Að skrifa bréf
BRÉF hafa haft bætandi áhrif á líf og hátterni milljóna manna. Flestar bækur kristnu Grísku ritninganna voru upphaflega skrifaðar sem bréf. Við getum skrifað bréf til að styðja nýja safnaðarmenn, halda sambandi við vini, hvetja bræður og systur sem hafa tekið að sér sérstök verkefni, styrkja þjáða og senda upplýsingar er lúta að starfsemi safnaðarins. — 1. Þess. 1:1-7; 5:27; 2. Pét. 3:1, 2.
Bréfaskriftir eru líka áhrifarík boðunaraðferð. Sumir búa í fjölbýlishúsum þar sem aðgangur er takmarkaður eða tekið er fram í anddyri að kynningarstarfsemi og trúboð sé bannað. Sumir eru sárasjaldan heima þannig að við hittum þá ekki þegar við störfum hús úr húsi. Og sumir búa afskekkt.
Veikindi, veður eða annað getur stundum hindrað að boðberar komist út í starfið. Ef það gerist, gætirðu þá skrifað bréf til að vitna fyrir ættingja eða einhverjum sem þú hefur talað óformlega við um sannleikann? Er einn af biblíunemendum þínum fluttur? Bréf frá þér gæti nægt til að halda áhuga hans á Biblíunni vakandi. Og kannski gætirðu komið viðeigandi biblíulegum ráðum á framfæri við nýgift hjón, nýbakaða foreldra eða einhvern sem hefur misst ástvin.
Að vitna bréflega
Þegar þú skrifar bréf til að vitna fyrir einhverjum sem þú hefur aldrei hitt skaltu byrja á að kynna þig. Þú gætir útskýrt að þú takir þátt í alþjóðlegu sjálfboðastarfi. Ef við á geturðu sagt að þú sért vottur Jehóva. Segðu viðtakanda hvers vegna þú skrifar í stað þess að koma í eigin persónu. Reyndu að orða bréfið eins og þú værir að tala við manneskjuna augliti til auglitis. En í samræmi við ábendinguna um að vera „kænir sem höggormar og falslausir sem dúfur“ skaltu hugleiða vel hve miklar upplýsingar þú átt að gefa um sjálfan þig. — Matt. 10:16.
Segðu í bréfinu það sem þú hefðir sagt ef þú hefðir hitt manneskjuna í eigin persónu. Þú gætir umsamið kynningarorð úr bæklingnum Hvernig hefja má biblíusamræður og halda þeim áfram eða notað biblíulega kynningu úr nýlegu tölublaði Ríkisþjónustu okkar. Þú gætir varpað fram spurningu og hvatt viðtakanda til að hugleiða hana. Sumir boðberar segja einfaldlega að við bjóðumst til að svara biblíuspurningum án endurgjalds og nefna síðan nokkur kaflaheiti úr einhverju af námsritunum. Á blaðsíðu 73 er sýnishorn af slíku bréfi. Það gæti gefið þér einhverjar hugmyndir en að sjálfsögðu er best að nota ekki sama textann til lengdar til að eiga ekki á hættu að sama manneskjan fái sams konar bréf oftar en einu sinni.
Sumir eru lítið gefnir fyrir löng bréf, sérstaklega frá ókunnugum, þannig að það er skynsamlegt að hafa bréfið í styttra lagi. Hafðu það ekki lengra en svo að viðtakandi nenni að lesa það til enda. Ágætt væri að láta boðsmiða á samkomur í ríkissalnum fylgja með í umslaginu. Eins gætirðu látið smárit eða bækling fylgja með, eða þá eintak af Varðturninum eða Vaknið! ásamt ábendingu um að þú getir útvegað viðtakanda blöðin á reglulegum grundvelli. Þú gætir líka spurt hvort þú megir banka upp á til að fjalla nánar um það sem þú drepur á í bréfinu.
Um uppbyggingu bréfsins
Líttu nú á bréfið á blaðsíðu 73 og veittu eftirfarandi athygli: (1) Það er snyrtilegt og stílhreint. (2) Það er með nafni og heimilisfangi sendanda sem er gott ef umslagið skyldi týnast. (3) Markmið bréfsins kemur skýrt fram í fyrstu efnisgreininni. (4) Bréfinu er skipt niður í efnisgreinar eftir aðalatriðum. (5) Það er hvorki of kumpánlegt né of formlegt miðað við markmið þess.
Ef um væri að ræða bréf til dæmis frá safnaðarritara til deildarskrifstofunnar kæmi nafn safnaðarins fram á bréfhausnum, ásamt nafni ritarans, heimilisfangi og dagsetningu. Bréfið er stílað á viðtakanda með nafni og heimilisfangi. Síðan koma eðlileg ávarpsorð. Bréfinu er síðan lokið með viðeigandi kveðjuorðum, svo sem „Kær kveðja,“ og síðan undirskrift. Hún ætti alltaf að vera handskrifuð.
Óháð viðtakanda ættirðu alltaf að huga að góðri stafsetningu, málfræði og greinarmerkjasetningu, og bréfið þarf auðvitað að vera snyrtilegt á að líta. Það gefur því og innihaldi þess ákveðinn virðuleika.
Skrifaðu alltaf nafn og heimilisfang sendanda utan á bréfið, helst þitt eigið heimilisfang. Ef þú telur óheppilegt að gefa upp heimilisfang þitt í bréfi til ókunnugra geturðu spurt öldungana hvort þú megir nota póstáritun ríkissalarins. Aldrei ætti að nota póstáritun deildarskrifstofu Votta Jehóva því að það mætti túlka sem svo að bréfið væri sent frá deildarskrifstofunni og það gæti valdið misskilningi. Ef einhver rit eru send með bréfinu en sendanda er ekki getið gæti það líka gefið þá hugmynd að deildarskrifstofan hafi sent bréfið.
Gættu þess að frímerkja bréfið rétt, einkum ef þú sendir einhver rit með því. Ef frímerkin nægja ekki fyrir burðargjaldinu er hugsanlegt að viðtakanda sé gert að greiða mismuninn og það myndi spilla fyrir erindi bréfsins. Ef bæklingur eða blað fylgir með í umslaginu nægir ekki að frímerkja það eins og venjulegt bréf.
Rétti hljómurinn
Eftir að þú ert búinn að skrifa bréfið skaltu lesa yfir það og leggja mat á það. Hvernig hljómar það? Er það vingjarnlegt og smekklega orðað? Við viljum vera kærleiksrík og góðviljuð í samskiptum við aðra. (Gal. 5:22, 23) Breyttu orðalaginu ef þú skynjar einhvern neikvæðan tón eða vott af bölsýni.
Bréf getur náð þangað sem þú kemst ekki. Það eitt þýðir að bréf geta verið ákaflega verðmæt boðunarleið. Þar sem bréfið er eins og fulltrúi þinn og þeirra gilda, sem þú aðhyllist, skaltu gæta vel að innihaldi þess, útliti og hljómblæ. Ef til vill verður bréfið til þess að vísa leitandi manni inn á veginn til lífsins eða hvetja hann til að ganga hann áfram.