Vöxtur þeirra og viðgangur á okkar tímum
NÚTÍMASAGA Votta Jehóva hófst fyrir meira en hundrað árum. Snemma á áttunda áratug 19. aldar hóf lítt áberandi biblíunámshópur starfsemi sína í bænum Allegheny sem núna er hluti af Pittsburgh í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Charles Taze Russell var helsta driffjöður þessa hóps. Í júlí 1879 kom út fyrsta tölublað tímaritsins Zion’s Watch Tower and Herald of Christ’s Presence. Árið 1880 voru út frá þessum litla biblíunámshópi orðnir til margir tugir safnaða sem höfðu dreifst til nærliggjandi ríkja. Árið 1881 var stofnað félagið Zion’s Watch Tower Tract Society og 1884 var það lögskráð og var Russell formaður þess. Nafni þessa félags var seinna breytt í Watch Tower Bible and Tract Society (Varðturnsfélagið). Margir voru farnir að bera vitni hús úr húsi og bjóða biblíurit. Fimmtíu manns höfðu það að aðalstarfi árið 1888. Núna er sú tala að meðaltali um 800.000.
Árið 1909 var starfsemin orðin alþjóðleg og voru höfuðstöðvarnar fluttar á núverandi stað í Brooklyn í New York. Prédikanir voru sendar til birtingar samtímis í mörgum dagblöðum og árið 1913 var svo komið að þær birtust á fjórum tungumálum í þúsundum dagblaða í Bandaríkjunum, Kanada og Evrópu. Bókum, bæklingum og smáritum hafði þá verið dreift í mörg hundruð milljónum eintaka.
Árið 1912 hófst vinna við kvikmynd sem nefnd var „Photo-Drama of Creation“. Notaðar voru skyggnur og kvikmyndir með samstilltu hljóði til að segja söguna frá sköpun jarðar til loka þúsundáraríkis Krists. Sýning myndarinnar hófst árið 1914 og sáu hana um 35.000 manns dag hvern. Gerð þessarar sýningar var brautryðjandastarf í hljóðsetningu kvikmynda.
ÁRIÐ 1914
Mjög þýðingarmiklu tímabili var um það bil að ljúka. Árið 1876 hafði biblíunemandinn Charles Taze Russell sent greinina „Tímar heiðingjanna, hvenær lýkur þeim?“ til tímaritsins Bible Examiner sem gefið var út í Brooklyn í New York. Hún birtist í októberhefti blaðsins og á blaðsíðu 27 sagði: „Tíðunum sjö lýkur árið 1914.“ Tímar heiðingjanna er sama tímabil og önnur biblíuþýðing kallar „tiltekna tíma þjóðanna“. (Lúkas 21:24, New World Translation) Árið 1914 gerðist ekki allt það sem menn höfðu átt von á það ár en engu að síður lauk þá tímum heiðingjanna. Þetta ár var því sérstaklega mikilvægt. Margir sagnfræðingar og fréttaskýrendur eru á einu máli um að árið 1914 hafi valdið straumhvörfum í mannkynssögunni. Eftirfarandi tilvitnanir eru dæmi um það:
„Síðasta árið í mannkynssögunni, sem var algerlega ,eðlilegt,‘ var 1913, árið áður en fyrri heimsstyrjöldin hófst.“ — Ritstjórnargrein í Times-Herald, Washington, D.C., 13. mars 1949.
„Sagnfræðingar eru í auknum mæli farnir að líta á árin 75 frá 1914 til 1989, er ná yfir tvær heimsstyrjaldir og kalda stríðið, sem einstakt og skýrt afmarkað tímaskeið, sérstakan tíma þegar stór hluti heimsins stóð í styrjöld, var að jafna sig eftir styrjöld eða búa sig undir styrjöld.“ — The New York Times, 7. maí 1995.
„Heimurinn fór meira og minna úr skorðum þegar fyrri heimsstyrjöldin hófst og enn vitum við ekki hvers vegna. Þar áður héldu menn sig hafa draumalandið í sjónmáli. Friður ríkti og hagsæld. En þá fór allt úr skorðum. Við höfum verið í dauðadái allar götur síðan . . . Fleira fólk hefur verið drepið á þessari öld en í allri sögu mannkyns.“ — Dr. Walker Percy, American Medical News, 21. nóvember 1977.
Þýski stjórnmálamaðurinn Konrad Adenauer skrifaði rúmlega 50 árum eftir 1914: „Öryggi og friðsæld er horfið úr lífi manna eftir árið 1914.“ — The West Parker, Cleveland, Ohio, 20. janúar 1966.
Fyrsti formaður Varðturnsfélagsins, C. T. Russell, lést árið 1916 og næsta ár tók Joseph F. Rutherford við stöðu hans. Margar breytingar áttu sér stað. Nýtt tímarit hóf göngu sína auk tímaritsins The Watchtower (Varðturnsins). Það nefndist The Golden Age en heitir nú Vaknið! og kemur út á rúmlega 80 tungumálum í upplagi sem nemur um 20.000.000. Lögð var aukin áhersla á boðunarstarf hús úr húsi. Til þess að aðgreina sig frá kirkjudeildum kristna heimsins tóku þessir kristnu menn upp nafnið Vottar Jehóva árið 1931. Orðalagið í Jesaja 43:10-12 liggur þessari nafngift til grundvallar.
Á þriðja og fjórða áratugnum var útvarpið notað í miklum mæli. Árið 1933 hafði Varðturnsfélagið aðgang að 403 útvarpsstöðvum til að útvarpa biblíuerindum. Þessi notkun útvarps vék síðar að mestu leyti fyrir beinum heimsóknum votta sem fóru hús úr húsi með ferðaplötuspilara og buðu fólki að hlusta á biblíuræður af hljómplötum. Sérhverjum sem sýndi áhuga á sannindum Biblíunnar var boðin persónuleg aðstoð til að kynna sér Biblíuna heima hjá sér.
MÁL VINNAST FYRIR DÓMSTÓLUM
Á fjórða og fimmta áratugnum voru margir vottar handteknir fyrir að sinna þessu starfi og mál voru rekin fyrir dómstólum til verndar málfrelsi, ritfrelsi, fundafrelsi og trúfrelsi. Í Bandaríkjunum leiddu áfrýjanir frá lægri dómstigum til þess að Vottar Jehóva unnu 43 mál fyrir hæstarétti Bandaríkjanna. Hagstæðir dómar hafa einnig fallið fyrir hæstarétti annarra landa. Prófessor C. S. Braden ræðir um þessa sigra fyrir dómstólum í bók sinni These Also Believe og segir um Votta Jehóva: „Þeir hafa innt af hendi eftirtektarverða þjónustu við lýðræðið með baráttu sinni til að tryggja borgaraleg réttindi sín, vegna þess að í þeim átökum hafa þeir gert mikið til að vernda sömu réttindi til handa sérhverjum minnihlutahópi í Ameríku.“
SÉRHÆFÐ ÞJÁLFUN
J. F. Rutherford lést árið 1942 og við formannsstarfinu tók N. H. Knorr. Samráð varð um að hrinda af stað þjálfunaráætlun. Árið 1943 var stofnsettur sérstakur þjálfunarskóli fyrir trúboða og nefndist hann Biblíuskólinn Gíleað. Útskrifaðir nemendur þessa skóla hafa síðan þá verið sendir til landa um heim allan. Nýir söfnuðir hafa sprottið upp í löndum þar sem engir voru fyrir og deildarskrifstofur opnaðar um víða veröld og eru þær núna á annað hundrað. Af og til hafa sérstök námskeið verið haldin til að þjálfa safnaðaröldunga, sjálfboðaliða við deildarskrifstofurnar og þá sem hafa það að aðalstarfi að boða fagnaðarerindið (nefndir brautryðjendur). Á menntasetri, sem starfrækt er í bænum Patterson í New York ríki, hefur verið boðið upp á ýmis konar sérhæfða skólun er tengist safnaðar- og boðunarstarfinu og umsjón með því.
N. H. Knorr lést árið 1977. Ein síðasta skipulagsbreytingin, sem hann átti þátt í, var stækkun hins stjórnandi ráðs sem hefur aðsetur í aðalstöðvunum í Brooklyn. Árið 1976 var stjórnunarhlutverkinu skipt upp og falið nokkrum nefndum sem í voru meðlimir hins stjórnandi ráðs, og voru þeir allir með áratugareynslu í ábyrgðarstörfum innan safnaðarins og í boðun fagnaðarerindisins.
FJÖLGUN OG STÆKKUN PRENTSMIÐJA
Í nútímasögu Votta Jehóva hefur margt markvert átt sér stað. Hún hófst með litlum biblíunámshópi í Pennsylvaníu um 1870 en árið 2000 voru söfnuðir Vottanna orðnir rúmlega 90.000 um heim allan. Fyrstu áratugina sáu prentsmiðjur í annarra eigu um prentun allra ritanna en árið 1920 voru Vottar Jehóva farnir að framleiða sjálfir rit í leiguhúsnæði. Frá árinu 1927 jókst framleiðslan til mikilla muna þegar tekin var í notkun átta hæða verksmiðjubygging í Brooklyn í New York í eigu Varðturnsfélagsins. Við hana hafa síðar bæst aðrar verksmiðjubyggingar og skrifstofubyggingar. Skammt þar frá í Brooklyn eru aðrar byggingar til að hýsa þá þjóna fagnaðarerindisins sem bjóða sig fram til að vinna við þessa útgáfustarfsemi. Nálægt bænum Wallkill nokkuð norðar í New York ríki er auk þess starfrækt prentsmiðja og búgarður. Þar eru prentuð tímaritin Varðturninn og Vaknið! og framleiddur hluti þeirra matvæla sem starfsmennirnir á þessum stöðum neyta. Hver sjálfboðaliði fær litla peningaupphæð mánaðarlega til að mæta tilfallandi útgjöldum.
ALÞJÓÐLEG MÓT
Fyrsta meiri háttar mótið var haldið árið 1893 í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum. Það sóttu 360 manns og 70 nýir létu skírast. Síðasta stóra alþjóðamótið, sem aðeins var haldið á einum stað, fór fram í New York árið 1958. Til mótsins þurfti bæði Yankee Stadium leikvanginn og Polo Grounds sem þá var. Hámarksaðsóknin var 253.922 og tala þeirra sem létu skírast var 7136. Upp frá því hafa alþjóðleg mót verið haldin í mörgum löndum. Sama dagskráin er þá flutt annaðhvort samtímis á mismunandi mótsstöðum eða mótin haldin hvert á eftir öðru og alls geta þau skipt hundruðum víða um heim.
[Innskot á bls. 8]
Eftirtektarverð þjónusta við borgaralegt frelsi.
[Mynd á bls. 6]
Upplag „Varðturnsins“ hefur aukist úr 6000 eintökum á einu tungumáli upp í rúmlega 25.000.000 á meira en 145 tungumálum.
[Mynd á bls. 7]
Straumhvörf í mannkynssögunni.
[Heilsíðumynd á bls. 10]