Markviss þjálfun í kennslu og ræðumennsku
JAFNT ungir sem aldnir og karlar sem konur geta notfært sér það námsefni og þá kennslu sem veitt er í Boðunarskólanum til að læra að tjá sig betur og skýrar og til að þjálfa sig í því að kenna orð Guðs.
Umsjónarmaður skólans úthlutar verkefnum til nemendanna. Á næstu þrem síðum er yfirlit yfir þá þætti sem þjálfunin tekur til. Með hverjum þjálfunarlið er gefið upp númer viðeigandi námskafla þar sem gefnar eru skýringar á því hvernig hægt sé að ná tökum á viðkomandi þætti góðrar ræðumennsku og kennslutækni, og bent á hvers vegna það skipti máli. Þar er að finna ýmsar leiðbeiningar um hvernig hægt sé að tileinka sér þær tillögur sem gefnar eru.
Þjálfunarliðirnir í skránni eru litamerktir og sýnir merkingin hvað á við (1) upplestur, (2) samtalsverkefni með þátttöku tveggja eða fleiri eða (3) ræðu til safnaðarins. Umsjónarmaður skólans ákveður hvaða þjálfunarlið þú vinnur að hverju sinni. Æskilegt er að einbeita sér að einum þjálfunarlið í senn og það er gagnlegt fyrir þig að gera æfingarnar sem mælt er með í lok viðkomandi námskafla. Þegar ljóst er að þú hefur náð þokkalegum tökum á tillögum kaflans felur leiðbeinandinn þér nýjan lið til að vinna að.
Ef þér er ætlað að flytja samtalsverkefni þarftu að velja sviðsetningu. Á blaðsíðu 82 er talinn upp fjöldi mögulegra sviðsetninga en listinn er þó ekki tæmandi. Leiðbeinandinn kann að mæla með að þú reynir ákveðna sviðsetningu í þeim tilgangi að afla þér reynslu, en hann getur líka látið þig um að velja.
Það er vænleg leið til framfara að lesa í bókinni og gera æfingarnar þó að þú sért ekki að vinna að ákveðnu verkefni í skólanum. Þú gætir til dæmis farið yfir einn námskafla í hverri viku.
Hvort sem þú ert gamalreyndur í skólanum og boðunarstarfinu eða nýbyrjaður hefurðu möguleika á að bæta þig. Leggðu þig vel fram svo að þú hafir sem mest gagn af þeirri menntun sem veitt er í Boðunarskólanum.