja áherslur ákveðnu kerfi. Í íslensku er áherslan alltaf á fyrsta atkvæði orðs. Í öðru lagi getur réttur framburður hljómað tilgerðarlega eða snobbaður ef hann er ýktur eða óhóflega nákvæmur, og það er ekki æskilegt. Þriðja vandamálið er latmæli, óvandaður eða óskýr framburður þar sem hlaupið er yfir atkvæði eða orðin renna saman í óskýra bunu. Það ber að forðast.
27 Í daglegu tali notum við orð sem við þekkjum vel þannig að þar er framburðurinn ekkert sérstakt vandamál. Aftur á móti vandast málið í upplestri. En vottar Jehóva lesa mikið, bæði í annarra áheyrn og einslega. Við lesum úr Biblíunni í boðunarstarfinu hús úr húsi. Stundum erum við beðnir að lesa greinarnar í Varðturnsnáminu, í heimabiblíunámi eða í safnaðarbóknámi. Það er mikilvægt að upplesturinn sé nákvæmur og framburður réttur. Annars fá áheyrendur það á tilfinninguna að við vitum ekki hvað við erum að tala um. Auk þess dregur það athyglina frá boðskapnum.
28 Tilsögn um rangan framburð ætti að vera hófleg. Ef vafi leikur á um framburð eins eða tveggja orða nægir að leiðbeina nemandanum einslega. En jafnvel þótt það séu aðeins fáein orð, sem borin eru rangt fram í ræðu, er gott fyrir nemandann að skólahirðirinn bendi honum á það og hann læri að bera þau rétt fram, sérstaklega ef þetta eru orð sem við notum að staðaldri í daglegu tali.
29 Það telst hins vegar ekki alvarlegur veikleiki þótt það komi fyrir nemanda að bera rangt fram eitt eða tvö hebresk nöfn þegar hann les upp úr Biblíunni. Ef hann ber mörg nöfn rangt fram gæti það aftur á móti bent til lélegs undirbúnings og þá ætti að leiðbeina honum. Nemandinn ætti að fá tilsögn í því hvernig hann geti lært að bera orðin rétt fram og æfa sig síðan í því.
30 Sömu söguna er að segja um ýktan framburð. Ef hann er svo áberandi og stöðugur að hann spilli ræðunni ætti að leiðbeina nemandanum. Þá má ekki gleyma að það getur hent flesta að segja nokkur orð óskýrt ef þeir tala hratt. Ekki er þörf á tilsögn um þetta nema framburður nemandans sé óskýr að jafnaði og erfitt sé að skilja hvað hann segir. Ef framburðurinn er svo óskýr að það kemur niður á boðskapnum er ráðlegt að segja honum til um framsögn.
31 Leiðbeinandinn hefur auðvitað í huga að framburður getur verið eilítið breytilegur eftir landshlutum þótt ekki sé sá munur mikill hér á landi. Hann fer því að með gát þegar hann segir nemanda til um framburð. Hann vill ekki gera sínar eigin skoðanir að algildum mælikvarða.
32 Þurfir þú að bæta framburðinn ætti þér ekki að verða skotaskuld úr því, svo framarlega sem þú einsetur þér það. Jafnvel reyndir ræðumenn geta þurft að fletta upp í orðabók til að bera rétt fram viss orð sem eru þeim ekki töm. Þeir giska ekki á framburðinn. Notaðu orðabók.
33 Önnur leið til að bæta framburðinn er að lesa upphátt fyrir einhvern sem hefur góðan framburð og biðja hann að stöðva þig og leiðrétta framburðinn í hvert sinn sem þér verða á mistök.
34 Þriðja aðferðin er sú að hlusta á góða ræðumenn. Hugsaðu meðan þú hlustar og taktu eftir orðum sem þeir bera fram öðruvísi en þú. Skrifaðu þau niður, finndu þau í orðabók og æfðu þau. Fyrr en varir ertu búinn að bæta framburðinn. Málfimi, samtalsform og góður framburður bæta mál þitt að miklum mun.
[Spurningar]
1-4. Hverjar eru helstu ástæður og einkenni stirðmælis?
5-10. Hvaða tillögur eru gefnar til að bæta málfimi?
11-15. Hvernig er samtalsformið háð orðfæri?
16-19. Sýndu fram á hvernig ræðuflutningur getur haft áhrif á samtalsformið.
20-23. Hvernig er hægt að láta upplestur hljóma eðlilega?
24, 25. Hvers vegna er slæmur framburður óæskilegur?
26, 27. Hvaða erfiðleikar eru nefndir í sambandi við framburð?
28-34. Hvernig er hægt að hjálpa manni að bæta framburð sinn?