Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • be bls. 66-bls. 70 gr. 4
  • Listin að svara spurningum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Listin að svara spurningum
  • Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Áttaðu þig á afstöðu spyrjandans
  • Afstaða spyrjanda til Biblíunnar
  • „Ætíð ljúflegt“
  • Samviskuspurningar og persónulegar ákvarðanir
  • Að svara á safnaðarsamkomum
  • Gefum góð svör
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2016
  • Hvernig svarar þú?
    Ríkisþjónusta okkar – 2009
  • Hvetjum hvert annað á safnaðarsamkomum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2023
  • Lofum Jehóva í söfnuðinum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
Sjá meira
Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
be bls. 66-bls. 70 gr. 4

Listin að svara spurningum

SPURNING getur verið eins og borgarísjaki — stærsti hlutinn er hulinn undir yfirborðinu. Og það sem undir býr skiptir oft meira máli en spurningin sjálf.

Oft er spyrjandinn ólmur í að fá svar. Engu að síður er gott fyrir þig að kunna skil á því hvernig best sé að svara, til dæmis að glöggva þig á því hve tæmandi svarið á að vera og frá hvaða hlið þú átt að nálgast efnið. (Jóh. 16:12) Stundum spyrja menn jafnvel um hluti sem eru þeim óviðkomandi eða þeir hafa ekki gott af að vita, líkt og Jesús benti postulunum á einu sinni. — Post. 1:6, 7.

Biblían ráðleggur: „Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.“ (Kól. 4:6) Þetta merkir að áður en við svörum þurfum við bæði að íhuga hvað við segjum og hvernig við segjum það.

Áttaðu þig á afstöðu spyrjandans

Saddúkear reyndu einu sinni að veiða Jesú í gildru með því að spyrja hann um upprisu marggiftrar konu. En Jesús vissi að þeir trúðu alls ekki á upprisuna svo að hann svaraði ekki aðeins spurningunni heldur tók einnig á hinum ranga skilningi sem bjó að baki. Með snilldarlegri rökfærslu notaði hann þekkta biblíusögu til að benda þeim á nokkuð sem þeir höfðu aldrei hugsað um áður — á skýra sönnun þess að Guð ætlaði að reisa hina dánu upp. Svarið kom svo flatt upp á andstæðingana að þeir þorðu ekki að spyrja hann neins framar. — Lúk. 20:27-40.

Til að svara vel þarft þú líka að átta þig á sjónarmiðum og áhugamálum spyrjandans. Skólafélagi eða vinnufélagi spyr þig ef til vill af hverju þú haldir ekki jól. Hvers vegna spyr hann? Langar hann raunverulega til að vita ástæðuna eða er hann aðeins að fiska eftir því hvort þú megir ekki gera þér dagamun? Þú þarft ef til vill að inna hann eftir því af hverju hann spyrji og svara síðan í samræmi við það. Þú gætir líka gripið tækifærið og bent honum á að leiðbeiningar Biblíunnar hlífi okkur við þeim vonbrigðum og þeim byrðum sem fylgja hátíðinni.

Setjum sem svo að þér sé boðið að ræða við hóp skólanema um söfnuð Votta Jehóva. Þú flytur ávarp og situr síðan fyrir svörum. Stutt og einföld svör eru yfirleitt best ef spurningarnar virðast einlægar og blátt áfram. Ef spurningarnar bera vott um almenna fordóma gætirðu náð betri árangri með því að segja fyrst nokkur orð um það hvað hafi áhrif á skoðanamyndun almennings í slíkum málum og hvers vegna Vottar Jehóva kjósi að fylgja lífsreglum Biblíunnar. Oft er gott að líta á slíkar spurningar sem merki um áhuga en ekki ögrun, þó svo að þeim sé kannski hent fram í þeim tón. Með svari þínu hefurðu tækifæri til að víkka sjóndeildarhring áheyrenda, gefa þeim nákvæmar upplýsingar og skýra biblíulegar forsendur þess sem við trúum.

Hvernig bregstu við ef vinnuveitandinn vill ekki gefa þér frí til að sækja mót? Líttu fyrst á málið frá hans hlið. Gætirðu liðkað til fyrir þér með því að bjóðast til að vinna yfirvinnu á einhverjum öðrum tíma? Myndi það breyta einhverju ef þú segðir honum að fræðslan, sem veitt er á mótunum, stuðli að því að vottar Jehóva séu heiðarlegir og áreiðanlegir starfsmenn? Ef til vill er hann fúsari til að koma til móts við þig gagnvart því sem þér er kært ef þú sýnir að þú tekur tillit til hagsmuna hans. En hvað áttu að gera ef hann biður þig að gera eitthvað óheiðarlegt? Þvert nei ásamt tilvitnun í Biblíuna myndi auðvitað skýra afstöðu þína. En kannski myndirðu ná betri árangri með því að rökræða fyrst við hann á þeim nótum að manneskja, sem væri tilbúin til að ljúga eða stela fyrir hann, gæti líka verið tilbúin til að ljúga að honum og stela frá honum.

Tökum annað dæmi. Segjum að þú sért skólanemi og þurfir að útskýra hvers vegna þú viljir ekki taka þátt í einhverri óbiblíulegri starfsemi í skólanum. Mundu að kennarinn er þér sennilega ekki sammála og að það er í hans verkahring að halda uppi aga í bekknum. Þú þarft (1) að taka tillit til þess sem hann hefur áhyggjur af, (2) útskýra afstöðu þína kurteislega og (3) vera einbeittur í því sem þú veist að Jehóva hefur velþóknun á. Viljirðu ná sem bestum árangri er ekki víst að það sé nóg að segja hreinlega beint út hverju þú trúir. (Orðskv. 15:28) Ef þú ert mjög ungur munu foreldrar þínir eflaust hjálpa þér að undirbúa svarið.

Þá gæti það gerst að þú þyrftir að svara ásökunum einhvers yfirvalds. Segjum að lögreglumaður, embættismaður eða dómari krefji þig svara um hlýðni við viss lög, kristið hlutleysi eða afstöðu til þjóðræknisathafna. Hvernig áttu þá að svara? „Með hógværð og virðingu,“ ráðleggur Biblían. (1. Pét. 3:15, 16) Reyndu jafnframt að gera þér grein fyrir því hvers vegna yfirvöld taka málið upp og láttu í ljós að þú skiljir það og virðir. Hvað svo? Páll postuli vísaði til réttinda sem tryggð voru samkvæmt rómverskum lögum og þú gætir líka vísað í lögvernduð réttindi eftir því sem við á í þínu tilviki. (Post. 22:25-29) Hugsanlegt er að þú getir aukið víðsýni embættismannsins með því að minnast á afstöðu frumkristinna manna og benda á að Vottar Jehóva um heim allan taki sömu afstöðu. Þú gætir líka vakið athygli á því að viðurkenning okkar á yfirráðum Guðs sé okkur jafnframt hvati til þess að hlýða landslögum betur. (Rómv. 13:1-14) Ef til vill falla hin biblíulegu rök fyrir afstöðu þinni í betri jarðveg eftir þessar skýringar.

Afstaða spyrjanda til Biblíunnar

Þegar þú ákveður hvernig þú svarar gætirðu þurft að taka mið af því hvernig spyrjandi lítur á Heilaga ritningu. Þetta gerði Jesús er hann svaraði spurningu saddúkeanna um upprisuna. Hann vissi að þeir viðurkenndu rit Móse og notaði því frásögu úr Mósebókunum í rökfærslu sinni. Í innganginum að svari sínu sagði hann: „En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt.“ (Lúk. 20:37) Vera má að það sé gott fyrir þig að vitna í biblíubækur sem áheyrandinn kannast vel við og viðurkennir.

En hvað er til ráða ef áheyrandi viðurkennir ekki að Biblíunni sé treystandi? Taktu eftir hvernig Páll postuli fór að í ræðu sinni á Aresarhæð, eins og fram kemur í Postulasögunni 17:22-31. Hann kom ýmsu biblíulegu á framfæri án þess að vitna beint í Biblíuna. Þú getur farið eins að ef það á við. Í sumum tilvikum gæti verið heppilegt að ræða nokkrum sinnum við viðmælandann án þess að vísa beint í Biblíuna. Síðan, þegar þú gerir það, gæti verið gott að tilgreina nokkrar ástæður fyrir því að hún sé skoðunar virði, en ekki að fullyrða umbúðalaust að hún sé orð Guðs. Markmiðið ætti auðvitað að vera það að vitna um ásetning Guðs og leyfa viðmælanda þínum að sjá sjálfur hvað stendur í Biblíunni, þegar það er tímabært. Biblían hefur miklu meiri sannfæringarkraft en nokkuð sem við getum sjálf sagt. — Hebr. 4:12.

„Ætíð ljúflegt“

Jehóva er alltaf nærgætinn og þjónar hans eru hvattir til að láta mál sitt ‚ætíð vera ljúflegt en salti kryddað.‘ (2. Mós. 34:6; Kól. 4:6) Þetta merkir að vera tillitssamur og vinsamlegur, jafnvel þó að viðmælandinn virðist ekki eiga það skilið. Við ættum að vera smekkleg í tali en ekki hranaleg eða ónærgætin.

Margir eru undir gífurlegu álagi og mega þola skammir og fúkyrði daglega. Þeir eru síðan hryssingslegir við okkur þegar við bönkum upp á hjá þeim. Hvernig eigum við þá að bregðast við? Biblían segir að ‚mjúklegt andsvar stöðvi bræði.‘ Slíkt svar getur líka mýkt þann sem er á öndverðum meiði við okkur. (Orðskv. 15:1; 25:15) Vinsamlegt fas og hlýlegur raddblær getur höfðað svo sterkt til þeirra sem sitja daglega undir óblíðum orðum að þeir hlusti á fagnaðarerindið sem við flytjum þeim.

Við höfum engan áhuga á að þrasa við þá sem bera ekki virðingu fyrir sannleikanum, en við viljum rökræða út frá Biblíunni við fólk sem gefur okkur færi á því. En hverjar sem aðstæður eru höfum við hugfast að við eigum að svara vingjarnlega og með þeirri sannfæringu að hin dýrmætu loforð Guðs séu áreiðanleg. — 1. Þess. 1:5.

Samviskuspurningar og persónulegar ákvarðanir

Hvernig áttu að svara ef biblíunemandi eða trúsystkini spyrja þig hvað þau eigi að gera við ákveðnar aðstæður? Þú veist kannski hvað þú myndir gera. En hver og einn verður sjálfur að bera ábyrgð á ákvörðunum sínum. (Gal. 6:5) Páll postuli sagðist hvetja þá sem hann boðaði trúna til að ‚hlýða trúnni.‘ (Rómv. 16:26) Þetta er góð fyrirmynd fyrir okkur. Ef spyrjandinn er einungis að reyna að þóknast kennara sínum eða einhverjum öðrum manni, þá er hann að þjóna mönnum en lifir ekki samkvæmt trúnni. (Gal. 1:10) Honum er þá líklega enginn greiði gerður með einföldu og beinu svari.

Hvernig geturðu þá svarað í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar? Þú gætir vakið athygli hans á viðeigandi meginreglum í Biblíunni og dæmum sem hún segir frá. Í vissum tilfellum gætirðu sýnt spyrjandanum hvernig hann geti sjálfur fundið meginreglurnar og dæmin. Þú gætir jafnvel rætt um meginreglurnar og um gildi dæmanna án þess að heimfæra þau upp á aðstæður spyrjandans. Spyrðu hann hvort hann komi auga á eitthvað sem geti hjálpað honum að taka viturlega ákvörðun. Hvettu hann til að hugleiða hvað sé Jehóva þóknanlegt með hliðsjón af þessum meginreglum og dæmum. Þannig hjálparðu honum að ‚temja skilningarvitin til að greina gott frá illu.‘ — Hebr. 5:14.

Að svara á safnaðarsamkomum

Á samkomum kristna safnaðarins er oft boðið upp á tækifæri til að tjá sig um trúna, meðal annars í dagskrárliðum þar sem áheyrendum er boðið að svara spurningum. Hvernig eigum við að svara? Okkur ætti að langa til að lofa Jehóva eins og sálmaritarinn Davíð gerði „í söfnuðunum.“ (Sálm. 26:12) Svörin ættu líka að vera uppörvandi fyrir trúsystkini okkar og hvetja þau „til kærleika og góðra verka“ eins og Páll postuli benti á. (Hebr. 10:23-25) Gott er að undirbúa sig með því að fara fyrir fram yfir námsefnið.

Sértu beðinn að svara skaltu hafa svarið stutt, skýrt og einfalt. Farðu aðeins yfir eitt atriði, ekki alla efnisgreinina. Ef þú svarar spurningunni aðeins að hluta fá aðrir tækifæri til að bæta einhverju við. Það er mjög gott að benda á ritningarstaði sem vísað er til í efninu. Reyndu að beina athygli að þeim hluta biblíutextans sem varðar viðfangsefnið sérstaklega. Lærðu að svara með eigin orðum í stað þess að lesa svarið beint upp úr greininni. Og láttu það ekki á þig fá þótt svarið hljómi ekki alveg eins og þú vildir. Það gerist af og til hjá öllum sem svara.

Augljóst er að listin að svara spurningum er meira en að vita rétta svarið því að hún kallar einnig á skarpskyggni og góða dómgreind. En það er líka ánægjulegt að geta veitt svar sem kemur frá hjartanu og nær til hjartna þeirra sem á hlýða. — Orðskv. 15:23.

HUGLEIDDU EFTIRFARANDI ÁÐUR EN ÞÚ SVARAR

  • Hvers vegna var spurt um þetta?

  • Hvaða grundvöll þarf að leggja til að spyrjandinn skilji svarið?

  • Hvernig geturðu skýrt afstöðu þína þannig að það beri vott um skilning á sjónarmiðum spyrjandans?

  • Hvernig geturðu tjáð þig vingjarnlega og með sannfæringu?

  • Hvort ættirðu að svara beint eða benda á meginreglur og dæmi úr Biblíunni til að hjálpa spyrjandanum að ákveða sjálfur hvað hann gerir?

AÐ SVARA Á SAMKOMUM

  • Ef þú ert beðinn að svara fyrstur skaltu gefa einfalt og beint svar.

  • Ef þú vilt bæta við svör annarra geturðu (1) bent á hvernig ritningarstaður, sem vísað er til, tengist efninu, (2) nefnt hvernig málið snertir líf okkar, (3) útskýrt hvernig hægt sé að nota upplýsingarnar eða (4) sagt stutta frásögu til að hnykkja á einhverju aðalatriði.

  • Hlustaðu vel á svör annarra þannig að þú getir byggt á því sem fram er komið.

  • Reyndu að svara með eigin orðum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila